Húsnæðismál

Laugardaginn 16. maí 1998, kl. 15:38:09 (6661)

1998-05-16 15:38:09# 122. lþ. 129.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 122. lþ.

[15:38]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt galdurinn og það er einmitt lýsingin á málþófinu hins vegar. Hæstv. félmrh. hefur af hálfu ríkisstjórnarinnar gert grein fyrir málinu og staðið fyrir svörum. Það liggur fyrir og felst í framgöngu okkar að við erum sammála þeim skýringum sem hæstv. félmrh. gefur. Það liggur fyrir að ríkisstjórnin stendur á bak við félmrh. í málinu og er sammála þeim skýringum sem hæstv. félmrh. gefur.

Það er einmitt hluti af málþófinu hér, eins og við sáum í dag þegar ég kom hér inn í þinghúsið, að þá var enginn að hlusta á hv. þm., 6. þm. Norðurl. e. (Gripið fram í: Það er rangt.) Ég kom hér inn í þingsalinn, (Gripið fram í: Það sitja allir á skrifstofunum.) það var enginn inni í salnum. Af hverju ekki? Ekki vegna þess að þingmaðurinn sé ekki áheyrilegur, greindur og góður þingmaður, heldur vegna þess að allir vissu að hún var að segja það nákvæmlega sama sem allir aðrir höfðu sagt á undan henni. Og það er einmitt galdurinn gagnvart mér og félmrh. Ég er sammála skýringum félmrh., ég þarf ekki að koma og endurtaka þær. Ríkisstjórnin stendur á bak við þær skýringar sem gefnar eru og það þarf ekkert að vera að fara í einhverja hringferð eins og gert er hér af hálfu stjórnarandstöðunnar (Gripið fram í.) þar sem hver maðurinn kemur á fætur öðrum hlustar ekki á félaga sína og fer síðan með sömu rulluna framan í alþjóð, sömu rulluna stund eftir stund eftir stund. (Gripið fram í: Er stjórnarandstaðan óþörf?)

Nei, stjórnarandstaðan, hv. þm., er afskaplega mikilvæg en hún mætti vera aðeins markvissari en hún er núna. Það væri miklu betra ef hún væri heldur markvissari en hún er núna. Það er nú skoðun mín á málinu. (Gripið fram í.)

Ég veit ekki hvort hv. þm., sem er í kappræðu við mig hér í salnum, þó ég eigi nú að hafa orðið, er sammála mér um að stjórnarandstaðan mætti vera heldur markvissari en hún er í dag. (Gripið fram í.)