Húsnæðismál

Laugardaginn 16. maí 1998, kl. 10:35:23 (6651)

1998-05-16 10:35:23# 122. lþ. 129.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, GE
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 122. lþ.

[10:35]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Hér er verið að ræða í 2. umr. frv. til laga um húsnæðismál. Ég velti því fyrir mér í upphafi hverjar eru grunnþarfir mannsins. Grunnþarfir mannsins eru metnar vera að hafa í sig og á og eitthvert þak yfir höfuðið.

Hver er, herra forseti, grundvöllurinn til þess að fólk geti svarað þessum grunnþörfum eða fólk geti sinnt þessum grunnþörfum? Það er að hafa laun sem duga til þess að eiga í sig og á og geta komið sér þaki yfir höfuðið. Þetta eru grundvallaratriðin. En skyldi það frv. vera skoðað í réttu samhengi sem við ræðum og þau laun sem þurfa að vera til staðar hjá fjölskyldunni til þess að geta komið sér upp þaki yfir höfuðið? Ég held ekki. Meðan laun eru svo lág sem hér um ræðir að það er ekki hægt á lægstu launum að fara í greiðslumat og fá til þess að vilyrði að fara og koma þaki yfir höfuðið, þá er rangur grunnur undir þessum frumþörfum sem ég var að ræða í upphafi.

Ég vil nefna, herra forseti, að fyrir 50 árum bað George Stigler hagfræðinga að vera hreinskilna og bera fullkomlega saman að hækkun lágmarkslauna leiddi t.d. til minnkandi atvinnu. Röksemdafærslan að baki þessari spá er einföld og sannfærandi. Samkvæmt því líkani sem sett er fram í nánast öllum inngangsverkum um hagfræði veldur hækkun lögboðinna lágmarkslauna því að atvinna minnkar meðal verkamanna á lágmarkslaunum. Skyldi þetta vera rétt? Ætli þetta sé rétt fullyrðing? Það dreg ég í efa. Þessi röksemdafærsla hefur þó sannfært flesta hagfræðinga og í skoðanakönnun er ljóst að þessi röksemdafærsla hefur sannfært flesta hagfræðinga, þ.e. 90% atvinnuhagfræðinga eru sammála um þá spá að hækkuð lágmarkslaun leiði til minnkandi atvinnu. Þessi einhugur er sérlega athyglisverður í starfsgrein sem er alkunn fyrir hatrammar deilur. En það er einn galli á þessu öllu saman.

Sönnunargögnum ber ekki saman um að hækkun lágmarkslauna leiði til minnkandi atvinnu. Ég hef leyft mér, herra forseti, að vitna til bókarinnar Myth and Measurement sem í lauslegri þýðingu gæti þýtt: Spásögn og staðreyndir. Í þeirri bók eru sett fram ný gögn sem sýna dæmi um hækkun lögboðinna lágmarkslauna hafi ekki haft þau neikvæðu áhrif sem skólabókardæmið sem hefur ekki verið rannsakað segir til um. Sum þessara nýju gagna benda til jákvæðra áhrifa af hækkun lágmarkslauna á atvinnustigið. Þetta er mjög athyglisvert og hefði kannski átt að vera búið að skoða á Íslandi þó að menn fái sig ekki til þess.

Þegar eldri rannsóknir á lágmarkslaunum eru skoðaðar að nýju kemur ekkert í ljós sem styður þá kenningu að lögboðin lágmarkslaun minnki atvinnu. Ef fallist er á niðurstöðu þeirra aðila sem gera þessa rannsókn í þeirri bók sem ég vitna til, Myth and Measurement, þannig að sett yrðu spurningarmerki við hið hefðbundna líkan, þá væri kannski ástæða til þess að þvinga hagfræðinga til þess að setjast niður og skoða það sem menn hafa verið að athuga á sl. hálfri öld.

Helstu niðurstöður athugana sem koma fyrir, í þeirri bók sem ég vitna til, sýnir að rannsókn t.d. á skyndibitastöðum í New York og New Jersey eftir að boðuð var hækkun lögboðinna lágmarkslauna 1992 að atvinna minnkaði alls ekki í kjölfar þessarar lagasetningar. Rannsóknir á meira en 400 matstöðum í New Jersey og austurhluta Pennsylvaníuríkis, sem gerð var eftir hækkun lágmarkslauna í New Jersey, sýndi að það hafði engin áhrif nema jákvæð og ég bið hv. þm. Jón Kristjánsson velkominn í salinn. Honum er alveg frjálst að koma og líta í gögnin eins og hann vill hér við stólinn. (JónK: Ég þakka þér fyrir.)

Ef borið er saman við matstaði í Pennsylvaníuríki þar sem lágmarkslaun héldust óbreytt kemur í ljós að í raun varð aukning á atvinnu í New Jersey í kjölfar hækkunar lágmarkslauna. Þetta er athyglisvert fyrir hv. formann fjárln. að lesa þá bók sem ég hef verið að vitna til og sjá hvað ætti í rauninni að vera að kljást við í hv. fjárln. þessa dagana. Það ætti að vera að kanna þær niðurstöður sem hækkun lágmarkslauna hefur leitt til alls staðar þar sem þetta hefur verið rannsakað. Nei, það er ekki svo. Það er verið að basla við allt annað. Það er verið að basla við ýmsar athuganir á gömlum reikningum sem breytast ekki nokkurn skapaðan hlut þó að farið sé yfir þau dæmi.

Það kom í ljós þegar matstaðir í New Jersey voru skoðaðir að atvinnuaukning varð meiri meðal þeirra matstaða sem neyddust til að hækka laun hjá sér vegna laganna en þeim matstöðum sem greiddu hærri laun en nýju lögin kváðu á um. Hvers vegna, herra forseti, er ég að fara yfir þessar athugasemdir? Vegna þess sem ég sagði í upphafi að grunnurinn að því að við Íslendingar getum sinnt frumþörfum okkar varðandi fæði, klæði og húsnæði er að laun séu mannsæmandi. Niðurstöður þeirra kannana sem fyrir liggja sýna að ef ekki er afgangur af launum umfram það að framfleyta sjálfum sér leggur einstaklingurinn ekkert inn til hagkerfisins. Grunnurinn að því að hagkerfi þjóðarinnar geti þróast eðlilega er að það sé í rauninni afgangur þegar einstaklingurinn hefur sinnt frumþörfum sínum. Annars er einstaklingurinn neikvæður fyrir hagkerfið og það er það sem er um að vera í íslensku þjóðfélagi að það eru a.m.k. 15--20 þúsund manns sem bera það ekki úr býtum að geta lagt til hagkerfisins. Það er athyglisvert að það er ekki gert neitt í að skoða það mál.

Það er líka athyglisvert að í því frv. sem við erum að ræða skoða menn ekki þessa hluti þegar er verið að leggja fram grunninn undir greiðslumatið sem allir verða að ganga í gegnum. Allir verða að ganga í gegnum greiðslumat ef þeir ætla að fá fyrirgreiðslu hjá þessum nýja sjóði sem er verið að setja á laggirnar sem er ekkert annað en nýtt húsnæðismálakerfi. Þegar ég segi nýtt húsnæðismálakerfi þá er ég ekki að segja að ekki hafi þurft að laga til. Svo sannarlega var ýmislegt athugavert og það hefði mátt breyta mörgu við núverandi stofnun og ná með því fullum árangri en í staðinn er félagslega kerfinu hent fyrir róða og eftir sitja a.m.k. 600--800 manns sem eiga enga fyrirgreiðsluvon í kerfinu.

Rannsóknir í Bandaríkjunum hafa leitt í ljós að hækkanir á lágmarkslaunum með alríkislögum frá árunum 1990 og 1991 höfðu ekki neikvæð áhrif á atvinnu unglinga. Það er athyglisvert. Lögboðin lágmarkslaun, sem hækkuðu úr 3,35 dollurum á tímann í 3,80 dollara 1. apríl 1990 og aftur í 4,25 dollara á tímann 1. apríl 1991, sýndu þetta. Þá voru ríkin flokkuð eftir hlutfalli unglinga sem tóku í laun 3,35 dollara upp í 4,25 dollara á tímann rétt fyrir hækkunina. Í hálaunaríkjum, sem eru t.d. Kalifornía og Massachusetts, voru tiltölulega fáir unglingar á því launabili þar sem hækkun lágmarkslauna hafði áhrif en í láglaunaríkjum eins og Mississippi og Alabama var allt að 50% unglinga á því launabili sem höfðu neikvæð áhrif á atvinnu þeirra.

[10:45]

Ef við miðum enn við kennslubókarlíkanið sem ég talaði um í upphafi þá hefði mátt ætla að atvinna unglinga hefði minnkað í láglaunaríkjunum þar sem nýju lögin hækkuðu laun miðað við hálaunaríkin. En gagnstætt því sem búast mátti við sýndu rannsóknir að engan marktækan mun var að finna í atvinnuaukningu milli hálaunaríkja og láglaunaríkja. Ef eitthvað var, þá voru það ríkin þar sem flestir verkamenn voru undir lágmarkslaunum sem nutu mestu aukningar í atvinnu unglinga. Þetta eru merkilegar niðurstöður og væri svo sannarlega ástæða til þess fyrir hv. Alþingi að láta skoða niðurstöður þessarar rannsóknar og hvaða áhrif setning laga um lágmarkslaun gæti haft á íslenska hagkerfið.

Í þriðja lagi var tímahraðagreining á atvinnu unglinga uppfærð og endurskoðuð, sú greining sem mest er vitnað í í spánni um að hærri lágmarkslaun minnki atvinnu. Þegar hagtölur þær sem notaðar voru á 8. áratugnum eru áætlaðar upp á nýtt með gögnum frá síðari árum verður hið sögulega samhengi milli lágmarkslauna og atvinnustigs meðal unglinga lausara og raunar tölfræðilega ómarkhæft.

Einnig er verið að ræða og endurmeta nokkrar fyrri kannanir á áhrifum lágmarkslauna sem studdust við þversniðsgögn eða langtímagögn. Niðurstaðan er sú að rökin fyrir því að lágmarkslaun hafi engin áhrif eða jákvæð áhrif á atvinnustig eru a.m.k. jafnsett og þau sem hafa verið í gildi, órannsökuð á milli hagfræðinga sem eru þó frægir fyrir endalausar deilur.

Herra forseti. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé ástæða til að rannsaka þessa þætti sem grunn að því kerfi sem við ætlum að nota til þess að hjálpa fjölskyldunum á Íslandi og til þess að hjálpa einstaklingunum á Íslandi við að koma þaki yfir höfuðið. Ég held að sú nefnd sem setti þetta frv. saman hafi gert reginmistök í því að láta ekki skoða eða skoða ekki sjálf grunninn sem þarf til þess að allir eigi a.m.k. lágmarksrétt á að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Ég nefni það við talsmann stjórnarliða í hv. félmn. hvort ekki sé rétt hjá mér að þessi grunnur --- og ég spyr um það --- hvort þessi grunnur hafi verið skoðaður á nokkurn hátt. Mér finnst ástæða til þess að menn geri grein fyrir því: Var það skoðað að öllum Íslendingum yrði gert kleift að koma sér upp þaki yfir höfuðið miðað við það að þeir hafi fulla atvinnu yfir árið? Þetta eru grundvallaratriðin. Ég held nefnilega að þarna vanti mikið á. Það er meira að segja svo að verið er að tala um að það þurfi að byggja félagslegar íbúðir til leigu. Hver er staðan þar? Staðan þar er að sennilega vantar íbúðir fyrir um það bil 1.500 manns á landinu, þar af um 1.000 manns á höfuðborgarsvæðinu.

Mér finnst ástæða til að fjalla um þau atriði sem snúa að félagslegum íbúðum í 13. gr. þessa frv. þar sem gert er ráð fyrir því að húsnæðisnefndir hætti allri umsýslu með eignaríbúðir fyrir láglaunafólk. Í stað þessa, samkvæmt 31. gr., eiga einstaklingar sem fylla þann láglaunahóp sem húsnæðisnefndir aðstoðuðu áður að fá beina fyrirgreiðslu frá Íbúðalánasjóði í formi húsbréfa og viðbótarlán eftir umsögn húsnæðisnefnda og geta þeir þá valið íbúð á markaðnum eftir smekk, þó með fyrirvara, samanber ákvæði III til bráðabirgða. Hvað er verið að segja okkur þarna, herra forseti? Það er verið að segja okkur að nú hafi nýir aðilar fengið nýtt hlutverk til að fjalla um þessi mál. Hvað skyldi þetta raska mikið högum fólks sem þekkir núverandi kerfi, sem veit nokkurn veginn að hverju er gengið? Og þrátt fyrir að ýmsu sé ábótavant í því kerfi sem við búum nú við hefur flestum einstaklingum verið kleift að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Nú er það alveg á hreinu að ef ekki verður gripið til sértækra aðgerða þá er stór hópur undanskilinn í þessu efni.

Við þessa breytingu sem ég er að lýsa er starfssvið húsnæðisnefnda orðið það lítið og starf þeirra og félagsmálanefnda farið að skarast svo mikið að það væri auðvitað athugandi að fela félagsmálanefndum sveitarfélaga þennan þátt og þar með fækka nefndum um eina hjá sveitarstjórnunum og ekki veitir af sums staðar þar sem of margar nefndir eru svo sannarlega í gangi.

Um bein lán og frjálsræðið sem þeim fylgja er auðvitað ekkert nema gott eitt að segja. En vandi mun samt fylgja þessu frjálsræði því reynslan sýnir að þegar fjárfest er í íbúðarhúsnæði er íbúðarstærð valin við hæfi hverrar fjölskyldu og þörf fyrir stækkun kemur áður en varir. Þá er farið til fasteignasala og íbúðin sett á sölu. Af reynslu undanfarinna ára getur sala íbúða á frjálsum markaði tekið allt frá nokkrum mánuðum upp í tvö ár.

Herra forseti. Ég leyfi mér að grípa til þess að vitna frjálslega til umsagnar húsnæðisnefndar Kópavogs öðru hverju í mínu máli, með leyfi forseta, og fjalla síðan um einstök atriði sem þar eru sett fram. Svo ég grípi aðeins í athugasemdir frá húsnæðisnefnd Kópavogs, þá segir hér:

,,Vegna ákvæða 18. gr. um greiðslumat gerði húsnæðisnefnd Kópavogs könnun á greiðslumati 122 fjölskyldna sem höfðu keypt sér íbúðir hjá nefndinni að undanförnu og höfðu staðist greiðslumat miðað við greiðslubyrði 28% af brúttólaunum. Þessar sömu fjölskyldur voru greiðslumetnar miðað við 18% greiðslubyrði af brúttólaunum eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Kom þá í ljós að aðeins 11 fjölskyldur af þessum 122, eða 9%, hefðu staðist greiðslumat samkvæmt frumvarpinu. 111 fjölskyldur, eða 91% hefðu ekki staðist matið og þurft á leiguíbúðum að halda.``

Þetta staðfestir það, herra forseti, sem ég sagði áðan, að það munu vera hátt í 1.500 manns sem þurfa á leiguíbúðum að halda sem er ekki verið að byggja. Það er ekki heimild til að byggja fyrir þann biðlista, enda er ég kannski ekki að gera mér vonir um að það mál verði leyst í einu vetfangi. Ég er ekki að vonast til þess. En ég sakna þess að ekki er gripið til raunverulegra aðgerða til þess, um leið og þetta frv. liggur fyrir, að sýna fram á að það sé verið að reyna að klóra í bakkann. Það er bara ekki gert. Þess vegna er verr af stað farið en heima setið með það kerfi sem við erum með nú.

Þegar skoðaðar voru 186 umsóknir sem höfðu borist undanfarna 14 mánuði kom í ljós að aðeins sex fjölskyldur af 186 hefðu staðist greiðslumat eða um það bil 3,3% af umsækjendum.

Hvað þýðir þetta, herra forseti? Þetta þýðir að þessi breyting mundi valda sprengingu á leigumarkaði og afleiðingarnar eru auðvitað engan veginn fyrirsjáanlegar því að augljóst er að sveitarfélögin hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að standa undir þeirri gífurlegu aukningu leiguhúsnæðis sem til þarf.

Sveitarfélögin hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að standa undir þeirri gífurlegu aukningu leiguhúsnæðis sem þyrfti að verða en í frv. eru ákvæði, einmitt í 5. gr., þar sem sveitarstjórnir bera ábyrgð á og hafa frumkvæði að því að leysa húsnæðisþörf þessa fólks sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun. Hvað þýða þessi atriði fyrir landsbyggðina? Hvað þýða þessi atriði sem ég er hér að ræða fyrir byggðastefnuna? Okkur var kynnt í gærkvöldi í fréttum að ef fram heldur sem horfir, eins og stjórn hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar hefur stjórnað, þá liggur það fyrir að landsbyggðin er að leggjast í auðn. Síðan ætla menn að grípa til björgunarráða. Rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar er skutlað hér fram miklu plaggi sem lýtur að nýrri stefnu í byggðamálum. Hve höfum við oft heyrt um nýja stefnu í byggðamálum? Hvað höfum við oft heyrt það?

Síðan ég fór að fylgjast með stjórnmálum hefur alltaf verið lögð fram ný og ný og ný stefna í byggðamálum. Hverjar eru niðurstöðurnar? Niðurstöðurnar eru þær að sífellt hefur fækkað á landsbyggðinni. Af hverju? Af hverju skyldi það vera? Það er vegna þess, að mínu mati, að stefnan í fiskveiðistjórninni er röng t.d. Það er eitt atriðið. Það er verið að safna kvótanum sem er grunnurinn að því öllu saman sem við erum að tala um, a.m.k. að 60%, það er verið að safna þeim auðæfum á æ færri hendur og þjappa þeim meira saman, en það leiðir til þess að fólkið á landsbyggðinni er að missa frá sér björgina að miklu leyti eins og sannast hefur því að kvótinn hefur flust frá smærri stöðum til stærri staða og það leiðir til þessa ástands sem ég hef verið að lýsa í húsnæðismálum og að ekkert horfir til breytinga í því. Það hefur ekkert að gera með þetta frv. og frv. tekur ekkert á þeim málum hvernig á að leysa þau atriði.

Það er rétt að vitna til þess, herra forseti, að á sl. fimm árum hefur t.d. húsnæðisnefnd Kópavogs afhent að jafnaði 49 nýjar íbúðir til umsækjenda auk 56 innlausnaríbúða á ári sem er meðaltal síðustu þriggja ára eða samtals 105 íbúðir á ári. Það er óhætt að nefna það sem dæmi um áætlaðan kostnað Kópavogsbæjar vegna leiguíbúða samfara því að þetta frv. verði að lögum, að kostnaður á hverja leiguíbúð miðað við meðalverð er 8 millj. kr. Hvað þýðir þetta dæmi? Þetta þýðir að 10% framlag sveitarfélagsins er um 800 þús. kr., 1% lántökugjald af 7,2 millj. er 72 þús. kr., 1,5% stimpilgjald af 7,2 millj. er 108 þús. kr., 0,4% stimpilgjald af afsali af 8 millj. kr. er 32 þús. kr. og síðan er þinglýsingargjald af skuldabréfi 2.400 kr. Hvað skyldi þetta nú vera mikið samtals? Hvað ætli þetta sé mikil upphæð samtals? Þetta er 1.014.400 kr. Það er gengið frá því í útreikningi að sveitarfélög þurfi ekki að greiða 5% framlag í Tryggingarsjóð sem mundi nema 100 þús. kr. í viðbót af hverri íbúð. Það er heldur ekki reiknað með fjármagnskostnaði í þessu dæmi.

[11:00]

Miðað við að frv. sem hér liggur fyrir verði samþykkt óbreytt þá er samkvæmt þessari umsögn húsnæðisnefndar Kópavogs áætlað að þörf verði fyrir 75 nýjar leiguíbúðir á ári, næstu fjögur árin. Hvað mun það kosta Kópavog, þetta stækkandi bæjarfélag? Það mun kosta 76 millj. auk húsaleigubóta sem nema munu um 4 millj. kr. Heildarkostnaður þessa bæjar er því 80 millj. og 80 þús.

Hér segir enn fremur, herra forseti, að með þessu frv. sé boðuð stefnubreyting í húsnæðismálum þjóðarinnar þar sem megináhersla sé lögð á eflingu leigumarkaðarins á kostnað eignaríbúða. Ég bið menn að velta því fyrir sér hvað þessi orð þýða. Hvað þýða þessi orð? Er verið að reikna með því að fátæku fólki eigi sífellt að fjölga í landinu? Eru það sífellt fleiri sem eiga að fara í leiguíbúðir og sífellt færri í eignaríbúðir? Ég get ekki lesið, herra forseti, annað út úr þessum orðum.

Í þessari umsögn segir enn fremur að í umfjöllun um frv. hafi gleymst að skoða þær auknu byrðar sem lagðar eru á þessa láglaunahópa strax í upphafi við kaup á húsnæði. Tökum dæmi af íbúð sem kostar 5 millj. á markaðnum og það er ekki merkileg íbúð, herra forseti, sem kostar 5 millj. Ætli það sé ekki einhvers staðar nálægt því að vera kjallaraíbúð eða íbúð í lyftublokk á slæmum stað. Kaupandi með viðbótarlán þyrfti að standa skil á 634.900 kr. við kaupin sem skiptast í eftirtalda liði: 10% á útborgun af 5 millj. eru 500 þús. kr. 1% lántökugjald af 4,5 millj. væri 45 þús. kr. 1,5% stimpilgjald af láninu plús þinglýsingargjald sem er 1.200 kr. eru 68.700 kr. og 0,4% stimpilgjald af afsali plús þinglýsingargjald sem er 1.200 kr., alls 21.200. Samtals eru þetta 634.900 kr. Nú skulum við velta fyrir okkur lægstu launum í því samhengi að eiga að fjármagna kaup á þessari 5 millj. íbúð

Ég spyr og beini máli mínu til talsmanns stjórnarmeirihlutans: Var þetta dæmi skoðað? Var athugað hve mikil laun þurfi til þess að geta staðið undir þessari greiðslu? Ég spyr: Hafi það verið skoðað, hve há þurfa þá launin að vera til að standa undir nákvæmlega þessari greiðslu? Hver þurfa laun fjölskyldu með þrjú börn að vera til þess að standa undir greiðslunni sem ég tók dæmi um, þar sem miðað er við íbúð sem kostar 5 millj., þar sem kaupandi með viðbótarlán þyrfti að standa skil á 634.900 kr. Hver þurfa laun fjölskyldunnar að vera við þá liði sem ég rakti? Við skulum tengja þessa umræðu lágmarkslaunum og lögbindingu lágmarkslauna.

Ef sama dæmi er tekið, miðað við lögin sem í gildi eru, þá þarf kaupandi að standa skil á 506.613 kr. Í þessu tilviki munar verulega, miðað við það kerfi sem við búum við, á því hve álagið hækkar í því kerfi sem frv. mun innleiða.

Mismunur á greiðslum við kaup íbúðarinnar samkvæmt þessu frv. er samtals 128.287 kr. hærri en samkvæmt gildandi lögum. Auk þessa er skuldin 157.500 kr. hærri. Þetta gerir samtals 285.787 kr. sem þarf að greiða meira, fyrir þessa umræddu íbúð samkvæmt frv. Þetta er niðurstaða sem ég átti ekki von á, hæstv. félmrh. Ég var satt að segja þess alveg fullviss að menn ætluðu sér að sníða þessa ágalla af, gagnvart þeim sem lakast eru settir. Ég tók undir það að ástæða væri til að gera breytingar, einmitt vegna þess að ég treysti því að menn væru að reyna að laga þá galla sem á hafa verið. Það er ekki svo heldur versnar staðan hjá þeim fjölskyldum sem lakast eru settar í íslensku þjóðfélagi.

Það má líka taka dæmi af íbúð sem kostar 7 millj. Þá þarf greiðslan við kaup að vera 887.900 kr. samkvæmt frv. Herra forseti. Ég er að tala um íbúð sem er 2 millj. kr. dýrari en íbúðin sem ég ræddi um áðan. Greiðsla við kaup þarf að vera 887.900 kr. samkvæmt frv. En samkvæmt núgildandi lögum þarf greiðslan að vera 708.298. Kostnaður við kaup þessarar íbúðar, samkvæmt frumvarpinu, er því 179.602 kr. hærri en í gildandi lögum. Auk þess er skuldin 220.500 kr. hærri. Þetta gera samtals 400.102 kr. sem greiða þarf meira fyrir þessa íbúð samkvæmt frv.

Ég beini þeirri spurningu til talsmanns meiri hlutans og vona að hann sjái ástæðu til þess að svara því: Voru þessi dæmi skoðuð nákvæmlega þegar þessar umsagnir komu inn til hv. félmn.? Var það skoðað að greiðslubyrðin væri að aukast, í þessu dæmi varðandi 7 millj. kr. íbúðina, um 400.102 kr.? Voru þessi dæmi skoðuð eða er verið að setja fram rangar fullyrðingar? (Félmrh.: Það er verið að setja fram rangar fullyrðingar.) Við skoðum það. Ég vil gjarnan heyra hvort verið er að setja fram rangar fullyrðingar og vildi gjarnan fá útlistað hvar feillinn er hjá húsnæðisnefnd Kópavogs í þessum dæmum, bæði varðandi kaup á 5 millj. kr. íbúðinni og 7 millj. kr. íbúðinni. Ég veit að þessar umsagnir sem ég er hér að vitna til liggja fyrir hjá hæstv. félmrh. Ég trúi því og treysti að þetta atriði kunni talsmaður félmn. utan að og fari létt með að útskýra fyrir fákunnandi mönnum eins og þeim sem hér vitnar í þessi dæmi.

Ég tek þriðja dæmið sem kannski væri ágætt að fá svör við. Það hlýtur þá að vera rangt eins og hin. Dæmi er tekið af íbúð sem kostar 9 millj. Þar er um að ræða íbúð sem sennilega er við hæfi fimm manna fjölskyldu, hjóna með þrjú börn. Greiðsla við kaup er þá 1.140.900 kr. samkvæmt frv. Samkvæmt núgildandi lögum þarf greiðsla við kaup að vera 909 þús. Mismunur á greiðslum við kaup íbúðar samkvæmt frv. eru samkvæmt þessu 230.918 kr. hærri en er samkvæmt gildandi lögum, auk þess sem skuldin hækkar um 283.500 kr. Samtals þarf að greiða 514.418 kr. meira fyrir íbúðina samkvæmt frv. Ég velti fyrir mér stöðu þessarar fimm manna fjölskyldu. Hver þurfa launin að vera til þess að geta staðið undir því að kaupa 9 millj. kr. íbúð?

Ég held að rétt sé að vitna áfram til umsagnar húsnæðisnefndar Kópavogs. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Í framhaldi af þessu er rétt og skylt að fram komi að þær fjölskyldur sem keypt hafa íbúðir hjá húsnæðisnefnd Kópavogs hafa í örfáum tilvikum átt fyrir útborguninni og oftast eru það þá eldri borgarar. Í flestum tilvikum hafa þær þurft að fá lán fyrir hluta eða jafnvel allri útborguninni enda hafa launakjör ekki gefið svigrúm til sparnaðar. Það er því mjög alvarlegt mál fyrir þennan láglaunahóp ef fram fer sem horfir og breytingar verða ekki gerðar á frv.``

Hér kem ég enn og aftur að því, herra forseti, og ágætt að hæstv. félmrh. heyri, að ég tengi saman lágmarkslaun í þessu landi og grunninn sem þarf að vera til staðar til þess að kleift sé, á grundvelli greiðslumats, að koma sér þaki yfir höfuðið. Ég tel það vera eina af frumþörfunum ásamt því að eiga í sig og á eins og sagt er og hefur verið sagt um langan tíma.

Ég segi að ástæða sé til þess að tengja þetta saman og reyna að vekja áhuga hagfræðinga á lágmarkslaunum. Sá áhugi ætti ekki síst að snúast um þá kenningu sem hér hefur verið í gangi um að hækkun lágmarkslauna mundi leiða til fækkunar starfa. Það er alrangt að hækkun lágmarkslauna fækki störfum. Grundvallaratriðið er að menn finni hinn rétta takt. Samkvæmt öllu því sem ég hef skoðað eru lægstu umsamin laun á Íslandi of lág.

Ég hef lagt fram frv. til laga um að heildarlaun á mánuði fyrir 16 ára og eldri skuli ekki vera lægri en 85 þús. kr. fyrir fulla dagvinnu. Hvað þýðir þessi framsetning? Hún þýðir, samkvæmt því sem ég hef sett fram sem gögn og skoðað, að þetta er lægsta mögulega launaupphæð til þess að einstaklingur geti framfleytt sér miðað við þær þarfir sem ég ræddi um í upphafi máls míns. Ég vonast til að menn fáist til þess að skoða þetta. Ekki er ljóst hvort 85 þús. kr. talan er rétt eða röng, eða hvort hún þarf að vera 100 þús. kr. eins og fjölmargir telja að lægstu laun þurfi að vera, ég get hvorki sannað það né afsannað. Það eina sem ég er að koma fram er að menn skoði þennan grunn. Hvað þarf einstaklingurinn að bera úr býtum? Þetta á jafnt við fatlaða, aldraða og þá sem eru úti á vinnumarkaði.

Hvað þarf einstaklingurinn að hafa til þess að geta framfleytt sér sómasamlega og jafnframt lagt inn til samfélagsins þá upphæð, eða haft afgangs þá upphæð, að hann geti lagt til hagkerfisins eðlilega fjármuni í gegnum einkaneyslu til þess að viðhalda hagkerfinu? Þeir sem eru undir þessum launum eru í rauninni nokkurs konar baggi að ósekju. Það er vegna þess að launin eru of lág eða þá að grunnurinn fyrir útreikningunum er rangur.

[11:15]

Hver er niðurstaðan af því að launin eru of lág? Niðurstaðan er sú að það hefur leitt til fólksflótta frá landinu. Niðurstaðan er sú að fólk hefur með aukinni vinnu náð því að framfleyta sér með því að vinna dag og nótt.

Það er ástæða til þess að nefna að það eru 28 lönd a.m.k. sem hafa lögleitt lögbindingu lágmarkslauna. 28 þjóðlönd í heiminum hafa lögbundið lágmarkslaun. Í 23 af þessum 28 löndum hefur komið í ljós að lögbinding lágmarkslauna hefur leitt til meiri hagvaxtar en ef ekkert hefði verið að gert.

Það er rétt að nefna það að breska ríkisstjórnin boðar mjög mikla uppstokkun í skatta- og velferðarkerfinu. Til hvers? Til að auka kaupmátt heimilanna og gera það að vænlegum kosti fyrir breska þegna að vinna fyrir sér. Lágmarkslaun fjölskyldu með eina fyrirvinnu eiga að lágmarki að vera 90 þús. kr. á mánuði, segir hér í fréttatilkynningu frá 18. mars 1998. Þar segir að Gordon Brown fjármálaráðherra hafi kynnt fjárlagafrumvarp stjórnarinnar á þingi og boðað að ætlunin væri að umbylta skatta- og velferðarkerfinu. Hann sagði þar að breytingarnar ættu að styrkja stöðu fyrirtækja og ekki síður að hvetja fólk til að fara út á vinnumarkaðinn í stað þess að vera heima á bótum. Þetta ættum við að skoða, herra forseti, í okkar hagkerfi. Meðal annars á að taka upp sérstakan skattafslátt vinnandi fjölskyldna frá október á næsta ári sem á að létta undir með þeim launalægstu í Bretlandi. Hann á að vega upp á móti kostnaði við barnagæslu. Skattafsláttinn á að fjármagna með því að koma í veg fyrir möguleika fólks að sleppa við fjármagnstekjuskatt með því að fjárfesta á Ermasundseyjunum og víðar þar sem hægt er að ávaxta sparifé á hagkvæman hátt.

Í þessu fjárlagafrumvarpi kemur m.a. fram að lágmarkslaun á viku eigi að vera a.m.k. 22 þús. kr. eða um það bil 90 þús. kr. á mánuði. Skattleysismörk verða við 27 þús. kr. vikulaun eða um það bil 110 þús. kr. á mánuði. Skattleysismörk eiga að vera um það bil 110 þús. kr. á mánuði. Ég hygg að ef þau atriði sem ég er hér að rekja væru skoðuð og borin væru saman kjör fólks á lágmarkslaunum á Íslandi og í Bretlandi, þá kæmi í ljós að kostnaðarmismunur fjölskyldu á Íslandi og í Bretlandi er nánast enginn. Það er mjög svipað verðlag orðið á Íslandi og í Bretlandi, ef allt er tekið með í dæmið. Mismunurinn er sá að lægstu laun á Íslandi, herra formaður fjárln., virðulegur þm. Jón Kristjánsson, eru 20 þús. kr. lægri en þau laun sem áformað er að verði lágmarkslaun á Bretlandi.

Þetta er mjög alvarlegt. Það hlýtur að vera alvarlegt fyrir okkur á hv. Alþingi að vita um þessar staðreyndir og gera ekkert í málinu. Menn snúa sér nánast undan þegar rætt er um að lögbinda lágmarkslaun. Hægt væri að skoða hvaða áhrif menn telja að hljótist af hækkun lágmarkslauna í 90 þús. kr. á mánuði. Það hefur verið talað um að í tengingu við vísitölu hækki verð á bjór og léttum vínum lítillega og sígarettupakkinn hækki um 25 kr. Ætli okkur fyndist nokkuð mikið til um það? Ætli mætti ekki bara hækka sígarettupakkann verulega á Íslandi umfram það sem er án þess að um það yrðu nokkrar deilur. Verð á bifreiðaeldsneyti hækkar reyndar örlítið en það er talað um að vegaskattur verði settur fastur. Hjá þeim sem aka sparneytnum bílum lækkar kostnaðurinn. Hvað er verið að gera þarna? Það er verið að hvetja fólk til þess að aka léttum, sparneytnum bílum. Hvar er hvatinn til þess á Íslandi. Hvar er sá hvati? Hvergi nokkurs staðar. Það er hvergi nokkurs staðar hvati til þess að menn aki á sparneytnum bílum.

Verð á bifreiðaeldsneyti hækkaði eins og ég sagði en 60 milljarðar verða veittir til viðbótar til heilsugæslu, 30 milljarðar til aukinnar menntunar og 60 milljarðar á þremur árum til að bæta almenningssamgöngur.

William Hague, leiðtogi Íhaldsflokksins, sagði á þingi í gær um fjárlagafrumvarpið að það væri svik við fólk sem ynni mikið og sparaði mikið. Paddy Ashdown, leiðtogi frjálslyndra, fagnaði ýmsu í frumvarpinu en taldi að ríkisstjórnin treysti um of á vexti til að stýra efnahagsmálum. Þetta eru atriði sem ég tel að menn hefðu átt að skoða enn frekar. Ég hef hvatt til þess og náði í rauninni, og rétt að gera grein fyrir því, samkomulagi við hæstv. forsrh. um að skipuð yrði nefnd hagfræðinga til að kanna hvað sé hæft í því sem ég hef verið að leggja fram ár eftir ár. Þrjú ár í röð hef ég rökstutt og lagt fram frv. til laga um lögbindingu lágmarkslauna.

Það er auðvitað rétt að velta fyrir sér af hverju launin á Íslandi eru svona lág. Hver skyldi vera ástæðan fyrir því að laun eru svo lág á Íslandi, sem raun ber vitni? Er það ekki vegna þess að menn hafi ekki komið sér saman um þann grunn sem þarf að vera fyrir því að fjölskyldan, einstaklingurinn, þjóðfélagið geti haft milli handanna, að geta brauðfætt sig, klætt sig og haft þak yfir höfuðið. Þessi grunnur hefur ekki verið skoðaður í allt of langan tíma og ég geri þá kröfu, herra forseti, að úr því verði bætt.

Í þessum orðum mínum felst að ég ásaki aðila vinnumarkaðarins um að hafa ekki staðið sig sem skyldi. Ég ásaka aðila vinnumarkaðarins og ekkert síður þá sem ég á að félögum í Alþýðusambandi Íslands. Ég tel að þeir hafi ekki staðið sig sem skyldi. En hvernig víkur því við? Því víkur þannig við að meiri hluti þjóðarinnar hefur kosið yfir sig þá aðila sem mynda helmingaskiptastjórn á Íslandi, Sjálfstfl. og Framsfl. Þar liggja síðan endarnir. Það er þar sem ákvörðunarvaldið liggur. Inni á Alþingi er ákvörðunarvaldið. Þar mynda 40 þingmenn meiri hluta gegn 23 og undir það beygja menn sig að lokum því að það er lýðræði. Mín orð um lýðræði eru eftirfarandi að lýðræðiskenndin er næstum því dauð og ég gæti lokið máli mínu og sagt þetta svona:

  • Ég læt þessu lokið, mín lýsing er snauð
  • lýðræðiskenndin er næstum því dauð.
  • Áfram er vaðið með ógnarvaldi
  • öllu hér stýrir hann Davíð kaldi.
  • Ég get auðvitað lokið mínu máli með þessu, herra forseti, en mér þykir það dapurt að þurfa að segja að sá meiri hluti sem ríkir er gersneyddur tengslum við þjóðina. Hann áttar sig ekki á því að meiri hluti þjóðarinnar stendur gegn því að þetta frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir. Þegar búið er að kanna það mál er fyllilega ljóst að meiri hluti landsmanna mundi vilja stöðva málið og skoða það í sumar. Þar með er ekki sagt að ekki sé fullt af atriðum sem eru til bóta en það eru allt of mörg vafaatriði. Þegar það kemur beinlínis í ljós, eins og ég las upp áðan samkvæmt umsögn húsnæðisnefndar Kópavogs, að það eru atriði sem fara til verri vegar, þá er ástæða til þess að skoða málið.

    Það er gaman að velta fyrir sér launum og ástæðum þess að laun duga ekki fyrir framfærslu. Ef við veltum fyrir okkur framleiðni og launum í íslenskum fiskiðnaði er auðvitað athyglisvert að skoða upplýsingar um hæstu laun sem íslensk fyrirtæki greiða. T.d. þær tölur sem tímaritið Frjáls verslun birtir ár hvert. Hvernig skyldi það nú vera?

    Á toppnum tróna útgerðarfyrirtæki sem flest hver gera út fyrstiskip og eru meðallaun 30 efstu fyrirtækja á listanum á bilinu 3,6--6,5 millj. Það væri þokkalegt að vera í vinnu þar og ágætt ef ég væri að tala um þá staðreynd að þetta væru meðallaun. Nei, af og frá. Þetta gildir aðeins um þau fyrirtæki sem gera út frystiskipin. En hvað bera síðan hinir úr býtum? 1.100--1.200 þús. kr. á ári. 1.100--1.200 þús. kr. á ári fær verkamaðurinn fyrir fulla vinnu allt árið.

    Fyrirtæki sem eru með blandaðan rekstur, þar sem landvinnsla er stór hluti rekstrarins, fyrirtæki eins og Grandi, Útgerðarfélag Akureyringa og Haraldur Böðvarsson, greiða lægri meðallaun. Þetta var ekki á síðasta ári heldur á árinu 1996. Þá greiddu þau laun á bilinu 2,5 til 2,7 millj. kr. Hvernig stendur á þessu? Auðvitað má velta því fyrir sér hvort sjómenn séu að taka of stóran hluta af kökunni. Eru einhver önnur atriði sem skýra þennan mun?

    Það er auðvitað ekki hægt að standa hér og leggja dóm á það hvort hlutur sjómanna er of stór. Ég held þó að það megi vera ljóst að nýting fjárfestingar í frystitogurum er meiri en í landvinnslu og þar með er meiri geta til að greiða hærri laun. Ég er hins vegar alveg sannfærður um það, herra forseti, að þetta munstur þurfum við að skoða mikið betur. Ég vil segja að ef fiskvinnsla í landi á að geta greitt sambærileg laun og í nágrannalöndum og verða samkeppnisfær við sjóvinnslu, þá er nauðsynlegt að nýting fjárfestingar verði aukin verulega. En hvað er gert? Það er skipt um tæknibúnað ár eftir ár. Tæknibúnaðurinn er ekki búinn að skila sér þegar skipt er út. Af hverju er verið að þessu? Menn ætla sér augljóslega að auka nýtingu og gera fyrirtækið betur samkeppnishæft. Samt eru til fyrirtæki sem aðeins eru rekin á handaflinu einu saman og ég get nefnt það hér, Bylgjan í Ólafsvík. Þar er allur fiskur handflakaður, allur fiskur keyptur á markaði. Fyrirtækið er rekið með hagnaði, borgar góð laun, mikið hærri meðallaun en ég var að nefna áðan sem voru lægstu laun verkafólks. (Gripið fram í: En er þar tryggt félagslegt húsnæði?) Jú, það er vandamál varðandi félagslegt húsnæði í Ólafsvík og það þekkir hv. þm. sem hér kemur til mín alveg upp að stól og getur fengið pláss hjá mér ef hann vill, hv. þm. Kristján Pálsson, þannig að við gætum talað báðir til þess að spara tíma ef því er að skipta. (Gripið fram í: Það er bannað samkvæmt þingsköpum.)

    Ef íslensk fiskvinnsla á að geta greitt sambærileg laun og í nágrannalöndunum og verða samkeppnisfær á við sjóvinnslu, þá er nauðsynlegt að nýting fjárfestingar verði aukin verulega, fiskvinnsluhúsin verði rekin eins og verksmiðjur og starfi öðruvísi en gert er. Í frystihúsum erum við með fjárfestingu sem víða er nýtt aðeins 8 tíma á sólarhring. Þar er skekkja. Þar er um að ræða skekkju. Það þyrfti að vera þannig að húsin þar sem við erum með fiskvinnsluna séu rekin í 14--16 tíma. Til þess að það geti orðið verðum við auðvitað að ná samningum og samkomulagi um að fólk fái greidd mannsæmandi laun fyrir að vinna vaktavinnu. Þetta þýðir, herra forseti, samkvæmt orðum mínum, að það verði að setja á vaktavinnu. Þá verður að gera nýja kjarasamninga og það er ekki hægt að ná þeim kjarasamningum fram nema fólk fái verulega bætt laun.

    [11:30]

    Herra forseti. Ég hef oft staðið í þessum stól og rætt um sjávarútveg. Flestir þeir sem til mín heyra vita um skoðun mína sem er sú að það kvótakerfi sem sett var á með lögum nr. 38/1990 eigi verulega sök á því að fólki hefur fækkað á landsbyggðinni og fjölgað í þéttbýlinu vegna þess að fjármagn hefur verið flutt frá almenningi til einstaklinga, því miður. Ég veit að fjölmargir þekkja dæmin sem hlotist hafa af því.

    Eitt mikilvægasta verkefni stjórnenda íslenskra fyrirtækja ætti auðvitað að vera og er að þeir eiga að stuðla að því að íslensk fyrirtæki geti borgað góð laun þannig að lífskjör séu jafngóð og best gerist í nágrannalöndunum. Ef ekki stöndum við í eilífu stríði um þau mál sem ég hef verið að nefna og ég tel að einfaldast væri að lagfæra þessi mál með einu pennastriki og miða lágmarkslaun við 85 þús. kr. eða þá þannig, svo ég nefni engar tölur, að það sé öruggt að einstaklingurinn hafi afgang umfram frumþarfir til að leggja til hagkerfisins.

    Nauðsynlegt er að góð samvinna náist um þessi atriði milli launþega og atvinnulífsins og þau samtök sem fjalla um kjarasamninga verða að átta sig á að það getur verið nauðsyn að gera breytingar á ýmsum atriðum sem lúta að kjarasamningum til þess að auka sveigjanleika. Ég held að því miður sitji samtök launþega og vinnuveitenda allt of föst í sama fari og ástæða sé til þess að auka sveigjanleika.

    Til þess að ná árangri í svona verkefni er að sjálfsögðu mikilvægt að stöðugleiki ríki á vinnumarkaði og ekki geri ég annað en fagna þeim hugmyndum sem hafa komið fram hjá mörgum forustumönnum launþega um að það eigi að gera kjarasamning eins og gerður var síðast til aldamóta. Ég tel að það hafi verið rétt skref. En það sem um var samið voru of lág laun. Ég viðurkenni þó, herra forseti, að kjörum launþega verður ekki breytt á einni nóttu með einhverju heljarstökki. En það er einungis hægt að vænta þess að hægt sé að bæta kjörin með aðgerðum til lengri tíma. Ég vona að menn grípi til þess þó að ég segi að það eigi að setja strik við og setja lágmarkslaun 85 þús. kr. Þá er aðeins byggt á athugunum mínum. Ég treysti því ef það mál er skoðað finni menn þá tölu sem er rétt að miða við.

    Auðvitað get ég nefnt fjölmörg atriði um þetta mál sem hér hefur verið rætt. Í 1. umr. setti ég fram spurningar, fékk svör við þeim og vonaðist síðan til að málið fengi jákvæðari umfjöllun af hálfu stjórnarmeirihlutans. Niðurstaðan er sú sem við sitjum með og hv. formaður félmn. hefur gert grein fyrir þeim atriðum sem stjórnarandstaðan telur að þurfi helst að laga. Því miður hefur það ekki náðst fram. En ég get auðvitað sagt það að í upphafi sagði hæstv. félmrh. að hann sæi ástæðu til að gera brtt. á þessu máli í upphafi en því miður eru þær breytingar sem boðaðar eru milli umræðna allt of litlar til þess að ég geti a.m.k. sætt mig við að málið sé afgreitt núna.

    Ég held að það þurfi að vera þannig að kaupendur í húsnæðiskerfinu þurfi að hafa val um það t.d. á fyrstu fimm árunum hvort þeir leigi í upphafi og í framhaldi af því geti þeir keypt og valið á fimm ára tímabili. Þetta liggur því miður ekki fyrir núna og m.a. þess vegna er ég mjög óhress með að afgreiða málið og mun ekki gera það. Ég mun sitja hjá við ýmsar greinar og greiða atkvæði á móti sumum ef frv. kemur til atkvæðagreiðslu. Best væri, herra forseti, að sátt næðist um að ákveðin atriði úr þessu frv. væru tekin og geymd til haustsins og skoðuð nákvæmlega í sumar. Það gerist nákvæmlega ekki neitt. Ég spyr: Hvað er búið að gera gagnvart því fólki sem starfar hjá núverandi Húsnæðisstofnun? Hvað er búið að bjóða því fólki? (Gripið fram í: Ekkert.) Ekkert. Ég veit ekki til að því fólki hafi verið boðinn nokkur skapaður hlutur formlega. Vissulega veit ég að hæstv. félmrh. hefur sagt að hann hugsi sér að því fólki sem starfar á þessari stofnun verði boðið starf á nýju peningastofnuninni. En það er ekki búið að gera það formlega. Þetta fólk á allt yfir höfði sér að það fær annaðhvort vinnu eða ekki. Engum hefur formlega verið boðin vinna þannig að þetta fólk er allt í lausu lofti og þetta er eitt af þeim atriðum sem ég geri alvarlega athugasemd við.

    Herra forseti. Það getur verið að í seinni ræðu minni um þetta mál komi ég inn á nákvæmt dæmi og nákvæmari dæmi en ég hef farið yfir hvaða afleiðingar frv. hefur einmitt gagnvart þeim hópum sem ég tel að hafi fallið fyrir borð að hugsa um. Ég er að sjálfsögðu með efni til þess að sýna fram á með ýmsum rökum að hér er rangt farið að. En í trausti þess að menn nái samkomulagi um að þetta mál verði geymt á einhvern hátt eða menn nái samkomulagi um það hvernig þetta mál verði afgreitt ætla ég að láta staðar numið í málflutningi mínum. Ég minni á það sem ég sagði áðan um lýðræðið og kom því saman í vísukorni og ég lýsi miklum áhyggjum yfir því sem er að gerast á landinu. Ég minni á hálendisfrv. og ég minni á þetta frv. um sveitarstjórnarmál, ég minni á þetta frv. um húsnæðismál þar sem á að knýja með ofurvaldi fram meiri hluta sem er að öllum líkindum gegn meirihlutavilja þjóðarinnar.

    Herra forseti. Ég læt máli mínu lokið í bili en ég skora á virðulegan forseta að hann beiti áhrifum sínum til þess að reyna að ná samkomulagi um afgreiðslu þeirra mála sem fyrir liggja því að það horfir mjög alvarlega hjá mörgum einstaklingum sem eiga allt sitt undir þeim málum sem við erum að ræða.