Húsnæðismál

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 18:43:40 (6625)

1998-05-15 18:43:40# 122. lþ. 128.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, MF
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[18:43]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til 2. umr. frv. sem ég býst við að mjög margir hafi um mjög langan tíma beðið eftir. Það eru annars vegar þeir sem búa við félagslega íbúðakerfið, nýta það, og hins vegar sveitarfélögin sem hafa séð um félagslega húsnæðiskerfið. Eins hafa beðið þessa frv. þeir stjórnmálamenn sem láta sig húsnæðismálin einhverju varða og hafa skipt sér af þeim í gegnum tíðina. Undanfarin ár hefur átt sér stað mikil umræða um að taka þyrfti á ýmsum vanda sem upp hefur komið innan félagslega húsnæðiskerfisins og þá kannski fyrst og fremst á landsbyggðinni.

[18:45]

Í þessari umræðu hafa hv. stjórnarliðar ítrekað nefnt hér vanda ráðherra gagnvart húsnæðiskerfinu, þ.e. vanda Byggingarsjóðs verkamanna sem sé alveg að komast í þrot. Síðast í gær sagði hv. frsm. meiri hluta félmn, hv. þm. Magnús Stefánsson, á Rás 2 að öllum væri ljóst að vandi Byggingarsjóðs verkamanna væri mikill og að hann væri að komast í þrot. Það hafa allir verið sammála um en það eru líka allir sammála um og vita hvers vegna sá vandi varð til. Hann varð til vegna þess að framlög í þennan byggingarsjóð hafa verið dregin saman, skorin niður, á undanförnum árum og ekki við öðru að búast en að þar sköpuðust mikil vandamál.

Síðan er talað um vanda sveitarfélaganna og gjarnan haft hátt um vanda nokkurra sveitarfélaga sem sitja uppi með margar óseljanlegar íbúðir, eða illseljanlegar íbúir á háu verði.

Svo er það vandinn varðandi Húsnæðisstofnun, en oft hefur verið látið í það skína að nú sé það helst að breyta Húsnæðisstofnun, sem hefur þjónað miklu hlutverki í mjög langan tíma, leggja hana niður, hún sé til óþurftar og allt sem hún gerir sé til óþurftar.

Því er eðlilegt að mjög margir hafi beðið eftir því að á þessum málum yrði tekið og búist við því að heildstætt frv. um húsnæðismálin kæmi fram, a.m.k. sem lyti félagslega húsnæðiskerfinu. Ég held að allir hafi reiknað með því að þeir sem hafa komið að þessum málaflokkum um langan tíma, eins og verkalýðshreyfingin, kæmu að því að semja frv. og það yrði a.m.k. haft samráð við verkalýðshreyfinguna um þá niðurstöðu sem birtist síðan í sölum þingsins. En svo var ekki og ítrekað hefur komið fram af hálfu verkalýðshreyfingarinnar, ASÍ, BSRB og fleiri aðila sem hafa látið sig húsnæðismál þeirra sem minnst hafa í þjóðfélaginu miklu varða á undanförnum árum, að ekkert samráð var haft við þessa aðila.

Virðulegi forseti. Nú hefur verið farið ítarlega í umsagnir og öll atriði þessa frv. í mjög langri og ítarlegri ræðu þess þingmanns sem kannski þekkir húsnæðismálin hvað best, hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. En þó eru ýmsir þættir sem ég vildi gjarnan fara í og byrja þá kannski á þeim vanda sem við blasir hjá sveitarfélögunum, þ.e. landsbyggðarsveitarfélögunum því ítrekað hefur komið fram að það er ekki nákvæmlega sama ástandið á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Þess vegna hefði mátt reikna með því að tekið yrði á mismunandi hátt á málum, með t.d. sértækum ráðstöfunum og úrlausnum vegna félagslega húsnæðiskerfisins á landsbyggðinni og í ýmsum sveitarfélögum þar sem vandamálin hafa hrannast upp, að tekið yrði sérstaklega á því. Ég vænti þess reyndar þegar lögð var fram tillaga til þingsályktunar um sértækar ráðstafanir í byggðamálum að þá fylgdu því sértækar ráðstafanir í húsnæðismálum. En svo varð ekki og þetta frv. felur ekki í sér neinar sértækar úrbætur fyrir landsbyggðina í húsnæðismálum þrátt fyrir það að í nóvember 1997 hafi á vegum Byggðastofnunar verið unnin rannsókn á orsökum búferlaflutninga á Íslandi. Við tölum gjarnan um og höfum talað um það á undanförnum árum hve stór hluti þjóðarinnar hefur flutt af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið og það er auðvitað mikið áhyggjuefni fyrir okkur hve stór hluti þjóðarinnar er að safnast saman á höfuðborgarsvæðið.

Í þessari rannsókn sem unnin er af Stefáni Ólafssyni fyrir Byggðastofnun kemur berlega fram að húsnæðisþátturinn, húsnæðismálin eiga mjög stóran þátt í því hvar fólk velur sér búsetu og þetta atriði er eitt af þremur sem fyrst og fremst eru nefnd í því sambandi.

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra bendir mér hér á bls. 3 í tillögu til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum. Þar segir í lið 14 á bls. 3, með leyfi forseta:

,,Þar sem félagslegt íbúðarhúsnæði er meira en þörf er á vegna fólksfækkunar, og það veldur erfiðri fjárhagsstöðu sveitarfélaga, verði heimilt að selja þetta húsnæði í áföngum á almennum markaði. Ríkissjóður og sveitarfélög beri sameiginlega þann kostnað sem af þessu kann að hljótast.``

Þetta er markmið. En hér er verið að setja af hálfu ríkisstjórnarinnar lög um félagslega húsnæðiskerfið. Þetta er hins vegar tillaga til þingsályktunar og í henni eru mjög góð markmið en hugur þarf að fylgja máli. Ég verð að segja að ég hef séð samþykktir á vegum hæstv. ríkisstjórnarinnar nokkrar þingsályktunartillögur, m.a. um stefnu í fjölskyldumálum, þar sem sett eru mjög háleit markmið en í raun og veru ekki gert ráð fyrir að fylgja þeim eftir. Ég hefði viljað sjá í þessu frv. sem nú er til 2. umr. að tekið væri alveg sérstaklega á húsnæðismálunum á landsbyggðinni og sértækar aðgerðir, ekki bara hvað varðar félagslegt húsnæði heldur yrðu það almennar sértækar ráðstafanir varðandi húsnæðismálin. Það kemur m.a. fram í þessari skýrslu Byggðastofnunar að þeir sem flytja búferlum til höfuðborgarsvæðisins af landsbyggðinni, sem er mjög stór hópur ár hvert, eru einmitt úr lágtekjuhópunum, þeir sem þar fara fyrst, það er verkafólkið. Það er auðvitað umhugsunarvert fyrir okkur þegar þetta fólk er síðan spurt að því hvaða þættir valdi því að það flytur af landsbygginni á höfuðborgarsvæðið, að svarið er að það sé m.a. húsnæðismálin. Við þurfum að huga alveg sérstaklega að þessum þætti því að í skýrslu Byggðastofnunar kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Af þessum gögnum má sjá að mun minni hluti íslensku þjóðarinnar býr í dreifbýli, með minna en 200 íbúa, en tíðkast meðal frændþjóðanna á Norðurlöndum, eða um 8,5% á móti 15--26%. Hlutfall þjóðarinnar sem býr í smærri þorpum (með 200--500 íbúa) er rétt í meðallagi, og hið sama á við um smærri bæi sem eru með 500--1.000 íbúa. Hlutur bæja með 1.000--2.000 íbúum er frekar stór hér á landi, en hlutur 2.000--10.000 manna bæja er hins vegar lítill, samanborið við hin löndin. Þá eru engir þéttbýlisstaðir hér á landi sem eru á bilinu 20.000 til 50.000, en í hinum löndunum eru þeir nálægt 12%.``

En það sem stingur kannski hvað mest í augu í þessu er að í dreifbýli með minna en 200 íbúa er hlutfall okkar miklu lægra en það sem gerist á Norðurlöndunum. Og núna hefur verið um mjög langan tíma, líklega í ein 4--5 ár eða 6 ár reyndar, rætt um að það þyrfti orðið sértækar ráðstafanir varðandi húsnæði fyrir bændur vegna þess að þar er vaxandi fátækt sem áður var tiltölulega óþekkt meðal bændastéttarinnar og sveitarfélögin sem höfðu félagslega húsnæðiskerfið treystu sér ekki til að gangast í ábyrgðir fyrir félagslegu húsnæði í dreifbýlinu sem þó tilheyrir sveitarfélaginu. Síðan var gerð breyting á félagslega húsnæðiskerfinu fyrir líklega 5--6 árum sem var þó ekki marktækari en svo að sveitarfélögin töldu sig ekki bundin af því að gangast í ábyrgðir fyrir húsnæði í dreifbýlinu, þ.e. að bændur gætu notið félagslega kerfisins.

Mjög stór hluti þeirra sem flytur búferlum ár hvert flytur til höfuðborgarinnar og ef farið er yfir það í tölum þá eru þeir sem flytja til höfuðborgarinnar: Af Suðurlandi um 54,5% þeirra sem flytja búferlum til höfuðborgarsvæðisins, af Austurlandi 45,8%, Norðurlandi eystra 41,1%, Norðurlandi vestra 43,4%, af Vestfjörðum, þar sem ástandið virðist vera hvað verst, 54,2%, Vesturlandi 56,9% og síðan er Reykjanesið þar sem er mun minni tilflutningur en í hinum kjördæmunum.

Ef tekið er frá heildartölunni hlutfall þeirra sem flytja búferlum innan kjördæmisins, þeir teknir út úr, þá lítur dæmið þannig út að yfirleitt flytja til höfuðborgarsvæðisins um 60--70% þeirra landsbyggðarmanna sem á annað borð flytja milli landsvæða.

Þeir þættir sem virðast ráða ákvörðun fólks um að flytja búferlum eru m.a. húsnæðismálin, þ.e. framboð á hentugu húsnæði, fasteignaverð og upphæð húsaleigu. Þrjú svið skera sig úr fyrir það hve margir segja að þar hafi orðið afturför á því tímabili sem er verið að skoða í skýrslu Byggðastofnunar og þeir þess vegna tekið ákvörðun um að flytja búferlum, en það eru atvinnumálin, húsnæðismálin og reyndar umhverfisaðstæður allar. Atvinnumálin í sumum kjördæmum. Þegar fjallað er í skýrslunni sérstaklega um húsnæðismál er það tekið til að markaðsverðið hafi versnað úti á landsbyggðinni og húsaleiga þróast neikvætt. Á bls. 51 í þessari skýrslu segir, með leyfi forseta:

,,Hvað húsnæðismál varðar þá er mjög afgerandi að kvartað sé undan neikvæðri þróun húsaleigu og síðan kemur versnandi þróun fasteignaverðs. Þetta getur auðvitað komið misjafnlega út fyrir menn eftir því hvort þeir eru kaupendur eða seljendur, en sem mat á þróun húsnæðisaðstæðna stendur niðurstaðan almennt, þ.e. að undan fæti hafi hallað á þessu sviði. Mat þessara atriða er þó mjög ólíkt eftir því hvar á landinu er. Hins vegar er einn þáttur húsnæðismálanna sem flestir segja að hafi batnað, en það er framboð hentugs húsnæðis.``

En fasteignaverðið er mjög óhentugt og þótt framboð húsnæðis á mörgum stöðum úti á landsbyggðinni sé til staðar er markaðsverð slíkt að menn telja ekki borga sig að fjárfesta í húsnæði á landsbyggðinni.

Þá er einnig athygli vert að þróun fasteignaverðs hefur verið sett upp í súlurit. Það er gerð víðtæk skoðanakönnun meðal íbúa á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu og mjög athygli verð niðurstaða um þróun fasteignaverðs kemur þar fram. Þar er annars vegar tilgreindur fjöldi þeirra sem telja að þróun fasteignaverðs hafi batnað og hins vegar versnað. Á höfuðborgarsvæðinu telja 39,8% aðspurðra að þróun fasteignaverðs hafi batnað verulega en aðeins 25,9% segja að það hafi versnað. Á Norðurlandi vestra sem er kjördæmi hæstv. ráðherra telja 58,8% að þróun fasteignaverðs hafi versnað en aðeins 15,8% að hún hafi batnað. Á Vestfjörðum segja 50,9% að ástandið hafi versnað en 10% segja að það hafi batnað.

Það sama kemur ljós þegar skoðuð er þróun upphæðar húsaleigu, en þar hins vegar ber svo við að á höfuðborgarsvæðinu telja 46,7% að þróun húsaleigu hafi versnað og að húsaleigugreiðslur séu orðnar miklu hærri en áður hafi verið. Það er umhugsunarvert að á þeim tíma sem þetta er skoðað þá eru húsaleigubæturnar komnar inn í þessa tölu engu að síður. Aðeins 7,4% telja að þróun upphæðar húsaleigu hafi batnað á höfuðborgarsvæðinu. Ef við förum á Vestfirðina þá telja 43,2% að þróun upphæðar húsaleigu hafi versnað en 13,3% batnað og á Norðurlandi eystra telja 53,2% að þróun upphæðar húsaleigu hafi versnað en 12,7 að hún hafi batnað. Í öllum tilvikum eru þeir fleiri sem telja að húsaleigan hafi hækkað verulega og langt umfram það sem eðlilegt mætti teljast miðað við þróun verðlags.

[19:00]

Ef við skoðum höfuðborgarsvæðið og landið allt út frá þróun búsetuskilyrða varðandi húsnæðismálin þá er niðurstaða þessarar skýrslu, sem birtist á bls. 87, þar sem tekin er út ánægja með einstaka þætti búsetuskilyrða á höfuðborgarsvæðinu samanborið við meðaltal landsins alls, þá stingur það í augu að 35% höfuðborgarbúa telja að húsnæðismálin séu í lagi en aðeins 8% telja að húsnæðismálin séu í lagi þegar landsbyggðin öll er tekin.

Þess vegna er enn frekar ástæða til þess að skoða, þegar komið er fram með tillögur um úrbætur í húsnæðismálum, sérstaklega stöðuna á landsbyggðinni. Ég efast ekkert um að vandi mjög margra sveitarfélaga úti á landsbyggðinni er verulegur. Hann sést kannski í hnotskurn í litlu sveitarfélagi, þar sem ég þekki mjög vel til, en þar eru rétt rúmlega 500 íbúar. Þar eru nokkrar íbúðir í félagslega húsnæðiskerfinu. Í kaupleiguíbúðakerfinu eru sex íbúðir. Leiguíbúðir, þ.e. íbúðir sem hafa verið teknar úr félagslega eignaíbúðakerfinu og sveitarfélagið hefur ekki selt heldur tekið ákvörðun um að setja inn á leigumarkaðinn vegna þess að leiguhúsnæði vantar, eru þrjár en félagslegar eignaríbúðir með kaupskyldu eru sex.

Það sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra sérstaklega um og það sem stingur í augu, ef við skoðum fyrir það fyrsta kaupleiguíbúðakerfið, þá erum við í fyrsta lagi með íbúð sem eru 126,2 m2, byggð 1982. Áhvílandi lán á þessu húsnæði eru 9,3 millj. kr. Lánahlutfallið er er 90% til 43 ára miðað við 2,4% vexti. Ársafborgun er 217.875 kr. --- þetta er með vöxtum --- húsaleiga á mánuði í þessu kaupleigukerfi er 37.686 kr., sem verður að teljast tiltölulega há húsaleiga á stað þar sem fasteignaverð er mjög lágt. Leigutekjurnar eru á ári 452.232 kr. Það sem kannski skiptir mestu máli er að áhvílandi lán á þessari íbúð eru 9,3 milljónir, þ.e. 9.321.861. Fasteignamat húss og lóðar 1. janúar 1998 eru 4.129.000 kr. Mismunurinn á áhvílandi láni og staðgreiðsluverði, því verði sem ætla má að fáist fyrir þetta íbúðarhús, eru því 5.192.861.

Á annarri íbúð, sem er 100 m2 að stærð, þær eru reyndar þrjár af þeirri stærð, allar byggðar 1991, eru um 8,1 millj. kr. áhvílandi lán. Þar er 100% lánshlutfall til 50 ára miðað við 1% vexti. Þar er fasteignamatið, hús og lóð 1. janúar 1998, 4 milljónir, þ.e. 4.004.000. Mismunurinn á áhvílandi láni og áætluðu staðgreiðsluverði er því 4,1 millj., og þetta eru þrjár íbúðir.

Hér er síðan íbúð, byggð 1984. Hún er 108,4 m2 að stærð, áhvílandi lán er 6.077.900 en fasteignamat er 3.997.000. Mismunurinn er rúmar 2 milljónir.

Að lokum er, í kaupleiguíbúðakerfinu, íbúð sem byggð er 1978. Hún er 90,5 m2 og áhvílandi lán eru 6,6 millj. kr. Fasteignamat húss og lóðar er 3,2 millj., mismunurinn er 3,3 milljónir. Alls er af þessum sex íbúðum í kaupleigukerfinu, mismunur á áhvílandi láni og staðgreiðsluverði upp á 29,9 milljónir. Það er 30 millj. kr. munur á þessum sex íbúðum, þ.e. á áhvílandi láni og fasteignamati húss og lóðar.

Í frv. er kveðið á um að hækka megi veðhlutfall þessara íbúða upp í 90% þegar þær eru komnar inn í þetta nýja kerfi. Í öllum tilvikum er lánshlutfallið 100%, nema 90% í einu. Í öllum tilvikum nema einu eru lánin til 50 ára til 43 ára og lán, áhvílandi lán, eru meira en helmingi hærri en fasteignamat húss og lóðar. Það er nálægt því verði sem áætla mætti að fengist fyrir þessar íbúðir allar í endursölu ef þær færu út á frjálsan markað. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra: Hvað með þennan mismun? Þetta eru aðeins sex íbúðir í litlu sveitarfélagi þar sem mismunurinn er 30 millj. kr. Það er ekki nokkur vegur að þessar íbúðir seljist fyrir hærra verð en það sem þarna er gert ráð fyrir, samkvæmt fasteignamati húss og lóðar.

Síðan er sveitarfélagið með þrjár leiguíbúðir.

Það sem stingur kannski fyrst í augu er það að á einni þeirra íbúða sem ég nefndi áðan, sem er 90,5 m2 að stærð og byggð 1997, hvíla 6,6 milljónir. Það er í kaupleigukerfinu, 6,6 milljónir áhvílandi lán og 100% lánshlutfall til 50 ára miðað við 1% vexti.

Önnur íbúð --- þetta er parhús --- er 90,5 m2. Áhvílandi lán á þeirri leiguíbúð, byggðri á sama tíma, nákvæmlega eins íbúð, en er í leigukerfinu, eru 2 milljónir. Það munar 4,6 milljónum á áhvílandi lánum, annars vegar á íbúðinni sem búið er að færa í kaupleiguíbúðakerfið og hins vegar leiguíbúðinni sem sveitarfélagið á, rekur og leigir út. Það munar 4,6 millj. kr. Fasteignamat húss og lóðar er hins vegar hið sama. Í staðinn fyrir að mismunurinn á fasteignamati húss og lóðar sé eins og í fyrra tilvikinu, rúmar 3,3 millj. kr., þá er um að ræða mismun á áhvílandi láni og áætluðu staðgreiðsluverði 1,2 millj. í plús. Þetta eru nákvæmlega eins íbúðir, byggðar á nákvæmlega sama tíma og þær eru spegilmynd hvor af annarri. Þessi mismunur er alveg með ólíkindum.

Þriðja íbúðin er byggð 1978, á sama tíma, alveg eins 90,5 m2, íbúð sem stendur við sömu götu. Það er nefnilega ekki þannig að sumar göturnar séu dýrari á Stokkseyri en aðrar, það er sama verðlag á öllum íbúðarhúsum við allar götur. Þessi hús eru í númeraröð við sömu götuna, sama stærð, byggð sama ár. Þetta er hins vegar félagsleg eignaríbúð með kaupskyldu. Kaupskyldan að þessari íbúð er til 2004 fyrir sveitarfélagið. Hvert skyldi nú vera innlausnarverð hennar áætlað í dag? Það er 7,4 millj. kr.

Þarna höfum við þrjár íbúðir, jafnstórar og allar nákvæmlega eins, allar byggðar sama árið, allar við sömu götuna, allar á mismunandi verði. Mismunurinn er frá því að vera með áhvílandi lán upp á 2 millj. og fasteignamat upp á 3,3 í það að áhvílandi lán á sams konar íbúð eru 6,6 millj. Það er með ólíkindum að þetta skuli geta gerst innan kerfisins. Á þessu þurfti að taka. Þetta er sá vandi í hnotskurn sem hefur verið talað um að yrði að taka á í gegnum árin.

Þá ætla ég að spyrja hæstv. ráðherra: Hvar lendir þessi mismunur? Ef við höldum áfram að skoða þessar leiguíbúðir í Stokkseyrarhreppi þá erum við hér með tvær sem báðar eru byggðar 1994, 71,2 m2 að stærð. Þar eru áhvílandi lán nákvæmlega eins, þ.e. lán til 50 ára miðað við 1% vexti, 4,9 millj. kr. Fasteignamat húss og lóðar er 3,1 millj. í báðum tilvikum. Mismunurinn er mínus 1,8 millj. Þarna bætast við þennan 30 millj. kr. mismun sem ég nefndi áðan, 2,3 millj. til viðbótar, af þessum nýju húseignum sem eru í félagslega kerfinu á Stokkseyri. Við höfum þarna mismun upp á rúmlega 32 millj. kr. af níu íbúðum. Ég átta mig ekki alveg á hvernig eigi að dekka þann mismun, enda ég tel það algjörlega útilokað að sá sjóður sem sveitarfélögin eigi að greiða í geti staðið undir þessu, ef við tökum þetta svona allan hringinn í kringum landið.

Síðan erum við með þessar félagslegu eignaríbúðir og þar er innlausnarverð miðað við 1. janúar 1998, 43 millj.. Þetta eru íbúðir þar sem við gætum reiknað með að innlausnarverðið sé u.þ.b. helmingi hærra en fasteignamatið. Hvernig er áætlað að mæta þessum mismun í hinu nýja kerfi? Ég hef farið í gegnum umsagnirnar og farið í gegnum áætlanir. Ég hef farið í gegnum þær hugmyndir sem fyrir eru og ég get ekki séð að þessi vandi sé leystur. Ég fullyrði að þegar við erum að bjóða upp á, t.d. eins og hérna, 100 m2 íbúð í kaupleigukerfinu þar sem húsaleigan á mánuði er miðuð við það að sveitarfélagið eigi fyrir afborgunum, þ.e. standi nákvæmlega undir afborgunum og gjöldum af eigninni, þar er húsaleigan 32.330.

Ef við skoðum leigu á 90,5 m2 íbúð, íbúð sem er 10 m2 minni þá er húsaleigan á mánuði, í þessu félagslega kerfi, 16.900 kr. og þessar íbúðir standa allar við sömu götuna. Þennan mismun varð að leiðrétta. Í sveitarfélagi þar sem fasteignaverðið er mjög lágt og tekið hefur upp kaupleigukerfi, félagslegt kerfi, þar sem húsaleigan er upp á rúmlega 32 þús. kr. á mánuði, þá er mjög hæpið að segja að þar séum við að þjóna þeim sem hafa lægst launin. Þannig er það.

Eigendaskipti eða leigutakaskipti eru ör og kannski er það þess vegna sem verðið hefur farið svona upp og áhvílandi lán eru svo há. Alltaf fer fram nýtt mat á viðkomandi húseign í hvert skipti sem einhver flytur út. Það að húseignin Íragerði 8, sem er 90,5 m2, byggð 1978, þar sem áhvílandi lán eru aðeins 2 millj. og fasteignamat húss og lóðar er upp á 3,3 þannig að mismunur áhvílandi lána og staðgreiðsluverðs er í plús upp á 1,2 millj. kr., er kannski vegna þess að hún hefur verið í eign sveitarfélagsins frá upphafi, þar hefur eigandinn verið sá sami. Það hefur tekist að greiða niður lánin og þau eru orðin þetta lág og þá íbúðin veruleg eign.

[19:15]

Hins vegar erum við með aðra íbúð sem stendur við hliðina, byggða á sama tíma, 90,5 m2 upp á 6,6 milljónir og fasteignamat húss og lóðar er 3,2 og mismunurinn á áhvílandi láni og staðgreiðsluverði er í mínus, 3,3. Þegar við erum með fasteignamatið 3,2 og áhvílandi lán upp á 6,6 þá er eitthvað mikið að. Þetta eru sams konar íbúðir, byggðar sama árið. Ég sé ekki að þetta sé leyst svo vel fari í þessu kerfi sem hér er verið að leggja til að verði samþykkt á tiltölulega mjög stuttum tíma.

Með þessari gagnrýni er ég ekki að segja að félagslega kerfið sé alvont. Það hefur um langan tíma þjónað hlutverki sínu, þ.e. að til sé húsnæði fyrir þá sem hafa lökust kjörin. Þegar það hins vegar fer að sýna sig að íbúðarhúsnæði í félagslega kerfinu er orðið mjög dýrt og húsaleigan orðin mjög há þá fara menn að hafa efasemdir um að það þjóni lengur því hlutverki sem það átti að gera í upphafi. Þá er ekki leiðin að fara í kerfi sem mun koma miklu harðar niður og verða dýrara fyrir notendur en það kerfi sem við búum við. Það er niðustaða þeirra sem hafa skoðað þessar hugmyndir sem hér er verið að ræða, það er niðurstaða húsnæðisnefnda sveitarfélaganna og það er niðurstaða verkalýðshreyfingarinnar að þetta kerfi verði mun dýrara fyrir notendurna en við búum við í dag og þetta muni líka verða miklu dýrara og erfiðara fyrir sveitarfélögin.

Þá spyr maður hvert markmiðið sé. Er markmiðið að laga stöðu sveitarfélaganna, sem mörg eru illa sett vegna þess að þau þurfa að innleysa svo margar íbúðir sem þau og hafa ekki getað selt? En niðurstaðan hins vegar af athugun sveitarfélaganna er sú að þetta kerfi verði miklu dýrara vegna þess að þarna sé fyrst og fremst verið að ýta fólki út á leigumarkaðinn og að í áætluninni um byggingu á félagslegu leiguhúsnæði sem gerð er samkvæmt frv. sé aðeins um að ræða 50 lán eða 50 íbúðir á næstu tveimur árum, að mig minnir. Það eru allt of fáar íbúðir. Og ef við tökum inn í dæmið þá hópa sem hafa verið með sér úthlutanir, eins og t.d. Öryrkjabandalagið, Þroskahjálp og að ég tala nú ekki um námsmenn sem ég mun koma betur að síðar, þá er þörfin á félagslegu leiguhúsnæði miklu meiri en gert er ráð fyrir samkvæmt frv. Það þýðir að sveitarfélögin verða að mæta þörfinni því að samkvæmt núgildandi lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga --- að vísu stendur til að breyta þeim --- ber þeim ákveðin skylda til að sjá til þess að fólk hafi þak yfir höfuðið. Þau munu þurfa að mæta þessari auknu þörf þegar búið er að ýta þeim sem áður höfðu átt möguleika á því að ná í hagkvæmt og ódýrt húsnæði miðað við fjölskyldustærð, inn í kerfi sem samdóma álit --- það hefur komið fram hjá þeim fulltrúum félmn. sem hér hafa talað fyrir utan talsmann meiri hluta --- að mikill meiri hluti þeirra sem skiluðu inn umsögnum var sammála um að yrði miklu dýrara kerfi fyrir fólk sem ekki býr við öryggi í húsnæðismálum í dag og hefur mjög lágar tekjur. Og það er því miður allt of stór hópur sem býr við lágar tekjur.

Það er líka umhugsunarvert að á ráðstefnu ASÍ, að mig minnir, um stöðu fjölskyldunnar fyrir örstuttu þá var nefnt dæmi um einstakling með 60 þús. kr. mánaðarlaun sem ekki hefði möguleika á því að fara í félagslegt kerfi miðað við þær breytingar sem væru gerðar. Einstaklingur með 60--70 þús. kr. hefði ekki möguleika á því að fara í félagslega kerfið. Tæpar 60 þús. hefur það líklega verið. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á í svari sínu hefur verið miðað við einstakling sem væri á atvinnuleysisbótum. Hann hefði enga möguleika á því að fara inn í félagslegt kerfi. Hæstv. ráðherra sagði að það væri auðvitað skylda sveitarfélaganna að sjá til þess að einstaklingar, samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, hefðu þak yfir höfuðið. Þau yrðu sem sagt að leysa málið.

Þá veltir maður því líka fyrir sér hversu stór hópur sem áður hafði möguleika á því að nýta félagslega húsnæðiskerfið muni ekki hafa það eftir þessar breytingar og miðað við þann kostnaðarauka sem lendir á einstaklingunum og fjölskyldunum sem ætla að nýta sér þetta húsnæðiskerfi. Hversu stór hópur fellur fyrir utan þetta úrræði þannig að sveitarfélögin verða að mæta þessari þörf langt umfram það sem er í dag? Þá liggur fyrir, eftir því sem maður les í umsögnum, að fjöldi umsókna um leiguhúsnæði er hjá stærstu sveitarfélögunum. Hjá minni sveitarfélögunum eru auðvitað umsóknir sem ekki hefur verið sinnt. Mér sýnist því að það sé nokkuð samdóma álit þeirra sem hafa sent inn umsagnir um þetta mál sérstaklega, að þeir telja að kostnaður sveitarfélaganna aukist verulega. Það er verr af stað farið en heima setið ef það er svo að vandi sveitarfélaganna verði meiri en hann er og vandi einstaklinganna sem hafa verið í félagslega kerfinu verður meiri en hann hefur verið.

Annað sem stakk mig óneitanlega við það að fara yfir og hlusta á umræðu um þetta mál sem ég tel vera eitthvert það stærsta sem hefur verið tekið fyrir á þessu þingi er að ekki skuli hafa verið haft samráð við verkalýðshreyfinguna eins og áður hefur þó verið gert. Um áratuga skeið hefur verkalýðshreyfingin haft veruleg afskipti af hinu félagslega húsnæðiskerfi enda var þetta kallað um langan tíma verkamannabústaðir. Og verkalýðshreyfingin hefur ekki bara komið að því að semja lagafrumvörp um kerfið heldur einnig átt sæti í húsnæðisnefndum um land allt. Þetta nýja frv. gerir auðvitað ráð fyrir því að ýta verkalýðshreyfingunni út. Þó að ýmislegt hafi nú gengið á í samskiptum hæstv. ríkisstjórnar og verkalýðshreyfingarinnar á þessu kjörtímabili, þá verð ég að segja að ég bjóst ekki við því að ekki yrði haft samráð við verkalýðshreyfinguna um þennan þátt húsnæðismálanna, þ.e. úrræði fyrir þá sem hafa lökust kjörin í landinu. Það kom mér verulega á óvart því að þarna liggur þekkingin, hjá þeim einstkalingum sem hafa unnið fyrir verkalýðshreyfinguna í húsnæðisnefndum vítt og breitt um landið og innan verkalýðshreyfingarinnar, þ.e. innan BSRB og innan ASÍ, eru ár hvert starfandi hópar sem hafa tekið húsnæðismálin alveg sérstaklega fyrir og þá sérstaklega félagslega húsnæðiskerfið. Og af hverju skyldi það nú vera? Það er vegna þess að það er auðvitað sérstakt baráttumál verkalýðshreyfingarinnar að til séu úrræði fyrir þá sem búa við lökust kjör. Mér finnst stundum í þessari umræðu eins og menn séu hættir að tala um þá hópa sem eru enn þann dag í dag með mánaðarlaun frá svona 65 þús. upp í 80--90 þús. kr. á mánuði. Það segir sig sjálft að þegar húsnæðiskostnaður þessa fólks er kominn yfir 30--40 þús. á hverjum mánuði þá eru hefur það ekki nóg til að framfleyta sér og sínum.

Ég hef stundum sagt frá því að á síðasta rúmu ári ég hef tekið á móti um 800 einstaklingum í viðtöl. Einstaklingar hafa komið einir og sér og síðan hafa komið hópar í viðtöl. Langflestir þessara einstaklinga og hópa koma vegna erfiðleika vegna húsnæðismála, bæði innan félagslega kerfisins að sjálfsögðu og almenna kerfisins. Það er alveg sama í báðum tilvikum. Ég hef notið aðstoðar lögfræðinga sem hafa skoðað það fyrir mig hvort það sé þannig að hjá þeim einstaklingum sem hafa komið að um sé að ræða einhverja sérstaka óráðasíu, að menn hafi ekki skipulagt fjármál sín nægjanlega vel og að fyrst og fremst sé um umframeyðslu að ræða, óráðsíu. Niðurstaðan er sú af þeim stikkprufum sem við höfum tekið að hjá 87% þeirra sem hafa leitað eftir aðstoð er það ekki vegna óráðsíu heldur vegna þess að aðstæður hafa breyst frá því að greiðslumat viðkomandi einstaklinga vegna húsnæðis fór fram, þ.e. þeir hafa misst atvinnuna, eru atvinnulausir, eða veikindi hafa komið upp í fjölskyldunni. Það þarf ekkert endilega að vera sá sem sér um framfærsluna heldur spila t.d. veikindi barna þarna inn í. 87% reyndust koma vegna þess að vandamálin voru til komin vegna breyttra aðstæðna. Þegar skoðað er hvort þessir einstaklingar gætu hugsanlega farið í ódýrara húsnæði þá er niðurstaðan í flestum tilvikum sú að sá tími, þ.e. frá því að viðkomandi lendir í vandræðum, annaðhvort vegna veikinda eða vegna þess að hann tapar vinnu, og þar til að úr rætist hefur reynst svo erfiður að skuldabagginn sem þá hefur hlaðist upp er óyfirstíganlegur. Hann vindur svo fljótt upp á sig. Þetta fólk býr síðan við ýmsa erfiðleika, það eru tekin lögtök og jafnvel fær það þau svör að fyrir það sé því miður ekkert hægt að gera því miðað við þær tekjur sem það hafi þá geti það ekki búið í því húsnæði sem það hefur búið í um langan tíma og það verði bara að gjöra svo vel að fara út. Það er ráðgjöfin. Það er ráðgjöf. Þetta er auðvitað gífurlega alvarlegur hlutur.

Ég lét skoða fyrir mig níu svona dæmi, einstaklinga eða fjölskyldna, sem ég hafði fengið til mín og hvort að þetta kerfi mundi breyta einhverju. Skuldastaða þessara einstaklinga og fjölskyldna er þannig að þetta nýja kerfi mun í sjálfu sér engu breyta. En hefði sá möguleiki verið gefinn að bjóða í helmingi tilvikanna ódýrara húsnæði þannig að afborgun húsnæðis væri í réttu hlutfalli við breyttar tekjur þannig að það sem áður var 30% af innkomu heimilisins héldi áfram að vera 30% miðað við breyttar tekjur, þá hefði kannski verið hægt að hjálpa. En þá hefði þurft að grípa inn í strax, þ.e. ef hægt hefði verið að breyta þessu svona. En ég skil það svo miðað við þær athuganir á þessu frv. sem hafa verið gerðar fyrir mig og þeim hugmyndum sem þarna eru að þá muni aðstæður þessa fólks ekkert breytast.

ASÍ og BSRB hafa sent frá sér ályktanir sem sumar hverjar er búið að fara hér yfir og búið er að vitna í það að á síðum dagblaðs, Morgunblaðsins að ég held, er áskorun frá mjög mörgum félagasamtökum til þingsins um að fresta afgreiðslu þessa máls til hausts. Undir þá áskorun hafa mjög margir tekið. Ekki bara þau félagasamtök sem birta nafn sitt í Morgunblaðinu í gær eða fyrradag heldur einnig þeir sem hafa sent inn umsagnir til félmn. og þar á meðal eru húsnæðisnefndir sveitarfélaga og samtök eins og Þroskahjálp og Öryrkjabandalagið. Þau hafa beðið um frestun. Með því er ekki verið að segja að þetta frv. sé kolómögulegt, að allt saman sem í því er sé kolómögulegt. Það er eingöngu verið að fara fram á að málinu verði frestað til hausts og að eðlilegt samráð sé haft við þau samtök sem nýta þetta kerfi fyrst og fremst, þ.e. launþega innan ASÍ og BSRB og þá sem eru í Öryrkjabandalaginu og Þroskahjálp og, eins og hér hefur komið mjög skýrt fram, námsmannasamtökin.

[19:30]

Ég veit að í frv. er heimild fyrir að búa til sérstakan lánaflokk sem hugsanlega gæti að einhverju leyti mætt þörfum námsmanna um lán. Engu að síður er, samkvæmt niðurstöðu þeirra aðila sem hafa skoðað málið, ekkert tryggt. Það liggur ekkert afgerandi fyrir, þetta er allt saman svona: hér um bil og kannski. Enda er niðurstaða lögfræðinga sem skoðað hafa frv. sú að lagalega sé það ekki nógu vel unnið. Hér þarf hins vegar vandað frv. sem við gætum náð sæmilegri sátt um hér á Alþingi. Það hlýtur að vera markmið í svo mikilvægu máli eins og húsnæðismálum. Þau snerta alla og eiga svo stóran þátt í kjörum fólks og ákvörðun um búsetu. Ég veit að hæstv. ráðherra hlýtur að hugsa mikið um þann þátt, sem landsbyggðarþingmaður. Húsnæðismál eiga svo stóran þátt í því hvar fólk velur sér búsetu. Þetta er hluti af kjörum fólks og það verður aldrei hægt að ræða það öðruvísi.

Þegar farið er fram á það, af stærstu launaþegahreyfingum landins sem og samtökum þess fólks sem á kannski hvað erfiðast, þ.e. aldraðra og öryrkja og þeirra sem falla inn í samtök Öryrkjabandalagsins og Þroskahjálpar, að fresta frv. til hausts þá get ég ekki skilið hvers vegna ákveðið er að keyra málið í gegn eins og raun ber vitni.

Virðulegi forseti. Ég á jafnframt erfitt með að skilja hvernig þingmenn ríkisstjórnarinnar geta í raun og veru leyft sér að vera ekki í sölum þingsins til þess að fylgjast með þeirri umræðu sem hér á sér stað, heldur hrópa málþóf, málþóf, málþóf. Flestir þingmenn sem hér tala leggja mikla vinnu í sínar ræður og fara í ræðustól vegna þess að þeir vilja fara yfir þau mál og ná fram sem allra bestri útkomu í því máli sem til umræðu er hverju sinni benda á það sem betur má fara. Flestir gera það. Í því tilviki er verið að fjalla um þetta stórpólitíska mál --- ég tel að ef það verður samþykkt óbreytt, þá sé það slys. Ég hefði búist við að hér væru skörp skoðanaskipti. Ég hefði haldið að a.m.k. þeir þingmenn sem styðja frv. væru viljugri en þeir eru, til að koma og segja okkur hvers vegna. Mér nægir ekki sú ástæða að þeir séu búnir að ákveða það. Það bara nægir ekki. Það nægir ekki að segja: Það er bara vegna þess að við höfum ákveðið það í okkar þingflokkum að þetta mál skuli í gegn. Ég vil heyra rökin fyrir því. Ég vil heyra hvernig þeir ætla að mæta þessum vanda sem ég nefndi áðan varðandi félagslega húsnæðið innan sveitarfélaganna. Ég vil fá að heyra hvernig þeir ætla að mæta honum og hvernig þeir rökstyðja það. Það er ekki nóg að segja: Það mun verða betra fyrir þá sem hafa lægstar tekjurnar að eignast húsnæði í dag heldur en það hefur verið. Það er ekki nóg að segja það. Það verður að rökstyðja það.

Ég gef afskaplega lítið fyrir þær fullyrðingar þegar ég er komin hér með umsagnir frá ASÍ og BSRB, þeim sem þekkja miklu betur til kjara þeirra sem lægst hafa launin í landinu en hv. stjórnarþingmenn. Ég ætla ekki að leggja það að líku hversu miklu meiri þekkingu ég tel saman komna um kjör þessa fólks innan ASÍ og BSRB heldur en í þingflokkum ríkisstjórnarinnar hæstv. Það legg ég bara ekki að líku. Ég legg heldur ekki að líku, þá þekkingu á kjörum námsmanna og þörf þeirra fyrir húsnæði sem er innan raða námsmanna sjálfra og hins vegar þá þekkingu sem er innan raða hv. þingflokka stjórnarflokkanna, virðulegi forseti.

Mér finnst nánast óskiljanlegt að umsagnir og beiðnir allra þessara aðila skuli bara hunsaðar með því að koma hér og segja: Víst verður þetta betra. Rökin eru bara engin önnur. Ríkisstjórnin segir að þetta verði betra og eigum við þá bara að trúa því? Það er alveg sama hvað ASÍ segir, það er alveg sama hvað BSRB segir, það er alveg sama hvað Stúdentaráð Háskóla Íslands segir. Það er alveg nákvæmlega sama hvað samtök námsmanna sem sent hafa inn til okkar umsagnir segja, ríkisstjórnin hæstv. veit þetta bara miklu betur. (Gripið fram í.) Það er málið, segir hv. þm. Pétur Blöndal. Mikil er trú þín, hv. þm., að þessir hæstv. rúmlega miðaldra einstaklingar sem sitja í hæstv. ríkisstjórn viti betur um þarfir námsmanna en þeir sjálfir.

Það er nákvæmlega það fólk, námsmenn, sem situr t.d. í Stúdentaráði Háskóla Íslands sem hefur látið álit sitt í ljós. Við erum með umsagnir Félagsstofnunar stúdenta og Bandalags ísl. sérskólanema. Við erum líka með umsögn og beiðni frá Kennaraháskóla Íslands, þar sem sérstaklega er tekin fyrir þörfin, sem ég veit að hæstv. forseti þekkir, fyrir húsnæði, fyrir hjónagarða, fyrir að byggja upp húsnæði fyrir námsmenn við Íþróttakennaraháskólann á Laugarvatni. Ef sá skóli á að standa undir nafni þá verða að vera til íbúðir þar sem hægt er að bjóða upp á það að námsmenn í Íþróttakennaraháskóla Íslands geti komið með fjölskyldur sínar en þeim sé ekki boðið upp á þessar örfáu kytrur sem þar eru. Þar er varla hægt að bjóða upp á einstaklingsherbergi. Menn segja: Við viljum hafa Íþróttakennaraháskóla Íslands þarna en við ætlum ekki að búa til neitt háskólasamfélag. Það ætlum við ekkert að gera. Það á ekki að sjá til þess að nemendur geti sótt Íþróttakennaraháskóla Íslands að Laugarvatni. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. forseti sé mér sammála um að það er mikil nauðsyn á því að byggja þar upp. Ég er sannfærð um að hæstv. forseti þekkir, betur en þessir rúmlega miðaldra aðilar sem sitja í hæstv. ríkisstjórn, þörfina á Laugarvatni.

En ég er jafnsannfærð um að námsmannasamtökin þekkja þörfina miklu betur en hæstv. forseti, betur en ég og betur en við sem hér sitjum. Þess vegna eigum við að hlusta á þetta en ekki segja: Af því bara, þetta er betra. Þetta hefur verið ákveðið í þingflokkunum okkar þá fer þetta í gegn.

Við erum með ályktun, dags. 8. apríl, frá Stúdentaráði Háskóla Íslands þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Stjórn Stúdentaráðs mótmælir harðlega þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru á húsnæðiskerfinu og hafa í för með sér að illa er vegið að framtíðaráformum um öfluga uppbyggingu stúdentagarðanna. Margt bendir til þess að stefna stjórnvalda hvað varðar uppbyggingu stúdentagarðanna sé algjört afskiptaleysi. Árið 1997 fékkst engin úthlutun lána til uppbyggingar garðanna úr Byggingarsjóði verkamanna og stefnir allt í það sama í ár. Fyrirætlanir um útlán árið 1999 og 2000 benda síður en svo til þess að úrbóta megi vænta og eftir það er framtíðin óskrifað blað. Margt í nýgerðu frumvarpi bendir auk þess til aukins kostnaðar og óhagstæðari lána sem gera framtíðarhorfur síður en svo góðar.

Stjórn Stúdentaráðs beinir þeim eindregnu tilmælum til stjórnvalda að tryggt verði að áfram geti átt sér stað öflug uppbygging á félagslegum leiguíbúðum eins og stúdentagörðunum og komið verði í veg fyrir að stoðunum verði kippt undan rekstrargrundvelli garðanna.``

Þetta var einróma samþykkt á fundi stjórnar Stúdentaráðs Háskóla Íslands 8. apríl 1998.

Hér eru fleiri blöð sem hægt væri að fara yfir, m.a. frá Félagsstofnun stúdenta, og umsagnir sem ég hef áðan getið um frá Kennaraháskólanum. Ég vil eins og aðrir sem hér hafa talað beina því til hæstv. ráðherra og til þeirra þingmanna sem koma til með að greiða atkvæði að þeir taki tillit til þessarar beiðni að viðbættu því sem kemur frá verkalýðshreyfingunni, frá Öryrkjabandalaginu og Þroskahjálp.

Það eru mörg önnur atriði, virðulegi forseti, sem ég hefði viljað fara í, þó það sem ég tel að skipti kannski mestu máli hafi komið hér fram. Ég hef áður nefnt það að ég er dálítið hissa á þeim viðhorfum sem ríkja gagnvart verkalýðshreyfingunni, þrátt fyrir þá reynslu sem við höfum af hæstv. ríkisstjórn og samskiptum hennar við verkalýðshreyfinguna. Þar er svo sem af nógu að taka og nægir að nefna vinnulöggjöfina og atvinnuleysistryggingarnar. Samráðið sem fullyrt hefur verið um af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að alltaf og ævinlega sé haft við verkalýðshreyfinguna reynist ekki vera til staðar.

Ég hlustaði á hv. þm. Magnús Stefánsson, sem jafnframt er framsögumaður meiri hluta félmn., í Dægurmálaútvarpi Rásar 2 í gær, þar sem hann ræddi þessi mál ásamt Magnúsi Norðdahl, lögfræðingi Alþýðusambandsins. Þar var talað um það hvers virði samstarf verkalýðshreyfingarinnar og ríkisvaldsins, og reyndar aðila vinnumarkaðirns, væri í þessum mikilvæga þætti hvað varðar húsnæðismálin. Og þá segir hv. þm. Magnús Stefánsson að nú sé gert ráð fyrir því í brtt. félmn. að hér verði komið á markvissu samstarfi aðila launþegahreyfinganna, sveitarfélaganna og ríkisvaldsins um það að fara yfir leigumarkaðinn og móta þar línurnar með það að markmiði að byggja upp leigumarkaðinn á eðlilegan hátt og síðan varðandi fjárframlög til lánveitinga til leiguíbúða.

Nú á sem sagt að byggja upp markvisst samstarf milli launaþegahreyfinganna, sveitarfélaganna og ríkisvaldsins. Hver haldið þið að trúi þessu? Það trúir ekki nokkur einasti maður, miðað við það sem á undan er gengið, að eitthvað verði byggt upp sem heitir markvisst samstarf við launþegahreyfinguna. Það trúir því bara ekki nokkur maður.

Reynslan 1995, 1996, 1997 og það sem af er þessa árs segir okkur að treysta því ekki. Það verður ekkert samstarf við launþegahreyfinguna, það verður ekkert samstarf haft við samtök t.d. öryrkja eða eldri borgara, og það verður ekkert samstarf við námsmannahreyfinguna. Reynslan segir okkur þetta.

Ég trúi þessu öllu á þingflokk Sjálfstfl. og hv. þm. Pétur Blöndal, þessum sjónarmiðum, ég trúi því öllu. Ég tel að þetta sé nefnilega hans lífsskoðun og þess vegna sé hann í Sjálfstfl. og hafi farið fram undir merkjum hægri stefnunnar. Ég á afar erfitt með að trúa því að niðurstaða þessa frv. og þetta samráðsleysi við verkalýðshreyfinguna, við launaþegana í landinu, sé hinn raunverulegi vilji þeirra tveggja hv. þm. Framsfl., og þar af annar hæstv. ráðherra, sem sitja hér í salnum. Ég á afar erfitt með að trúa því eftir að hafa hlustað á málflutning þeirra í nokkur ár. Upp á annan þeirra, samþingmann minn, hv. þm. Guðna Ágústsson á Suðurlandi, á ég afar erfitt með að trúa því að þetta sé niðurstaðan. Þess vegna hlýtur maður að álykta að samskiptin við verkalýðshreyfinguna, samskiptin við launþegahreyfingarnar í landinu, samskiptin við samtök eldri borgara, samtök öryrkja og námsmanna, séu sprottin úr tillögum frá Sjálfstfl. og Framsfl. hafi verið gert að kokgleypa þær. Þetta er ekki í neinu samræmi við flokksstefnu Framsfl., ekki miðað við það hvernig hún var kynnt fyrir síðustu kosningar. Hafi því verið breytt þá hefur verið passað upp á að fara mjög hljóðlega með þá breytingu.

[19:45]

Í sjálfu sér kemur þetta viðhorf kannski fram þegar horft er til þess hvernig fara á með réttarstöðu starfsmanna við Húsnæðisstofnun ríkisins. Félag starfsmanna Húsnæðisstofnunar ríkisins sendi hæstv. félmrh. 18. eða 19. mars áskorun. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Hjálagt sendist yður afrit af áskorun starfsmanna Húsnæðisstofnunar ríkisins til félmrh. vegna fyrirhugaðrar niðurlagningar stofnunarinnar. Áskorun þessi var einróma samþykkt á almennum starfsmannafundi í stofnuninni í gær þann 18. mars.

Þess er farið á leit við yður að þér leggið áskorun þessa fram á fundi nefndarinnar þegar frv. til laga um húsnæðismál verður til umræðu.

Virðingarfyllst, fyrir hönd Starfsmannafélags Húsnæðisstofnunar ríkisins, Gunnhildur Gunnarsdóttir formaður.``

Í áskoruninni til félmrh. segir, með leyfi forseta:

,,Félag starfsmanna Húsnæðisstofnunar ríkisins skorar hér með á hæstv. félmrh. að hann beiti sér fyrir því að við frv. til laga um stofnun Íbúðalánasjóðs verði bætt ákvæði sem tryggi núverandi starfsmönnum Húsnæðisstofnunar sambærileg störf hjá hinum nýja sjóði.

Í lagasetningu um breytingar á starfsemi opinberra stofnana að undanförnu hefur verið að finna ákvæði er tryggja atvinnuöryggi starfsmanna viðkomandi stofnana. Nægir hér að nefna 8. gr. laga nr. 103/1996, um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar, 8. gr. laga nr. 50/1997, um stofnun hlutfélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, 10. gr. laga nr. 60/1997, um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, og loks 13. gr. laga nr. 68/1997, um Lánasjóð landbúnaðarins.

Í öllum þessum lögum er kveðið á um að allir starfsmenn þeirra sjóða og stofnana sem verið er að breyta eða leggja niður skuli fá sambærileg störf hjá nýjum félögum, stofnunum eða sjóðum sem taka við starfsemi þeirra.

Félag starfsmanna Húsnæðisstofnunar ríkisins telur að sömu rök hljóti að liggja til þess að tryggja starfsöryggi og nýta starfsreynslu þeirra 49 starfsmanna sem nú starfa hjá Húsnæðisstofnun ríkisins í þágu hins nýja Íbúðalánasjóðs.

Virðingarfyllst, starfsfólk Húsnæðisstofnunar ríkisins.``

Við þessu hefur ekki verið orðið, ekki heldur í hv. félmn., ef ég skil rétt. Þetta þykir afskaplega einkennilegt og sýnir virðingarleysi gagnvart starfsfólki, gagnvart launþegum og þessi háttur hefur ekki verið hafður á áður. Ég er hér með samantekt um þau fruvmörp og lög sem hafa verið samþykkt frá Alþingi að undanförnu þar sem um er að ræða breytingar á viðkomandi rekstri þar sem réttindi starfsmanna hafa verið tryggð. Þar er fyrst til að nefna lög um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, en þar segir í 8. gr. um réttindi starfsmanna, með leyfi forseta:

,,Allir starfsmenn Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, sem taka laun samkvæmt kjarasamningum Sambands ísl. bankamanna eða kjarasamningum annarra stéttarfélaga, skulu eiga kost á sambærilegu starfi hjá Landsbanka Íslands hf. eða Búnaðarbanka Íslands hf. við yfirtöku þeirra á ríkisviðskiptabönkunum.``

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Nú tekur maður, sem gegnir starfi hjá Landsbanka Íslands eða Búnaðarbanka Íslands, við starfi hjá Landsbanka Íslands hf. eða Búnaðarbanka Íslands hf., og skal hann þá njóta sömu réttinda og hann hafði samkvæmt kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum. Réttur hans til launa hjá Landsbanka Íslands eða Búnaðarbanka Íslands fellur niður er hann tekur við starfinu.``

Í lögum um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins frá 26. maí 1997 segir í 10. gr., með leyfi forseta:

,,Allir starfsmenn Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs, sem taka laun samkvæmt kjarasamningum Sambands íslenskra bankamanna eða kjarasamningum annarra stéttarfélaga og ekki er boðið starf hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, skulu eiga kost á starfi hjá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.``

Þann 14. júní 1996 voru samþykkt lög um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar. Þar segir í 8. gr., með leyfi forseta:

,,Fastráðnir starfsmenn Póst- og símamálastofnunar skulu eiga rétt á störfum hjá hinu nýja félagi og skulu þeim boðnar stöður hjá því, sambærilegar þeim er þeir áður gegndu hjá stofnuninni, enda haldi þeir hjá félaginu réttindum sem þeir höfðu þegar áunnið sér hjá stofnuninni. Þó fer um biðlaunarétt þeirra eftir þeim lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem í gildi eru við gildistöku laga þessara.``

Síðan eru hér lög um stofnun hlutafélags um Lyfjaverslun ríkisins. Þar segir í 3. gr., með leyfi forseta:

,,Fastráðnir starfsmenn Lyfjaverslunar ríkisins skulu hafa rétt til að starfa hjá nýja hlutafélaginu við stofnun þess og skal þeim boðin sambærileg staða hjá félaginu og þeir áður gegndu hjá Lyfjaverslun ríkisins. Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, á því ekki við um þá starfsmenn.``

Síðan er hér um stofnun hlutafélags um Áburðarverksmiðju ríkisins, með leyfi forseta.

,,Fastráðnum starfsmönnum Áburðarverksmiðju ríkisins skal boðið sambærilegt starf hjá hinu nýja hlutafélagi og þeir gegndu áður hjá Áburðarverksmiðju ríkisins. Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, á því ekki við um þá starfsmenn.``

Hér er hlutafélag um Síldarverksmiðjur ríkisins, með leyfi forseta:

,,Fastráðnir starfsmenn Síldarverksmiðja ríkisins skulu hafa rétt til starfa hjá nýja hlutafélaginu við stofnun þess og skal þeim boðin sambærileg staða hjá félaginu og þeir gegndu áður hjá verksmiðjunum. Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, á því ekki við um þá starfsmenn.``

Síðan er hér stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins:

,,Fastráðnir starfsmenn Sementsverksmiðju ríkisins skulu hafa rétt til að starfa hjá hinu nýja hlutafélagi og skal þeim boðið sambærilegt starf hjá félaginu og þeir gegndu áður hjá Sementsverksmiðju ríkisins.``

Svo er það frv. til laga um Þvottahús Ríkisspítalanna sem ekki var samþykkt, en þar var þó gert ráð fyrir þessum réttindum starfsmannanna. Og hér er frv. til laga um stofnun hlutafélags um Íslenska endurtryggingu sem eru lög nr. 45/1993. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Fastráðnir starfsmenn Íslenskrar endurtryggingar skulu hafa rétt til að starfa hjá hinu nýja hlutafélagi við yfirtökuna og skal þeim boðin sambærileg staða og þeir gegndu áður.``

Þegar frv. til laga um stofnun hlutafélags um Ríkismat sjávarafurða var lagt fram var jafnframt gert ráð fyrir réttindum starfsmanna.

Þá er spurningin, hæstv. ráðherra: Hver er munurinn? Hvers á þetta fólk, starfsfólk Húsnæðisstofnunar ríkisins, að gjalda? Hvers á það að gjalda, þegar það liggur fyrir eins og hér hefur verið talið upp að í hvert einasta skipti sem rekstrarformi hefur verið breytt eða stofnun lögð niður, önnur tekið til starfa eða tekið við hlutverki hennar, þá hefur starfsfólkinu verið boðin staða á sambærilegum kjörum? Hvers á starfsfólk Húsnæðisstofnunar ríkisins að gjalda? Er það að mati hæstv. ráðherra miklu verra starfsfólk en það sem gegndi störfum sínum hjá hinum þeim stofnunum sem hér hafa verið taldar upp? Hefur það sinnt verkum sínum eitthvað verr? Er nokkuð minni ástæða til þess að tryggja þeim áframhaldandi störf? Er réttur þeirra eitthvað minni eða hefur viðhorf ríkisstjórnarinnar til launafólks breyst svona mikið?

Það er eðlilegt, virðulegi forseti, að beina þessari spurningu, ekki bara til hæstv. ráðherra, heldur einnig til þeirra þingmanna stjórnarflokkanna sem ætla sér að standa að samþykkt þessa frv.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum fara yfir ályktun sem Alþb. gerði á landsfundi sínum í nóvember 1997 um húsnæðismál. Þar segir:

Húsnæðiskaup eru oftast ein stærsta fjárfesting sem einstaklingur tekst á hendur. Öruggt og gott húsnæði á viðráðanlegu verði hlýtur að teljast til grundvallarmannréttinda fólks. Kostnaður við húsnæði getur riðið baggamuninn í afkomu fjölskyldna og einstaklinga. Því er nauðsynlegt að öllum þegnum sé gert kleift að kaupa eða leigja húsnæði á verði sem er viðráðanlegt og setur ekki afkomu fjölskyldna í hættu.

Höfuðáherslu þarf að leggja á það á allra næstu árum að efla leigumarkaðinn með markvissum aðgerðum þannig að það verði raunverulegur kostur að leigja í stað þess að kaupa.

Einn vandinn í opinbera húsnæðiskerfinu er félagslega íbúðakerfið. Illa gengur að selja íbúðir í mörgum sveitarfélögum en einnig eru þessar íbúðir of dýrar, mun dýrari en aðrar íbúðir á sama svæði. Á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi og víðar á þéttbýlissvæðum eru þær þó talsvert undir markaðsverði.

Íbúðir í félagslega kerfinu eru rúmlega tíu þúsund talsins og má segja að einhver vandræði séu í kringum u.þ.b. 200 íbúðir. Um er að ræða staðbundinn vanda sem aðstæður í ýmsum sveitarfélögum hafa valdið. Þann sérstaka vanda verður að leysa.

Seljanleiki íbúðanna virðist að miklu leyti haldast í hendur við atvinnustig í sveitarfélögunum eins og eðlilegt er. Þá virðist að verð á íbúðum valdi því að hinir tekjulægstu hafa ekki tök á að kaupa í kerfinu. Þrátt fyrir 90% lán með lágum vöxtum til 40 ára reynist þessum hópi ofviða að reiða fram þau 10% sem einstaklingarnir þurfa sjálfir að leggja fram. Þessi hópur hefur fá úrræði á leigumarkaðnum ef hann kemst ekki inn í félagslegar leiguíbúðir sem ekki liggja á lausu eins og kunnugt er. Hann á heldur enga kosti í húsbréfakerfinu. Því er nauðsynlegt að fjölga verulega félagslegum leiguíbúðum á vegum sveitarfélaganna og að leigan sé þá á viðráðanlegu verði.

Húsaleigumarkaðurinn í landinu er mjög vanþróaður og um hann vantar skýrari reglur. Lögmál frumskógarins ráða þar. Endurskoða þarf húsaleigulög með réttindi bæði eigenda og leigjenda í huga. Endurskoða þarf starfshætti Húsnæðisstofnunar með það í huga að bæta þjónustu við lántakendur og færa hana nær íbúum landsins.

Félagslegar íbúðir. Sveitarfélög breyti félagslegum eignaríbúðum í félagslegar leiguíbúðir þegar ekki tekst að selja þær. Þar sem þær aðgerðir duga ekki þarf að grípa til sértækra aðgerða, þ.e. íbúðirnar verði settar á markað í áföngum og seldar hæstbjóðandendum. Sveitarfélög og ríki skipti með sér tapinu vegna þess að söluverð íbúðar mundi ekki duga fyrir skuldum sem á henni hvíla.

Aðgangur að félagslegum leiguíbúðum verði rýmkaður og verði ekki nauðsynlega bundinn við allra lægstu tekjuhópana. Einnig verði tekið tillit til skulda.

Íbúar félagslegra leiguíbúða, þar sem sértækra aðgerða er þörf, fái tækifæri til að kaupa þær á húsbréfalánum ef aðstæður þeirra leyfa og þeir þess óska.

Vextir verði endurskoðaðir á þriggja ára fresti, taki mið af tekjum og geti bæði hækkað og lækkað eftir atvikum.

Leigumarkaðurinn. Aðgerðir verði hafnar til að auka framboð á leiguhúsnæði, t.d. með því að stuðla að því að sveitarfélög, einstaklingar, samvinnufélög, hlutafélög eða félagasamtök byggi eða kaupi húsnæði gagngert til þess að leigja það út.

Húsaleigubætur verði hækkaðar og tryggt að allir leigjendur eigi kost á bótum. Húsaleigubætur verði skattfrjálsar.

Setja verður lög um leiguíbúðir og leigumiðlanir að norrænni fyrirmynd.

Forsendur fyrir ákvörðun húsaleigu í félagslegum leiguíbúðum verði endurskoðaðar reglulega.

Húsbréfakerfið. Lán í húsbréfakerfinu verði persónubundin þannig að einstaklingur geti flutt þau með sér milli íbúða.

Stimpilgjöld vegna lána á íbúðarhúsnæði verði felld niður.

Afföll verði meðhöndluð eins og vaxtagreiðslur við ákvörðun vaxtabóta.

Vaxtabætur verði greiddar mánaðarlega.

Leitað verði leiða til að auka sveigjanleika kerfisins.

Lánstími verði sveigjanlegur og miðist við að greitt verði ákveðið hlutfall af tekjum.

Virðulegi forseti. Hér er aðeins um að ræða upptalningu á áherslupunktum sem lagðir voru fram en ekki greinargerðin sem fylgdi með hverjum áherslupunkti. Þar sem ég tel að það sé jafnvel skynsamlegra að koma hér aftur og fara nánar yfir stefnu Alþb. en að eyða of löngum tíma hverju sinni í stólnum þá læt ég máli mínu lokið að þessu sinni.