Húsnæðismál

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 23:31:12 (6647)

1998-05-15 23:31:12# 122. lþ. 128.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, SvG
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[23:31]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Málið sem hér er á ferðinni er í raun og veru mikið tímamótamál. Þannig er að til hefur verið félagslegt húsnæðiskerfi á Íslandi, að vísu í litlum mæli til að byrja með, alveg frá því um 1920, ég hygg 1919. Nú er verið að leggja það niður. Ég spái því að í næstu kjarasamningum á Íslandi muni ein aðalkrafa verkalýðshreyfingarinnar vera sú að taka aftur upp félagslegt húsnæðiskerfi. Ég er eiginlega sannfærður um að launafólk í landinu mun gera uppreisn gegn þessari markaðsvæðingu hins félagslega kerfis.

Herra forseti. Mér finnst engin ástæða til að hlífa hæstv. félmrh. við að vera hér, þannig að ég óska eftir að hann verði kallaður hingað. Það mætti svo sem kalla í fleiri menn, fjmrh. t.d. og forsrh., hvar eru þeir? Af hverju eru þeir ekki að gegna þingskyldum sínum eins og við hin? Það er alveg lágmark að félmrh. sé hérna meðan verið er að tala um þetta mál, úr því hann leggur svona mikla áherslu á að rótast á þessu í gegnum þingið, nótt eftir nótt.

Það var á árinu 1919 sem fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík beitti sér fyrir stofnun samvinnufélags um byggingu leiguíbúða er hlaut nafnið Byggingarfélag Reykjavíkur. Þetta var fyrsti vísirinn að félagslegum íbúðabyggingum í Reykjavík en lögin um verkamannabústaði voru hins vegar sett 10 árum síðar, 1929, þar sem mælt var fyrir um opinberan stuðning við byggingu verkamannabústaða fyrsta sinn. Lögin gerðu ráð fyrir stofnun byggingarsjóðs í hverju bæjarfélagi. Í stjórninni skyldu vera þrír menn kosnir af hlutaðeigandi sveitarstjórn eða bæjarstjórn og einn úr atvinnu- og samgönguráðuneyti sem jafnframt væri formaður stjórnar.

Segja má að það sé ánægjulegt fyrir félmrh. Framsfl. að nota næturnar á þessum fallegu vordögum 1998 til að brjóta sögulega í blað eins og hann er að gera. Hann er að eyðileggja félagslega íbúðabyggingarkerfið, leggja það niður, afnema það sem hefur þó verið til á Íslandi frá 1919 eða 1929. Ég spái því að í kjarasamningum á næstu árum verði eitt aðalviðfangsefni samtaka launafólks að berjast fyrir lagfæringum á hinu félagslega umhverfi í þjóðfélaginu, lagfæringum á því sem hæstv. núv. félmrh. hefur beitt sér fyrir því að eyðileggja undir forustu Davíðs Oddssonar. Það má segja að hæstv. félmrh. hafi komist yfir ótrúlega mikið að þessu leyti. Í fyrsta lagi var það vinnulöggjöfin sem sett var á launafólk undir gífurlegum mótmælum Alþýðusambandsins úti á Austurvelli. Það voru verulegar breytingar á atvinnuleysistryggingum og loks eru það húsnæðismálin sem nú er verið að breyta í grundvallaratriðum með því að leggja niður félagslega íbúðakerfið.

Þetta er auðvitað þeim mun sorglegra sem það liggur fyrir að í gegnum alla þessa tíð eða allt frá 1920--1929 hefur Framsfl. verið réttum megin við strikið. Hann hefur stutt þau átök sem efnt hefur verið til til að treysta félagslegar íbúðabyggingar í landinu, stundum við gríðarlega mikla andstöðu Sjálfstfl. Þegar lögin um verkamannabústaði voru sett var andstaða við það af hálfu Sjálfstfl. mikil og Sjálfstfl. taldi að það væri nægilegt að hafa þær byggingar sem þá höfðu verið reistar af bæjarstjórn Reykjavíkur, Pólana sem höfðu verið reistir í Reykjavík undir forystu Knúts Zimsens, þáv. borgarstjóra Reykjavíkur. Þá voru lögin um verkamannabústaðina sett.

Í greinargerð með frv. því er varð að lögum 1929 kemur fram að þegar litið væri til efnahags fjöldans yrði seint komið á slíkri skipan mála, að verkalýðurinn fengi hollar og ódýrar íbúðir með þægindum nútímans, nema ríki og sveitarfélög gengjust fyrir því og veittu aðstoð sína. Þetta var niðurstaðan þá. Þetta hygg ég að sé veruleikinn í dag, enn þá. Það er mikill fjöldi sem ekki ræður við að kaupa sér íbúðir á almennum markaði. Það er alveg ljóst að það viðbótarlánakerfi sem hæstv. félmrh. er að boða mun ekki duga til að koma til móts við þetta fólk. Það er alveg augljóst mál.

Hæstv. félmrh. hefur verið býsna iðinn við að tala illa um verkamannabústaðakerfið. Mér finnst á þeim ræðuhöldum sem hann hefur stundum verið með hér, að hann geri sér ekki grein fyrir því að þetta íbúðabyggingakerfi hefur ráðið úrslitum um lífshamingju fjölskyldna, ekki síst barnafjölskyldna í landinu og ekki síst hér í þéttbýlinu, í marga áratugi. Ég þekki ótal dæmi um þetta. Ég þekki ótal dæmi um að það að komast inn í félagslega íbúðakerfið hafi gjörbreytt lífi fólksins sem þar hefur átt hlut að máli. Ég þekki dæmi um fólk sem á fullorðinsárum hefur ráðist í kaup á verkamannabústaðaíbúð með 100% láni og staðið undir því og staðið við það. Af þeim töflum sem liggja fyrir sem gögn málsins er ljóst að milli 70 og 80% þeirra sem hafa fengið 100% lán standa alveg við það.

Veruleikinn er sá að það er verið að svipta þetta fólk þessum möguleikum. Það er ekkert í þessu frv. sem tryggir þessu fólki eitt eða neitt, ekkert. Út af fyrir sig má segja að ég ætti kannski ekkert að vera að ónáða hæstv. félmrh. og kvelja með því að sitja undir ræðu minni, því hann er búinn að sitja undir svo löngum ræðum. (Félmrh.: Mín er ánægjan.) Ég veit ég breyti engu. Hæstv. ráðherra lætur inn um annað og út um hitt það sem ég segi. Þrátt fyrir 100 athugasemdir og ábendingar frá alls konar aðilum um lagfæringar á þessu kerfi og frv. virðist það vera steinrunnin ákvörðun stjórnarflokkanna að róta þessu í gegn, líka því sem augljóslega eru mistök.

Það er nú einu sinni skylda mín sem þingmanns að reyna að hafa áhrif, hvort sem ég er í stjórn eða stjórnarandstöðu. Það kann vel að vera að mér muni mistakast það. Ég reikna svo sem alveg eins með því að mér muni mistakast að leiða hæstv. félmrh. fyrir sjónir að hér er ýmislegt sem mætti betur fara. Samt sem áður er skylda mín sú að reyna það.

Lögin um Húsnæðisstofnun ríkisins voru fyrst sett 1956 og hétu, ef ég man rétt, Lög um Húsnæðismálastofnun ríkisins, um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis og um skyldusparnað. Ég man ekki betur en þetta hafi allt verið í einum og sama pakkanum. Það er dálítið gaman að því að það var þáv. formaður Alþb., Hannibal Valdimarsson félmrh., sem flutti framsögu fyrir því frv. Það var afskaplega góð framsöguræða. Ég las hana fyrir fáeinum dögum. Hann fór yfir húsnæðisþróunina hjá alþýðu manna í landinu, næstu ár og áratugi þar á undan. Hann var félmrh. í vinstri stjórn. Forsrh. í þeirri stjórn var Hermann Jónasson. Hermann Jónasson var framsóknarmaður. Í þeirri stjórn var fjmrh. Eysteinn Jónsson sem var líka framsóknarmaður. Það var greinilegt af þeim ræðum sem fluttar voru um veturinn að félmrh. vildi ekki aðeins lýsa yfir og tryggja að hans hlutur kæmi fram í tengslum við málið, þessi fyrsti formaður Alþb., Hannibal Valdimarsson, heldur voru framsóknarmennirnir líka stoltir af frv. Í þeim ræðum sem fluttar voru voru margir framsóknarmenn sem lögðu margt gott til mála. Ég nefni einkar fallega ræðu eftir Karl Kristjánsson sem var þingmaður fyrir Suður-Þingeyinga og var frá Húsavík eins og kannski einhverjir þekkja deili á sem hér eru í salnum.

Staðreyndin er sú að þessi lög voru sett á þeim einfalda grundvelli að það væru mannréttindi að hafa húsnæði. Þau voru sett á þeim einfalda grundvelli að þá var mjög mikið til af svokölluðu heilsuspillandi húsnæði, ekki síst á þéttbýlissvæðinu. Margir bjuggu í herskálaíbúðum sem voru sumar slæmar en aðrar góðar eins og gengur. Þessi lög voru sett á þeim grundvelli að bæjaríbúðirnar, sem svo voru kallaðar, eins og Pólarnir, væru varla mönnum bjóðandi, ekki einu sinni dýrum, og nauðsynlegt væri að grípa til aðgerða, enda varla við því að búast, eins og segir í greinargerð frv. frá 1929 sem enn var í fullu gildi 1956:

,,Það er varla við því að búast að verkalýðurinn fengi hollar og ódýrar íbúðir með þægindum nútímans, nema ríki og sveitarfélög gengjust fyrir því og veittu aðstoð sína``.

Þetta frv. sem flutt var af Hannibal Valdimarssyni félmrh. 1956 var afurð af samningum stéttarfélaganna. Stéttarfélögin höfðu, í kjarasamningunum 1955, orðið fyrir miklum skakkaföllum. Þá voru verkföll sem stóðu í fimm eða sex vikur og niðurstaðan úr þeim verkföllum varð 12% launahækkun. Hún var tekin af fólki í nóvember þá um haustið, öll með gengislækkun, og það eina sem stóð eftir af þeim samningum voru samningsákvæði um Atvinnuleysistryggingasjóð sem einnig hefur verið spillt af núv. hæstv. ríkisstjórn.

Um sama leyti tók verkalýðshreyfingin sérstaklega á húsnæðismálunum og húsnæðismálastofnunar-hugmyndin varð til. Hún þróaðist upp úr því vegna þess að þau lög sem áður höfðu verið í gildi og fjölluðu um veðlán til íbúðakaupa dugðu ekki. Það var vegna þess að þá var eingöngu um að ræða veðlán í veðdeild Landsbankans og í raun og veru ekki um neina félagslega aðstoð að ræða á bak við lánveitingarnar. Þær byggðu ekki á neinum félagslegum forsendum og því var talið nauðsynlegt að búa til þessi nýju lög. Það var því verkalýðshreyfingin og ekki síst Alþb. sem átti talsvert mikinn hlut að máli í þessu efni. Það var með þeirri lagasetningunni árið 1956 þegar Hannibal Valdimarsson félmrh., fyrsti formaður Alþb. og forseti Alþýðusambands Íslands, beitti sér fyrir þessari lagasetningu. (ÖS: Fyrrverandi formaður Alþfl.) Þar áður var hann formaður Alþfl.

[23:45]

Með öðrum orðum, það er kannski ekki skrýtið að þeir sem hafa gefið sig eitthvað að stjórnmálum á vettvangi vinstri hreyfingarinnar á Íslandi séu nokkuð hugsi yfir þessum niðurstöðum og örlögum Framsfl. sem birtast okkur í frv. hæstv. ríkisstjórnar.

Lögin frá 1956 héldu sér í grófum dráttum en 1974 voru gerðir kjarasamningar þar sem gert var ráð fyrir verulegu átaki í félagslegu húsnæði. Þau lög voru sett í framhaldi af framkvæmdanefnd byggingaráætlunar sem beitti sér fyrir byggingu 1.250 íbúða í Breiðholti en framkvæmdanefndin var stofnuð í kjölfar kjarasamninga, að mig minnir 1965, og þeir sem komu helst að þeim samningum voru Bjarni Benediktsson, Eðvarð Sigurðsson og Guðmundur J. Guðmundsson. Í framhaldi af því átaki voru gerðir kjarasamningar 1974 sem byggðu á þeirri forsendu að nauðsynlegt væri að þriðja hver íbúð sem byggð yrði á vegum Húsnæðisstofnunar yrði á félagslegum grunni. Það var ansi mikið en menn töldu að óhjákvæmilegt væri að halda þannig á málum.

Ekki var staðið við þau fyrirheit sem gefin voru í kjarasamningunum 1974 af ríkisstjórn þeirri sem sat á árunum 1974 til 1978. En þegar ríkisstjórn Framsfl., Alþfl. og Alþb. var mynduð haustið 1978 var ákveðið að efna þessi fyrirheit. Þá var Magnús Magnússon, varaformaður Alþfl., félmrh. Í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens, sem tók við í febrúar 1980, var verkinu síðan haldið áfram og við náðum því þá fram vorið 1980 að setja lög sem höfðu þann tilgang að tryggja að þriðjungur þeirra íbúða sem byggðar yrðu í tengslum við Húsnæðisstofnun ríkisins yrðu á vegum hins félagslega kerfis. Um það var mjög víðtæk sátt og það er alveg augljóst mál að á þessum tíma náðist verulegur árangur á ýmsum sviðum húsnæðismála. M.a. voru sett fyrstu húsaleigulögin sem eru auðvitað barn síns tíma og þessi lagasetning fékk að standa í grófum dráttum fram yfir það að ríkisstjórn var mynduð í landinu 1987 þar sem um var að ræða allmiklar breytingar sem voru gerðar á hinu félagslega kerfi undir forustu hæstv. þáv. félmrh., Jóhönnu Sigurðardóttur.

Við sem vorum þá í stjórnarandstöðu vorum ekki allt of hrifin af þeim breytingum og hið sama átti við um húsnæðismálin í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þar beittu framsóknarmenn sér mjög hart gegn félmrh. og það er dálítið umhugsunarvert, sem er kannski allt annað mál en má kannski nefna hér, að þeir framsóknarmenn voru satt að segja oft ótrúlega harðir af sér í stjórnarandstöðunni við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur þegar hún var félmrh. Framsóknarmenn höfðu ekki verið í stjórnarandstöðu svo lengi sem elstu menn mundu í þingflokki Framsóknar, nema einn maður hygg ég að hafi verið þar á síðasta kjörtímabili sem hafði einu sinni verið í stjórnarandstöðu og það var eiginlega litið á hann eins og forngrip þar og horft á hann og hann skoðaður alveg sérstaklega í krók og kring af því hann hafði einu sinni verið í stjórnarandstöðu á 20 ára ferli þingflokksins eins og þá var. Ég hygg að það hafi verið Steingrímur Hermannsson sem rétt tyllti tánum í stjórnarandstöðu skamma stund. Þessi umræða á síðasta kjörtímabili var gífurlega óvægin í garð Alþfl. af hálfu framsóknarmanna og þær umræður sem fara oft fram milli framsóknarmanna og alþýðuflokksmanna, bæði um heilbrigðismál og húsnæðismál eru að nokkru leyti upprifjun á þessum sárindum sem þarna var um að ræða í málflutningi af hálfu framsóknarmanna sem voru að einhverju leyti að hefna harma sinna vegna þess að þeim þótti að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefði verið óvægin í stjórnarandstöðu, sem var út af fyrir sig rétt hjá þeim, og hún getur verið það.

Það sem gjörbreytti hins vegar myndinni í húsnæðismálum á þessum árum var sú ákvörðun ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar 1983 að höggva á tengsl verðlags og launa sem þýddi að verulegur fjöldi fólks missti húsnæðið ofan af sér og til varð misgengishópurinn sem svo var nefndur sem varð þekktur hér. Þá kom fyrst við sögu, má segja, á opinberan félagsmálavettvang maður sem heitir Ögmundur Jónasson og menn kannast við úr þessum sal í seinni tíð. Þarna varð um að ræða mikil pólitísk átök og ég hygg í rauninni að þessi atlaga að kjörum launafólks hafi verið ein sú versta sem átt hefur sér stað á liðnum áratugum því að staðreyndin er sú, herra forseti, að þúsundir Íslendinga voru sviptir ævisparnaðinum þegar vísitalan var tekin af laununum en hún spann upp lánin. Það var í rauninni ekki fyrr en í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1988 til 1991 að það tókst með atbeina verkalýðshreyfingarinnar, Alþýðusambandsins og BSRB, að keyra verðbólguna niður þannig að fólk gat á nýjan leik ef það hefði búið við sæmilega öruggt húsnæðiskerfi, farið að gera sér vonir um að það gæti eignast íbúðir. Þetta átti ekki bara við launafólk með venjulegar tekjur, miðlungstekjur og hærri. Þetta átti líka við láglaunafólk sem kom sér fyrir þegar best gekk í verkamannabústaðakerfinu og tryggði sér þessa frumþörf, húsnæði.

Veruleikinn er sá að það er atlaga að allri þessari félagslegu hugsun sem á sér stað og kannski þarf ekki að undra að Alþb. sem hefur tvisvar á ferli sínum 1956 til 1958 og 1980 til 1983, farið með félmrn. og beitt sér fyrir miklum breytingum í húsnæðiskerfinu. --- það var Alþb. sem beitti sér fyrir setningu laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins á sínum tíma sem hér er verið að afnema --- það er ekki að undra að Alþb. skuli beita sér eins hart og við getum gegn þessari fyrirhuguðu lagasetningu sem sviptir fátækt fólk í landinu, fólk með lítil efni, þeirri von að geta tryggt sér húsnæði. Það er satt að segja alveg ótrúleg ósvífni. Er ekki góðæri? Er ekki verið að tala um góðæri og hagvöxt? Einmitt þegar það er góðæri og hagvöxtur telja menn vera tíma til þess að eyðileggja félagslega íbúðalánakerfið í stað þess að bæta og styrkja stöðu þess fólks sem býr við lélegan efnahag. Einmitt í góðærinu telja menn ástæðu til að skemma atvinnuleysistryggingarnar þannig að það er svo furðulegt að á sama tíma og það er blómstrandi góðæri og talað um 5% hagvöxt, er alls staðar verið að pilla í réttindi þeirra sem eiga mest undir því að félagsleg löggjöf sé sæmilega traust, og ekki bara mest undir því heldur geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér og eiga erfitt með að verjast. Það á við það fólk sem hér er um að ræða og er verið að svipta voninni um að geta eignast húsnæði skikkanlega.

En kannski er þetta algerlega tilgangslaust og maður spyr um lýðræðið: Til hvers er þingræðið, herra forseti? Við erum kosin inn í þessa stofnun. Hæstv. félmrh. Páll Pétursson var ekki kosinn til að vera í stjórn með íhaldinu. Hann var ekki kosinn til þess. Hann sagði engum frá því fyrir kosningar. Hv. þm. Magnús Stefánsson var ekki kosinn hingað inn til að vera í stjórn með íhaldinu. Þeir voru kosnir hingað inn vegna þess að Framsfl. gaf ákveðin fyrirheit, m.a. í húsnæðismálum, um skuldbreytingu aldarinnar, og hvað hét það allt saman fyrir síðustu kosningar. En þeir fóru samt í stjórn með íhaldinu og það hefði svo sem alveg getað blessast þannig. Þeir semja við íhaldið og hver er niðurstaðan? Maður skyldi kannski ætla að það hefði verið ekkert sérkennilegt eða hægt að verja sig með því að þessir höfðingjar hefðu verið í stjórn með íhaldinu að skera niður alla félagslega þjónustu á krepputíma þegar allt væri á niðurleið efnahagslega. En það er ekki þannig. Það er uppsveifla. Það er hagvöxtur, blómstrandi góðæri þar sem verið er að pilla helst af því fólki sem getur eiginlega enga björg sér veitt og síst má við áföllum af neinu tagi. Svo koma þeir framsóknarmenn með þetta og eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lýsti vel í dag er þetta stefna Sjálfstfl., ekkert annað. Það er verið að fara með hana í gegn og Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja senda frá sér einhverja vönduðustu greinargerð sem ég hef nokkurn tímann séð í þingskjölum á mínum langa þingferli. Ég hugsa hún sé ekki einu sinni lesin. Það er ekkert tekið tillit til hennar. Í þessari greinargerð tæta þessi samtök í sig það sem þeir ríkisstjórnarmenn halda fram í greinargerðum sínum. Það kemur í ljós í greinargerð ASÍ og BSRB að greinargerð ríkisstjórnarinnar er ótrúlegt fúsk. Það er engu lagi líkt og í rauninni er það svo, herra forseti, að ekki stendur steinn yfir steini í greinargerð ríkisstjórnarinnar þegar umsögn ASÍ og BSRB er lesin og borin saman við greinargerðina, ekki steinn yfir steini.

Þessari greinargerð hafa verið gerð ágæt skil í dag. Ég ætla ekkert að vera að rifja það upp enda erum við ekki hér í því sem stjórnarliðið kallar málþóf. Við erum að ræða málin og ég er að gera grein fyrir viðhorfum mínum, ekki síst vegna þess að ég sýslaði við þennan málaflokk sem félmrh. í þrjú ár einu sinni. En það er sláandi að allar röksemdirnar sem eru alltaf hafðar uppi af ríkisstjórninni, t.d. um að verið sé að gera kerfið einfaldara. Það er hrakið. Það sé verið að gera kerfið ódýrara í rekstri og að félagslega kerfið sé dýrt í rekstri. Það er hrakið. Talsmenn ríkisstjórnarinnar fullyrða að eignamyndunin sé svo hæg í verkamannabústaðakerfinu og þess vegna þurfi að breyta þessu. Samt er enginn samanburður gerður á eignamynduninni í þessu kerfi sem verið er að gera tillögu um og í verkamannabústaðakerfinu.

[24:00]

Fúskið er óendanlegt. Þegar eignamyndunin í íbúðakerfinu er reiknuð út þá eru aðeins reiknaðir út verkamannabústaðir í Reykjavík, þar sem eignamyndunin er allt öðruvísi en t.d. í Stykkishólmi, á Grundarfirði eða Blönduósi.

Í greinargerðinni er fjallað um fjármál Byggingarsjóðs verkamanna. Þar er rakið að það er alveg greinilegt, herra forseti, að hægt hefði verið að bjarga Byggingarsjóðnum frá þroti. Það hefði verið hægt. Best er þó, herra forseti, þegar Alþýðusambandið og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja flettir ofan af því hve mikið kjaftæði, með leyfi forseta, það er sem haldið er fram í greinargerð frv. varðandi það hvort frv. þjóni þeim markmiðum sem það setur.

Í frv. er talað um að þetta muni bæta öryggi í húsnæðismálum. Þvílík öfugmælavísa, vitleysa. Það bætir ekki réttaröryggi lágtekjufólks, aldraðra og annarra sem hafa notið hins félagslega húsnæðiskerfis. Öryggi þessa fólks er minna en verið hefur í áratugi. Í frv. er fullyrt að eitt af markmiðum þess sé jafnrétti í húsnæðismálum. Það er tóm vitleysa. Ef frv. verður að lögum þá minnkar jafnrétti í húsnæðismálum ef eitthvað er. Ekkert í frv. bendir til að sveitarfélögin muni auka framboð sitt á leiguhúsnæði. Eftir gildistöku laganna mun fjölga í hópi þeirra sem ekki geta fjárfest í eigin húsnæði. Þjóðfélagið sem menn töldu að ætti að vera til á Íslandi, þar sem menn ættu sínar íbúðir, verður þrengra en það hefur áður verið. Það verða bara við, hin efnameiri, sem getum tryggt okkur íbúðir.

Ein klisjan er sú að þetta muni auka sveigjanleika húsnæðislánakerfisins. Það er vitleysa. Greinargerð Alþýðusambandsins og BSRB gjörsamlega lemur niður þá fullyrðingu og sýnir fram á að það er rangt. Til þess að menn komist inn í þessi viðbótarlán, sem í raun eru það eina sem eftir er af einhverri félagslegri hugsun, þá þurfa einstaklingarnir og sveitarfélögin að uppfylla sex skilyrði. Þetta þarf að gerast áður en fólk getur hugsanlega fengið þessi viðbótarlán.

Talað er um að eitt af markmiðunum sé trygging á rétti þeirra sem þurfa félagslega aðstoð til öflunar húsnæðis. Ekkert er fjarstæðukenndara vegna þess að eins og allir vita þá standa þau orð, að verið sé að tryggja rétt til félagsþjónustu í lögunum um félagsþjónustu sveitarfélaga, ekki nema sveitarfélögin fjármagni það.

Eitt af markmiðunum á að vera að skapa einfaldara kerfi sem þjóni betur tekjulágu fólki og öldruðum. Heyr á endemi, herra forseti. Þegar hin tíu markmið sem rakin eru í greinargerð frv. eru talin upp, þá kemur því í ljós, herra forseti, að ekkert af þeim stenst. Núll.

Það er hins vegar alveg sama þó þetta sé sagt hérna. Maður hlýtur að velta því fyrir sér til hvers þetta kerfi eiginlega er hér. Heitir það ekki þingræði? Þingsköp Alþingis, umræður, reglur, kosið, kjörbréf á fjögurra ára fresti, ríkisstjórnir, Stjórnarráð, til hvers er þetta? Til hvers eru þessi skoðanaskipti hér? Til hvers eru þau? Svo kemur hæstv. forsrh. landsins í sjónvarpið á kvöldin og segir að við séum óskammfeilin og vanþroska. Það er af því hann er svo sérstaklega þroskaður eins og alþjóð veit. Hann er svo þroskaður að hann hefur séð að það þyrfti helst að losna við stjórnarandstöðuna og þingræðið, flytja um það frv. og hespa því í gegn að afnema þingræðið. Þá væri allt mikið fljótlegra. Þetta sáu menn austar í Evrópu fyrr á öldinni. Lýðræðið er vesen, tekur ótrúlegan tíma. Alls konar menn eru alltaf að tala og jafnvel að halda ræður, kannski bara í klukkutíma eða tvo. (RG: Þvælast fyrir.) Þvælast fyrir.

Það er því auðvitað miklu virkara í markaðsþjóðfélaginu, að afnema þetta vesen. Það segir sig alveg sjálft. Eða hvað? Til hvers er myndin af þessum manni hérna uppi á vegg? Til hvers er hún? Til hvers er stytta af þessum manni hérna úti á Austurvelli? Til hvers er hún? Ætli hún sé ekki til að minna okkur á að við börðumst fyrir frelsi og lýðræði fyrir þessa þjóð. Hve oft ætli menn velti því fyrir sér til hvers hún er þessi mynd hér eða styttan sem þarna er frammi af Jóni Sigurðssyni? Ég held að það sé sárasjaldan sem menn velta fyrir sér: ,,Hvað er þá orðið okkar starf í sex hundruð sumur?`` og fleiri.

Veruleikinn er sá að ekkert er gert með það sem við erum að segja. Hroki stjórnarliðsins andspænis okkur í stjórnarandstöðunni hefur í 20 ár ekki verið annar eins og núna. Aldrei. Ekki aðeins hér í salnum heldur í fjölmiðlunum þegar forsrh. ræðst á okkur með ruddaskap eins og hann gerði í kvöld. Staðan er sú að maður veltir því fyrir sér hvort stjórnarflokkarir séu núna að komast langleiðina með að afnema þingræðið í raun, þó það sé til á pappír.

Í ár og í fyrra lögðum við í það vinnu að gera tillögur um breytingar á þingsköpum Alþingis. Þegar við notuðum rétt okkar til að stöðva afbrigði í vetur, tefja fyrirtekt máls í tvo daga, varð það til þess að þeirri vinnu var hent. Síðan vill hann breyta þingsköpunum og tilkynnir það í sjónvarpinu í kvöld að það eigi að gera í vor, einhliða.

Herra forseti. Þegar ríkisstjórnin í landinu gengur yfir þingræðið á skítugum skónum, þá hlýtur maður að velta því fyrir sér hvað gera þurfi til að tryggja líf þingræðisins og lýðræðisins. Ríkisstjórnin er ekki að því. Hún er að eyðileggja það og henni má ekki takast það, herra forseti.