Húsnæðismál

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 13:39:49 (6764)

1998-05-18 13:39:49# 122. lþ. 130.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[13:39]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég er andvígur því að þetta mál fari til frekari meðferðar þingsins.

Stundum er kvartað undan því að hér á Alþingi sé ekki tekist á um pólítísk grundvallaratriði og stjórnmálaumræða snúist um tækni en ekki innihald. Ég held að menn hljóti að sjá það á þessu frv. og meðferð þess að hér er verið að takast á um pólítísk grundvallaratriði. Hér er uppi tillaga um að hækka vexti. Hér er uppi tillaga um að markaðsvæða allt húsnæðiskerfið, líka það félagslega. Hér er uppi tillaga um að leggja niður félagslegt íbúðakerfi og hér er uppi tillaga um að gera þetta þrátt fyrir hörð andmæli verkalýðshreyfingarinnar í landinu.

Því er alveg augljóst mál að í þessari málsmeðferð og niðurstöðu hennar liggja pólitísk vatnaskil og ég er sannfærður um að í framhaldi af þessu mun þjóðin ekki una við það að búa við ástand þar sem ekki verður til félagslegt íbúðakerfi.

Ég er sannfærður um að í næstu kjarasamningum eða næstu pólitísku átökum í landinu munu menn berjast fyrir því að til verði félagslegt íbúðakerfi á Íslandi á ný.