Húsnæðismál

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 12:22:58 (6723)

1998-05-18 12:22:58# 122. lþ. 130.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, RG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[12:22]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þessi nýja húsnæðisstofnun, Íbúðalánasjóður, á að verða afskaplega sjálfstæð stofnun eins og hefur komið fram. Þar á ekki að vera neitt ríkisframlag, engin afskipti félmrh. öðruvísi en að kalla eftir upplýsingum o.s.frv. eins og mun koma fram í atkvæðaskýringum hér.

Þrátt fyrir þetta er á bls. 70 getið um þær reglugerðir sem á að setja um þennan sjóð og þær, herra forseti, eru hvorki fleiri né færri en 28. Í þeirri grein sem við greiðum atkvæði um er getið um fyrstu reglugerðina.

Alþingi hefur verið að þoka sér frá þessum vinnubrögðum, reyna eins og unnt er að setja skýringar í lagagreinarnar sjálfar og komast fram hjá því að vera með mikið reglugerðafargan og það er skelfilegt að sjá það í lok þings 1998 að setja eigi 28 reglugerðir við lög um stofnun sem sagt er um að eigi að vera algjörlega sjálfstæð.