Húsnæðismál

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 20:05:34 (6629)

1998-05-15 20:05:34# 122. lþ. 128.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[20:05]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Gögn hafa komið fram, m.a. frá húsnæðisnefndum frá Akureyri, frá Hafnarfirði, að mig minnir, og Kópavogi, sem sýndu útreikninga miðað við kerfið eins og það er í dag, og þær breytingar sem eru áætlaðar. Í öllum tilvikum var um að ræða meiri greiðslubyrði, meiri kostnað, ekki bara fyrir einstaklingana heldur ekki síður fyrir sveitarfélögin. Þau gögn sem liggja fyrir eru samt sem áður frá þessum einstaklingum eða frá þeim nefndum sem eru með þessi vandamál, eru að skoða þetta. Að vísu má segja að fyrir þessi stóru sveitarfélög er félagslega húsnæðiskerfið eins og það er í dag ekki vandamál, ekki það sama og það er í þessum litlu sveitarfélögum vítt og breitt um landið. Ég veit að vandinn er mjög stór hjá sumum sveitarfélögunum en það verður að horfa á þetta út frá því að leysa þennan vanda sem við blasir hjá sveitarfélögunum sem er nokkur en ekki síst verður alltaf að standa að afgreiðslu þessa kerfis sem sérstaks, félagslegs úrræðis fyrir þá sem lægstar hafa tekjurnar. Út frá því verður að ganga. Það hefur verið markmiðið og verður að vera markmiðið áfram. Miðað við þær umsagnir sem við höfum séð reikna menn með því að kerfið verði dýrara. Þar stendur orð gegn orði og ég hef enn ekki heyrt eða fengið þau rök sem styðja annað. Í þinginu hafa ekki verið lagðir fram útreikningar hlið við hlið eins og hefur verið gert gagnvart hinu, sem sagt að kostnaðurinn verði meiri. Þar erum við þó með tölur í höndunum.

Virðulegi forseti. Þér gleymið ævinlega að kveikja á ljósinu.

(Forseti (GÁ): Því miður, hv. þm. hefur forseti ekkert vald yfir ljósinu þótt hann gjarnan vildi. Það virðist vera bilað um þessar mundir og biður forseti hv. þm. að fylgjast með tíma sínum.)