Þjóðlendur

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 16:40:07 (6771)

1998-05-18 16:40:07# 122. lþ. 130.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[16:40]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir umræður og stuðning við þetta mikilvæga mál. Ég tel ekki þörf á að ræða það frekar. Það gerðum við við 2. umr. málsins og allítarlega.

Verið er að stíga sögulegt skref með þessu frv., þ.e. frv. til laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. En vegna ýmissa athugasemda hv. þingmanna sem fram hafa komið þykir mér þó rétt að ítreka enn og aftur orð hæstv. forsrh. er fram komu í lok framsögu hans með málinu, en þá sagði hann, með leyfi virðulegs forseta:

,,Við höfum ekki áður búið að slíkum eignarheimildum yfir þessum svæðum og varsla þeirra verður vandmeðfarin. Ekki verður fyrir fram séð við öllum þeim vandamálum sem kunna upp að koma og úr þeim verður ekki leyst á einu bretti. Ég legg þess vegna áherslu á að með samþykkt þessa frv. er aðeins fyrsta skref á lengri leið tekið og með því er ekki svarað hvernig framtíðarskipan ýmissa þeirra málaflokka sem nefndir hafa verið til sögunnar, verði háttað. Um það hljótum við að fjalla sérstaklega og ekki í sömu andrá og þetta skref er tekið.``