Húsnæðismál

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 12:50:59 (6740)

1998-05-18 12:50:59# 122. lþ. 130.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[12:50]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hlýt að óska meiri hluta félmn. til hamingju með það að hafa fundið orðalag sem í raun og veru gerir vont frv. enn þá verra. Staðreyndin er sú að 6. mgr. eins og hún var í frumvarpstextanum gat falið í sér möguleg fyrirheit um að lánskjör á viðbótarlánum yrðu hagstæðari en önnur lánskjör hjá sjóðnum eftir því sem fjárhagur sjóðsins þó leyfði. En þessi brtt. meiri hluta félmn. geirneglir það að markaðslánskjörin skuli einnig taka til viðbótarlánanna að fullu, með öðrum orðum að um engan breytileika geti þar orðið að ræða, ekki að neinu leyti hagstæðari lánskjör á viðbótarlánum til tekjulægsta fólksins. Þetta og þessi breyting meiri hlutans segir allt um það hugarfar sem að baki afgreiðslu þessa frv. býr af hálfu meiri hlutans.

Ég óska meiri hlutanum sérstaklega til hamingju með þessa snilld og greiði atkvæði gegn þessari brtt. því að þó að frv. sé vont þá finnast í því einstök atriði sem greinilega er hægt að gera verri.