Húsnæðismál

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 13:12:41 (6750)

1998-05-18 13:12:41# 122. lþ. 130.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, RG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[13:12]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er þessi 2. mgr. með heimildina til að hækka eða lækka hlutfallið sem er 5% í upphafi laganna. Það er alveg ljóst að sveitarfélög sem verða með mikla félagslega fyrirgreiðslu í húsnæðismálum og borga mikið inn í þennan sjóð munu standa að miklu leyti undir niðurgreiðslu á íbúðum sem seldar verða á markaðsverði út um land þar sem markaðsverð er miklu lægra en íbúðarverðið af félagslegu íbúðunum eins og félmrh. hefur haft svo mörg orð um.

Það að hann skuli hafa heimild til að hækka og lækka hlutfallið að vild þýðir að sveitarfélögin eru ofurseld vilja hans til þess að fjármagna niðurgreiðslu slíkra íbúða. Ég vara við þessu ákvæði og við höfðum reyndar hugsað okkur að biðja um sérstaka atkvæðagreiðslu um það en við höfðum vakið athygli á ákvæðinu þannig að ég geri ekki athugasemd við að atkvæðagreiðsla fari fram í einu lagi um greinina.