Húsnæðismál

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 11:33:39 (6705)

1998-05-18 11:33:39# 122. lþ. 130.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, SighB (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[11:33]

Sighvatur Björgvinsson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er ástæða til þess að spyrja formenn þingflokka stjórnarflokkanna: Eru þeir ekki hér?

(Forseti (ÓE): Þeir hafa verið á fundi en eru sjálfsagt að reyna að hafa uppi á þeim sem fjarverandi eru. Forseta dettur það í hug.)

Þá er ástæða til þess að spyrja, áður en lengra er haldið, hvort það sé von á því að nægilega margir stjórnarþingmenn komi til leiks í dag og hvort búast megi við því að meiri hluti ríkisstjórnarinnar standi í dag.

Í öðru lagi væri ástæða til að spyrja: Var hæstv. forseta kunnugt um það, þegar hann tók ákvörðun um að hefja atkvæðagreiðslu í þessu umdeilda máli, að stjórnarþingmenn mundu ekki mæta nægilega margir til þess að hafa tök á málinu?

Í þriðja lagi finnst mér full ástæða til að beina þeirri ósk til hæstv. forseta að áður en gengið verði til atkvæða um svo mikið átakamál eins og hér er um að ræða, þá sé gengið úr skugga um það að hæstv. ríkisstjórn hafi vald á málinu. Það gengur ekki, virðulegi forseti, að á sama tíma og hæstv. forsrh. sýnir okkur alþingismönnum og stjórnarandstöðuþingmönnum dónaskap, eins og hann gerði á laugardaginn, þá þurfi hæstv. ríkisstjórn ávallt að treysta á viðveru okkar og sanngirni í þingstörfum til að koma fram málum sem við erum algerlega á móti.

(Forseti (ÓE): Forseta var ekki kunnugt um fjarvistir þeirra sem ekki höfðu gert viðvart um að þeir yrðu ekki viðstaddir fundinn.)