Húsnæðismál

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 11:26:16 (6699)

1998-05-18 11:26:16# 122. lþ. 130.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, SighB (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[11:26]

Sighvatur Björgvinsson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er ekki viðunandi að halda áfram með atkvæðagreiðsluna við þessar aðstæður vegna þess að staðreyndin er einfaldlega sú að ef stjórnarandstæðingar ekki hjálpuðu til með viðveru sinni, þá mundi ríkisstjórnin með þennan mikla þingmeirihluta ekki hafa vald á málinu og framgangur þess mundi því frestast.

Ég held að það sé alveg bráðnauðsynlegt, herra forseti, að þingflokkar stjórnarandstöðunnar fái ráðrúm til þess að ræða þessa stöðu og taka ákvörðun um það hvort þeir í annað sinn í átökum um stórmál ætla að hlaupa í skarðið fyrir þingmenn stjórnarflokkanna sem eru fjarverandi, ekki til þess að greiða atkvæði með málinu heldur til þess að taka þátt í atkvæðagreiðslu þannig að hægt sé að halda áfram með afgreiðslu málsins.

Menn hljóta, virðulegi forseti, að taka tillit til óska stjórnarandstöðunnar um þingflokksfundi því að hún hefur það auðvitað alltaf í hendi sér að ákveða sjálf að nauðsynlegt sé að gera hlé á atkvæðagreiðslunni og hún hefur fullt vald á því að taka þá ákvörðun eins og málin standa í dag svo ég fer þess vinsamlega á leit við hæstv. forseta að hann taki þá ákvörðun fyrir þingið svo að stjórnarandstaðan þurfi ekki að taka ákvörðun um það ein og sjálf.