Samkomulag um þingstörfin og þinghlé

Þriðjudaginn 19. maí 1998, kl. 10:37:06 (6773)

1998-05-19 10:37:06# 122. lþ. 131.92 fundur 402#B samkomulag um þingstörfin og þinghlé# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 122. lþ.

[10:37]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Satt að segja held ég að býsna langt sé orðið síðan það jafnilla hefur litið út með þinglokin og í ár. Það hefur verið þannig að ekki hefur verið um að ræða nein samtöl að heitið geti á milli stjórnarandstöðu og þingforustu um hálfs mánaðar skeið. Það er algjör nýlunda á mínum þingferli að svo illa takist til, og í raun og veru leit mjög illa út á laugardaginn var þegar einn af þingmönnunum kastaði sprengju hér inn í salinn. Flestir hvöttu þó til þess, þó að hann gegni hárri stöðu sá maður, að þingið reyndi engu að síður að halda virðingu sinni og ljúka störfum með eðlilegum hætti.

Ég vil nota þetta tækifæri til að fagna því sérstaklega, að þannig geti litið út að þingið ljúki störfum á þessu vori með þeim sóma sem Alþingi ber. Okkur ber að gæta að sóma þingsins og þingskapanna. Ég vil láta það í ljós, herra forseti, að ég fagna því að sú niðurstaða liggi fyrir. Þó að í sjálfu sér hafi ekki verið gengið frá tilhögun mála í einstökum atriðum þá tel ég þetta ánægjuefni fyrir stöðu Alþingis, líka stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Ég vil hins vegar undirstrika, af hálfu þingflokks Alþb. og óháðra, að sum þeirra mála sem eftir standa, aðallega húsnæðismálið og auðlindafrv., eru þannig að um þau er djúpstæður pólitískur ágreiningur. Við munum halda okkar sjónarmiðum til haga í umræðunum um þau mál þrátt fyrir þetta samkomulag, innan þess ramma sem okkur er markaður í þingsköpum og öðrum vinnureglum Alþingis.