Húsnæðismál

Þriðjudaginn 19. maí 1998, kl. 11:53:04 (6779)

1998-05-19 11:53:04# 122. lþ. 131.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 122. lþ.

[11:53]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef við höfum lesið þetta frv. öfugt þá hefur húsnæðisnefnd Reykjavíkur gert það líka, húsnæðisnefnd Kópavogs hefur gert það líka, húsnæðisnefnd Hafnarfjarðar hefur þá gert það líka, húsnæðisnefnd Akureyrar hefur gert það þá líka, ASÍ hefur gert það þá líka, BSRB hefur þá lesið það líka öfugt, Öryrkjabandalagið hefur lesið það öfugt. Búseti hefur misskilið allt málið. Leigjendasamtökin hafa misskilið allt málið Skyldi félmrh. hafa misskilið nokkuð? Skyldi ríkisstjórnin hafa misskilið nokkuð? Gæti verið að hv. þm. Kristján Pálsson hafi misskilið nokkuð?

Hvað hafa menn meint með því að gera ráð fyrir 50 nýjum leiguíbúðum á tveimur árum, eins og menn hafa gert, á sama tíma og verið er að samþykkja frv. sem enginn deilir um að vísar fleira fólki inn á leigumarkað en verið hefur þar áður? Bara í Reykjavík einni er hátt á fjórða hundrað manns á biðlista hjá Húsnæðisstofnun eftir húsnæði. Hátt í tvö hundruð af þessum fjölda eru í forgangsröð, í brýnni þörf, og nú er verið að samþykkja lagabreytingar sem gera ráð fyrir því að það muni fjölga í þessum hópi.

Mér finnst ábyrgðarhluti að koma upp og saka okkur í minni hlutanum á Alþingi um útúrsnúninga eða blekkingar, sem höfum haldið uppi málefnalegri umræðu, fært rök fyrir máli okkar í ítarlegu máli og vitnað í tölur í því sambandi. Menn verða þá að færa haldgóð rök fyrir máli sínu og ég vænti þess að hv. þm. Kristján Pálsson eigi eftir að koma upp og gera grein fyrir því í máli sínu á eftir hvað hann á nákvæmlega við.

Ég gæti haldið áfram lengur en hér er komið rautt ljós og læt ég nú máli mínu lokið.