Ummæli forsætisráðherra í fréttatíma sjónvarps

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 20:50:19 (6643)

1998-05-15 20:50:19# 122. lþ. 128.93 fundur 394#B ummæli forsætisráðherra í fréttatíma sjónvarps# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[20:50]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tek undir þessi síðustu orð hv. 5. þm. Reykn. að það er mikilvægt að hæstv. forseti Alþingis hefur lýst því yfir að hann eigi engan hlut að þessari yfirlýsingu hæstv. forsrh. Hann hefur þannig lýst því yfir að þar sé um að ræða ómagaorð sem ástæðulaust sé að taka sérstaklega mikið mark á, af hvaða ástæðum sem það nú er. Hins vegar held ég að það sé óhjákvæmilegt að þessi ummæli forsrh. verði rædd í forsn. sérstaklega, hvort sem það verður gert í kvöld eða síðar. Ég fer fram á það við hæstv. forseta að þessar yfirlýsingar forsrh. verði sérstaklega teknar fyrir í forsn. og þar með hvernig fara á með þau drög að frv. um breytingar á þingsköpum sem lengi hafa legið fyrir í tilbúnu vinnuskjali.

Ég vil í annan stað segja, herra forseti, að það er nokkuð umhugsunarvert hvernig staða þingsins er orðin. Það er auðvitað rétt að að undanförnu hefur forsrh. landsins og ríkisstjórnin reynt að gera allt sem hún getur til að brjóta af sér andstöðu í þjóðfélaginu. Hún hefur reynt að gera eins lítið úr verkalýðshreyfingunni og mögulegt er og reynt að skerða starfsgrundvöll hennar verulega. Hún hefur spillt lífskjörum almennings og sérstaklega atvinnulausra í landinu. Hún er nú að eyðileggja félagslega íbúðalánakerfið og það er greinilegt að hæstv. forsrh. þráir fátt meira en að leggja stjórnarandstöðuna niður.

Yfirlýsing forsrh. í kvöld hafði bara einn tilgang. Tilgangurinn var sá að koma því út til þjóðarinnar að stjórnarandstaðan á Alþingi væri til óþurftar. Það var það sem hæstv. forsrh. vildi koma út til þjóðarinnar í kvöld. Hinar pólitísku árásir hans á stjórnarandstöðuna lýsa auðvitað óvenjulegum valdahroka. Ég segi, herra forseti, að það er að verða svo að ekkert er brýnna fyrir þjóðina en að þingið taki sjálfstætt á sínum málum og til verði ný sátt um störf Alþingis. Mér liggur við að segja menningarsáttmáli um störf Alþingis, sem allir eiga aðild að, þannig að hér sé hægt að vinna eðlilega að málum. Orð hv. þm. Péturs Blöndals áðan, sem kemur þó úr stjórnarliðinu, lýsa því kannski einna best að það er víðar en í stjórnarandstöðunni sem menn kalla á að tekið verði á þessum málum á ný.

Ég vil að lokum láta það koma fram af minni hálfu, herra forseti, að skoðun okkar er sú að það sé eðlilegt að sveitarstjórnirnar í landinu og sveitarstjórnarframboðin fái frið til að koma sínum málum á framfæri í næstu viku. Mín skoðun er sú að það sé eðlilegt að við gerðum á meðan hlé á störfum þingsins og kæmum svo saman eftir sveitarstjórnarkosningarnar. Við höfum, fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna, komið þessum sjónarmiðum á framfæri við hæstv. forseta og mér finnst að þessi lota megi ekki taka enda án þess að þessar upplýsingar komi fram. Við viljum sýna sveitarfélögunum í landinu þá virðingu að þau fái að fjalla eðlilega um sín mál í aðdraganda kosninga.