Húsnæðismál

Þriðjudaginn 19. maí 1998, kl. 10:42:37 (6776)

1998-05-19 10:42:37# 122. lþ. 131.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, Frsm. minni hluta KÁ
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 122. lþ.

[10:42]

Frsm. minni hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Þetta mikla deilumál, frv. til laga um húsnæðismál, er nú komið til 3. umr. Ég verð að harma það, hæstv. forseti, að meiri hlutinn skuli ekki leggja til meiri breytingar á frv. en hér má sjá. Ég hafði svo sannarlega vonast til þess að sú gagnrýni sem kom fram við 2. umr., ekki síst það sem snýr að starfsfólki Húsnæðisstofnunar, mundi hafa áhrif á meiri hlutann og að það yrði sett í lög að starfsfólk stofnunarinnar hefði forgang að störfum eftir breytinguna. Því miður er því ekki að heilsa en við í minni hlutanum ætlum að reyna að kippa því í liðinn.

Frá því að 2. umr. lauk hefur borist áskorun frá sambandsstjórnarfundi Verkamannasambands Íslands sem, eins og aðrir hlutar verkalýðshreyfingarinnar, skora á félmrh. að draga til baka frv. um húsnæðismál sem nú er til meðferðar á Alþingi og taka boði verkalýðshreyfingarinnar um viðræður þannig að sátt megi nást um málið.

Það má ljóst vera að við erum hér að hefja 3. umr. án nokkurrar sáttar um þetta mál. Mér finnst allt benda til þess að það eigi að afgreiða málið hvað sem tautar og raular, hvað sem þingheimur og aðrir, sem láta sig málið varða, segja um afleiðingar þess.

Við 2. umr. kom fram að það eru einkum kvartanir íbúa í félagslega kerfinu sem valda því að lagt er út í þá miklu byltingu sem hér er á ferð. Ég hygg að þær kvartanir eigi eftir að aukast eftir að þessi breyting er fram gengin. Ég óttast að þetta frv. muni því miður hafa mjög alvarlegar afleiðingar á stöðu þess hóps eða hluta þess hóps sem hingað til hefur átt inni í félagslega kerfinu.

Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta hér, hæstv. forseti. Ég ætla fyrst og fremst að reyna að draga saman hvað verið er að gera í þessu máli, hvaða breytingar þetta eru og hvaða afleiðingar ég tel að þær muni hafa. Í fyrsta lagi er verið að leggja Húsnæðisstofnun ríkisins niður án þess að framtíð starfsfólksins sé tryggð. Eins og ég nefndi áðan þá finnst mér þetta algjörlega óviðunandi framkoma við starfsfólkið og ég skora enn og aftur á hæstv. félmrh. að gefa hér skýrt og skorinort til kynna hvers vænta megi varðandi framtíð starfsfólksins.

[10:45]

Í öðru lagi er verið að gera grundvallarbreytingar á stöðu þessarar stofnunar í ríkiskerfinu. Hinn nýi Íbúðalánasjóður verður mun sjálfstæðari en Húsnæðisstofnun ríkisins er nú. Stjórn stofnunarinnar er skipuð af ráðherranum og vald ráðherrans er gríðarlega mikið vegna þess hve margar reglugerðir á að setja og hvernig hægt er að stýra í gegnum reglugerðirnar. Þar að auki hefur ráðherrann mikið vald til að setja reglur um gjaldtöku og á það var bent í umræðunni í gær, m.a. af hv. þm. Svavari Gestssyni, að þetta vald næði ekki nokkurri átt. Þetta mál hefur ekkert verið skoðað milli 2. og 3. umr. og því stendur væntanlega sú tillaga sem samþykkt var í gær.

Með þessari breytingu á stofnuninni fara fulltrúar Alþingis út úr stjórn Húsnæðisstofnunar og ég segi enn og aftur að umræðan um það, um verkaskiptingu ríkisins, þ.e. framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins, hvað varðar hinar ýmsu stofnanir ríkisins, á einfaldlega eftir að fara fram. Gerðar hafa verið einhliða breytingar á nánast öllum þeim stofnunum og stjórnum sem við höfum verið að fjalla um í lagasetningu á undanförnum árum og ég verð að segja að ég er mjög ósátt við þetta. Ég er mjög ósátt við hvað þetta er óljós stefna og að við skulum ekki ræða það í mikilli alvöru hvernig þessi verkaskipting skuli vera og hvar hinir kjörnu fulltrúar eiga að koma að eftirlitshlutverki sínu í ríkisstofnunum.

Hinn nýi Íbúðalánasjóður á að vera sjálfbær. Það er skýrt og skorinort og það var samþykkt í gær að það ættu ekki að vera breytilegir vextir hvað varðar viðbótarlánin heldur eigi vextirnir að fylgja þeim kjörum sem sjóðurinn fær við öflun fjár úti á markaði. Þetta þýðir auðvitað að greiðslubyrði þeirra sem taka lánin verður meiri. Þarna er sjóðurinn orðinn eins og hver önnur lánastofnun. Að vísu er gefinn kostur á þessum viðbótarlánum en þar sem þau verða á markaðsvöxtum er auðvitað ljóst að það eitt þrengir þann hóp sem mun ráða við þau kjör sem verða í boði.

Töluverðar breytingar verða varðandi húsnæðisnefndir sveitarfélaganna og þar fara fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar út. Hlutverk húsnæðisnefndanna mun breytast. Töluverð vinna verður við það að ganga frá gamla kerfinu, vinna við það að taka inn endursöluíbúðir og að koma þeim út á markaðinn. (Gripið fram í: Geta ekki fasteignasalar séð um það?) Það getur vel verið að sveitarfélögin ákveði að fela fasteignasölum að sjá um það verk. En það skal þó tekið fram að þetta er gríðarlega flókið verk. Það er flókið verk að reikna upp eignarhlut fólks og fyrningu og fleira og hefur verið bent á það í umsögnum að allt of illa sé frá þeim málum gengið. Kannski er ástæðan sú að slík mál eru fyrir dómstólum, þau eru einfaldlega fyrir dómstólum, og verið er að bíða niðurstöðu dómstóla hvað varðar slík útreikningamál ef svo má að orði komast.

Við bentum á það í nál. minni hlutans að töluverð skörun verður milli verksviða húsnæðisnefnda og félagsmálanefnda sveitarfélaganna og ýmis sveitarfélög munu lenda í því að þurfa að skoða verkaskiptingu sína hvað þessi mál varðar því hér er það að gerast að lögð verður mun meiri áhersla en áður á leiguhúsnæði, hvort sem það gengur eftir eða ekki. Það á algjörlega eftir að koma í ljós og er einn af hinum óljósu þáttum. Ég held að sveitarfélögin hljóti að þurfa að stokka nokkuð upp störf sín í húsnæðismálum í kjölfar þessara breytinga en ég hef ekki heyrt minnst á það einu orði í þessari umræðu hvað þá úti í þjóðfélaginu þar sem sveitarstjórnarmenn eru að keppa eftir endurkjöri eða eru að bjóða sig fram. Því miður held ég að sú staðreynd að sveitarstjórnarmenn eru í kosningabaráttu hafi valdið því að þeir hafi ekki getað sinnt þessu máli og sett sig almennilega inn í hvað er verið að gera því að ég ætla að fullyrða að það er fjöldi sveitarstjórnarmanna sem átta sig ekkert á því hvaða afleiðingar þessar breytingar muni hafa fyrir sveitarfélögin í landinu. (Gripið fram í: Hárrétt.)

Í stað þess að í gamla kerfinu voru veitt félagsleg lán, 90--100%, eftir því hvernig á stóð, verða nú veitt almenn lán, 65--70%, og viðbótarlán, 25--30%, á markaðsvöxtum, almennu lánin með stimpilgjöldum en viðbótarlánin verða án stimpilgjalda. Allt þetta þýðir aukinn kostnað fyrir þá sem ætla að taka þessi lán.

Síðan eru það lánin til leiguíbúða og eins og ég gat um rétt áðan er allt mjög óljóst hvað þau varðar. Þar mun velta mjög mikið á sveitarfélögunum hvernig þau bregðast við, hversu viljug þau verða til þess að sinna því fólki sem er verið að vísa út á leigumarkaðinn og hvaða afl þau hafa til þess að byggja upp leigumarkaðinn. Við vitum að staða sveitarfélaganna er afskaplega mismunandi, skuldastaða þeirra misjöfn, ég held að þau séu flest nokkuð skuldug en hér erum við bara að ana út í algjöra óvissu. Það er algjör óvissa sem blasir við hvað varðar leigumarkaðinn en það kerfi sem við höfum búið við hefur þó lagt til ákveðinn fjölda nýrra íbúða á hverju einasta ári auk þess sem hundruð íbúða koma í endursölu á hverju einasta ári. Og þó að mikið til séu það breytingar innan kerfisins þá kemur líka töluverður hluti til úthlutunar til umsækjenda. Það er grundvallarbreyting að verið er að vísa hluta fólks út á leigumarkaðinn.

Nú skal ég ítreka það enn og aftur að ekki ráða allir við að kaupa húsnæði og mér hefur fundist í þessari umræðu að menn séu oft að ætlast til þess að fólk sem hefur mjög lágar tekjur ráði við að kaupa húsnæði. Auðvitað þarf að skoða það dæmi vandlega. En sannleikurinn er sá að kjörin í núverandi félagslegu kerfi hafa verið þannig að margar einstæðar mæður, barnmargar, fátækar fjölskyldur, fatlaðir og jafnvel fólk komið upp undir eftirlaunaaldur hafa haft ráð á því að kaupa þessar íbúðir, jafnvel þó að tekjurnar væru lágar. En hér verða auðvitað miklar breytingar á kjörum. Maður spyr sig hver verði áhrifin á íbúðamarkaðinn. Hver verða áhrifin á leigumarkaðinn? Mun þetta ekki líka valda hækkun á leigu fyrir utan það að valda hækkun á íbúðaverði, a.m.k. tímabundið á meðan þessi breyting er að ganga yfir?

Það er tvennt sem mér finnst vera meginþáttur þessa máls og veldur mér mestum áhyggjum. Það er annars vegar ef veruleg fækkun verður á starfsfólki hinnar nýju stofnunar og að við séum með þessum breytingum að vísa fólki út á vinnumarkaðinn þar sem kjörin gerast harla misjöfn. Ég hef ekki síst áhyggjur af þeim sem eru í hópi hinna eldri meðal starfsmanna og þá ekki síst konunum. Því miður er ekkert auðvelt fyrir konur sem komnar eru yfir fimmtugt að fá vinnu úti á vinnumarkaðnum og það er sérstakt viðfangsefni að fara að taka á því hvernig vinnumarkaðurinn bregst við reyndu og góðu starfsfólki. Hins vegar, og það sem vegur miklu þyngra í mínum huga, eru þær afleiðingar sem þessar breytingar munu hafa á þann hóp sem hefur hingað til átt inni í þessu kerfi en mun ekki ráða við kjörin eftir breytingarnar, það fólk sem vísað er út á leigumarkaðinn sem er ekki til. Það er alveg ljóst og það þarf ekki að fara langt til þess að átta sig á því að mikil samkeppni er um leiguhúsnæði, m.a. á Reykjavíkursvæðinu vegna skorts á því. Það er líka alveg ljóst, hæstv. forseti, að það mun taka sveitarfélögin töluverðan tíma að koma sér upp leiguhúsnæði. Hæstv. ráðherra ætlar sér tvö ár til þess að ræða við sveitarfélögin, til þess að ræða við verkalýðshreyfinguna, til þess að kanna leigumarkaðinn, kanna þörfina og væntanlega að gera einhverja áætlun til úrbóta. Hvað gerist á þessum tveimur árum? Hvað gerist eftir þessi tvö ár? Mun nást samkomulag við sveitarfélögin?

Ég minni á það enn og aftur að Samband ísl. sveitarfélaga gerði þá kröfu í samþykkt sinni að áfram yrðu veitt lán á niðurgreiddum vöxtum til byggingar leiguhúsnæðis meðan það er algjörlega ljóst að öll hugmyndafræði þessa frv. gengur út á það að stofnunin sé sjálfbær. Eigi að vera mögulegt að veita lán á niðurgreiddum vöxtum getur það ekki gerst með öðrum hætti en þeim að annaðhvort afli stofnunin sér meiri tekna eða að framlög komi úr ríkissjóði. Ég hef ekki heyrt það í þessari umræðu að sérstaklega væri talað um að framlög kæmu úr ríkissjóði nema þau tvö ár sem ætluð eru í þessar breytingar.

En við skulum ekki gleyma því, hæstv. forseti, og það er kjarni málsins, að þeir hópar sem við erum að ræða um og verður úthýst úr félagslega húsnæðiskerfinu eru einstæðar mæður, það eru barnmargar, fátækar fjölskyldur, það eru fatlaðir og það eru námsmenn og eflaust kunna að vera fleiri hópar inni í þessu en það er alveg ljóst að einstæðar mæður hafa verið aðalforgangshópurinn í félagslega kerfinu. Nú minni ég á það, hæstv. forseti, að nefnd Sameinuðu þjóðanna, sem hefur fylgst með framkvæmd barnasáttmálans, gerði þær athugasemdir varðandi Ísland að ekki væri réttlætanlegt hvernig börunum einstæðra mæðra væri mismunað hér á landi. Þessu er hægt að fletta upp í gögnum nefndarinnar, það væri alvarlegt ástand hér hvað varðar stöðu barna einstæðra mæðra sem eru eins og við vitum að miklum hluta til í láglaunahópum þessa lands sem eru nú reyndar býsna stórir. Aðstaða þessara barna er ekki nógu góð.

Hvað gerist, hæstv. forseti, ef þessum hópi, forgangshópnum verður vísað út á leigumarkaðinn? (Gripið fram í: Sem honum verður.) Sem honum verður að töluverðum hluta. Sem betur fer eru líka til konur sem hafa það þokkaleg laun að þær munu vonandi ráða við kjörin en ég óttast að þær verði ekki margar. Ég skal segja það enn og aftur að ég tala af reynslu. Ég minnist þess þegar ég sat í stjórn Verkamannabústaðanna í Reykjavík að við sátum uppi með tugi umsókna, ef ekki hundruð umsókna frá einstæðum mæðrum þar sem aðstæðurnar voru nánast allar eins. Ekki var nokkur leið að forgangsraða því að hópurinn var allur eins. Mjög lágar tekjur og eitt, tvö og jafnvel þrjú börn. Það er miklu stærri og viðameiri spurning hvernig hægt er að taka á kjörum þessa hóps sérstaklega. Þetta tengist svo mörgu, þetta tengist afstöðu til barneigna hér á landi og svo mikið er víst að ekki er það félagslega kerfið sem ýtir undir barneignir hér á landi eins og talið er að gerist í ýmsum öðrum löndum. Þá vísa ég t.d. til Bandaríkjanna, af því hv. þm. Svanfríður Jónadóttir brosir við, en þar er fullyrt að sú bylgja ungmæðra sem þar hefur komið upp, og ég las reyndar í blöðunum að einnig hefur komið fram í Bretlandi, sé sú staðreynd að í Bandaríkjunum hafa verið gerðar miklar úrbætur í félagslega kerfinu hvað varðar þennan hóp og þetta hefur hreinlega verið flóttaleið margra ungra stúlkna til þess einfaldlega að sjá sér farborða. Þetta hefur verið rannsakað ítarlega. Það er nú annað mál.

[11:00]

Það sem ég er að koma að, hæstv. forseti, er að ég hef miklar áhyggjur af þessum hópi og óttast að honum verði að stórum hluta til ýtt út á þennan leigumarkað sem er ekki til og mun taka allmörg ár að byggja upp ef yfir höfuð er vilji til þess. Þarna held ég að við séum að búa til nýtt og mjög alvarlegt vandamál í samfélagi okkar.

Ég vil líka minnast sérstaklega á námsmenn áður en ég lýk máli mínu. Ég held það sé líka mjög alvarlegt ef enn meir dregur úr byggingu námsmannahúsnæðis. Þeir óttast að þau lánakjör sem boðið verður upp á muni hafa í för með sér hækkun á leigu og það verður einfaldlega meira en námsmenn ráða við því að þeir eru flestir á námslánum og þau eru ekki svo vel úr garði gerð nema barnafjöldinn bæti það upp. Við vitum að þörfinni fyrir námsmannahúsnæði er engan veginn fullnægt, þar er mjög langt í land og því lýsi ég ábyrgð á hendur ríkisstjórninni ef nú dregur úr byggingu námsmannaíbúða.

Þessar breytingar munu hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir sveitarfélögin. Það er alveg ljóst ef þau bregðast við þeirri breytingu sem á sér stað. Þetta mun hafa í för með sér töluverðan kostnað fyrir þau í húsaleigubótum, í lántökum og í fleiri liðum þar sem kostnaður leggst á þau og þetta mun hafa aukinn kostnað í för með sér fyrir þá sem ráða við þau kjör sem boðið verður upp á.

Hæstv. forseti. Því miður er verið að gjörbreyta gamalgrónu kerfi sem hefur um margt reynst vel og á sér langa sögu. Ég held að miklu nær hefði verið að setjast niður við það verk að sníða af helstu agnúana, laga það sem þurfti að laga, taka á vanda þeirra sveitarfélaga sem hafa reist sér hurðarás um öxl en halda að öðru leyti í meginkosti þessa kerfis sem eru skipulagt framboð á íbúðum. Það mætti vera skipulagðara og þær íbúðir mættu vera dreifðari, t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Niðurgreiddir vextir og skipulagt framboð á íbúðum eru meginkostirnir. Ég held það hefði átt að halda í þetta en reyna að sníða af ýmsa aðra agnúa og vinna þær breytingar í sátt. Ég held það sé alltaf mjög slæmt að gera breytingar eins og þessar á kerfi sem snertir nánast hverja einustu fjölskyldu í landinu í slíkri ósátt við verkalýðshreyfinguna og ég efast ekkert um að verkalýðshreyfingin mun taka þessi mál upp í kjarasamningum þegar þar að kemur. Þá verður væntanlega komið í ljós hvernig kerfið virkar og hvernig sveitarfélögin hyggjast bregðast við. En því miður óttast ég mjög að verið sé að stíga óheillaspor og að það sé spor sem bitni á þeim sem verst eru staddir, einstæðum mæðrum og börnunum þeirra, fötluðum, námsmönnum og barnmörgum, fátækum fjölskyldum. Þetta er nokkuð sem ætti ekki að gerast á því herrans ári 1998.