Húsnæðismál

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 11:12:15 (6688)

1998-05-18 11:12:15# 122. lþ. 130.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, RG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[11:12]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Fyrir hartnær 70 árum voru sett mikilvæg lög á Alþingi um félagslegar íbúðir. Í alla þessa áratugi hafa félagslegar íbúðir verið ríkur þáttur í velferðarkerfi okkar. Þær hafa verið hluti af því öryggisneti sem hefur verið mikilvægt fyrir fjölskyldur í landinu og launafólk allt. Þúsundir fjölskyldna hafa eignast íbúð í gegnum þetta kerfi með öryggi og reisn. Nú er það aflagt með þessum lögum og það eru svartir dagar á Alþingi um þessar mundir, fullkomið ósætti um þetta frv. á Alþingi, af hálfu félagasamtaka og allra sem hafa komið að vinnu við félagslegar íbúðir og húsnæði láglaunafólks. Ég vísa ábyrgð á hendur meiri hlutans á Alþingi þegar þessi lög fara að bitna á fjölskyldunum sem vísað verður frá. Ég segi að sjálfsögðu já við frávísun.