Ummæli forsætisráðherra í fréttatíma sjónvarps

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 20:38:01 (6637)

1998-05-15 20:38:01# 122. lþ. 128.93 fundur 394#B ummæli forsætisráðherra í fréttatíma sjónvarps# (um fundarstjórn), PHB
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[20:38]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég gat því miður ekki hlustað á hæstv. forsrh. enda stóð þingfundur þegar útvarpað var. Það er dálítið merkilegt með hliðsjón af því að það er lagaskylda að sækja þingfundi að einhverjir hv. þm. gátu hlustað á hæstv. forsrh. (Gripið fram í: En forsrh. sjálfur?) Já, hann líka.

En einmitt þetta atriði bendir til þess að það er mjög brýnt að endurskoða þingsköpin. Það að þingmenn skuli ekki fara að eigin lögum alla daga, og ég ekki undanskilinn, gerir það mjög nauðsynlegt að endurskoða þingsköpin og ég hef margoft bent á það í þessari umræðu að það er mjög mikilvægt að við endurskoðum þingsköpin, t.d. frá og með næstu kosningum. Ég vildi gjarnan að allir hv. þm. ynnu saman að því að finna skynsamlegar reglur sem leiða til þess að vinnubrögðin á Alþingi geti orðið þannig að maður geti staðið uppréttur frammi fyrir kjósendum og vinnubrögðin séu þannig að við skilum góðum lögum og þörfum eftir málefnalega umræðu sem er mjög mikilvægt. Þetta er allt saman háð þingsköpunum.

Ég skora á hv. þm. að vinna nú allir saman vel að því að breyta þingsköpum þannig að þau leiði til skipulegra vinnubragða á Alþingi.