Húsnæðismál

Laugardaginn 16. maí 1998, kl. 15:18:34 (6657)

1998-05-16 15:18:34# 122. lþ. 129.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 122. lþ.

[15:18]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Vegna þess sem hv. þm. sagði síðast þá hefur ríkisstjórnin eindregið óskað eftir því að mega axla þessa ábyrgð. Það þarf því ekki að hafa neinn hávaða eða barsmíðar í ræðustól út af því. Ríkisstjórnin hefur eindregið óskað eftir því að mega axla þá ábyrgð og mega sýna hana í atkvæðagreiðslu. Það er akkúrat það sem hv. þm. hefur verið að reyna að koma í veg fyrir að mætti gerast, að ríkisstjórnin fengi að axla þá ábyrgð.

Hv. þm. vék aðeins að mér í upphafi máls síns. Í því sambandi nefndi hv. þm. sérstaklega að fullyrðingar mínar um að hér væri málþóf á ferðinni væru úr lausu lofti gripnar. Ég tel að íslenskir kjósendur, íslenskur almenningur, eigi heimtingu á því að fá útskýrt af þaulvönum þingmönnum, öðrum en hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, hvenær málþóf hefjist fyrst að tíu tíma ræða hennar í þingsalnum féll ekki undir málþóf. Ég er viss um að mikil forvitni ríkir meðal þjóðarinnar að vita hvernig hv. þm. mundi haga sér ef þingmaðurinn hv. hæfi virkilegt málþóf fyrst þetta var aðeins eðlilegur hluti af þingstörfum að mati hennar.

Ég get nefnt við þingmanninn hvers vegna mér þykir þetta vera málþóf. Ég get útskýrt það. Á síðasta þingi, 121. löggjafarþingi, talaði ég, sá sem hér stendur, samtals í 4 klukkutíma og 45 mínútur allt þinghaldið. Ég býst þó við að hv. þm. þyki að ég hafi fengið að koma nægjanlega að skoðunum mínum. Mér þykir það. Mér þykir að ég hafi fengið nægjanlega að koma skoðunum mínum að. Ég talaði í 4 klukkutíma og 45 mínútur allt þinghaldið.

Hv. þm. talaði á einum degi meira en helmingi lengur en ég allt þinghaldið á 121. löggjafarþingi. Samt segir hv. þm. við almenning í landinu, sem hún vill væntanlega að taki mark á sér, að ekki hafi verið um málþóf að ræða. Þjóðin hlýtur að bíða í ofvæni eftir því að þingmaðurinn hv. útskýri fyrir henni hvenær málþóf hefjist og hversu lengi hv. þm. muni þá tala.

Nú er ég bara að tala um eina ræðu hv. þm. í þessari löngu lotu meðan þingið hefur ekki fengið að ganga til atkvæða. Ég er aðeins að tala um eina ræðu, sem var meira en helmingi lengri en allar þær ræður sem ég flutti á 121. löggjafarþingi og þykir mér þó að ég hafi haft nægan tíma til að koma skoðunum mínum á framfæri. (ÖJ: Er þetta ræða um húsnæðismál?) Það getur vel verið að einhver annar hafi tekið meira af tíma þingsins hér en ég hér, hv. þm. Hann hefur þá mjög góða samvisku, sá þingmaður ef hann telur að ég hafi tekið hér meiri tíma í þessari umræðu en hann. Ef hann hefur alltaf haldið sig á réttri línu um þau málefni sem hér hafa verið rædd, þá þykist þingmaðurinn hv. góður. (SvG: Forsrh. hefur nú tekið ... tíma Alþingis.)

Ég ætla aðeins að víkja frekar að þessum þáttum. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði að hún hefði ekki verið með neitt málþóf og ég hefði ekki fylgst með umræðunni. Hvernig veit hv. þm. það? Ég kom áðan í þingsalinn í gættina þegar hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir, 6. þm. Norðurl. e., var að tala. Það var enginn þingmaður í salnum, fyrir utan hæstv. forseta. Ég er þó ekki að gera því skóna að enginn hafi verið að fylgjast með ræðu hv. þm. Ég held að ýmsir hafi verið að gera það. Ég fylgdist til að mynda með drjúgum hluta af ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur þó að ég sæti ekki í þingsalnum. Þannig er aðstaðan sem nú er sköpuð að við erum fær um það.

Ég heyrði m.a. hv. þm. lesa hér upp úr 50 ára gömlum ræðum. Hún fjallaði þar um menn eins og Ólaf Thors, Pétur Ottesen, Magnús Guðmundsson, sneri út úr orðum þeirra, skensaði þá á alla lund og uppnefndi flokk þeirra og stefnu hér slag í slag. Hún fjallaði um 50 ára gamlar ræður slag í slag og þótti sennilega allt í lagi. Það tengdist ekki neinu málþófi.

Ég fylgdist með því, þjóðin fylgdist með því og aðrir fylgdust með því. En sem sagt, þetta var ekki málþóf af hálfu hv. þm.

Það var áðan kallað fram í fyrir mér af þingmanni sem stendur hér til hliðar hvort ég væri að ræða um húsnæðismál. Þingmaðurinn var sennilega ekki í salnum þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fjallaði, sennilega í 20 mínútur, nákvæmlega um þessa þætti, um viðbrögð mín og orð mín annars staðar. Er það virkilega skoðun þingmannsins að ég eigi ekki að hafa leyfi til að svara því? Er það skoðun hans á lýðræðinu og þingræðinu að ég eigi ekki að hafa leyfi til þess að svara því sem hv. þm. vék að mér í löngu máli hér áðan? Það segir manni heilmikið um lýðræðisvitund þessa hv. þm. sem þykist þó iðulega tala í nafni þjóðarinnar sem hann hefur reyndar ekki á bak við sig.

Hv. þm. sagði að ég hefði nefnt hér tölur yfir það hver kostnaðurinn hafi orðið af ræðu þingmannsins hér og krafðist þess að ég gæfi skýringar á því. Það er sennilegt að ég þurfi að biðjast afsökunar þar en þá á því að ég hafi reiknað heldur lágt. Veit hv. þm. til að mynda hvað það eitt kostaði að vélrita ræðu hennar og ganga frá henni? Vill þingmaðurinn kalla það fram í hvað það kostaði? Veit þingmaðurinn það? Hugsaði þingmaðurinn út í það? Það kostar 300 þúsund krónur samkvæmt upplýsingum þingsins, 300 þúsund krónur að vélrita ræðu þingmannsins sem var ekki síst upplestur úr 50 ára gömlum ræðum í þinginu, ekki síst. (JóhS: Þetta er rangt. Forsrh. hefur ekki hlýtt á mál mitt ... Þetta er rangt.) Ég hlustaði á mál þitt. Og a.m.k. einhver hluti þjóðarinnar hlustaði á mál þitt líka. (SvanJ: Er dýrara að vélrita ræður hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur en annarra?) Ef þær eru lengri, hv. þm., sem því nemur, ef þær eru lengri. Það vita allir menn.

Þó er aðeins þessi kostnaður tekinn, en þó annar kostnaður bættist við, sem væri jafnvel umfram venjulegan kostnað (JóhS: Og fastan kostnað ... ) þá væri þessi tala sem ég var að nefna sennilega allt of lág.

Út af fyrir sig segi ég ekki að það eigi að ráða ferðinni. En það er hins vegar sjálfsagt og eðlilegt að fólkið í landinu viti um slíkan kostnað. Þeim hv. þm. sem talaði áðan er meira í mun en flestum öðrum að þjóðinni sé ljóst um ýmsan kostnað í þjóðfélaginu. Hún getur ekki haft á móti því að kostnaður af hennar athöfnum og starfsháttum liggi líka ljós fyrir. Meginmálið er að dögum saman hefur þessi hv. þm. og fleiri með framgöngu sinni komið í veg fyrir að þingviljinn nái fram að ganga.

Vegna þess að hv. þm. hefur setið alllanga hríð á þinginu vakti það mikla athygli mína þegar hv. þm. bað um að forseti þingsins gæfi yfirlýsingu um að þingsköpum yrði ekki breytt nema allur þingheimur væri sammála. Þetta er ótrúlegur skilningur á þingræðinu og þinghaldinu. Þingsköp eru, eins og hv. þm. veit, löggjafarstarfsemi. (Gripið fram í.) Löggjafarstarfsemi. Hvað yrði sagt ef forseti þingsins tilkynnti, um hin eða þessi lög, að hann mundi ekki leyfa --- og gæfi um það yfirlýsingu --- að lögum yrði breytt nema allur þingheimur væri um það sammála? Hvað yrði sagt um það?

Hv. þm. Svavar Gestsson hristir höfuðið og segir uss. Hann hefur bersýnilega skilning á því að auðvitað væri fráleitt að lýsa þessu yfir. Þetta er lagasetning. (Gripið fram í.) Þetta er lagasetning um starfshætti þingsins. Að segja að einhver lagasetning eigi að lúta þeim lögmálum að hver og einn þingmaður eigi að hafa neitunarvald um slíka lagasetningu, hvers konar hugmyndir eru þetta? Það sagði hv. þm. úr ræðustólnum.

Síðan sagði hv. þm. að þegar ég talaði um að breyta þingsköpum væri framkvæmdarvaldið að gefa þinginu fyrirskipanir. Hvers konar ruglingur er þetta? Þegar forsrh. talar um lög eða löggjafarstarfsemi er hann að tala sem þingmaður, sem talsmaður þingmeirihlutans á hverjum tíma. Það gerist í öllum löndum, þessu landi eins og öðrum. Þá er forsrh. í stjórnarsamstarfi að tala fyrir hönd þingmeirihlutans á hverjum tíma. Það gefur auga leið. Fyrir hönd þingmeirihlutans á hverjum tíma.

Með sama hætti talar formaður þingflokks Alþb. fyrir hönd þingmanna þess flokks --- og óháðra --- að ég gleymi ekki óháðum sem eru í þeim þingflokki, líka fyrir hönd þeirra. Þeir eru alltaf nefndir sérstaklega, hinir óháðu í þingflokknum, þegar þessar yfirlýsingar eru gefnar. Það gleður mig alltaf sérstaklega að hinir óháðu eru hafðir með. En nú eru óháðir að stofna alveg sérstakan flokk óháðra. Það verður sérstaklega gaman þegar það allt saman gerist. (Gripið fram í.)

Síðan tekur nú steininn úr þegar hv. þm. segir: Svo fer forsrh.að skipta sér af því hversu lengi þingið sitji. Það finnst þingmanninum hv. algjörlega svakalegt, hræðilegt. En á hverju skyldi það byggjast, hv. þm.? Það byggist, hv. þm., á stjórnarskránni. Við eigum auðvitað að fara eftir þingsköpunum, þau eru lög, en framar öllum öðrum lögum förum við eftir stjórnarskránni. Í stjórnarskránni er tekið fram að forsrh. hafi með það að gera hversu lengi þingið situr og hversu lengi það situr ekki. Ef hann skiptir sér ekki af því er hann að víkjast undan þeim skyldum sem stjórnarskráin setur honum. Það kemur ekki til greina af minni hálfu að ég bregðist þeim skyldum sem stjórnarskráin setur mér á herðar.

Þó að þingmenn komi í þennan ræðustól eftir áralanga setu og afhjúpi þannig þekkingarleysi getur það ekki breytt þeim skyldum sem hvíla á mér. Ég mun auðvitað sinna þeim.

Ég hef sagt, og tel það vera eðlilegt, að augljóst sé að þingmenn vilji tala, tala mikið og tala lengi. Þá hef ég sagt að þá skuli einnig vera augljóst að þingmönnum sé skaffaður tími til að tala. Er eitthvert ofríki fólgið í því? Ekki til, vottar ekki fyrir því. Þingmenn tala eins lengi og þeir kjósa. Jafnvel þó þeir segi beint framan í þjóðina að þeir séu ekki með málþóf þegar þeir tala tíu klukkutíma einn daginn þannig að enginn annar þingmaður komist að þann dag eru þeir ekki með málþóf, þá er ekki amast við því að þingmenn fái þann tíma til að tala sem þeir þurfa.

Þá tekur það sinn tíma. Það er eingöngu verið að lýsa staðreyndum máls, ekki neinu öðru. Hins vegar er algjörlega ljóst og kristalsklárt að það er mjög ofarlega í huga þjóðarinnar núna eftir alla þessa framgöngu að á þingmeirihlutanum hvílir sú skylda að breyta þingsköpum sem með þessum hætti eru misnotuð. Það er kristalsklárt. Menn þurfa ekki lengi að ganga hér milli húsa til að finna og skynja þann skilning þjóðarinnar. Nema þeir þingmenn sem eru algjörlega úr tengslum og takti við þjóðina en eru þó alltaf að tala eins og þeir hafi hana alla á bak við sig. (ÖJ: Hefur þetta verið rætt í þingflokknum?) Þeir tala ætíð eins og þeir hafi þjóðina á bak við sig sem er fjarri öllu lagi.

Að sjálfsögðu þarf að ræða öll mál í þingflokknum og það verður að sjálfsögðu gert. (Gripið fram í: Eftir á?) Nei, það er ekki hægt, hv. þm. Það ræðir enginn lagabreytignar eftir á. Ja, það er kannski hjá Alþb. Við gerum það ekki þannig í mínum flokki.