Húsnæðismál

Laugardaginn 16. maí 1998, kl. 16:03:39 (6671)

1998-05-16 16:03:39# 122. lþ. 129.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 122. lþ.

[16:03]

Svavar Gestsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þetta er sérkennilegur tími. Það eru nokkuð mörg stór mál sem er nú verið að afgreiða. Á undanförnum þingum hefur okkur tekist heldur vel að greiða fram úr störfum þingsins á vorin. Núna gengur það ekki. Hæstv. forsrh. hafði verið að tala um það að ljúka þinginu 22. apríl. Það voru allir sammála um að það væri ekki hægt. Heldur ekki 8. maí vegna þess að það er það mikið eftir af málum, og þó að aðstoðarmaður forsrh., hv. þm. Kristján Pálsson sem hefur verið að gjamma fram í í dag, leggi það til að við ljúkum þinginu 8. maí 1998 þá er það því miður ekki hægt úr þessu. (KPál: Ég gjamma helmingi minna en þú.) Hv. þm. má gjarnan gjamma eins mikið og hann vill vegna þess að það er vandamál hans.

Hvað leggur forsrh. landsins til málanna í þessari stöðu? Það er hann sem er að tefja þinghaldið, það er hann sem kemur illu af stað. Það er hann sem neitar að efna til viðræðna við stjórnarandstöðuna um eðlileg þingleg vinnubrögð hér að lokum. Það er hann sem heldur þannig á málum að hlutirnir eru í uppnámi og ég gruna hann um að vilja það. Ég gruna hann um að hann vilji skemma fyrir þingræðinu. Ég gruna hann um að vilja skapa jarðveg úti í þjóðfélaginu sem skapar honum möguleika til að knýja fram fjötra á þingræðið, m.a. með breytingum á ræðutíma. Ég held að alvara málsins sé að hann sé með rógi sínum um þinghaldið að búa til jarðveg þannig að hægt sé að segja: Það verður að stytta ræðurnar og koma í veg fyrir það að menn séu að halda þessar löngu ræður.

Hæstv. forsrh. lagðist áðan svo lágt að ég hef satt að segja aldrei séð mann í hans stöðu hér í salnum leggjast eins lágt. Hann fór að reikna út kostnaðinn við að skrifa upp eina ræðu, mjög langa, hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Hvert leiðir svona umræða okkur? Hún leiðir okkur þangað að það eigi helst ekki að tala í stofnuninni nema það sem forsrh. líkar. Hún leiðir okkur að því að þingræðið sé dýrt. Hæstv. forsrh. hefur oft verið mjög neikvæður gagnvart lagfæringum á þingræðinu á undanförnum árum. Ég hef þó aldrei séð hann leggjast eins lágt og í þetta skipti.

Ég vil segja það fyrir mína hönd í málinu, að ég vil standa með þingmanninum Jóhönnu Sigurðardóttur í þessari deilu en ekki forsrh. Vegna þess að þessi deila snýst um innsta kjarna þingræðis og lýðræðis í landinu. Að láta forsrh. ekki beygja sig, að setja ekki sig út af sporinu, heldur að halda sínu striki í þágu þingræðis og lýðræðis í landinu.

Hæstv. forsrh. hefur aftur og aftur verið að reyna að koma illu af stað. Ég vil segja fyrir hönd mína og þingflokks míns: Við munum ekki láta honum takast það. Það mun sannast í þessu máli í viðskiptum stjórnarandstöðunnar og forsrh. að sá vægir sem vitið hefur meira. Hann getur haldið áfram að reyna að gera lítið úr okkur í fjölmiðlum, það er vandi hans en ekki okkar.