Húsnæðismál

Þriðjudaginn 19. maí 1998, kl. 11:50:44 (6778)

1998-05-19 11:50:44# 122. lþ. 131.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 122. lþ.

[11:50]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hélt skörulega ræðu eins og honum er einum lagið. En hann fer náttúrlega frjálslega með eins og mér finnst minni hlutinn gera í þessu máli sem öðrum þegar verið er að reyna að túlka frv. fyrir alþjóð og heldur því fram úr ræðustóli að verið sé að vísa fátæku fólki á götuna. Þetta er alveg makalaus áburður og ég hef heyrt hann frá fleirum en hv. þm. Ögmundi Jónassyni, það hefur komið frá hv. þingkonu Jóhönnu Sigurðardóttur og fleirum.

Ekkert hefur komið fram í málflutningi þeirra sem rökstyður þessa makalausu fullyrðingu. (JóhS: Hvers slags bull er þetta?) Þetta er ekkert bull, frú Jóhanna. Það sem ég vil bara benda á í þessum ræðustóli er það að með þessu frv. er verið að tryggja leigumarkaðinn fyrir þá sem hafa ekki fram að þessu í rauninni staðið undir félagslegu eignarhúsnæði. Verið er að gera ráð fyrir því að félagshúsnæði, félagsíbúðir taki við þessu fólki.

Það er gert með þeim hætti að samtök, ekki bara sveitarfélög, heldur verið að gera samtökum eins og samtökum fatlaðra, aldraðra og allra þeirra sem taldir eru upp í auglýsingunni, sem Ögmundur las upp með svo miklum ákafa, kleift að byggja leiguíbúðir með 1% vöxtum. Einstaklingarnir sem verða í þessum leiguíbúðum geta keypt þær og haft þær á sínu nafni, þeir geta það ef þeir kæra sig um, og verið áfram með 1% vexti af lánum, vexti af lánum sem ríkissjóður mun tryggja til að hægt sé að byggja leiguíbúðir af þessu tagi. Ég held því, herra forseti, að stjórnarandstaðan hafi lesið þetta frv. öfugt eins og svo margt annað undanfarnar vikur, hv. þm. stjórnarandstöðunnar.