Húsnæðismál

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 20:55:25 (6645)

1998-05-15 20:55:25# 122. lþ. 128.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[20:55]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er ómögulegt að hefja þessa umræðu án þess að ræða örlítið frekar framvindu þingstarfa á hinu háa Alþingi. Ég minni á það, herra forseti, að það var einmitt hæstv. forseti sem fyrir hönd forsn. reifaði það við stjórnarandstöðuna snemma í apríl hvort ekki væri hægt að finna samkomulagsflöt fyrir því að flýta þinglokum. Samkvæmt starfsskrá þingsins áttu þau að vera 8. maí en það var óskað eftir samstarfi við það að flýta þeim fram til 22. apríl ef ég man rétt.

Rökin sem gefin voru fyrir þessari ósk voru fyrst og fremst þau að nauðsynlegt væri að gefa þeim sem nú eru að heyja kosningabaráttu í sveitarstjórnum og bera sín mál fyrir kjósendum, tóm til að rökræða stefnu sína við kjósendur í sveitarfélögunum. Ég minnist þess að undirtektir við þetta voru býsna góðar innan stjórnarandstöðunnar en eðlilega var það sanngjörn ósk stjórnarandstöðunnar, þegar svona umleitun kom fram af hálfu stjórnarliðsins í gegnum forsn., að stjórnarliðið hnikaði til einhverjum sinna mála, frestaði einhverjum málum.

Það hefur í engu verið komið til móts við eina eða neina ósk stjórnarandstöðunnar í þessum málum. Hæstv. forseti hefur getið þess að þau fjögur stóru mál sem liggja fyrir þurfi auðvitað að komast í gegn. Hvers vegna? Vegna þess að ríkisstjórnin óskar þess. Eigi að síður er það þannig, held ég, að ekkert þessara mála er þess eðlis að það kalli beinlínis á samþykkt á Alþingi. Ég minni t.d. á það að það ágæta mál sem nýtur þó mestrar hylli af þessum fjórum í þinginu, þjóðlendufrv., er búið að vera í samningu í 14 ár. Ekki var héraðsbrestur vegna þess að það færi ekki í gegnum þingið.

Ég minni líka á að húsnæðisfrv. sem við erum að ræða í kvöld felur ekki í sér nein sérstök ákvæði sem beinlínis kalla á að málinu verði hraðað í gegnum þingið. Vel kann að vera að hæstv. félmrh. þyki sem einstök atriði séu þess eðlis að æskilegt væri að ná þeim fram. Ég get vel skilið það sjónarmið hjá kappsfullum ráðherra. Ég sé hins vegar ekki að það sé nokkuð sem reki beinlínis á eftir því að frv. verði tekið með offorsi og kappi gegnum þingið, nema ef vera skyldi hvöt hæstv. ráðherra til að raða fleiri framsóknarmönnum á jötuna í ýmsum stjórnum sem tengjast því vonda frv. sem nú er til umræðu.

Sama má auðvitað segja um frv. hæstv. iðnrh. um auðlindir í jörðu. Þar er ekkert sem rekur á eftir því að það verði samþykkt endilega núna. Enda mátti heyra á mörgum stjórnarliðum að það var ekkert sem þeim þótti beinlínis kalla á að það færi með líka. Það sem við sjáum gerast hér, herra forseti, er einfaldlega í fyrsta lagi taugaveiklun innan stjórnarliðsins vegna þess að kosningar eru í nánd og við vitum það, eins og kom fram í máli mínu áðan, að hæstv. forsrh. þarf að þola að það vígi sem hann byggði upp í gegnum áratuginn er að hrynja. Það er bókstaflega að hrynja í Reykjavík og alveg sama hversu óvönduðum meðulum sjálfstæðismenn beita, það hrín ekkert á skynsemi kjósenda sem ekki vilja láta telja sér í trú um þá hluti sem þar hafa verið bornir á borð.

Sömuleiðis sjáum við það líka, herra forseti, að Framsfl. hefur fulla ástæðu til að vera heldur dapur þegar hann gengur núna til kosninga. Það má heita að ekkert kjördæmi sé þar sem Framsfl. stendur með bærilega, þar sem hann býður fram einn og sér, nema ef vera skyldi í kjördæmi þess vaska hv. frsm. fyrir áliti meiri hluta félmn., Magnúsar Stefánssonar. Það er einkum og sér í lagi þar sem segja má að Framsókn geri aðeins betur en að halda haus.

Hæstv. félmrh. má hins vegar horfa upp á að vígið sem hann hefur byggt upp með þrautseigju og elju gegnum áratugi er ekki jafnrammgirt og áður. Hæstv. félmrh. var áður hinn óskoraði foringi í sínu kjördæmi en nú sjáum við að sjálfstæðismenn eru búnir að slá í klárinn og eru komnir meira en upp að síðunni hjá hæstv. félmrh.

Þetta, herra forseti, tengist auðvitað á vissan hátt þessum fjórum málum. Hvers vegna? Vegna þess að mörg þeirra og sér í lagi þetta frv. sem við erum að ræða í kvöld eru þess eðlis ... --- Herra forseti, er þetta ljósmerki einhver sérstök tilmæli?

(Forseti (RA): Forseti vill láta þess getið að klukkan er ekki eins og hún á að sér.)

Allt í lagi, ég tek það gott og gilt.

[21:00]

En í kjördæmi hæstv. félmrh. eins og víðar hjá framsóknarmönnum er fylgið hjá Framsfl. ekki jafnsterkt og áður. Ég var, herra forseti, að velta fyrir mér hvernig á því stæði og ég tel að eina af orsökunum megi auðvitað rekja til frv. sem ég hef verið að nefna. Það er nefnilega þannig að Sjálfstfl. hefur tekið upp þann hátt að láta Framsfl. beita sér fyrir erfiðustu málunum. Það sem við sjáum t.d. í þessu frv. til húsnæðismála, sem hæstv. félmrh. hefur lagt svo mikið kapp á að koma í gegnum þingið, er ekki stefna Framsfl. og það er ekki stefna nokkurs flokks sem tengist stjórnarandstöðunni. Það er stefna þess flokks sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur fylgt, illu heilli, að málum allt of lengi og gerir sennilega allt of lengi úr þessu líka. Það sem við sjáum er stefna Sjálfstfl. eins nakin og hún getur gerst. Hér er verið að ná því langþráða marki, a.m.k. margra talsmanna þess flokks að rústa félagslega íbúðakerfinu, því kerfi sem við getum sagt að hafi verið sátt um meðal margra flokka um áratuga skeið, því kerfi sem einmitt flokkur hæstv. félmrh. tók þátt í að byggja upp, stundum með semingi en stundum af kappsfullri ákefð þegar sá gállinn var á honum. Hér er verið að taka aftur áratuga ávinning harðrar verkalýðsbaráttu fátækrar alþýðu meðan hún var fjölmenn á fyrri hluta aldarinnar og það er ekkert við því að segja, herra forseti, þegar pólitíkin snýst þannig að meiri hluti liggur með slíku máli. Það gildir um þetta mál eins og öll önnur að auðvitað á meiri hlutinn að ráða þótt stjórnarandstaðan eigi að fá sinn fulla rétt og verður að fara vel með þann rétt til þess að segja álit sitt og jafnvel stundum í ítarlegu máli eins og einn af hæstv. forverum hæstv. félmrh. beitti sér með drjúgum árangri fyrir í gær. Hins vegar er þrautin þyngri fyrir mann eins og mig sem hér stendur og hef um langan aldur alið með mér leynilega aðdáun á a.m.k. fortíð Framsfl. sem naut vissulega þeirrar gæfu að aðstoða fjölda fátækra Íslendinga til bjargálna fyrr á öldinni með þrautseigju framsýnna manna sem höfðu sanngirni og réttlæti að leiðarljósi. Mér er heldur engin launung á því, herra forseti, að á þeim árum, sem ég var e.t.v. ekki kominn til þess pólitíska vits og þroska sem ég hef nú, yljaði það mér oft um hjartarætur að hlýða á mál hæstv. félmrh. sem þá var vaskur gæðingur sem var að brjótast í framvarðarsveit Framsfl. og leyfði sér oft þann munað að vera á annarri skoðun en Framsfl. eða forusta þess flokks. Það var hæstv. félmrh. sem oft og tíðum fyrir 15--20 árum setti upp heldur geðfelldan vinstri vanga Framsfl. Það er engin launung á því, herra forseti að ég tel að það hafi ekki síst verið slík afstaða, þegar fulltrúar róttækra bænda sem höfðu íslenska bændamenningu í hjartastað eins og hæstv. ráðherra hafði þegar hann reið hrossum sínum út frá Höllustöðum, sem gerði að verkum að Framsfl. naut virðingar fyrir staðfestu.

Hæstv. félmrh. breytti um skoðanir á mörgu eins og til að mynda ég. Ég minnist þess líka, herra forseti, þótt ég sé örlítið farinn út fyrir efnið, að við vorum á sínum tíma bærilega sammála til að mynda um ákveðinn þátt íslenskra utanríkismála og hæstv. félmrh. hefur fallið frá því og ég sömuleiðis líka en mér sýnist sem hæstv. félmrh. hafi hvergi látið stöðvast í ferð sinni frá þeim hugsjónum sem knúðu hann til góðra verka í æsku og vel yfir á miðjan aldur því hann er enn á svo hraðri leið til hægri að það má eiginlega segja að hann beri svo hratt yfir að menn eigi erfitt með að fylgjast með honum. (Gripið fram í: Hvað gerði ráðherrann í æsku?) Ég held, herra forseti, að þetta frv. sem hér liggur fyrir sýni það svart á hvítu. Frv. er í flestum meginatriðum í andstöðu við það sem Framsfl. hefur sagt, t.d. bara fyrir þremur árum í aðdraganda síðustu kosninga og það er í andstöðu við flest það sem ég þekki til sem forustumenn Framsfl. hafa rætt um húsnæðismál um ansi margra ára skeið og maður veltir því fyrir sér hvernig standi á þessari umbreytingu, herra forseti. Hvernig stendur á því að menn geta orðið þannig að pólitískum umskiptingum?

Ég held, herra forseti, að þetta sé eitt af því sem Framsfl. þarf að greiða fyrir þátttöku sína í ríkisstjórn. Það hefur orðið hlutskipti hans allar götur frá því stefnuskrá ríkisstjórnarinnar var færð í letur að beita sér fyrir afar óvinsælum málum. Við sjáum hvernig hæstv. heilbrrh. hefur hvað eftir annað þurft að taka upp mál, sem hún mælti gegn meðan hún var stjórnarandstæðingur, og bera þau fram til samþykktar í Alþingi að öllum líkindum oft þvert á samvisku Framsfl. Þetta mál er eitt af þeim málum sem Framsfl. hefur með sama hætti verið knúinn til að tosa yfir dýið. Ég minnist þess hversu undrandi ég varð þegar ég las stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem nú situr, mér voru þá í fersku minni þeir bleðlingar sem Framsfl. hafði gefið út í kosningabaráttu sinni og þau loforð sem einstakir forustumenn Framsfl. höfðu gefið út og einstakir þingmenn. Vissulega get ég þess, herra forseti, að í samræðum sem ég átti við hæstv. félmrh. um hástemmdustu loforðin í þeim lista gat hann þess að hann sjálfur hefði aldrei tekið undir það og ég tel að ég geti meira að segja af stakri hógværð mælt þau orð að sennilega sé enginn maður í þessum þingsölum sem er jafn vel að sér í kosningastefnuskrá Framsfl. og ég og ég verð að hryggja þingheim með því að hæstv. félmrh. hafði rétt fyrir sér. Hann var sennilega hófstilltastur þeirra manna innan raða Framsfl. sem ræddu húsnæðismálin og gáfu hástemmdar yfirlýsingar um þau mál en hann er eigi að síður partur af flokki og hann er ábyrgur fyrir stefnu flokksins og hann er auðvitað ábyrgur fyrir að efna þau loforð sem flokkurinn hefur gefið kjósendum fyrir hans hönd og það voru einmitt þessi orð og loforð sem urðu þess valdandi að mjög mikill fjöldi íslensks almúga fylkti sér um Framsfl. Þegar stefnuyfirlýsing flokksins sá hins vegar dagsins ljós blasti við sú nöturlega staðreynd, sem vakti undrun mína og nokkra depurð, að ekkert af þessum orðum var skráð, ekki einu sinni á dulmáli, í þann texta sem hæstv. félmrh. lét hafa sig í að setja um húsnæðismálin inn í stefnuyfirlýsinguna og það er auðvitað mjög dapurlegt. Þetta, virðulegi forseti, er eitt með mörgu sem gerir að verkum að það er að heita má sama hvar maður horfir yfir hið pólitíska svið í dag að hvarvetna geldur Framsfl. þess að honum hefur verið beitt eins og þreyttum klárhest fyrir illa hjólvætt æki og látinn tosa þessu áfram, látinn vinna skítverkin fyrir Sjálfstfl. Það er ekki hægt að kalla það annað. Þetta er eins og að moka út úr illa hirtu fjósi.

Herra forseti. Ég held að þetta skipti talsvert miklu máli. Mig langar líka áður en ég held lengra, herra forseti, að geta þess að ég tel að þinghaldið eins og það er orðið, ræðuhöld um þessi frv. hafi sett ákveðinn dapurlegan blæ á þetta þing. Ýmsir hæstv. ráðherrar og síðast forsrh. hæstv. nú í kvöld skella skuldinni af þessu öllu á stjórnarandstöðuna en við erum við alveg sérstakar aðstæður og fyrir því liggja tvenns konar rök. Í fyrsta lagi er hér um að ræða þrjú frv. sérstaklega, sem eru gríðarlega umdeild, og þau eru öll þess eðlis að þar er í rauninni tekist á um dýpstu átakalínur í innanríkispólitískum málum á Íslandi í dag og það þarf engan að undra að menn kjósi að setja á talsverðar ræður til að koma fram sjónarmiðum sínum. Það er eðli lýðræðisins að menn vegast á með rökum. Það er eðli lýðræðisins að þegar menn hafa sett rök sín ítarlega fram og telja að mál hafi verið til þrautar rædd, þá ræður meiri hlutinn. Hann á að gera það. Það er skoðun mín, herra forseti.

En sömuleiðis er engin lýðræðisleg regla sem segir að það eigi að skjóta skildi fyrir allt það sem fulltrúar upp undir 40% og jafnvel meira af þjóðinni hafa að segja á hinu háa Alþingi. Ég sé, herra forseti, að hæstv. félmrh. geispar undir þessum lestri. Það er sennilega vegna þess að honum er ekki notalegt að hlusta á þetta en staðreyndin er einfaldlega sú að við erum að ræða gríðarlega djúp mál hérna. Hitt sem gerir þessar kringumstæður dálítið öðruvísi en endranær, herra forseti, er sú staðreynd að stjórnarliðið hefur í engu viljað taka til greina athugasemdir eða ábendingar frá stjórnarandstöðunni. Þá skiptir engu máli þótt í sumum efnum sé um að ræða athugasemdir sem koma frá húsnæðisnefndum í sveitarfélögum þar sem stjórnarliðið fer með meiri hluta. Ég bendi sérstaklega á, herra forseti, að í Kópavogi er Framsfl. að vísu að tapa en hann nær því sennilega að skrölta á einum manni og það dugir til að halda þeim meiri hluta sem þar er í dag og hvers konar meiri hluti er það? Það er meiri hluti Sjálfstfl. og Framsfl. Það er sami meiri hluti og fer með ríkisstjórn Íslands í dag. Húsnæðisnefnd sem situr í umboði þess meiri hluta hefur orðið til þess að setja fram afskaplega meitlaða gagnrýni á mjög umdeild atriði í þessu frv. eins og þau sem varða framboð og þörf fyrir leiguíbúðir. Þar er samhljómur milli þess sem stjórnarandstaðan segir hér, maður á mann ofan, og þess sem húsnæðisnefndin sem starfar í umboði Sjálfstfl. og Framsfl. í Kópavogi hefur að segja. Maður skyldi ætla, herra forseti, að þetta mundi duga til að þeir háu herrar sem sitja nú við kjötkatla valdsins mundu a.m.k. ljá andmælunum eyru en þeir skirrast við því. Þetta er í fyrsta skipti frá því ég settist fyrir sjö árum á hið háa Alþingi sem stjórnarliðið tekur ekki einu sinni í mál að ræða breytingar á málum. Það tekur heldur ekki einu sinni í mál að velta því fyrir sér í anda lýðræðisins að fresta þótt ekki væri nema umdeildustu atriðum þessa frv. í ljósi þess að ekki aðeins stærstu sameinuðu verkalýðssamtökin hafa óskað þess, heldur fjölmörg smærri verkalýðsfélög. Það er hins vegar í anda þeirrar stefnu sem kemur fram í frv., herra forseti, að hlusta ekki á verkalýðshreyfinguna. Ég er að vísu á meðal þeirra sem tel að verkalýðshreyfingin eigi ekki að ráða landinu beinlínis, en það er sjálfsagt þegar menn eru að setja svona gríðarlega mikilvæg lög, að hlustað sé á ábendingar þeirra sem eru á leikvanginum sjálfum og hafa farið með vissum hætti t.d. í gegnum húsnæðisnefndir sveitarfélaganna sem kunna þessi mál þar af leiðandi. Að sjálfsögðu á að hlusta á þau. Er það gert? Nei, herra forseti. Ekkert af því sem verkalýðshreyfingin hefur látið frá sér fara í þessu máli hefur fengið minnsta hljómgrunn hjá hæstv. ríkisstjórn og þeim meiri hluta sem fer með völd. Nú er það svo, herra forseti, að í báðum þessum flokkum er að finna grandvart og gott fólk sem samkvæmt eðli þessara flokka sem eru auðvitað, miðað við þá stöðu sem uppi er í stjórnmálum á Íslandi, hálfsósíaldemókratískir að hluta, auðvitað er fullt af þingmönnum í stjórnarliðinu sem hafa þannig hjartalag, þannig réttlætiskennd og þannig augu sanngirninnar að þeir sjá að í þessum frv., þótt þeir fylgi meginstefnu þeirra, er margt sem er þeygi gott og maður veltir fyrir sér hvort ekki sé erfitt hlutskipti fyrir þessa ágætu starfsbræður mína og systur að þurfa að vera reknir til réttar eins og vel tamin trippi og greiða atkvæði, alltaf á sama vegu, aftur og aftur gegn sannfæringu sinni. Ég held, herra forseti, að þessu ágæta fólki væri þarft að velta fyrir sér því ákvæði stjórnarskrárinnar sem segir að menn eigi að láta samvisku sína ráða þegar kemur að því að greiða atkvæði.

Herra forseti. Ég gat þess áðan að mig langaði að reifa það sem Framsókn hefur sagt um þessi mál vegna þess að ég tel að nú sé kominn tími til að minna þessa háu herra á það hvað þeir sögðu á sínum tíma. Ég ætla nefnilega ekki, herra forseti, að eyða þeim stutta ræðutíma sem ég tel að ég hafi til umráða til þess að fara með mikil minningarorð yfir hinum látna enda var flutt að mér skilst, tíu og hálfs tíma ræða í gær þar sem æviferli hins látna, þ.e. húsnæðiskerfis Íslendinga sem sett var á stofn 1929, var fylgt frá vöggu til grafar.

[21:15]

Nú má heita að við stöndum yfir moldum þessa volduga kerfis sem er ein af fjárveitunum í hinu íslenska velferðarkerfi. Það er auðvitað dapurlegt að þar eigi í hlut flokkurinn sem einu sinni hafði að forustumanni, manninn sem skráði eigin hendi stefnuskrár tveggja flokka sem í upphafi þessarar aldar höfðu jafnaðarhugsjónina að leiðarljósi, hinn ágæti forustumaður, Jónas Jónsson frá Hriflu. Sá maður, sem ýtti Alþfl. úr vör og stofnaði Framsfl., hafði þá hugsjón í brjósti að þessir tveir flokkar mundu gegnum öldina móta þjóðfélag þar sem samvinnuhugsjónin, félagslega hugsjónin og jafnaðarmennskan sætu í öndvegi. (HG: Og báðir villst af leið.) Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson kallar fram í að a.m.k. annar þeirra hafi villst af leið, heyrðist mér. Ég get verið honum sammála um það og get svo sem bætt því við, herra forseti, að fleiri hafa villst af leið þótt sumir séu að vísu fastir í sinni gömlu slóð og sjái ekki að hún liggur fram af hengifluginu, en ekki meira um það.

En ég ætlaði, herra forseti, að rifja það aðeins upp að Framsfl. hefur fortíð í þessu máli. Hann kemur ekki eins og nýfætt barn til þessara mála. Framsfl. háði hér nokkuð harðvítuga stjórnarandstöðu seinni hluta síðara kjörtímabils. Hún gekk að stórum hluta út á tvennt. Hún gekk út á það að gagnrýna það sem þáv. ríkisstjórn, undir forustu Alþfl. í málaflokki heilbrigðismála, var að gera á þeim leikvangi. Þegar að lokum kjörtímabilsins leið var eitt sem stóð upp úr ræðum framsóknarmanna. Það var andóf gegn húsnæðiskerfinu, framferði síðustu ríkisstjórnar í þeim efnum og sér í lagi gegn húsbréfakerfinu.

Framsfl. vissi ekkert eins vont og húsbréfakerfið sem Alþfl. kom á fót árið 1986 þótt þetta frv. sé auðvitað staðfestingin á því að þar var þó farið á rétta leið vegna þess að frv. skýtur frekari stoðum undir húsbréfakerfið en fellir hins vegar burt þær stoðir sem áður báru uppi hina félagslegu samhjálp innan kerfisins. Hin hástemmdu loforð sem Framsfl. sóaði út og suður eins og glópagulli hvar sem hann kom, um allar þorpagrundir, gengu að verulegu leyti út á húsnæðismálin. Hin hástemmdu loforð Framsfl. í kosningabaráttunni gengu hvergi jafnhátt og gengu eins og eldflaugar upp á himingeiminn, einmitt í húsnæðismálunum. Ég minnist þess að hv. þm. flokksins lofuðu því auðvitað að leysa á einu augabragði öll þau vandamál sem þeim tengdust.

Af því hér eru í salnum nokkrir þingmenn, herra forseti, sem ég veit að hafa ákveðna sögulega skynjan tel ég rétt að rifja dálítið upp, sérstaklega þá gagnrýni sem Framsfl. beindi að Alþfl. meðan á þessu skeiði stóð. Það var ekki síst sagt að koma þyrfti með björgunaraðgerðir, sem við sjáum nú í þessu skelfilega frv. og vitum hvernig þær ganga, og bregðast þyrfti með við neyðarástandi á þúsundum heimila. Framsfl. sagði að Alþfl. hefði staðið fyrir aðgerðum sem urðu til þess að skuldir vegna húsnæðiskaupa hefðu aukist stórkostlega. Nú er það svo, herra forseti, að ég gæti auðvitað kryddað mál mitt með nokkrum góðum tilvitnunum í margar hástemmdar ræður sem fluttar voru af hálfu Framsfl. í þeim efnum á síðasta kjörtímabili. Hv. þm. Magnús Stefánsson var að vísu ekki kominn í þann hóp þá, þannig að ég vil ekki fara að gera honum upp þær skoðanir, því hann hefur enn ákveðna von til að sjá að sér. Þó get ég sagt um hann eins og sagt var um annan mann: Ill var þín gangan fyrsta.

Á þessum árum voru auðvitað uppi margvíslegir erfiðleikar og ég ætla ekki að gera lítið úr því en umræðan sem Framsfl. stóð fyrir var nú um margt á afskaplega dapurlegum villigötum. Ég tel rétt að rifja það upp að hún spannst vegna frægrar skýrslu Þjóðhagsstofnunar, þar sem kom vissulega fram að skuldir heimilanna hefðu vaxið hratt. Niðurstöðurnar reyndi Framsfl., um tveggja ára skeið minnir mig, að nota til að sýna fram á að Alþfl., ríkisstjórnin, og raunar Alþfl. sérstaklega, vegna þess að hann fór þá með húsnæðismálin, hefði mistekist í þessum málaflokki og hefði séð til þess að afkoma heimilanna hefði rýrnað. Að því er forustumenn Framsfl. sögðu þá, þá römbuðu þúsund heimila á barmi gjaldþrots. Auðvitað var sú túlkun, herra forseti, víðs fjarri.

Það kom aldrei fram í þeirri umræðu að Þjóðhagsstofnun sjálf, í þessari margfrægu skýrslu, benti á að skýringanna væri að leita í verðtryggingunni. Í kjölfar hennar þurfti að endurfjármagna næstum allt húsnæði í landinu og lánstími húsnæðislána var lengdur þannig að skuldirnar greiddust hægar en áður. Horfið var frá því skömmtunarkerfi á lánsfé en sú aðgerð auðveldaði að sjálfsögðu aðgang manna að lánsfé og fjármagni til húsnæðiskaupa. Þetta voru auðvitað að stórum hluta skýringarnar á auknum skuldum vegna húsnæðiskaupa og menn gleyma því alltaf, eða eigum við að segja að hv. þm. Framsfl. létu vera að geta þess, að á móti þessum auknu skuldum sköpuðust vitaskuld mjög miklar eignir.

Núna, herra forseti, hegg ég eftir því í því frv. sem liggur fyrir, að enn er sú leið farin að setja upp biðlista. Viðbótarlánin sem að vísu er alfarið í valdi sveitarfélaganna að veita, og verða ekki veitt nema sveitarfélögin standi skil á 5% framlagi í varasjóðinn, eru auðvitað veitt þannig að óhjákvæmilegt er að einhvers konar biðlisti skapist. Ef það er eitthvað sem hefur einkennt það sem kallað er framsóknaráratugirnir í sögu íslenskra stjórnmála eru það einmitt biðlistar.

Þegar sá þingmaður, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, sem í gær talaði lengst mál, ítarlegast og skörulegast um húsnæðismálin, settist í stól félmrh. 1987 að loknum kosningum, voru 8.000 Íslendingar á biðlistum eftir lánum úr skömmtunarkerfi framsóknaráratuganna. Ég sé að hinn ungi hv. þm. Magnús Stefánsson lyftir brúnum í forundran. Ég gæti sagt honum margt fleira og jafnvel verra úr sögu hans flokks, sem einu sinni var ágætur. Ég vil þó hlífa hv. þm. vegna þess að hann er ungur að árum og á ekki skilið af mér að ég helli yfir hann úr fötum fortíðarinnar sökum þessa. Hann ber ekki ábyrgð á þessum fortíðarvanda. Staðreyndin var sú að þegar Alþfl. kom að húsnæðismálunum 1986 voru 8.000 manns á biðlistum eftir lánum úr skömmtunarkerfinu. Þetta skömmtunarkerfi, herra forseti, var hluti þess spillta umhverfis í efnahagsmálum sem fyrir síðustu kosningar var lýst svo að það væri skilgetið afkvæmi Framsóknar og að rétt flokksskírteini hefði jafngilt boðsmiða í veisluna.

Herra forseti. Hver er það sem tekur svona skáldlega til orða? Það er ekki sá þingmaður sem hér stendur sem á höfundarrétt að þessum lýríska áfellistexta. Það voru ekki vinir Framsóknar í Alþfl. sem orðuðu þetta svona fagurlega. Það var gert í bæklingi sem hæstv. núv. forsrh. og formaður Sjálfstfl. bar ábyrgð á. Sá maður sem situr nú í ríkisstjórn með Framsfl. orðaði það svo, eða bæklingurinn sem hann bar ábyrgð á og var sendur út í þessu kjördæmi á hans ábyrgð, að kerfið sem Framsfl. byggði upp á sínum tíma væri spillt, pólitískt fyrirgreiðslukerfi þar sem rétt flokksskírteini þyrfti til að fá boðsmiða í veisluna.

Herra forseti. Nú er aftur verið að búa til svona kerfi. Nú er til að mynda verið að draga fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar úr húsnæðisnefndunum. Það er aftur verið að setja þetta mál alfarið undir pólitískt vald og setja upp kerfi þar sem óhjákvæmilegt er að biðlistar myndist aftur, sérstaklega þeirra sem fátækastir eru. Það er alveg ljóst hverjir það eru sem ætla að standa við dyrnar og skoða flokksskírteinin þegar boðið verður til veislunnar, herra forseti. Það er auðvitað Framsfl. Það sem við sjáum hér í uppsiglingu er því auðvitað partur af því valdakerfi sem þessir tveir helmingaskiptaflokkar eru sameiginlega að byggja upp, þ.e. kerfi þar sem þeir ráða hverjir komast að jötunni. Ég er viss um það að þetta er í andstöðu við flest það sem t.d. hv. þm. Pétur H. Blöndal vill. Hann horfir horfir hins vegar upp á það að Framsfl. er aftur að búa til þetta kerfi. --- Hv. þm. lyftir höndum til himins og hristir höfuðið. --- Það er einfaldlega staðreynd, herra forseti, að svona er það kerfi sem búa á til með viðbótarlánin núna. Ég skal að vísu ekki fullyrða um það hvort það gangi sér svo gjörsamlega til húðar þegar í upphafi að myndist biðlisti upp á þúsundir manna en það er alveg klárt að í sveitarfélögunum munu auðvitað verða til biðlistar. Hverjum heldur hv. þm. Pétur Blöndal að verði hleypt inn í veisluna?

Herra forseti. Hv. þm. er það skyni væddur að ég veit ég þarf ekki að útskýra þetta fyrir honum. Ég vísa honum bara á þann pólitíska bækling sem borinn var í hús, m.a. til að tryggja kjör þessa þingmanns. Það var hv. þm. Pétur H. Blöndal sem háði sína kosningabaráttu á grundvelli þessara orða m.a. Auðvitað kostaði tugi milljarða að eyða biðlistum Framsfl. en á móti gerðist það, herra forseti, að þúsundir fjölskyldna eignuðust þak yfir höfuðið. Um leið stórjukust skuldir landsmanna. Það varð til þess að það varð stórkostleg fjölgun í félagslega húsnæðiskerfinu. Það fjölgaði verulega í hópi þeirra sem eignuðust sínar eigin íbúðir. Það sem auðvitað skiptir mestu máli fyrir þá sem fylgja jafnaðarhugsjóninni er sú staðreynd að stórátak var gert til að hjálpa þeim sem bjuggu við greiðsluerfiðleika og stórátak var gert til að hjálpa þeim sem voru það illa bjargálna að það var erfitt fyrir þá, af eigin rammleik, að reisa sér þak yfir höfuð. Það er auðvitað þetta sem skiptir mjög miklu máli og menn verða að gera sér grein fyrir því að skuldaaukningin segir ekki alla söguna.

Vegna þess að því var jafnan haldið fram að hlutfall húsnæðisskulda af skuldum heimilanna hefði aukist, þá tel ég rétt að nefna það nokkuð. Þetta kom m.a. fram í ræðum manna sem nú eru ráðherrar Framsfl. Þeir sögðu ekki frá því, þegar þeir voru á fundum með kjósendum sínum, að ef skýrsla Þjóðhagsstofnunar er lesin þá kemur í ljós að þar er vakin sérstök athygli á því að húsnæðisskuldirnar sem hlutfall af heildarskuldum heimilanna hefðu farið lækkandi í tíð Alþfl. Heimilin skulduðu hlutfallslega minna vegna húsnæðiskaupa en áður. Þetta var niðurstaða Þjóðhagsstofnunar. Svona gekk nú þetta kerfi sem Alþfl. setti upp og Framsfl. hefur sagt að sé óalandi og óferjandi og nú sé nauðsynlegt, sökum þessarar fortíðar, að ráðast á með oddi og sleggju og keyra yfir eins og þegar bryndreki valtar yfir strákofa.

Ég gæti komið með ýmsar fleiri tölur, herra forseti, en ég ætla ekki að gera það. Ég held að þetta nægi til að sýna fram á að ýmsar þeirra forsendna sem framsóknarmenn hafa gefið sér fyrir því að núverandi kerfi uppfylli ekki sitt hlutverk og það hafi steypt mönnum í ógöngur, eru ekki réttar. Það var líka athyglisvert, herra forseti, að sjá það á úttektum sem gerðar voru, m.a. að ósk framsóknarmanna á þeim tímum, hvaða fólk var í vanskilum. Við þurftum langar stundir að hlusta á sönginn hjá Framsfl. um að þessi stefna, þetta kerfi sem nú á að svipta burt eins og feysknum stoðum, hefði steypt láglaunafólkinu, lítilmagnanum í íslensku samfélagi, í efnahagsleg vandræði. Hins vegar kemur í ljós þegar kannanir á því hverjir það voru sem hafa lent í vanskilum eru skoðaðar, að þá er það ekki maðurinn, sem Albert Guðmundsson, sá ágæti fyrrum kollegi okkar, kallaði ,,litla manninn``, sem varð fyrir fjárhagslegum þrengingum vegna húsnæðiskaupa.

[21:30]

Að obbanum voru það þeir sem voru yfir landsmeðaltali í tekjum sem lentu í hinum fjárhagslegu þrengingum. Það var því ekki litla fólkið sem sætti einhverjum hörmungum eins og Framsfl. sagði. Hins vegar er svo undarlegt að þegar maður skoðar húsnæðisfrv. sem nú liggur fyrir er það alveg ljóst að þeir sem koma verst út úr því eru þeir sem Albert Guðmundsson hefði kallað ,,litla manninn``, fólkið sem á erfiðast. Það eru einstæðu foreldrarnir, aldraðir og öryrkjar. Mér er ekki tamt, herra forseti, að fara með dramatískan söng um þá sem eiga erfitt í þjóðfélaginu en það er samt sem áður staðreynd að hér er verið að svipta burtu einum mikilvægasta hlutanum í hinu íslenska velferðarkerfi.

Framsfl. lofaði því að kjósendur gætu tínt af jörðunni manna sem félli af himnum og gylliboðin voru raunar ótrúleg. Ég er viss um að jafnskynsömum manni í fjármálum og hv. þm. Pétri H. Blöndal þætti það með ólíkindum ef ég færi með öll þessi loforð. Ég ætla ekki að gera það. Ég ætla, herra forseti, að rifja upp örfá loforð.

Ég ætla að rifja það upp að Framsfl. lofaði í stjórnmálaályktun frá flokksþingi sínu að láta Húsnæðisstofnun grípa til björgunaraðgerða til að aðstoða fólk við að greiða úr skuldavandamálum heimilanna. Ég efa ekki góðan vilja hæstv. félmrh. og ég veit hann heldur því fram að hann hafi lagt sitt litla lóð á vogarskálar réttlætisins í þessum tilgangi en staðreyndirnar tala öðru máli.

Framsfl. lofaði líka að setja sérstakt frv. um greiðsluaðlögun. Ég minnist þess að ég varð glaður við þegar Framsfl. flutti frv. um greiðsluaðlögun. Ástæðan var sú að ég hafði ásamt fyrrv. þingmanni, Sigbirni Gunnarssyni, flutt þáltill. sem gekk þó miklu skemmra. Þegar þetta frv. framsóknarmanna var flutt, svo að segja orðrétt, þegar kom fram á þetta kjörtímabil, hlaut það engan stuðning. Þá gerðist það, eins og í því frv. sem hæstv. umhvrh. flutti um skipulagsmál á dögunum, að þeir brugðu fæti fyrir sína eigin hugarsmíð og það hlýtur að mega kallast, herra forseti, nöturleg kaldhæðni og mætti eiginlega orða það svo að þar komi menn aftan að sjálfum sér eins og segir í góðu ljóði eftir Stein Steinarr.

Framsfl. lofaði m.a. að frysta skuldir meðan lausna væri leitað fyrir fólk í tímabundnum greiðsluörðugleikum. Herra forseti. Hvar sjáum við það að skuldir hafi verið frystar? Ætli hv. þm. Magnús Stefánsson geti bent mér á einhver dæmi þess að Framsfl. hafi beitt sér fyrir því að skuldir hafi verið frystar? Að sjálfsögðu ekki. Þetta voru orðin tóm. Þetta voru loforð, sett fram til að ginna fólk, til að gylla Framsfl. fyrir fólki. og kaupa sér atkvæði. Greiðslan er komin á gjalddaga, herra forseti, og dráttarvextirnir hlaðast upp. Þrátt fyrir greiðsluáskoranir kjósenda stendur enn á því að Framsfl. inni þessa greiðslu af höndum.

Ég minnist þess einnig að í blaði, sem gefið er út hér í borg og heitir DV, birtist auglýsing 3. apríl 1995. Auglýsandinn var Framsfl., eins og kom fram í auglýsingunni, og þar var beinlínis lofað að lækka skuldir þeirra sem ættu í húsnæðiserfiðleikum. Enginn hefur síðan heyrt um þessar fyrirætlanir. Hæstv. núv. iðnrh. endurtók þetta loforð í blaðagrein sem birtist í blaði sem þá var gefið út og hét Tíminn. Hann er líka gersamlega búinn að tapa minninu. Það bólar ekkert á þeirri lækkun skulda sem Framsfl. lofaði.

Framsfl. lofaði, svo ég rifji það upp, herra forseti, að lækka skuldir, lækka vextina, frysta skuldir, koma á greiðsluaðlögun, koma á björgunaraðgerðum og ég spyr auðvitað, herra forseti: Hvar eru efndir þessara loforða sem hæstv. félmrh. á fyrir hönd síns flokks að beita sér fyrir að hrint verði í framkvæmd? Það hefur ekki gerst enn þá, herra forseti.

Frv. sem við erum að ræða er að flestu leyti ekki nægilega gott. Auðvitað er þar ýmislegt til bóta. Ég nefni til að mynda fækkun lánaflokka, það er til bóta. Ég held líka það sé til bóta að auka valfrelsi í kerfinu eins og fram kemur í þessu frv. Ég rifja jafnframt upp, herra forseti, að árum saman hefur til að mynda verkalýðshreyfingin óskað eftir umbótum á kerfinu sem einmitt leiddu til aukins valfrelsis, en það hefur ekki verið gert. Ég held að flest annað sem kalla má burðarása í þessu frv. sé óheillavænlegt.

Þá þurfum við auðvitað að koma að prinsippspurningunni, sem við höfum áður, hið íslenska þjóðfélag, svarað sameiginlega játandi: Eigum við að halda uppi því velferðarkerfi sem við höfum byggt sameiginlega upp? Það er rétt að rifja upp að íslenskt samfélag er dálítið sérstakt. Við erum eyþjóð, fámenn í stóru og dreifbýlu landi og það er dýrt að vera Íslendingur. Fjarlægðin frá umheiminum hefur reynst okkur dýr, og það hefur verið erfitt að vera Íslendingur. Í gegnum aldanna rás höfum við farið gegnum þrengingar en eitt hefur orðið til úr þessari löngu göngu kynslóðanna og það er ákveðin samkennd, samhjálp sem hefur orðið hinn rauði þráður í starfi félagasamtaka sem kalla má undanfara núverandi stjórnmálaflokka. Löngum var það líka einn af þráðunum sem héldu saman flokkum sem í dag eru bæði í stjórnarandstöðu og stjórn á hinu háa Alþingi.

Það hefur verið eins konar samstaða um það að byggja upp þetta velferðarkerfi og viðhalda því. Þær breytingar sem á því hafa verið gerðar, jafnvel á tímum djúprar efnahagskreppu eins og í byrjun þessa áratugar, er í besta falli hægt að kalla kompásleiðréttingar. Þar er verið að leiðrétta ákveðnar kompásskekkjur sem segja má að hafi verið komnar í kerfið. Það var hins vegar hvergi vegið að grundvallaratriðum velferðarinnar.

Við höfum verið sammála um það Íslendingar, hvar í flokki sem við stöndum, að við viljum að skólakerfið sé ókeypis. Við viljum að heilsugæslan sé ókeypis og við viljum hjálpa þeim sem lenda í nauð. Við viljum bæði hjálpa þeim til að fleyta sér áfram í lífsbaráttunni en einnig hjálpa þeim til að koma sér upp húsnæði. Um þetta hefur í sjálfu sér ekki verið neinn stórágreiningur. Þegar menn tóku að deila á þetta kerfi var það í kjölfar ákveðinnar stjórnmálstefnu sem illu heilli barst hingað frá ströndum Bretlands og kölluð var nýfrjálshyggja. Nú er það að vísu svo að það er enginn merkisberi hennar lengur í Sjálfstfl. sem fyrstur ruddi henni braut. Það er kannski helst að hv. þm. Pétur H. Blöndal geti kallast fulltrúi hinnar geðfelldu hliðar nýfrjálshyggjunnar. Það er enginn þingmaður sem lengur treystir sér til að koma upp og verja hana. Hæstv. forsrh. byrjaði feril sinn á þingi sem einn slíkra manna. Hann er auðvitað orðinn eins og hver annar félagslegur framsóknarmaður að því leyti, ef maður ber saman stöðu hans í dag við afstöðu hans þá.

Þannig er það, herra forseti, að menn hafa staðið vörð um þetta félagslega velferðarkerfi og um það hefur ágreiningurinn kannski verið nú á allra síðustu missirum í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það er í tíð þessarar ríkisstjórnar sem menn hafa í fullri alvöru talað um að einkavæða heilbrigðiskerfið. Menn hafa jafnvel talað um að einkavæða skólakerfið. Það var að vísu tilraun sem hófst hér og er strand. Sú stefna hefur ekki lengur neinn forgöngumann nema stöku þingmann innan Sjálfstfl., herra forseti. Í þessu kerfi hafa verið það sem ég kalla tvær fjárveitur, þ.e. almannatryggingakerfið og húsnæðiskerfið. Þetta eru burðarstoðir velferðarinnar. Þetta eru stofnanirnar sem Alþingi hefur orðið sammála um í fortíðinni að setja á laggir til að jafna aðstöðuna og flytja fjármagn frá þeim sem hafa úr miklu að spila til hinna sem verjast í vök og hafa ekki náð því nema rétt tæplega að verða bjargálna.

Nú stöndum við frammi fyrir því að það er verið að vega að rótum þess kerfis sem tengist húsnæðismálunum. Ég tel að þar sé mjög illa af stað farið, herra forseti. Ég tel að það sem hér er að gerast skaði frekar þá sem eiga um sárt að binda, einstæða foreldra sem eiga erfitt með að fleyta sér í gegnum lífið, ýmsa þá sem hafa lent í erfiðleikum sökum sjúkdóma eða slysa eða vegna þess að þeir eru orðnir gamlir og geta því ekki otað sér áfram í lífsbaráttunni jafnkappsamlega og þegar þeir voru frískari og yngri, eða eins og við sem enn erum á góðum aldri og lifum góðu lífi. Ég tel, herra forseti, að þetta fólk muni fara mjög illa út úr þessu kerfi. Það get ég ekki sætt mig við. Ég held að hægt væri að samþykkja margt af því sem hér er, ef betur væri tekið á þessu fólki. Ég er þeirrar skoðunar að ein af grundvallarspurningunum í íslensku samfélagi sé: Eigum við að halda þessu félagslega velferðarkerfi? Eigum við að halda áfram að taka fjármagn frá þeim sem betur mega sín til þess að styrkja, með beinum greiðslum í einu eða öðru formi, þetta fólk til að geta lifað því sem við höfum sjálf skilgreint sem mannsæmandi líf?

Eitt af því sem við höfum gert er að gefa þessu fólki kost á lánum til húsnæðiskaupa innan félagslega kerfisins með einungis 1% vöxtum. Þetta kostar mikið fé og ég skil, herra forseti, að þeir sem eru þeirrar skoðunar að hver eigi að vera smiður sinnar eigin gæfu og menn eigi ekki að reiða sig á samhjálp hins íslenska samfélags, finnist það of mikill peningur. Um þetta eru grundvallarátökin í stjórnmálunum og ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki verjandi. Þess vegna er ég jafnaðarmaður. Þess vegna fylgi ég ekki hv. þm. Pétri H. Blöndal, og öðrum þeim sem í hans flokki eru, að málum. Þetta eru grundvallarspurningar.

Ég tel sem sagt að samfélagið eigi að taka þátt í lífsbaráttu þessa fólks, það eigi að reiða fé af höndum. Það er grundvallarsannfæring mín í stjórnmálunum. Hún ræður því hvorum megin víglínunnar ég er. Ég skil það alveg og virði að aðrir hafi aðrar skoðanir en mér þykir það dapurlegt og ég á erfitt með að fella mig við það. Ég sé að það getur leitt menn út í svo miklar ógöngur, þá er ég ekki að tala um þá sem hafa þessar skoðanir, heldur það fólk sem hefur orðið þessa kerfis aðnjótandi, sem hefur getað lifað lífi sem við a.m.k. getum kallað mannsæmandi vegna þess að samfélagið hefur komið til hjálpar.

Í dag er verið að svipta þessu burtu. Því finnst mér það svo sárgrætilegt, jafnvel þyngra en tárum taki, herra forseti, að það skuli vera Framsfl., afsprengi Jónasar frá Hriflu, sem studdi og jafnvel ýtti verkalýðshreyfingunni úr vör, sem tekur þátt í þessu óhæfuverki. (Gripið fram í.) Ég er klár á því.

Herra forseti. Af því hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spyr um það hvort ég hafi áður farið yfir þetta. Ég hef farið örlitlum minningarorðum um þá veru sem við erum í rauninni að husla með heldur ókræsilegum hætti, sem er þetta félagslega húsnæðiskerfi sem ég er stoltur af að hafa átt þátt í a.m.k. að viðhalda. Ég minnist þess, herra forseti, af því að fyrir framan mig situr hinn skeleggi þingmaður, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, að mér hlotnaðist sú gæfa á síðasta kjörtímabili að styðja hana í nokkrum átökum sem einmitt urðu um það mál, árið 1992 ef ég man rétt, og urðu til þess að a.m.k. eina dagstund var sú ríkisstjórn í háalofti og lá við hún lenti í tætlum á gólfinu. Þá sætti hæstv. forsrh. og það lið sem honum fylgdi að málum í ríkisstjórninni --- látum liggja milli hluta í hvaða flokki það var allt saman --- sig ekki við þær tillögur sem hv. þm. lagði fyrir.

[21:45]

Herra forseti. Það frv. sem liggur fyrir, svo ég snúi mér nú aðeins að nokkrum efnisatriðum í þessu frv. sem ég tel auðvitað að sé nauðsynlegt að ræða. Ég vil þó taka fram, til að skapa ekki óróa hjá þingmönnum, að ég ætla mér ekki að lesa upp úr þeim fjölmörgu álitsgerðum sem þinginu hafa borist um þetta. Mig langar að fara nokkrum orðum um einstaka þætti í þessu frv. og ef tími gefst til, að ræða ákveðna hluti út frá sjónarmiðum húsnæðissamvinnufélaga sem ég hef alltaf stutt mjög dyggilega. Ég tek hins vegar eftir því mér til óblandinnar óánægju að þau éta það sem úti frýs í þessu frv. Það er alveg sama hvar borið er niður í þessu frv., það er nánast ekkert sem tryggir rétt þeirra áfram.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, af því menn eru að tala um valfrelsi og það er eitt af því sem er kallað hið góða í þessu frv., að menn eigi að hafa valfrelsi. Menn eiga t.d. að ráða því, ef þeir vilja búa í leiguíbúðum eiga þeir að eiga kost á að búa í leiguíbúðum. Ef þeir vilja koma sér upp þaki yfir höfuð og eiga sínar íbúðir, þá tel ég rétt að við reynum það einhvern veginn eins og við höfum reynt í gegnum hið félagslega húsnæðiskerfi. Það er bara fullt af fólki sem vill hvorki vera í leiguíbúð né eignast sína eigin íbúð. Margir vilja búa í íbúðum þar sem menn kaupa búseturétt. Það er bara alveg sjálfsagt að menn hafi þann rétt. Sá réttur sýnist mér fyrir borð borinn þegar kemur að þessu frv. hæstv. félmrh. um húsnæðismál.

Eitt mál, herra forseti, langar mig að reifa strax í upphafi og það er meðferðin á starfsfólki Húsnæðisstofnunar ríkisins. Þetta frv. var auðvitað samið með leynd og í skyndingu. Enginn fékk að koma að því. Verkalýðshreyfingin fékk ekki að koma að því, stjórnarandstaðan fékk að sjálfsögðu ekki að heyra af því, en óbeit hæstv. félmrh. á Húsnæðisstofnun, sem hvergi dylst, varð þess valdandi að hann fór með vélum og lævi og lét búa þetta til á bak við. Starfsmenn stofnunarinnar fengu ekkert að vita um þetta. Þeir fengu hvergi að ræða þetta frv. Það sem meira var er að segja má að þeir hafi verið settir naktir og klæðlitlir út í kuldann.

Ég hef nú tekið þátt í því, herra forseti, nokkrum sinnum frá því mér auðnaðist kjör til hins háa Alþingis, að gera ríkisstofnanir að hlutafélögum. Í hvert einasta skipti hefur með einhverjum hætti verið tekið á málefnum starfsmanna. Ég minni á að ég var formaður iðnn. þegar frv. um hlutafélagavæðingu Sementsverksmiðjunnar var tekið gegnum þingið. Ég stýrði þeirri för. Ég stýrði sömuleiðis för frv. um hlutafélagavæðingu Síldarverksmiðja ríkisins í gegnum þetta þing sem starfandi formaður sjútvn. í fjarveru þáv. þm. Matthíasar Bjarnasonar. Ekki nokkrum lifandi manni datt í hug að sýna þau frv. öðruvísi en búið væri að taka á rétti starfsmannanna. Í þessu frv. er ekkert gert í því. Ég er viss um að sumir hv. þm. Framsfl., sem geisuðu mjög yfir því að sá réttur sem við þó gáfum, í þeim frv. sem ég nefndi áðan, væri starfsmönnum viðkomandi fyrirtækja fullkomlega ónógur, hljóta í hjarta sínu að sjá eitthvað athugavert við það sem þarna er verið að gera á hlut starfsmanna Húsnæðisstofnunar ríkisins.

Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvort verið geti að hin kaldranalegu samskipti Húsnæðisstofnunar og félmrh. og sú staðreynd að Húsnæðisstofnun ríkisins, sem lýtur þingkjörinni stjórn, hefur ekki farið í einu og öllu að valdi og vilja hæstv. félmrh., geri það að verkum að starfsmennirnir fá þessa útreið. Herra forseti. Getur það verið að það séu einhverjar slíkar hvatir sem ráða því? Ég neita að trúa því, herra forseti. Ég neita að trúa því að það valdi því hvernig farið er með starfsfólk Húsnæðisstofnunar. Hitt verð ég að segja að mér blöskrar. Mér bókstaflega blöskrar að öllu starfsfólki stofnunarinnar er sagt upp og engin ákvæði eru um forgang þeirra til starfa eins og verið hefur þegar rekstrarformi ríkisfyrirtækja hefur verið breytt. Það hefur aldrei tíðkast þegar Alþfl. hefur komið að því máli.

Ég minni líka á það að árið 1989 kom Alþb. að slíkum breytingum á þremur ríkisfyrirtækjum, herra forseti. Þar var glögglega tekið á því hvernig fara ætti með rétt starfsmannanna.

Félag starfsmanna Húsnæðisstofnunar ríkisins hefur skorað á ráðherrann að beita sér fyrir því að bætt verði við ákvæði sem tryggi starfsmönnum stofnunarinnar sambærileg störf hjá hinum nýja sjóði. Við skulum sjá hvernig það verður, herra forseti. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að farið verði með stofnunina eins og í þessu frv. Það verður ekki skilið við þetta mál öðruvísi en að einhvers konar trygging verði gefin fyrir þessum forgangi. Ég held líka, þrátt fyrir þau pólitísku átök sem orðið hafa milli hæstv. félmrh. og stofnunarinnar, að samt sem áður hljóti að mega finna, meðal þeirra 50 starfsmanna sem sumir hafa um áratugi farið nærfærnum höndum um þennan viðkvæma þátt hins íslenska velferðarkerfis, sjóð þekkingar og reynslu sem komið gæti hinum nýja Íbúðalánasjóði til góða.

Herra forseti. Ég ætlaði að ræða lítillega hvort það geti verið að það sé verið að blekkja sveitarfélögin. Getur verið að sveitarfélögin hafi ekki gert sér grein fyrir því hvernig þau þurfa að koma að málunum, að þessu frv. samþykktu? Ég ætla, herra forseti að geyma mér það þar til seinna í ræðu minni. Það sem mig langar að gera, herra forseti, er eins og ég sagði áðan, að drepa lítillega á þær greinar í þessu frv. sem varða byggingar- og húsnæðissamvinnufélög. Sérstaklega ætla ég að gera það út frá sjónarhóli samtaka sem nefnast Búseti. Þeir hafa tekið að sér að vera forgöngumenn búseturéttar hér á Íslandi og hafa í því efni fylgt frumkvæði nágranna okkar á Norðurlöndum. Að vísu er reynt að sefa andmæli þeirra með því að segja að í haust eigi að samþykkja annað frv. sem fjalli sérstaklega um málefni þeirra. Það vill svo til að það frv. hefur líka verð lagt fram og er að mörgu leyti alveg stórkostlega gallað að því er varðar þeirra hlut. Ég harma auðvitað að Búseta og húsnæðissamvinnufélögunum, sem Framsfl. á svo mikinn frumburðarrétt að hér á Íslandi, skuli ekki að neinu leyti hafa verið gefinn kostur á að koma að samningu bæði þess frv. sem ég nefndi áðan og líka þess frv. sem nú er í umræðunni.

Þegar unnið var að þeim lögum sem gilda núna um húsnæðissamvinnufélög og búseturétt áttu fulltrúar Búseta sæti í nefndinni sem samdi frv. Þeim gafst góður kostur á að koma sjónarmiðum þessarar nýju hreyfingar að við samningu frv., sem fjallar um félagslegar íbúðir og varð að lögum árið 1990. Mig minnir að við höfum breytt þeim tvisvar sinnum á síðasta kjörtímabili. Það er auðvitað merkilegt, herra forseti, að þegar framsóknarmaðurinn Páll Pétursson, hæstv. ráðherra, er orðinn valdsmaður í félmrn., þá kannast hann ekki við frumburðarrétt Framsfl. að þessu máli. Þá er hann búinn að gleyma því hve oft hann, fyrir 1990, tók upp mál sem tengdust einmitt búseturéttarhreyfingunni. Hann gerðist málsvari þeirra hér. Þó þessi félög, sem nú eru nokkuð á þriðja tuginn og dreifð um landið, hafi oftar en einu sinni leitað eftir því við félmrn. að koma að breytingum á núgildandi lögum, ef um heildarendurskoðun laganna yrði að ræða eins og liggur nú fyrir í því frv. sem verður rætt næsta haust, þá hefur ráðherrann hæstv. daufheyrst við öllum óskum þeirra. Þess vegna skil ég mætavel að fjölmörg félög innan landssambands Búseta hafi sent frá sér ályktanir þar sem er skorað á hæstv. ríkisstjórn að fresta afgreiðslu þessara frv. á þessu þingi til að tóm gefist til að fara ofan í þær fjölmörgu ábendingar sem tengjast auðvitað skorti á varðgæslu um rétt búseturéttarhreyfingarinnar í þessu frv.

Mig langar, herra forseti, af því ég hef drepið lítillega á það hversu skelfilega er hugað að málum þeirra sem þurfa að búa að leigumarkaðnum í framtíðinni, að benda á hversu hraksmánarlega nöturlegt er að lesa í 1. gr. frv. þar sem segir, herra forseti, um tilgang laganna að hann eigi m.a. að vera til þess, með leyfi forseta: ,,... að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum``.

Nú er margsinnis búið að sýna fram á það í þessari umræðu, og ég ætla ekki að tefja tíma hins háa þings með því að endurtaka það, að hundruð fjölskyldna, sem ná viðmiðunum sem núgildandi félagslega kerfið setur, munu ekki komast inn í hið nýja kerfi. Þau munu ekki ná þeim greiðsluviðmiðunum, þótt þær séu óljósar í frv., sem þarf til þess að hljóta lán úr hinum nýja Íbúðalánasjóði.

Hvert leita þau, herra forseti? Þau leita á náðir leigumarkaðarins. Og það eru aðrir sem sækja að leigumarkaðnum. Það eru búferlaflutningar hingað til höfuðborgarsvæðisins, á suðvesturhornið, og góðu heilli er þessari þjóð að fjölga.

Góðu heilli tekst okkur að draga okkar unga, vaska fólk aftur frá útlöndum þegar það hefur lokið námi. Við erum ekki enn komin í þá stöðu eins og ýmsar aðrar þjóðir að tapa blóma kynslóðanna í burtu. Þetta unga fólk, herra forseti, þarf á leigumarkaðnum að halda. Í framtíðinni mun ungt menntafólk, sem snýr heim frá námi, falla milli skips og bryggju. Það mun ekki, miðað við þá launastefnu sem tíðkast í ýmsum greinum háskólamenntaðra manna, ná þeim viðmiðunum sem þarf til að komast inn í kerfið. Það verður því einnig að leita á náðir leigumarkaðarins. Hver verður þá staða þessa leigumarkaðar? Hvernig er því marki, sem lýst er í 1. gr. þessara laga, um að auka möguleika fólks til að leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum, sinnt? Það hefur komið fram að frv. er að öllu leyti óljóst að þessu leyti.

Það hefur komið fram að fjármagnið sem á að verja til að fjölga leiguíbúðum nægir ekki nema fyrir 50 íbúðir. Það hefur komið fram að bara í Reykjavík muni á næstu árum þurfa hundruð svona íbúða. Herra forseti. Ég vek sérstaka athygli á þessu því það er eins og hæstv. ríkisstjórn sé bókstaflega að gera grín að þingheimi. Hún er að gera grín að fátæku fólki, gera grín að þjóðinni allri með því að leyfa sér að segja í 1. gr. frv. að það eigi að hjálpa fólki, auka möguleika fólks á því að leigja húsnæði þegar það liggur alveg fyrir að stefnan í þessu frv. er þveröfug. Hún gengur út á það að fækka leiguíbúðunum. Það er ekki hægt að orða það öðruvísi. Þær leiguíbúðir sem eiga að vera aðgengilegar á markaðnum verða færri vegna þess að fólkinu sem slæst um þær fjölgar. Þetta er auðvitað alveg skelfilegt að lesa, herra forseti.

Í 2. gr. eru ýmsar skilgreiningar og margt sem ég gæti sagt að væri ekki nægjanlega skýrt. Mér finnst að í 2. gr. þurfi til að mynda að skilgreina miklu betur það þegar talað er um félög. Þar segir að félög merki auðvitað þau félög sem eru rekin að hætti samvinnufélaga, hlutafélaga, einkahlutafélaga eða sjálfseignarstofnana sem hafa að markmiði að byggja, eiga og reka leiguhúsnæði.

[22:00]

En, herra forseti, ég tel mjög nauðsynlegt að þarna sé einhvern veginn hnykkt á því hvort búseturéttarhreyfingin eigi ekki líka sinn rétt. Af hverju er hún ekki felld undir þessa skilgreiningu? Ég tel líka að á sama hátt þurfi að koma breiðari skilgreining á lánum til leiguíbúða, eins og vegna búseturéttar og hlutareignar, sem skortir algjörlega í orðskýringunum í 2. gr.

Ég vek líka athygli á því, herra forseti, að mér finnst afskaplega vafasamt að í 4. gr. þessa frv., þar sem verið er að ræða um Íbúðalánasjóðinn, kemur fram að hann á að lúta sérstakri stjórn. Og hérna erum við aftur komin að því sem er að verða eins konar karaktereinkenni þessarar ríkisstjórnar, þ.e. að það er einmitt verið að fara sömu leið og með Póst og síma og með bankakerfið. Það er verið að hlutafélagavæða, gott og vel. En hverjir eru settir þar yfir? Það eru auðvitað einhverjir gæðingar sem hæstv. ráðherrar velja. Það er alveg ljóst að eitt af því sem knýr hæstv. félmrh. til að koma þessu frv. í gegn er að honum hefur auðvitað verið mál að koma einhverjum gæðingum Framsfl. á garðann.

Ég er algjörlega á móti þessu, herra forseti. Mér finnst í fyrsta lagi vafasamt að fella allt vald og öll umsvif hins væntanlega Íbúðalánasjóðs undir vald félmrh., bæði með endalausum reglugerðum og sérstakri reglugerð sem talað er um í 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. frv. og síðan með því að skipa stjórnina beint. Ég velti því fyrir mér, af því að ríkisstjórnin talar um lýðræði og við búum í lýðræðisþjóðfélagi, hvort ekki hefði verið bragur á því að helstu hagsmunaaðilar að sjóðnum, eins og t.d. sveitarfélögin og félagasamtök á borð við Þak yfir höfuðið, ættu aðild að stjórn þessa sjóðs. Ég er viss um að ungtyrkir Framsfl. sem sitja hér í afkimum og afherbergjum eru í hjarta sínu sammála því vegna þess að þeir eru lýðræðissinnar. Ég trúi því. Ég treysti því.

Þetta finnst mér vera mjög ankannalegt, herra forseti, og ég er á móti þessu. Ég tel að það hefði átt að gefa þeim sem eiga að njóta þessa sjóðs einhvern þátt að því að koma á einhvern hátt að stjórn hans. Ég bendi á að ég hef ásamt ágætum þingmanni, hv. þm. Ágústi Einarssyni, einmitt með sömu röksemdafærslu flutt frv. til að breyta lögum um almannatryggingar þar sem við hv. þm. Ágúst Einarsson gerum því skóna að rétt væri --- nákvæmlega með þessum sömu röksemdum og ég var að flytja hérna áðan --- að t.d. fulltrúar öryrkja, aldraðra og fleiri slíkra hópa kæmu að tryggingaráði. Af hverju? Vegna þess að Tryggingaráð vélar um þeirra mál. Íbúðalánasjóðurinn og stjórn hans vélar um mál þessara félagasamtaka eins og Þaks yfir höfuðið. Og hvers vegna fá þau þá ekki að koma þar að? Það mætti kannski spyrja hv. þm. Magnús Stefánsson hvort hann teldi það ekki a.m.k. einnar messu virði að íhuga hvort ekki væri rétt að leyfa þessum félagasamtökum að hafa a.m.k. áheyrnaraðild þarna. Eða er það sem á að gerast í þessari stjórn með þeim hætti að það þoli ekki utanaðkomandi augu? Er það kannski þannig að þetta sé einn parturinn af þeirri veislu sem flokkur hæstv. forsrh. lýsti fyrir nokkrum árum þegar hann sagði að það þyrfti rétt flokksskírteini til þess að komast í veisluna? Maður veltir því auðvitað fyrir sér.

Ég segi líka, herra forseti, að í 9. gr. þykir mér aftur skorta á að hæstv. félmrh. minnist fortíðar sinnar og gamallar samhyggju með búseturéttarhreyfingunni. Þar segir í 2. tölul. um verkefni Íbúðalánasjóðs að hann skuli annast lánveitingar til sveitarfélaga og félagasamtaka til að byggja eða kaupa leiguhúsnæði. Herra forseti. Ég er viss um það að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, skeleggur liðsmaður búseturéttarhreyfingarinnar eins og kom margsinnis fram á ferli hennar í félmrn., tekur undir með mér að því leyti til að hér ætti auðvitað líka að tala um búseturéttaríbúðir. (JóhS: Að sjálfsögðu.) ,,Að sjálfsögðu,`` segir hv. þm. og sannast það nú enn að að þessu leyti erum við kannski ekki svo ýkja fjarri hvort öðru eins og í mörgu öðru.

Mér finnst líka skjóta skökku við þegar verið er að tala um í 14. gr. að húsnæðisnefndir sveitarfélaganna eigi að gera árlegar áætlanir fyrir viðkomandi sveitarfélag um þörf á íbúðarhúsnæði, að þá skuli ekki vera gert ráð fyrir því að meðal verkefna húsnæðisnefndanna skuli vera samráð við einmitt þau félagasamtök og félög innan sveitarfélagsins sem standa að rekstri og byggingu íbúðarhúsnæðis og ég tala nú ekki um leiguíbúða.

Ég vek líka athygli á því, þegar við komum yfir í 15. gr. um húsnæðislánin, að þá segir í 3. tölulð að Íbúðalánasjóðurinn skuli annast lánveitingar, m.a. til leiguíbúða á vegum sveitarfélaga, félagasamtaka og félaga samkvæmt tilteknum kafla þessara laga. Og hvað þýðir þetta, herra forseti? Getur það verið að hér sé hæstv. félmrh. enn einn ganginn að gleyma hreyfingunni sem hefur unnið sér þegnrétt í hinu íslenska velferðarkerfi og búið til ákveðið val í kerfinu, þ.e. búseturéttarhreyfingunni? Það skýrist nú þegar maður les greinargerðina með þessari 15. gr. frv. Og þar er það alveg skýrt, það er ekki hægt að sjá eitt einasta orð sem gerir ráð fyrir því að lánveitingar varðandi húsnæðislán tengist þessum búseturéttaríbúðum.

Í 17. gr. þar sem verið er að tala um hlutverk húsbréfadeildar finnst mér að einhvers konar opnun á húsbréfakerfið vanti fyrir félög og félagasamtök og mér finnst þurfa að taka það fram í sambandi við þau verkefni sem talin eru upp varðandi framtíðarverkefni þeirrar deildar og eins og kemur fram í VI. kafla um húsbréfin. Þar er að vísu reglugerðarheimild, ein af 28 eða 34. Það fer eftir því hvernig maður telur það. En ég spyr: Er það reglugerðin og reglugerðarheimild ráðherra sem á að opna fyrir Búseta þarna? Eða hvar? Hvar á með einhverjum hætti að opna fyrir þá merku hreyfingu? Það er auðvitað hvergi gert.

Ég hef fyrr í ræðu minni rætt um viðbótarlánin sem ég tel náttúrlega vera veikasta part þessa frv. Ég tel, herra forseti, að í VII. kaflanum, sem fjallar um viðbótarlánin þurfi að vera alveg ljóst að viðbótarlánin séu líka til staðar fyrir félög og félagasamtök eins og Búseta ef þau eiga að geta nýtt sér þetta kerfi. Ég vek máls á þessu, herra forseti, vegna þess að í þessari umræðu hefur enginn fjallað ítarlega um þær breytingar sem þarf að gera á frv. með tilliti til þeirrar hreyfingar.

Í VIII. kafla sem fjallar um lán til leiguíbúða er önnur grein sem ég geri sterkar athugasemdir við. Þar segir að Íbúðalánasjóðurinn veiti sveitarfélögum, félögum og félagasamtökum, er hafa að markmiði að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis, lán til að byggja eða kaupa slíkt leiguhúsnæði. Það er ekkert talað um búseturéttinn, ekki neitt. Hann er sérstakur. Hann er hvorki leiga né heldur bein eign og þar af leiðandi er ekki hægt, finnst mér, að ljúka þessu máli öðruvísi en að einhvern veginn sé kveðið á um hina réttarlegu stöðu þessarar hreyfingar. Hún býr við algjöra óvissu og það finnst mér vera afar slæmt. Það sama gildir auðvitað, herra forseti, um ýmsar fleiri greinar í þessu frv.

Svo er eitt sem ég á erfitt með að sætta mig við og það er undarleg miðstýringarárátta sem kemur fram í þessu frv. Maður les t.d. í kaflanum um lánin til leiguíbúða, greinina sem fjallar um samþykktir. Það er aldeilis með ólíkindum. Það er ekki nóg, herra forseti, að hæstv. félmrh. fyrirskipi þar hvaða ákvæði og hvers konar ákvæði eigi að vera í samþykktum félaga og félagasamtaka um eigið fé og fjárhagslega ábyrgð og alla skapaða hluti, heldur segir þar bókstaflega að félmrh. lætur gera fyrirmyndir að samþykktunum. Það er að vísu ekki gengið svo langt að segja að hæstv. félmrh. eigi að gera samþykktirnar og undirrita þær fyrir viðkomandi félagasamtök, en það er sagt að hann eigi að gera fyrirmyndir af þeim. Ég verð nú að segja, herra forseti: Er ekki einum of langt gengið á þessari öld sem hefur hafnað hinu sovéska miðstýringarkerfi að fela félmrh. að gera fyrirmyndir af samþykktum fyrir einstök félög og samtök sem í flestum tilvikum eru frjáls félög og félagasamtök? Er það ekki einum of langt gengið? Ég sé að hv. þm. Magnús Stefánsson gefur til kynna með höfuðhneigingu sinni að hann er mér sammála um þetta. Ég vænti þess þá að hann beiti sér fyrir því á einhvern hátt að þessu ákvæði sem er að finna í 36. gr. verði hnekkt.

Ég tel sömuleiðis að í 38. gr. sé ýmislegt vafasamt þar sem verið er að ræða um lánskjörin. Ég tel t.d. út af fyrir sig vafasamt að taka það fram alveg sérstaklega að vextir af lánum til leiguíbúða skuli vera breytilegir. (Gripið fram í: Það er búið að breyta þessu.) Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir að benda mér á það. (Gripið fram í.) Þrátt fyrir ítarlegan lestur minn, herra forseti, á þessu frv. og þeim brtt. sem hér liggja fyrir hefur mér skjöplast þarna. Ég hef sennilega farið línuvillt þegar ég var að fara yfir þetta. Ég gerði mér ekki algjörlega grein fyrir þessu, herra forseti.

Í 41. gr. er fjallað um leiguíbúðir sveitarfélaga. Þar er talað um hvernig eigi að haga t.d. þeim félögum sem fara með leigubúðir innan sveitarfélags en ég verð að segja, herra forseti, að þarna finnst mér líka að félög og félagasamtök eins og Búseti ættu að hafa sérstakan rétt til að stofna félög um rekstur leiguíbúða til samræmis við hliðstæðan rétt til sveitarfélaganna. Mér finnst það eiginlega liggja í augum uppi og sér í lagi með hliðsjón af þeirri reynslu sem við höfum af því hversu vel búseturéttarhreyfingunni hefur gengið einmitt að annast slíkan rekstur. Ég minni á að í nokkrum sveitarfélögum hefur hreyfingunni einmitt verið falinn rekstur slíkra leiguíbúða með sérstökum samningi við viðkomandi búsetufélag.

Þá kem ég að atriði sem ég gæti haft afar langt mál um, herra forseti, og það er ákvæði um varasjóðinn. Mér sýnist alveg ljóst, herra forseti, ef maður les saman 45. gr. og ég held að það sé VII. ákvæði til bráðabirgða, að þarna sé verið að færa sveitarfélögunum, í gegnum sérstakan varasjóð sem kemur í staðinn fyrir núverandi Tryggingasjóð, til eignar öll framlög í Tryggingarsjóð til þessa frá fjölmörgum félögum og félagasamtökum. Ég fæ ekki annað séð en að hér sé hreinlega um hreina eignaupptöku að ræða. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi. (Gripið fram í: Það er breytingartillaga um þetta líka.) Og hún er væntanlega ekki heldur til bóta? (Gripið fram í: Jú, ...) Jæja.

Herra forseti. Mér er bent á það sem ég gleðst yfir, að í einhverjum atriðum hefur hv. þm. Magnúsi Stefánssyni tekist að breyta þessu frv. nokkuð því þarna var satt að segja um að ræða það ákvæði sem ég átti langerfiðast með að sætta mig við. (Gripið fram í: Það gekk engan veginn.) Það var einfaldlega þannig. Og af því að ég hef eytt talsverðum hluta af minni ræðu til þess að ræða einmitt um það hvernig þetta frv. varðar rétt, eða eigum við að segja réttaróvissu, búseturéttarhreyfingarinnar, þá var það nú beinlínis þannig að ég gat ekki betur séð en að með hinu upphaflega ákvæði væri verið að taka 50 millj. kr. úr varasjóði hennar. Þetta er náttúrlega alveg skelfilegt og ég þakka fyrir að það er búið að breyta því.

[22:15]

Ég vakti athygli á því áðan, herra forseti, að þrátt fyrir það sem segir í 1. gr. um tilgang frv. þar sem segir að fjölga eigi leiguíbúðum er ekkert í frv. sem sýnir fram á að það sé eitthvað annað en orðin tóm. Þrátt fyrir þessar almennu yfirlýsingar um að fjölga leiguíbúðum sem valkosti fyrir það fólk sem ræður ekki við kaup á íbúðum er hvergi að finna nein markmið í frv. sem sýna fram á það. Engin ákvæði sýna fram á að það sé raunverulega ætlun ríkisstjórnarinnar og hæstv. félmrh. að fjölga leiguíbúðum. Þvert á móti tel ég að ég hafi fært ákveðin rök að því að þetta fyrirkomulag, sem hrindir fjölda fjölskyldna út á leigumarkaðinn, leiði til þess vegna þess að það á ekki samkvæmt þeim peningum sem koma fram í frv. að byggja nema 50 leiguíbúðir til viðbótar við þær sem nú eru þegar, þá er það alveg ljóst að þeim sem verða um þessar íbúðir fjölgar allverulega. Þar með er líka ljóst að eftirspurnin verður meiri en framboðið og eigum við kannski eftir að lifa það hér á Íslandi, í hinu íslenska velferðarkerfi, að horfa upp á fólk sem er án húsnæðis? Sú sátt sem hefur áratugum saman ríkt um þetta félagslega velferðarkerfi er rofin fyrir atbeina Sjálfstfl. og með atgervi Framsfl. og fólki bókstaflega hrint út á gaddinn.

Auðvitað er ég sannfærður um það að þegar á hólminn er komið mun það ekki ganga vegna þess að fólk mun rísa upp til að andmæla. En ég óttast ef frv. verður að veruleika muni skapast vísir að því ástandi. Ég er raunar að segja, herra forseti, að ég trúi ekki þeirri mannvonsku, sem ég les út úr þessu frv., upp á hæstv. ríkisstjórn. Ég held miklu frekar að þarna séu menn að vinna verk sem þeir vita ekki alveg hvað felur í sér. Ég held að þarna séu menn að troða slóða sem þeir vita ekki að leiðir þá fram af brún hengiflugsins. En það eru ekki þeir sem hrapa fram af heldur er það fátækt fólk í þjóðfélaginu sem nær ekki að stöðva sig. Það er það sem fer fyrir björgin. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að þegar fram í sækir muni ný ríkisstjórn breyta þessu hvort sem hún er með aðild stjórnarandstöðunnar eða annars þeirra flokka sem situr nú í ríkisstjórn. Ég er algjörlega sannfærður um það. En þessi yfirsjón, þetta glapræði sem er að finna í frv., er hins vegar til marks um vinnubrögðin öll. Hví segi ég það, herra forseti? Þetta er frv. sem hefur 50 lagagreinar og sjö bráðabirgðaákvæði, eitthvað svoleiðis, og við það eru gerðar milli 40 og 50 brtt. Ef ég man rétt þá taldi ég fast að 30 heimildir til ráðherra um að stjórna hlutunum með reglugerðum. (Gripið fram í: 28.) Nú, er það svo? Sá hæstv. forseti, sem situr nú á forsetastóli og gegnir með miklum ágætum embætti í ríkisstjórn Íslands veit auðvitað að þó að ráðherrar þurfi að hafa ákveðið svigrúm þá er það auðvitað með eindæmum að með 50 lagagreina frv. skuli vera 28 eða 29 heimildir til reglugerðar. Er ég nú viss um það að það væri miklu betra, fyrst menn þurfa á annað borð að vera að fara þessa leið, væri miklu betra að fara þá leið sem menn hafa t.d. beitt sér fyrir í heilbr.- og trn. þingsins, að safna þessu nú saman í eina grein. Það væri fallegra, herra forseti. (KÁ: Það er ekki vilji fyrir því hjá meiri hlutanum.) Það er greinilegt að hv. formanni félmn. hefur ekki tekist að beita fortölum á meiri hluta nefndarinnar jafnskilvirkt og formanni í heilbr.- og trn. sem hefur gert þetta að stefnu í starfi nefndarinnar. Þar af leiðir að í þau lagafrv. sem fara um hendur nefndarinnar, vandvirknisleg mjög, er þetta í gadda slegið.

Ég harma auðvitað, herra forseti, eins og ég hef sagt áður, að ekki var leitað neins samráðs. Það sem ég sé líka í þessu frv., er að ekki var leitað samráðs við verkalýðshreyfinguna í aðdraganda frumvarpsgerðarinnar og það virðist sem það eigi alls staðar að ýta burt fulltrúum verkalýsðhreyfingarinnar. Auðvitað er það svo að þarna er um að ræða ákveðinn pólitískan ágreining millum þeirra sem véla um þetta frv., um frumvarpsgerðina og okkar hinna. Það verður svo að vera. Ég tel þetta ekki einn af megingöllunum en það sýnir ákveðið viðhorf. Ég tel, herra forseti, að þetta séu ekki miklar þakkir fyrir það hlutverk sem verkalýðshreyfingin lék fyrir bara örfáum árum við að koma á þeim stöðugleika sem er nú undirstaða þeirrar velsældar sem við búum við í þjóðfélaginu í dag.

Það er jafnan sagt á tyllidögum, og ég minnist þess að m.a forsætisráðherrar úr þeim flokki, sem fer nú með forsrn., sögðu það á sínum tíma að ef ekki hefði verið fyrir atbeina verkalýðshreyfingarinnar hefði sá stöðugleiki, sem hefur núna einkennt íslenskt þjóðfélag, aldrei orðið að veruleika. Hvernig er verkalýðshreyfingunni þakkað? Henni er hrint út í snjóinn eins og klæðlitlu barni, hún fær hvergi að koma að, hvergi. Ég held að varðandi breytingar, herra forseti, á þessu frv. þyrftu menn sérstaklega í framtíðinni að líta til þessa.

Ég tek eftir því í greinargerð með frv. að menn sjá bersýnilega ofsjónum yfir þeim peningum sem hefur verið varið til þess að greiða niður vexti í félagslega íbúðakerfinu. Það er hins vegar svo skrýtið að höfundar þessa frv. sjá ekkert athugavert við það þó að ríkissjóður greiði niður vexti 3--4 milljarða á hverju ári í formi vaxtabóta en samanlögð greiðsla, niðurgreiðsla vaxta á öllum félagslegum lánum á árinu 1996 voru tæpar 500 millj. kr. vegna leiguíbúða og kaupleiguíbúða. Þarna kristallast ágreiningurinn, sá hluti þess ágreinings sem er uppi um velmegunarkerfið á Íslandi. Eigum við að taka fjármagn frá hinum betur stæða hluta þjóðfélagsins og afhenda með einum eða öðrum hætti þeim sem eru miður stæðir? Ég er auðvitað þeirrar skoðunar að svo sé, ég taldi að hæstv. félmrh. hefði obbann af sinni pólitísku ævi verið það líka en hæstv. ráðherrann er genginn í þau björg sem ég óttast að hann eigi ekki afturkvæmt úr. Þó vil ég, herra forseti, að hæstv. félmrh. viti að ég er að sönnu reiðubúinn til þess að draga hann aftur til mannabyggða. Í þeim heimi á hann miklu betur heima en meðal trölla í björgum, og segi ég þetta þó með fullri virðingu fyrir flokki hæstv. forseta.

Af því að hæstv. félmrh. hefur hlýtt á mál mitt, ég er sannfærður um það, veit hann að ég hef verið í nokkurri ræðu um búseturéttaríbúðir. Ég rifjaði það upp að hæstv. félmrh. gekk á árum fyrr, það eru ekki nema tíu ár síðan sem ég minnist þess, undir högg til verndar húsnæðissamvinnufélögunum og búseturéttarhreyfingunni. Kannski er við hæfi að til skamms tíma og kannski enn þá voru höfuðstöðvar þessarar hreyfingar í húsi þess látna leiðtoga Framsfl., sem menn af pólitísku sauðahúsi hæstv. félmrh. höfðu jafnan mest dálæti á, í höllu Jónasar frá Hriflu. Ég veit að hæstv. ráðherra rennur blóðið til skyldunnar og þau unglömb í flokki sínum sem hann er að burðast við að ala upp ætti hann auðvitað að taka undir verndarvæng sinn og kenna þeim örlítið af glæsilegri sögu og fortíð Framsfl. til þess að þau viti þetta líka. Ég segi þetta í fullri vinsemd vegna þess að ég vil að Framsfl. glati ekki þeim parti í sögu síðustu áratuga sem tengist stuðningi hans við búseturéttarhreyfinguna. Ég veit auðvitað að þessir karlar, herra forseti, ég bið afsökunar, ég veit auðvitað að þessir hv. þm. munu væntanlega koma hér á eftir og segja að ég þurfi ekki að óttast afdrif búseturéttarhreyfingarinnar vegna þess að frv. komi fram í haust sem tryggi það. Það vill svo til, herra forseti, að ég hef varið svolitlum tíma til þess að hlaupa yfir það frv. sem hér eins og ýmis önnur merk frv. Framsfl. eru ekki lögð fyrir til afgreiðslu, og ég var þeygi glaður, og ef hv. þm. Magnús Stefánsson og kollegi hans hæstv. ráðherrann óska eftir því get ég farið yfir það í nokkru máli, ef þeir geta gefið mér það til kynna að þeir vilji það. (Gripið fram í.) Það er nú ekki svo.

Herra forseti. Ég hef lokið við að fara yfir þau atriði í frv. til laga um húsnæðismál sem varða einmitt búseturéttarhreyfinguna og það er sitt hvað annað sem ég hefði gjarnan viljað segja, herra forseti. En ég hét því í upphafi ræðu minnar að ég ætlaði ekki að fara að tyggja upp úr alls konar umsögnum sem fjöldi manna hefur, í kappi sínu við að reyna að telja hæstv. ráðherra hughvarf þegar lesið upp. Ég ætla ekki að feta þá slóð, herra forseti. Ég held að á máli mínu sjáist að að ýmsu leyti get ég fallist á ýmsar breytingar sem þarna eru. En mér finnst að þarna sé brotið gegn grunnviðhorfi sem við höfum verið sammála um. Mér finnst að þarna sé verið að vega að rótum annarrar þeirra tveggja stofnana sem við höfum byggt upp sameiginlega til þess að verja lítilmagnann í þjóðfélaginu. Almannatryggingakerfið hefur verið önnur stoðin og hins vegar hefur félagslega húsnæðiskerfið verið hin. Ég held að engum blöðum sé um það að fletta að þó að þarna megi finna ákvæði eins og um valfrelsi, sem eru prýðileg og sem maður fylgir í sjálfu sér, er ekki hægt að samþykkja það eða ég get ekki samþykkt frv. út á það vegna þess að ég tek gild þau rök sem mér hafa verið færð og hér hafa verið flutt sem sýna mér a.m.k. fram á að fjölda fólks, sem hefur átt framtíð sína og lífsgæfu undir því að geta skotið þaki yfir sitt höfuð gegnum þátttöku félagslega húsnæðiskerfisins, er ýtt út á gaddinn.

Ég held því fram, herra forseti, þó ég geti ekki slegið tölu á það og veit ekkert hvort það sé rétt, að það séu 600 fjölskyldur sem er verið að ýta út á leigumarkað. Meira eða minna, það skiptir ekki máli, það er prinsippið, verið er að ýta fátæku fólki út á leigumarkað sem við gerum ekkert með þessu frv. hæstv. félmrh. til þess að styrkja þrátt fyrir það göfuga markmið sem kemur fram í 1. gr. Vel getur verið að þegar á hólminn er komið verði reyndin önnur, það kann að vera. Það kann vel að vera vegna þess að ég veit að í brjósti hæstv. félmrh. blundar ekkert fól í þessum efnum. Þess vegna getur vel verið að þegar reynslan fer að koma á frv. þá sjái hæstv. ráðherra margvíslega galla á því og þá reyni hann á einhvern hátt að skjóta byttu undir þá leka sem þá koma í ljós. Vel má að hann sé m.a. að gera það með duldum hætti með öllu því reglugerðafargani sem er að finna, og hann er að taka sér þar ákveðið vald til þess mjög víða að breyta hlutum. Ég tek t.d. eftir því að á einum stað í frv. sýnist mér að hann sé að taka sér vald til þess að ákveða leigu af þessum íbúðum og mér sýnist að þar sé um að ræða vísi sem ég, ef ég væri til að mynda félmrh., mundi þróa mjög mikið í þá veru til þess að hjálpa þessu fólki. Ég hvet hæstv. ráðherra til að íhuga það þegar hann er lentur í ógöngum með frv., sem ég veit að verður nú skammt til, hvort hann eigi ekki einmitt að notfæra sér það ákvæði, sem ég man ekki lengur hvar er að finna í lögunum, en ég sé á svipbrigðum hæstv. félmrh. að hann þekkir þetta frv. út og inn og man hvar það er, til þess einmitt að hjálpa því fólki sem lendir í því að þetta sjálfbæra íbúðalánakerfi, sem á að standa undir sjálfu sér og knýr þar af leiðandi upp leigu vegna þess að hún á að standa undir kostnaði af íbúðunum. Það er í sjálfu sér skiljanlegt markmið en er ekki göfugt, herra forseti, ef um er að ræða fólk sem á verulega erfitt.

Við vitum það líka að fólk sem er komið inn í þessar íbúðir í gegnum þetta kerfi getur lent í margvíslegum ógöngum. Það getur lent í sjúkdómum, það getur lent í harmi eins og að missa maka sinn, það getur jafnvel lent í þeirri gleði að eignast fullt af börnum og um leið takmarkast svigrúm þess til þess að greiða þessa kostnaðarleigu, þá leigu sem á að standa undir. Þá er það lífsskoðun mín að við eigum með einhverjum hætti að koma slíku fólki til hjálpar og við höfum gert það í gegnum það kerfi sem er núna. En þarna eygi ég þó, svo ég gefi hæstv. félmrh. og skutilsveini hans, hv. þm. Magnúsi Stefánssyni, svolitla plúsa líka, vísbendingar um það að í gegnum þetta ákvæði er hægt að hjálpa þessu fólki. Auðvitað er hægt að finna hálmstrá víðar í þessu frv.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt miklu lengra, herra forseti, af því ég lofaði áðan að fara ekki að tyggja upp það sem aðrir hafa lesið áður úr þessum álitsgerðum. Mig langaði að vísu til þess að ræða lítillega um hvernig vaxtabótakerfið, eins og það er sett upp í tengslum við þetta frv., fer með fólk sem býr við mjög litlar tekjur og er t.d. einstætt og á eitt eða tvö eða jafnvel þrjú börn.

[22:30]

Ég held að samspil þessara tveggja kerfa geri það að verkum að kjör þessa fólks --- þetta er fólkið sem ég ber fyrir brjósti --- verði, í krafti þessa frv. og vaxtabótabreytinga, miklu verri en áður. Þegar ég segi miklu verri þá er ég kannski ekki að tala um upphæðir sem hlaupa á mörgum hundruðum þúsunda. Þær eru mögulega upp á annað hundrað þúsunda en það skiptir verulegu máli fyrir þann sem er einstætt foreldri og á kannski tvö, þrjú börn. Það eru einfaldlega upphæðir sem skipta máli.

Herra forseti. Í þessu frv. er margt sem ég hef svo sem ekki haft fyrir að reifa í mjög ítarlegu máli af því að ég er að gera veikburða tilraun til þess að telja um fyrir hæstv. ráðherra og stjórnarliðinu og því er ég ekkert að eyða tíma mínum í að fara í það sem ég er sammála. Það er ýmislegt sem horfir til bóta og ýmsar vísbendingar um það sem er jákvætt. Grunntónninn og burðarásar í frv. vega að grundvallarskoðunum mínum sem jafnaðarmanns. Þess vegna get ég ekki fallist á þetta frv. og þess vegna, herra forseti, verð ég að biðja hæstv. forseta afsökunar á því hvað ég hef tekið mikinn tíma. Það er af einskærri tillitssemi við hæstv. forseta. Ég fullvissa hann um það að ég tek ekki meiri tíma en ég þarf.

Ég vildi gjarnan ræða þetta í miklu ítarlegra máli vegna þess að frv., eins og ég hef sagt fyrr í ræðu minni, er eins og önnur frv. sem við höfum verið að deila um hérna síðustu daga, þau snerta grundvallaratriði. Þetta snertir grundvallarsannfæringu mína og varðar þau atriði sem ráða því hvar ég hef skipað mér í flokk í stjórnmálum. Þess vegna er þetta prinsippmál og allt í lagi þó að þingmenn gefi sér tíma til þess að ræða þetta af nokkrum þrótti, áfergju og jafnvel af harðfylgi.

Þetta eru hlutirnir sem deila mönnum í flokka, skipta máli og ráða úrslitum um það hvar menn skipa sér. Ég hef ákveðið að skipa mér með þeim sem þurfa liðsinnis við. Þess vegna er ég jafnaðarmaður og þess vegna er ég á móti þessu frv. Ég er jafnframt svolítið sorgbitinn yfir þessu skelfilega hlutskipti hæstv. félmrh. sem hóf sinn stjórnmálaferil með skoðanir sem voru mér sem jafnaðarmanni hugnanlegar. Hann hefur síðan horfið inn í björg og ég segi það að endingu, herra forseti, að ég vil mikið til vinna til þess að bjarga hæstv. félmrh. úr þessum tröllahöndum og leiða hann aftur til byggða meðal þeirra manna þar sem hann á heima. Hann á ekki heima þar sem hann er í dag.

Hins vegar er hann kannski svo brenndur af vistinni að hann sé hættur að finna þetta á eigin skinni. Við sem höfum einhvern tíma fundið samhljóm með skoðunum hæstv. félmrh., vegna þess að á sínum tíma, þegar ég var að komast til pólitísks vits og þroska, þá var hann þrátt fyrir allt eitt af þeim átrúnaðargoðum sem ég og fleiri félagar mínir höfðu. Mér rennur það til rifja að sjá hæstv. félmrh. búinn að skipta um skoðun á öllu því sem mér fannst þá prýða manninn.

Herra forseti. Þó að margt hafi prýtt þann ágæta mann fyrrum ætla ég ekki að vera stofuprýði hér fram á sumar. Ég ætla að ljúka máli mínu, en með nokkrum trega. Ég ítreka það fyrir herra forseta að það væri svo sannarlega tilefni fyrir mig til að ræða þetta mál af áfergju og kappi vegna þess að þetta brýtur í bága við lífsskoðanir mínar og grundvallaratriði þau sem ráða því hvar ég er staddur í mínu pólitíska lífi.