Húsnæðismál

Laugardaginn 16. maí 1998, kl. 15:34:11 (6659)

1998-05-16 15:34:11# 122. lþ. 129.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 122. lþ.

[15:34]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kemst ekkert út úr því að fullyrðingar hennar um það að hún stundi ekki málþóf fá ekki hljómgrunn með þjóðinni. Þingið hefur tekið saman hversu lengi hefur verið rætt um þessi mál hér. Um sveitarstjórnarfrumvarpið hefur verið rætt í 65 klst. og 57 mínútur, um þjóðlendufrumvarpið í 5 klst. og 38 mínútur. Þjóðlendufrumvarpið er að mati flestra afar mikilvægt mál. Allir þingmenn, allur þingheimur hefur þó aðeins tekið sér rúmar 5 klst. til að tala um það mikilvæga mál meðan hv. þm. tekur 10 klst. frá öðrum þingmönnum til þess að fjalla um eitt tiltekið mál og bara í einni umræðu. Það er ekki búið að bæta við viðbótinni, bara í einni umræðu. Og hv. þm. hefur í hótunum við þingið, við fólkið og þjóðina, hefur í hótunum að halda áfram í þessum skollaleik gagnvart þjóðinni.

Um eignarhaldsfrv. er þegar búið að tala 16 klst. Og um húsnæðismálin, eins og mælingar eru komnar, í 27 tíma. Samtals 120 klukkutíma. Samt ætlar þessi þingmaður að horfa beint framan í þjóðina og segja: Ég er ekki í málþófi.

Dettur þingmanninum í hug að þjóðin trúi þingmanninum? Ég skal segja henni það milli okkar að það gerir þjóðin ekki.