Húsnæðismál

Laugardaginn 16. maí 1998, kl. 15:31:45 (6658)

1998-05-16 15:31:45# 122. lþ. 129.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 122. lþ.

[15:31]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta var allsérstæð ræða hjá hæstv. forsrh. Hann endaði mál sitt með því að segja að þjóðin vildi breyta þingsköpum. Ja, mikið veit hæstv. ráðherra, að hann kallar þjóðina alla til vitnis um að hún vilji að þingsköpum sé breytt og að dregið sé úr lýðræðinu og þingræðinu. Það er alveg sérstakt.

Og það var alveg sérstakt þegar hæstv. ráðherrann dró fram ræður sínar á síðasta þingi, 4:45, sem einhvern mælikvarða á það hvað sé eðlileg ræðulengd. (Forsrh.: Ekki ræðuheild kannski ...)

Herra forseti. Mér finnst hæstv. forsrh. ekki hafa bætt málstað sinn frá því sem ég hlustaði á í morgun þar sem hann taldi að minni hlutinn, sem hefur verið að skýra ítarlega mál sitt, en ekki lesa upp úr afmælisritum og skýrslum, væri þingræðinu til skammar.

Herra forseti. Mér fannst fremur að forsrh. væri sér til skammar í morgun með þessum yfirlýsingum og út frá hvaða sjónarhóli hann lítur á lýðræðið og þingræðið í landinu. Það er hann sem ræður, það er hann sem hefur valdið innan þings og utan. Hvenær og hvort eigi að breyta þingsköpum, hvenær þinginu á að ljúka, hvað á að taka á dagskrá og nákvæmlega hvenær á að fresta því. Hans heilagleiki, hann hefur valdið. ,,Það er ég sem hef valdið``, er það sem skín í gegnum þetta.

Og að sjálfur forsrh. yfir Íslandi skuli segja þessi orð, niðrandi orð um þingið og halda því að þjóðinni að hann ráði bæði innan þings og utan, herra forseti, það er til skammar.