Húsnæðismál

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 13:33:15 (6759)

1998-05-18 13:33:15# 122. lþ. 130.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, KÁ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[13:33]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Með þeirri brtt. sem hér er lögð til er kveðið á um að fram skuli fara viðræður milli aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélaganna og ríkisins og einnig komi þar að máli aðrir þeir aðilar sem hingað til hafa byggt félagslegt húsnæði. Á grundvelli þessara viðræðna á að fara fram könnun á leigumarkaðnum. Það er allt saman gott og blessað en þetta ákvæði undirstrikar það að hér er verið að halda út í algera óvissu. Við erum að samþykkja lög sem fela það í sér að hluta fólks verður vísað út á leigumarkaðinn án þess að við vitum nokkuð um það hvernig þessi leigumarkaður verður. Hvað á að koma út úr þessum viðræðum? Hvað er sveitarfélögunum ætla að gera? Hvað eiga þau að leggja fram mikið fé til þess að hér verði byggt leiguhúsnæði og hvernig eiga aðrir að koma að þessum málum?

Þetta er allt saman svo óljóst að við það verður ekki unað, hæstv. forseti, og þar sem hér er um síðustu atkvæðagreiðsluna að ræða áður en málinu verður vísað til 3. umr. þá get ég ekki sagt annað en að ég harma hvernig þetta mál hefur þróast. Hér er því miður verið að stíga stórt skref aftur á bak.