Húsnæðismál

Laugardaginn 16. maí 1998, kl. 13:03:35 (6654)

1998-05-16 13:03:35# 122. lþ. 129.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, KPál
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 122. lþ.

[13:03]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Við höfum hér hlýtt á ræður stjórnarandstöðunnar nú í nokkra daga og jafnvel farið að telja það í vikum, tvö mál sem verið hafa til umræðu hér í Alþingi og hefur málatilbúnaður allur verið að margra mati með endemum. Það segir svo í Hávamálum um málgleði, með leyfi forseta:

  • Ærna mælir
  • sá er æva þegir
  • staðlausu stafi.
  • Hraðmælt tunga,
  • nema haldendur eigi,
  • oft sér ógott um gelur.
  • Þetta þýðir með öðrum orðum, herra forseti, að mikið mælir sá sem aldrei þegir, staðlausa stafi. Málugur maður gætir ekki tungu sinnar og getur bakað sjálfum sér skaða.

    Spurningin er sú, herra forseti, hvort sú hraðmælta tunga sem hér um ræðir --- og ein þeirra hefur talað hér í tíu klukkustundir og tólf mínútur í einu og sama málinu --- hafi orðið sjálfum sér til skaða eða hafi orðið virðingu Alþingis til skaða. (Gripið fram í: Það er hægt að gera meiri skaða með stuttum yfirlýsingum í sjónvarpi en tíu klukkustunda ræðu.)

    (Forseti (GÁ): Ekki samtal úr sal.)

    Hv. þm. sem hér um ræðir hefur að mínu áliti orðið Alþingi meira til skaða en sjálfum sér. Það hefur oft verið þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað tamara í munni að ræða um virðingu Alþingis þegar það hefur passað þeim. En þegar það passar þeim ekki þá virðist virðing Alþingis engu skipta. Þegar hv. þm. leyfa sér að tala í yfir tíu klukkustundir um sama málið þá er engin virðing í því fyrir neinn. Ég vil, herra forseti, láta þetta koma hér fram vegna þess að það er sama hvar er í þjóðfélaginu og hittir fólk, að alls staðar ber þetta á góma og öllum ofbýður. (Gripið fram í: Þetta er ekki rétt.)

    Hvers vegna er þá þessi ærna mælgi, herra forseti, af hverju? Og hvers vegna byrjaði þetta? Ég lít svo á að þetta sé vegna þriggja mála, þ.e. náttúrlega þeirra tveggja sem ég minntist á hér áðan --- umræður um þau hafa staðið hér yfir í nærri hálfan mánuð --- þ.e. sveitarstjórnarlög og húsnæðismál, og svo var í upphafi fjallað um miðlægan gagnagrunn sem var hugsaður fyrir Íslenska erfðagreiningu. En það tókst á ótrúlegan hátt að ýta því máli út af borðinu þannig að öll þjóðin mun tapa á því hvernig farið var með það. Allir eru sammála því sem það mál skoðuðu að ef einhver vilji hefði verið til staðar --- auðvitað kom málið snöggt inn --- til að ná því í gegn þá hefði það verið hægt í samkomulagi við þær starfsstéttir sem áttu um það að fjalla og vinna með það í heilbrigðiskerfinu. Þetta er eitt málið. Þetta er fyrsta málið.

    Annað málið er að sjálfsögðu upplegg stjórnarandstöðunnar varðandi sveitarstjórnarlögin. Þar hefur tekist á ótrúlegan hátt að telja stórum hluta þjóðarinnar trú um að verið sé að færa hálendið 4% þjóðarinnar. Staðreyndin er náttúrlega allt önnur. Staðreyndin er nefnilega sú að þjóðinni var fært hálendið með þjóðlendufrv. en ekki öfugt. En það hefur tekist á alveg undraverðan hátt að telja fólkinu trú um að þessu sé alveg öfugt farið, að það sé búið að taka þetta frá henni.

    Ég segi að svona málflutningur skaði virðingu Alþingis því að fyrr eða síðar hlýtur hið rétta í málinu að koma í ljós.

    Herra forseti. Nú er til umræðu frv. til laga um húsnæðismál. Hvað er verið að gera hér? Það er verið að gera það eitt, herra forseti, að verið er að leggja niður kerfi sem flestir landsmenn þekkja orðið sem misnotað, ósanngjarnt og stagbætt kerfi, félagslegt íbúðakerfi þar sem réttur þeirra sem það hafa notað hefur verið fótum troðinn. Ég er ekki að kenna því um að fólkið sem vinnur við kerfið eins og hjá Húsnæðisstofnun ríkisins eða húsnæðisnefndum hafi ekki sinnt starfi sínu. Ég held því fram, herra forseti, að miðstýrt kerfi af þeim toga sem hér hefur verið ríkjandi um árabil, áraraðir, geti aldrei virkað öðruvísi og niðurstaðan hlýtur alltaf að verða sú að það verði misnotað.

    Hver þekkir ekki, ágæti forseti, hvernig fólk hefur farið út úr sölu íbúða sinna, fólk sem hefur sinnt eðlilegu viðhaldi og farið út í umbætur sem hafa verið kostnaðarsamar en ekki fengist metnar að neinu leyti þegar til sölu hefur komið? En trassaskapur sumra hefur verið látinn óátalinn. Hver þekkir ekki misnotkun sveitarfélaga á þessu kerfi þar sem listar og byggingar eftir þeim hafa ekki verið í neinum takt við þarfirnar eða stöðuna í sveitarfélaginu? Hver þekkir ekki hvernig fólk sem hefur farið inn í slíkt húsnæðiskerfi en þó komist í álnir sem betur fer síðar meir, hefur haldið áfram að sitja í því kerfi með niðurgreiddum vöxtum, kerfi sem var hugsað fyrir fólk sem hafði ekki möguleika á að byggja sjálft? Þessi misnotkun hefur tíðkast áratugum saman og fólk hefur þurft að horfa upp á slíkt sem hefur í hugum flestra verið fleinn í þessu kerfi.

    Hver þekkir ekki það hvað fólk hefur oft farið illa út úr sölu í þessu kerfi og hver þekkir ekki vanda sveitarfélaganna sjálfra sem hafa með innlausnarskyldu sinni nánast kollvarpað fjárhag sínum og sitja uppi í dag með fullt af slíku húsnæði sem er langt yfir markaðsverði en óseljanlegt?

    Herra forseti. Þetta er stutt upptalning á þeim mörgu göllum sem hafa komið í ljós í kerfinu í gegnum árin og hefur aldrei verið hægt að laga almennilega og er ástæðan fyrir því hversu þetta kerfi er orðið stagbætt og illa nothæft.

    Hvað er svo verið að gera til þess að bæta þetta, herra forseti? Það er verið að færa niðurgreidda vexti yfir í svokallað vaxtabótakerfi. Það er verið að færa fólki vaxtaniðurgreiðslurnar í skattkerfinu en það er ekki verið að útvega lán á föstum vöxtum sem greiddir eru niður af ríkinu óháð aðstöðu fólks á hverjum tíma. Þeir vextir sem eru í þessu vaxtabótakerfi eru ekki markaðsvextir heldur húsbréfavextir, en það hefur komið fram hér í máli sumra að um sé að ræða kerfi sem sé með frjálsum vöxtum. En hér er um húsbréfavexti að ræða sem eru í dag um 5% og þessi lán verða með ríkisábyrgð sem þýðir í rauninni að hægt er að halda vöxtunum niðri.

    Í öðru lagi er verið að gera það, herra forseti, að sala íbúðanna verður á frjálsum markaði í stað þess að vera í gegnum húsnæðisnefndir og þá nýtur að sjálfsögðu sá þess sem í slíku kerfi er að hafa haldið sínu húsnæði vel við. Hann nýtur þeirra endurbóta sem það hefur fengið og hann fær sanngjarnt eða það markaðsverð fyrir íbúð sína sem er á hverjum tíma.

    Það 90% lán sem fylgir þessu kerfi er það sama og verið hefur fram að þessu og ... (Gripið fram í: Á 1% vöxtum?) Nei, nei. Þetta 90% lán er annars vegar lán Húsnæðisstofnunar og svo viðbótarlán með húsbréfavöxtum sem eru í dag 5,1% Lánin eru þar að auki með ríkisábyrgð sem leiðir til þess að þau eru hagkvæmari en lán á markaðsvöxtum. Það er ekki verið að setja þessi bréf inn á markaðsvexti eins og komið hefur fram hér í máli hv. þingmanna sumra þannig að að því leyti er að mínu áliti ... (KÁ: Hvað þýðir þá brtt. sem meiri hlutinn leggur fram?) (Gripið fram í: Eru ekki markaðsvextir ...?)

    (Forseti (GÁ): Hljóð í sal.)

    Markaðsvextir þýða að þessu leyti til vextir húsbréfakerfisins. Húsbréfakerfið hefur verið með breytilegum vöxtum sem hafa farið (Gripið fram í.) eftir ávöxtunarkröfunni og að því leyti til hafa menn verið að kaupa inn ákveðna flokka, húsbréfaflokka, og þannig hefur kerfið eða vextirnir breyst.

    Innlausnarskylda sveitarfélaganna, herra forseti, fellur niður. Það er gríðarlega mikilvægt atriði fyrir sveitarfélögin. Þá mun félagslegt húsnæði flytjast yfir í svokallað leiguhúsnæðiskerfi, þ.e. að leiguhúsnæði mun taka við því fólki sem ekki getur af einhverjum ástæðum keypt sitt eigið húsnæði sjálft í félagsíbúðakerfinu. Leiguíbúðakerfið býður upp á lán sem verða 90% af byggingarkostnaði. Þessi lán verða með 1% vöxtum. 90% lán með 1% vöxtum og slíkar leiguíbúðir geta hvaða félagasamtök sem er byggt, ekki einungis sveitarfélög heldur geta einnig félagasamtök fatlaðra, félagasamtök aldraðra, Búseti og aðrir sem áhuga hafa á að byggja leiguhúsnæði og fengið lán með þessum kjörum. Þeir aðilar verða þó að leggja til þau 10% sem upp á vantar þannig að 100% fjármögnun sé tryggð. 10%, sem geta verið í eigu sveitarfélags eða annarra eins og komið hefur hér fram, eru seljanleg í hendur leigjandans þannig að leigjandinn telst þá eigandi um leið og nýtur þess ef hann bætir sitt húsnæði. Hann getur gert það sem honum líkar best og hann getur verið óhræddur um það að húsnæðið verði ekki af honum tekið, með öðrum orðum, herra forseti, þá er hann eigandi húsnæðisins og getur hagað sér þar eins og eigandi húsnæðisins.

    [13:15]

    Þetta finnst mér, herra forseti, opna mikla möguleika fyrir þá sem hingað til hafa ekki haft möguleika á eigin húsnæði, ekki í því kerfi sem hefur verið notað fram að þessu. Ef ekki reynist möguleiki fyrir viðkomandi að borga leigu með 1% vöxtum, ef hann getur ekki staðið undir slíkri leigu og kaupum á 10% framlaginu, þá er ljóst, herra forseti, að sá aðili verður að fara í húsnæði á vegum félagsmálastofnunar. Því miður kemur það fyrir suma að lenda í slíku en sem betur fer fáa.

    Í leiguhúsnæðiskerfinu mun ekki þurfa greiðslumat. Það tel ég einnig mjög mikilvægt því að þetta fólk, þó það sé að eignast húsnæðið, þarf sannanlega á öðrum félagslegum úrræðum að halda en þeir sem fá viðbótarlánin og uppfylla þá að sjálfsögðu ekki þær kröfur, en getur þá óháð stöðu sinni komist inn í slíkt húsnæði ef það nær samningum við þann sem byggt hefur leiguhúsnæðið. Í þessu tel ég, eins og ég sagði áðan, herra forseti, felast gríðarlega réttarbót fyrir þá sem eru illa efnum búnir.

    Kostirnir við þetta, herra forseti, eru þeir að fólk reisir sér ekki hurðarás um öxl, eins og oft hefur verið í því kerfi sem við höfum búið við. Fólk hefur m.a.s. átt mjög erfitt með að fjármagna þau 10% sem í þessu tilfelli er gert ráð fyrir að sveitarfélög eða félagasamtök fjármagni. Margir hafa ekki fengið það öðruvísi en með mjög dýrum bankalánum sem þeim hefur reynst ókleift að greiða af þegar upp er staðið. Þessir 1% vextir hljóta því að skipta sköpum.

    Að lokum, herra forseti, vil ég segja að staða sveitarfélaganna á að vera nokkuð vel tryggð með þessari breytingu, þ.e. að hugsanlegu innlausnartapi sveitarfélaga verður mætt í fyrsta lagi samkvæmt bráðabirgðaákvæði VII, um varasjóð. Í þeim sjóði eru um 300 millj. kr. sem eiga að fara til að greiða innlausnartap sveitarfélaganna af innlausnum íbúða sem seljast á lægra verði en innlausnin var og á þeim hvíla hærri lán. Í þessu tilfelli er gert ráð fyrir slíkum aðgerðum. Aftur á móti gera menn sér fyllilega ljóst að ekki er víst að þetta dugi. Þess vegna verður sérstakt samráð haft og sérstök nefnd sett á laggirnar til þess að átta sig á því hvað þetta vandamál verður stórt og því verði mætt sameiginlega af ríki og sveitarfélögum.

    Það sem ég vildi segja að öðru leyti í lokin, herra forseti, er um starfsmenn Húsnæðisstofnunar ríkisins. Fulltrúar starfsmanna komu á fund félmn. auk aðstoðarmanns félmrh. Fulltrúar í félmn. fengu þau skilaboð að starfsmenn Húsnæðisstofnunar væru í forgangi að störfum í nýja kerfinu að öðru jöfnu og að ekki væri ástæða fyrir starfsmenn Húsnæðisstofnunar að óttast að gengið yrði fram hjá þeim. Fyrir þessu liggur loforð bæði frá aðstoðarmanni félmrh. og félmrh. sjálfum og sé ég ekki nokkra ástæðu til þess að vefengja slík orð, herra forseti, og mér finnst miður að gert sé lítið úr þessu sérstaka atriði sem skiptir þetta fólk svo miklu máli.

    Að endingu, herra forseti, vil ég nefna þær misvísandi umsagnir sem borist hafa um þetta mál. Annars vegar hafa umsagnir sveitarfélaganna verið mjög jákvæðar en svo hafa allt annars konar umsagnir komið frá húsnæðisnefndum þeirra sömu sveitarfélaga. Húsnæðisnefndirnar hafa verið mjög neikvæðar og þeirra forsendur allt aðrar heldur en sveitarstjórnanna sjálfra. Þetta lítur dálítið einkennilega út en ég held að það sé ósköp einföld skýring á þessu. Auðvitað hafa sveitarstjórnirnar aðra yfirsýn yfir kerfið, yfir þörfina og stöðu sveitarfélaganna hvað þetta varðar heldur en húsnæðisnefndirnar sjálfar. Það verður líka að segjast eins og er að innan húsnæðisnefndanna hefur skapast önnur pólitík. Það hefur verið önnur pólitísk samsetning innan nefndanna en í bæjarstjórninni þannig að þar kristallast ágreiningur milli sveitarstjórnanna og húsnæðisnefndanna vegna þessarar mismunandi samsetningar nefndanna og sveitarstjórnanna. Síðan má segja að ein af hugsanlegum skýringum á þessari neikvæðni húsnæðisnefndanna sjálfra sé að þar er að sjálfsögðu fólk sem hefur áhyggjur af stöðu sinni og ég get ekki sagt að það sé annað en eðlilegt þegar svo miklar breytingar eru í vændum og raun ber vitni, herra forseti.

    Ég vil að lokum segja það eitt, herra forseti, að ég vona að það málþóf sem verið hefur í kringum þetta mál og önnur í þinginu verði til þess að menn opni augu sín fyrir því að við svo búið má ekki standa. Lýðræðið byggist ekki á því að misnota aðstöðu sína heldur byggist það á eðlilegum skoðanaskiptum og snörpum orðræðum en ekki málþófi eins manns upp á tíu klukkustundir eða meira um sama málið.