Þjóðlendur

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 16:25:14 (6770)

1998-05-18 16:25:14# 122. lþ. 130.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[16:25]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Frv. sem við hér ræðum og er til 3. og síðustu umræðu er eitt af hinum stóru forgangsmálum á þinginu og hefur verið flokkað til frumvarpaþrennu ríkisstjórnarinnar eða jafnvel fernu ef menn hafa viljað telja húsnæðismálin með sem fer heldur afkáralega að mínu mati því þar er auðvitað um allt annars konar mál að ræða. Frv. sem við hér ræðum inniheldur efni sem menn hafa beðið eftir mjög lengi. Í rauninni hafa ekki gilt þær reglur um það efni sem þar er fjallað um eins og ásættanlegt væri og menn hafa leyst úr málum fyrir dómstólum til þess að skýra út eignarrétt á hálendinu. Það hefur raunar verið þannig að drjúgur hlutur miðhálendisins hefur talist eigendalaus með öllu.

Þannig var fyrr á öldinni að til voru fræðimenn sem töldu að ríkið væri eigandi þeirra svæða sem enginn gerði annars með réttu tilkall til og það er kannski svipað og hefur tíðkast í öðrum löndum. Segja má, herra forseti, að með þjóðlendufrv. sé verið að leitast við að skýra línurnar í þessu efni og eins og ég sagði þá þótti ýmsum tími kominn til. Þar er innleitt þetta nýja hugtak, þjóðlendur, sem tekur til þeirra svæða sem ekki lúta fullkomnum eignarrétti. Í frv. er samkvæmt 2. gr. mælt fyrir um að ríkið fari með eignarráð þessara svæða. Jafnframt kemur fram að þeir sem hafa nýtt landið innan þjóðlendunnar sem afrétt fyrir búfénað eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja skuli halda þeim rétti þó ríkið fari með grunneignarréttinn.

Í 2. gr. er einnig fjallað um það hver fari með stjórnsýsluna og menn hafa talað um að það væri eins og til að undirstrika sérstöðu þessara réttinda, þ.e. þess að íslenska ríkið sé eigandi lands og þó að ekki sé um hefðbundnar eignir ríkisins að ræða að gert er ráð fyrir því að forsrh. en ekki fjmrh. fari með málefni þjóðlendna.

Í frv. eru, herra forseti, reglur um leyfisveitingar til landnýtingar og þær eru mismunandi eftir því um hvers konar nýtingu er um að ræða. Þar segir að forsrh. einn veiti leyfi til að nýta ýmis réttindi innan þjóðlendna. Síðan kemur auðvitað fram að til að nýta land og landsréttindi þarf að öðru leyti leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Þar komum við kannski að því að hlutirnir byrja að skarast vegna þess að rétt eins og áður hefur komið fram í umræðu um þessi frumvörp, sérhvert þeirra þriggja eða öll, þá er það svo að sá sem hefur skipulagsréttinn hefur býsna mikið vald og fram hjá honum verður ekki gengið. Það er nákvæmlega þar, herra forseti, sem menn tala um að þessi frumvörp, það frv. sem við ræðum hér um um þjóðlendur og hins vegar frv. félmrh. um sveitarstjórnir, skarist og stangist jafnvel á.

Þessi frumvarpaþrenna, inniheldur eins og ég gat um áðan þetta frv. um þjóðlendur þar sem er efni sem menn hafa beðið eftir og með því á að skýra í rauninni hverjir eru eigendur stórs hluta landsins þar sem verður gert klárt á ákveðinn hátt hvað af landinu sé í þjóðareign og hvað sé í einkaeigu. Síðan erum við jafnframt að fjalla um það hvaða réttindi einkaeignin veitir þeim sem teljast vera eigendur lands þar sem þeim er í rauninni falin eignarráð eða afhent eignarhald á öllum auðlindum á sínu landi og í jörðu.

[16:30]

Þar er um dálítið sérkennilegt eignarhald að ræða, herra forseti, vegna þess að í frv. kemur fram að þar er ekki um forgangsrétt til afnota af þeim gæðum að ræða heldur er fyrst og fremst um forgang til þess að fá greiðslur fyrir afnotin, forgang til þess að t.d. ef almannaheill krefst þess að auðlindirnar séu nýttar sé alveg klárt að einhver fái borgað fyrir það. Þetta er frv. um eignarhald á auðlindum í jörðu.

Svo er þriðja frv. sem er sveitarstjórnarfrv., þ.e. 1. gr. þess og bráðabirgðaákvæðið, sem fjallar um það hverjir ráði skipulagi og nýtingu þar með.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir vitnaði áðan í grein sem Trausti Valsson skipulagsfræðingur skrifar í Morgunblaðið um helgina þar sem hann fjallar nokkuð um hvaða möguleika menn eiga til nýtingar á landi, jafnvel eigandi þess eftir að skipulag er komið á. Hann tekur þar dæmi af möguleikum þeirra sem hafa átt land, ríkis eða einstaklinga, t.d. í Reykjavík, sem hafa orðið að lúta í gras fyrir skipulagsvaldinu. Hann telur að sama muni að sjálfsögðu eiga við þó við séum komin upp á hálendið sakir þess að skipulagsvald sveitarfélaganna sé svo sterkt. Þetta finnst mér vera atriði sem menn hafa tekið allt of létt á í umræðunni en virðist því miður ekki eiga að taka tillit til. Ég óttast að við munum þurfa að horfa framan í ýmis útbrot á næstu árum vegna þess hvernig á að skilja við málið.

Menn eru almennt sammála um að frv. sem við erum nú að ræða við 3. umr. sé mikilvægast þessara frumvarpa vegna þeirrar skilgreiningar sem þar kemur fram eða á að verða á því hvað sé þjóðareign. Ég vil leyfa mér, herra forseti, vitna í það sem Páll Sigurðsson, prófessor í lögum við Háskóla Íslands, hefur sagt um þetta mál en hann hefur skrifað margar ágætar greinar, bæði um þjóðlendufrv. og frv. til sveitarstjórnarlaga, eða þann þátt þess sem lýtur að miðhálendinu. Hann segir um þetta þjóðlendufrv.:

,,Með því er leitast við að bera fram hæfilega lausn á þeim vandamálum, sem óneitanlega hafa tengst meintum eignarrétti (eða eigendaleysi) að hálendissvæðunum og öðrum óbyggðum landsvæðum og sem stundum hefur staðið nokkur styr um. Fer ekki á milli mála að þar er stefnt að færsælli skipan mála, að því marki sem á annað borð er unnt með lagasetningu.

Eins og margir minnast hafa gengið allmörg dómsmál varðandi kröfur um eignarrétt yfir ýmsum afmörkuðum hálendissvæðum og eru sumar dómsúrlausnirnar bæði merkar og eftirminnilegar. Oftast hefur niðurstaðan orðið sú, að kröfur þeirra aðila --- einstaklinga, upprekstrarfélaga eða sveitarfélaga --- sem gerðu tilkall til eignarréttar voru ekki viðurkenndar. Eru röksemdir þær, sem að baki þeim dómsúrlausnum liggja, afar merkar, margar hverjar, og lærdómsríkar. Alls ekki fer á milli mála, að dómar þessir, sem eru tvímælalaust mjög áhugaverðir af lögfræðilegum sjónarhóli séð, eru um margt stefnumarkandi. Hafa þeir flestir mikið fordæmisgildi --- stundum beint en eigi síður óbeint --- varðandi síðari dómsúrlausnir um önnur öræfasvæði og mætti þar rita um í löngu máli þótt ekki séu tök á því á þessum vettvangi. Þar koma m.a. fram ýmsar merkar athugasemdir um sönnunargildi fornra heimilda, sem gjarna er vísað til í dómsmálum af þessu tagi, og fer ekki á milli mála, hvað sem öðru líður, að Hæstiréttur hefur markað skýra stefnu um það að gera verði mjög strangar kröfur til sönnunargildis ýmissa fornra og kunnra heimilda (bóklegra heimilda jafnt sem löggerninga), þótt gildi þeirra hafi hins vegar síður en svo verið hafnað með öllu. Allur óskýrleiki í þeim gögnum hefur verið túlkaður þeim aðila í óhag, sem hefur byggt á þeim til stuðnings kröfu sinni um viðurkenningu þess að hann eigi tiltekið óbyggðasvæði.``

Herra forseti. Í stuttu máli er það svo að almannarétturinn, ef má orða það þannig, virðist hafa haft yfirhöndina. Það hefur reynst einstaklingum mjög erfitt að sanna eignarhald á þessum svæðum. Þá hefur hvað eftir annað verið staðfest að enginn getur afhent öðrum annað og meira en hann á sjálfur með fullum rétti. Þetta þykir okkur auðvitað merkilegt sem höfum gagnrýnt mjög hvernig fiskveiðistjórnarkerfið á Íslandi leyfir framsal veiðiheimilda, þ.e. það leyfir að selt sé og afhent það sem aðrir eiga án þess að bætur og greiðsla komi fyrir. E.t.v. verður umfjöllun þessara mála og ekki síður framkvæmd þeirra til þess að skýra betur fyrir mönnum ýmsar hliðar sem snúa að sjávarútveginum og eignarhaldi þjóðarinnar á þeirri auðlind. En hér segir Páll Sigurðsson áfram:

,,Í þjóðlendufrumvarpinu er m.a. lagt til að staðfest verði með skýru og ótvíræðu lagaákvæði að allt það land, sem aðrir geta eigi sannað eignarrétt sinn yfir, sé ríkiseign (í reynd sameign þjóðarinnar), en svo sem kunnugt er hefur Hæstiréttur a.m.k. einu sinni komist að þeirri niðurstöðu, að tiltekið óbyggðasvæði, sem ekki var talið vera í eigu bænda, lyti heldur ekki eignarráðum íslenska ríkisins. Sökum þess að niðurstaðan getur að því leyti hæglega orðið hin sama um mörg önnur landsvæði, ef látið yrði á reyna, er afar mikilvægt að meginregla af því tagi, sem frumvarpið felur í sér, verði lögfest hið fyrsta. Annað virðist ekki fá samrýmst nútímalegum hugmyndum um almannarétt. Lögbundin regla af því tagi, sem felst í frumvarpinu, mun tvímælalaust koma í veg fyrir ýmis vandamál, sem nú er við að glíma og sem að öllu óbreyttu kynnu að leiða til þess að eðlilegar úrlausnir fáist ekki á ýmsum þeim álitamálum sem ófært er að ágreiningur ríki um til frambúðar.``

Svo mörg voru þau orð, herra forseti. En ég vil endurtaka að sá sem þetta ritar hefur einnig skrifað margt um galla þess frv. til sveitarstjórnarlaga sem hér liggur jafnframt fyrir og hefur gagnrýnt harðlega að það skuli eiga að skipta landinu upp með þeim hætti sem þar er gert ráð fyrir. Mér sýnist að gagnrýni hans falli þar saman við gagnrýni annarra þeirra sem hafa af því áhyggjur að skipulagsvald 42 sveitarfélaga muni í rauninni taka réttinn af býsna mörgum sem telja sig eiga ýmsan rétt á því svæði sem er í dag kallað miðhálendið.

Ég held, herra forseti, að farsælast væri fyrir okkur að samþykkja þjóðlendufrv. og huga betur að því sem hin frumvörpin tvö innihalda, þ.e. sveitarstjórnarfrv. og frv. um eignarhald á auðlindum í jörðu. Ég held að það væri afar farsælt ef við leyfðum örlitlu lofti að leika um lagasmíð af því tagi sem hér liggur fyrir í þessu frv. um þjóðlendur, að óbyggðanefndin gæti starfað, skorið úr og sett mörk á milli eignarlanda og þjóðlendna. Menn gætu þá aðeins áttað sig betur á því hvernig þeir vilja í raun að skipulagsmálum hálendisins sé fyrir komið.

Ég óttast, herra forseti, að þeir sem eru að gleðjast svo mjög yfir þjóðlendufrv. hafi kannski ekki alveg áttað sig á því að sá skipulagsréttur sem ákvarðar í raun nýtingu möguleikanna tekur að líkindum býsna mikið af því almannavaldi sem menn telja sig fá með þessu frv. ef það verður að lögum.