Húsnæðismál

Þriðjudaginn 19. maí 1998, kl. 12:08:38 (6786)

1998-05-19 12:08:38# 122. lþ. 131.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 122. lþ.

[12:08]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þetta mál, frv. til laga um húsnæðismál, er nú tekið til 3. umr. en það var til atkvæðagreiðslu við 2. umr. í gær. Ég tel, herra forseti, varhugavert að taka þetta mál til 3. umr. svo skömmu eftir að 2. umr. og atkvæðagreiðslu um það lýkur einfaldlega vegna þess að ég tel að þeim sem hafa sent inn miklar athugasemdir, sem hér hefur verið farið yfir, eins og verkalýðshreyfingunni, húsnæðisnefndum og félagasamtökum, hefði átt að gefast tækifæri til þess að fara yfir málið eins og það liggur fyrir með þeim breytingum sem hafa verið við það samþykktar við 2. umr.

Ég vil líka minna á að þetta mál er mjög sérstaks eðlis að því leyti að verið er að loka húsnæðiskerfinu. Hér eru ein níu ákvæði til bráðabirgða sem er mjög sjaldgæft að sjá í frv. eða lögum, þar sem kveðið er á um gildistöku áfram á ýmsum ákvæðum sem eru í núverandi húsnæðislögjöf, svo sem innlausn eldri íbúða, ráðstöfun innleystra íbúða, sölu og ráðstöfun eignaríbúða, leigu á kaupleiguíbúðir, framkvæmdaíbúðir, meðferð umsókna um félagslegar eignaríbúðir, varasjóðinn og könnun á leigumarkaði. Ég held að öll þessi ákvæði séu mjög mikið torf. Ég óttast að hugsanlega sé verið að setja fram löggjöf sem menn munu fljótlega komast að raun um að geti falið í sér ákveðna galla sem mönnum hefur yfirsést í þeirri hröðu afgreiðslu sem þetta mál fær í gegnum þingið. Við skulum muna að þetta stóra mál hefur ekki verið mjög lengi fyrir þinginu og ekkert svigrúm er gefið milli 2. og 3. umr. til þess aðskoða það.

Við því er í sjálfu sér lítið að segja. Ég vildi þó hafa sagt þessi aðvörunarorð. Ég geri mér grein fyrir því að hér hefur náðst ákveðið samkomulag um þinghaldið og í því samkomulagi fólst að ljúka umræðu um húsnæðismálin í dag.

Í gær fór fram atkvæðagreiðsla sem stóð yfir mjög langan tíma, ég held í tvær til tvær og hálfa klukkustund, vegna þess að það var auðvitað nauðsynlegt af hálfu stjórnarandstöðunnar að draga fram þá stóru galla sem eru á frv., bæði þeim sem snúa að íbúum og þeim sem aðstoð hafa fengið í félagslega íbúðakerfinu í 70 ár. Eins þurfti að huga að ýmsum annmörkum sem snúa að sveitarfélögunum og auknum byrðum á sveitarfélögin og síðan að sýna fram á hvað þetta gagnast lítið félagasamtökum sem núverandi húsnæðislöggjöf hefur gagnast mjög vel.

Ég held núna við 3. umr. þessa máls að nauðsynlegt sé að fara yfir nokkra þessa þætti aftur og ýmsa þá sem mér gafst ekki tími til þess að ræða í við 2. umr. Sumum þótti það að vísu nokkuð löng umræða. Sumir lögðust það lágt að mæla umræðuna þannig að setja mælistiku kostnaðar á hana og voru með því að mæla tjáningarfrelsi sem þingmönnum er tryggt samkvæmt stjórnarskránni og ótakmarkaðan ræðutíma sem þingmönnum er tryggður samkvæmt þingsköpum við 2. umr. máls.

Ég tel, herra forseti, afar ósmekklegt að leggja til grundvallar mælistiku kostnaðar fyrir Alþingi þegar um er að ræða stór mál sem hafa verulega þýðingu í framtíðinni eins og við höfum verið að ræða hér á síðustu dögum og vikum. Ekki bara að því er varðar húsnæðismálin heldur líka um auðlindir í jörðu. Í því frv. felst mikil eignatilfærsla og þar er jarðeigendum veittur sérréttur að skattgreiðendur þurfa að greiða þeim verulegar fjárhæðir ef almannahagsmunir þurfa á að halda að nýta gæði sem kunna að finnast á jörðum þeirra.

Allir þekkja hálendisumræðuna og hvernig verið er að færa 4% þjóðarinnar ákvörðun um nýtingarrétt á hálendinu. Þess vegna er afar ósmekklegt, herra forseti, og ástæða til þess að minnast á það hér, að forsrh. skuli leggjast svo lágt að leggja mælistiku kostnaðar á þá umræðu. Auðvitað er ljóst að um þessi mál þurfti að fara fram mjög ítarleg umræða. Það er umhugsunarefni hvort að það sé ekki viðfangsefni forsn., herra forseti, að fjalla um þessi makalausu orð hæstv. forsrh. og hvernig hann lítur til þingsins, hvernig hann raunverulega segir að þingið eigi bara að vera afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórnina.

[12:15]

Það er auðvitað athyglisvert líka og nokkur nýlunda að sjá, herra forseti, það sem var í Morgunblaðinu í morgun, að ráðherra boðar takmarkanir á ræðutíma þingmanna og hér er átt við forsrh. Þaðan kemur valdið, úr Stjórnarráðinu, sem boðar það að takmarka hér ræðutíma þingmanna. Þetta var afar sérkennileg uppákoma sem við fórum í gegnum á laugardaginn og skal ég ekki endurtaka það nú. Þó vil ég segja, herra forseti, að ég tel fulla ástæðu til þess að huga að því að óska eftir því að forsn. taki upp þau ósmekklegu ummæli sem forsrh. hefur viðhaft um málfrelsi þingmanna sem þeim er tryggt bæði í stjórnarskránni og í þingsköpum.

Þótt ýmislegt hafi verið sagt um þetta mál þá er ýmislegt enn ósagt og nauðsynlegt þegar stefnir í lok þessarar umræðu að fara yfir helstu atriði þess.

Ég tók eftir því í andsvari að hv. þm. Kristján Pálsson sagði að þau fjölmörgu félagasamtök, 26 talsins auk verkalýðshreyfingarinnar, væru bara að biðja um frestun. Hann lét að því liggja að þessir aðilar væru ekki að biðja um breytingar. En auðvitað eru þessir aðilar að biðja um það að reyna að ná sátt um málið og að það náist fram breytingar á frv. Þess vegna er verið að biðja um frest. Ég minni líka á að húsnæðisnefndirnar sem gerst þekkja til þessara mála hafa lagt fram mjög alvarlegar athugasemdir og í því felst frestunin þannig að mér finnst mjög lítið gert úr þessum samtökum að stilla málinu þannig upp að hér sé einungis verið að biðja um frest frestsins vegna en ekki að nýta eigi hann til að reyna að ná sáttum um málið.

Við þingmenn erum enn að fá áskoranir frá verkalýðshreyfingunni um að fresta þessu máli, t.d. hvorki meira né minna en frá sambandsstjórn Verkamannasambands Íslands. Hana lásu hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir og hv. þm. Ögmundur Jónasson hér upp í morgun. Hún var gerð á síðustu dögum eða á sambandsstjórnarfundi í Reykholti 15.--17. maí, en þar er skorað á félmrh. að draga til baka frv. um húsnæðismál sem nú er til meðferðar á Alþingi og taka boði verkalýðshreyfingarinnar um viðræður þannig að sátt megi nást um málið.

Hér er, herra forseti, gerð úrslitatilraun til þess að fá félmrh. til að fresta þessu máli þannig að það skuli ekki verða hans saga í stóli félmrh. að slíta friðinn við verkalýðshreyfinguna í landinu eins og gert hefur verið með þessu frv. um húsnæðismál. Ég óttast, herra forseti, að gangi þetta mál fram sem nú horfir þá munum við hugsanlega í næstu viku sjá frv. gert að lögum óbreytt og að þá muni þetta mál kannski verða meginviðfangsefni verkalýðshreyfingarinnar í næstu kjarasamningum árið 2000, þ.e. að hrinda þessari atlögu sem nú er hafin að láglaunafólki á Íslandi. Það gæti farið svo, herra forseti, að það gæti kostað fólk í næstu kjarasamningum einhverjar kjarabætur --- þá er ég að tala um launahækkanir -- ef verkalýðshreyfingin verður nauðbeygð til þess að setja þetta mál sem aðalmál í næstu kjarasamningum til að hrinda þessari atlögu.

Eina leiðin, herra forseti, vegna þess að ég spái því að þetta verði svona, til þess að verkalýðshreyfingin þurfi ekki að kaupa þetta með launahækkunum hjá launþegum þessa lands í næstu kjarasamningum, er að við taki ný ríkisstjórn að ári sem hafi það sem sitt verkefni að breyta þeirri atlögu sem hér er gerð að félagslega íbúðakerfinu. Við erum að upplifa nokkuð sögulega stund hér, að vísu mjög sorglega, þar sem verið er að loka félagslega íbúðakerfinu á Íslandi og loka þeirri bók, 70 ára sögu þess, sem hefur að geyma mjög merkilegt efni um það hvernig íslenska þjóðin vill búa að þeim sem verst standa í þjóðfélaginu, hvernig hún vill í verki og framkvæmd sýna þessu fólki, sínum minnstu meðbræðrum, að það geti líka átt öryggi í húsnæðismálum eins og aðrir sem betur eru settir og meira hafa á milli handanna. Herra forseti. Við erum ekki að tala um fólk sem ekki vinnur sína vinnu og á þess vegna ekki fyrir því að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Nei, við erum að tala um fólk sem vinnur hörðum höndum myrkranna á milli en á varla fyrir sinni framfærslu þrátt fyrir það. Það er með laun kannski einhvers staðar á milli 60--70 þús. kr. Þess vegna er verið að skrifa hér lokakaflann, herra forseti, í mjög merkilega sögu um félagslega aðstoð við fátækt fólk á Íslandi sem við mörg hver hér inni, og stjórnarandstaðan í heild sinni, lítum á að sé skilið eftir úti í kuldanum í miklu öryggisleysi með sín húsnæðismál í framtíðinni.

Við í stjórnarandstöðunni erum raunverulega að gera úrslitatilraun við 3. umr. til að taka m.a. á því máli. Við flytjum tvær brtt. Önnur lýtur að starfsöryggi starfsfólks Húsnæðisstofnunar sem ég ætla aðeins að koma inn á hér á eftir. Hin lýtur að því að skilja þetta fólk ekki eftir í fullkomnu öryggisleysi um það hvernig því verði tryggt húsaskjól í framtíðinni því að ríkisstjórnin ætlar að taka sér tíma til ársloka 2000 þar til sú niðurstaða liggur fyrir. Reyndar veit enginn hvort eða hvernig verður tekið á þessum málum á árinu 2000.

Allar líkur eru á því sem við í stjórnarandstöðunni höfum bent á, og fyrir því eru margar vísbendingar sem fram hafa komið hér, að færa eigi vextina á leiguíbúðunum sem nú eru 1% upp í markaðsvexti. Þá sjá allir í hendi sér --- og af þeim sem hér eru inni kannski helst, herra forseti, sá sem situr í forsetastóli því hann gjörþekkir sveitarstjórnarmálin og hefur verið bæjarstjóri --- að ekki felst mikil hvatning í því fyrir sveitarfélögin sem ekki hafa byggt ýkja mikið af leiguíbúðum þrátt fyrir að vextirnir hafi verið 1%, að fara nú í mikið átak og uppbyggingu á leiguíbúðum sem full þörf er á, ef sú verður niðurstaðan að færa vextina á leiguíbúðum upp í markaðsvexti. Ég held að það sé alveg deginum ljósara og það óttumst við.

Við gerum því raunverulega tvennt með þeirri brtt. sem við flytjum. Við gerum ekki athugasemd við að gerð verði úttekt á leigumarkaðnum og könnuð þörf fyrir leiguíbúðir á næstu árum í samráði við fulltrúa sveitarfélaga og ASÍ og BSRB, þó að vissulega bendum við á að til eru áætlanir í þessum stærstu kaupstöðum um það hver þörfin verður. Meira að segja liggja núna fyrir, að ég best man, t.d. frá Akureyri, Reykjavík, Kópavogi, gott ef ekki Hafnarfirði líka, áætlanir um hver þörfin fyrir leiguíbúðir verður á næsta ári, herra forseti, verði frv. þetta að lögum. En á það skal hér minnt að þegar liggja fyrir biðlistar, einkum í Reykjavík eðli málsins samkvæmt, stærsta bæjarfélaginu, þar sem eru einhvers staðar á bilinu 1.000--1.500 manns á biðlista þegar við tökum félagasamtökin með, bæði sveitarfélög og félagasamtök eins og t.d. Öryrkjabandalagið.

En við segjum: Það á ekki að bíða með það til ársloka 2000 að finna út niðurstöðuna í því efni. Við óttumst þessa setningu sem nú hefur verið samþykkt við 2. umr., að heimilt sé til ársloka 2000 að veita lán til leiguíbúða með óbreyttum lánskjörum. Af einhverjum ástæðum telja menn ástæðu til þess að nefna hér óbreytt lánskjör og það teljum við að boði að þessi ríkisstjórn vilji fara að hækka vextina á leiguíbúðum upp í markaðsvexti, enda er það í samræmi við þá stefnu sem mörkuð er með Íbúðalánasjóðnum, að hann á að vera sjálfbær og standa undir sér með gjaldtöku og vöxtum. Og ef hann á að geta staðið undir sér með gjaldtöku og vöxtum og veita lán til leiguíbúða þá gerist það auðvitað ekki öðruvísi en með vaxtahækkunum af því það á að þurrka út öll ríkisframlög.

Ég flyt þessa breytingartillögu ásamt hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, Ögmundi Jónassyni og Rannveigu Guðmundsdóttur. Í henni segir, með leyfi forseta:

,,Á grundvelli samstarfs þessara aðila [þ.e. verkalýðshreyfingarinnar og sveitarfélaganna] skal lögð fram framkvæmdaáætlun sem framlög ríkisins og sveitarfélaga skulu taka mið af í framtíðinni og skal hún liggja fyrir 1. október 1998.``

Þarna hefði réttara átt að segja eigi síðar en 1. október 1998 en engu að síður stendur hér 1. október 1998. Við teljum að það sé fullnægur tími til þess á þeim mánuðum sem eru til stefnu, til 1. október 1998, að kortleggja þessa þörf, gera þessa framkvæmdaáætlun og að fulltrúar ríkis og sveitarfélaga setjist niður yfir fjármögnunina, en að þessu fólki sé ekki gert að bíða í tvö til þrjú ár eftir því að fá þessa niðurstöðu.

Hvað verður, herra forseti, um allar þessar fjölskyldur á þessum tíma? Biðlisti eftir leiguíbúðum í Reykjavík er sennilega um tvö ár og Reykjavíkurborg hefur sótt um 100 leiguíbúðir. Þær voru nú aðeins til umræðu, ég held það hafi verið á Hótel Borg í gær, þar sem tekinn var upp þáttur með fulltrúum Reykjavíkurlistans og D-listans þar sem fulltrúi Reykjavíkurlistans var einmitt að nefna þessar 100 leiguíbúðir sem Reykjavíkurlistinn vill byggja á næsta ári og fulltrúi D-listans sagði: ,,Af hverju hefur það ekki verið gert áður?`` Og auðvitað er svarið við því --- og líka þá hvort Reykjavíkurlistinn geti byggt þessar leiguíbúðir á þessu ári eins og hann áformar verði hann áfram við völd --- að fjmrh. veiti þá stuðning til þess og legði fram fé í, ekki bara í 50 íbúðir á næstu tveim árum, þ.e. 25 á ári, heldur hundruð leiguíbúða. Það þyrfti hann þá að gera. Á því stendur t.d. núna að Reykjavíkurborg geti farið í þessi áform sín.

Þess vegna viljum við, herra forseti, að þetta liggi fyrir í október 1998. Þessi lög eiga að taka gildi um næstu áramót og það er auðvitað það eina rétta að við vitum eitthvað hvað verður um þetta fólk áður en lögin taka gildi.

Síðan segjum við, sem er mjög mikilvægt, að fjöldi lána og upphæð þeirra sem og framlög ríkisins skulu taka mið af þeirri áætlun, þ.e. að ef menn eru að gera framkvæmdaáætlun sem á að byggja á þá þarf auðvitað, ef menn meina eitthvað með því sem þeir eru að segja, að tryggja öryggi þessa fólks og að það verði ekki skilið eftir á götunni að veita ríkisframlög eða framlög í samræmi við þá áætlun bæði af hálfu ríkis og sveitarfélaga. Við erum sérstaklega að tryggja hér það sem snýr að ríkisvaldinu, þ.e. að framlög ríkisins verði þá í samræmi við þessa áætlun sem liggur fyrir í október 1998.

Þriðja atriðið í 2. tölulið brtt. er að lánskjör til leiguíbúða skulu vera samkvæmt gildandi lögum. Þetta er efni brtt. Við teljum mjög mikilvægt að tryggja þetta vegna þess að ef það verður ekki, herra forseti, þá getum við bara gleymt því að sveitarfélögin treysti sér í uppbyggingu á félagslegum íbúðum, þ.e. á leiguíbúðum. Það er ekki svo að þessi kjör sem meiri hlutinn segir að eigi að vera óbreytt í tvö ár, þ.e. lán til 50 ára og 1% vextir sé eitthvað nýtt, að það sé verið að létta sveitarfélögunum að fara í þessar leiguíbúðir frá því sem nú er, vegna þess að þessi kjör hafa verið til staðar.

[12:30]

Þrátt fyrir allt er fjöldi leiguíbúða með lánum úr Byggingasjóði verkamanna, þ.e. leiguíbúðir sveitarfélaga, ekki nema 450 gegnum öll þessi ár. Til fæstra þeirra hefur verið veitt lán í tíð núv. hæstv. félmrh., það eru örfá lán vegna þess að lánin sem veitt hefur verið til úr Byggingarsjóði verkamanna, bæði til félagslegra íbúða og leiguíbúða, hafa snarhrapað niður, herra forseti. Þau voru flest á árunum 1991--92 um 800. Þau eru nú komin niður í 170. Af sjálfu leiðir að þess vegna hafa verið veitt lán til miklu færri leiguíbúða en á árunum á undan.

Lán hafa verið veitt til 450 leiguíbúða sveitarfélaga, 350 leiguíbúða námsmanna, 160 leiguíbúða aldraðra og 220 leiguíbúða öryrkja. Þetta er allnokkur fjöldi, um 1.200 leiguíbúðir, herra forseti. Heildarfjöldi leiguíbúða í eigu sveitarfélaga er 610 íbúðir og fjöldi kaupleiguíbúða í leigu, þ.e. kaupleiguíbúðir í eigu sveitarfélaga eru 900. Við sjáum að kaupleigukerfið, sem hefur ekki fengið að vera mjög lengi við lýði, hefur skilað mjög verulegu að því er varðar það að bæta hag íbúa í sveitarfélögum sem hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að koma sér sjálf þaki yfir höfuðið.

Búsetasamtökin, sem virðast vera skilin eftir úti í kuldanum, það á ekkert að afgreiða lögin um þau, hafa komið sér upp í gegnum þetta kerfi um 240 íbúðum, herra forseti.

Það sem við erum líka að gera í þeirri brtt. sem ég mæli fyrir er að við leggjum til að við 52. gr. frv. við 6. gr. bætist nýr málsliður:

,,Starfsfólk Húsnæðisstofnunar ríkisins skal hafa forgang um sambærileg störf hjá Íbúðalánasjóði.``

Hér er ekkert nýtt á ferðinni þegar verið er að breyta starfsumhverfi opinberrar stofnunar. Hér er bara verið að fylgja því fordæmi sem verið hefur gegnum árin. Ávallt hefur verið hugað að forgangi þess starfsfólks sem er í viðkomandi stofnun þar sem verið er að breyta starfsumhverfinu, að þetta fólk hafi forgang til sambærilegra starfa þegar verið er að breyta opinberri stofnun. Það vill svo merkilega til að það er ráðherra atvinnumála, vinnumarkaðsmála sem er að skrifa nýjan kafla í samskiptum við opinbera starfsmenn, þ.e. að þeir hafi í fyrsta sinn ekki forgang til starfa þegar verið er að leggja niður stofnun og búa til nýja. Það er mjög merkilegt að það komi í hlut hæstv. félmrh., vinnumarkaðsráðherra, að skrifa þennan kafla í samskiptum við opinbera starfsmenn.

Herra forseti. Því er gerð tilraun til þess með þessari brtt., að sami háttur verði hafður á og þegar verið er að breyta öðrum opinberum stofnunum. Það hefur náttúrlega gerst af og til gegnum árin en þarna er tekin upp ný starfsmannastefna gagnvart opinberum starfsmönnum sem lengi, vel og dyggilega hafa þjónað, eins og í þessu tilviki, í Húsnæðisstofnun, stofnun sem á nú að leggja niður.

Áskorun hefur komið fram frá starfsfólki um að það verði tryggt með þessum hætti. Við gerum tilraun til þess í minni hlutanum, þó að ég verði að segja, herra forseti, að harla lítil von virðist til þess miðað við það sem á undan hefur gengið í þessu máli, að meiri hlutinn ætli nokkuð að hlýða á athugasemdir og ábendingar stjórnarandstöðunnar, verkalýðshreyfingarinnar, félagasamtaka, húsnæðisnefnda eða starfsfólks Húsnæðisstofnunar.

Ég velti raunverulega fyrir mér, herra forseti, hvað sé að gerast á þessum vinnumarkaði undir forustu þessarar helmingaskiptastjórnar. Þá er ég að tala bæði um samskipti verkalýðshreyfingarinnar og samskiptin við launþega og starfsfólk Húsnæðisstofnunar í þessu tilviki. Hvort hér er verið að skrifa nýjan kafla, hvort með þessu frv. sé upphafið að nýrri starfsmannastefnu, nýjum viðhorfum ríkisvaldsins til opinberra starfsmanna. En þessi tilraun er gerð.

Nú kann einhver að spyrja, herra forseti: Stjórnarandstaðan sem hefur talað ítarlega undir þessum umræðum til þess að flytja mál sitt og skýra sjónarmið sín og hefur haft ótal athugasemdir við þetta frv., margar greinar þess, nálægt því hverja eina og einustu nema hugsanlega það sem snertir ákvæði húsbréfa, sem við höfum búið við um nokkurra ára skeið, --- af hverju í ósköpunum gerir stjórnarandstaðan ekki fleiri tillögur en þessar tvær? Því er til að svara að þetta frv. á að verða að lögum um næstu áramót. Því hefði verið nægjanlegur tími til þess að leita sátta í málinu, það vil ég að komi fram. En það liggur á þessum tveimur ákvæðum sem ég hef hér nefnt, þ.e. forgangi starfsfólks Húsnæðisstofnunar til sambærilegar starfa hjá Íbúðalánasjóði, og að hraða því að gerð verði framkvæmdaáætlun sem byggð verði á ríkisframlög og það liggi fyrir 1. okt. 1998, þ.e. þremur mánuðum áður en lögin taka gildi þannig að um leið og lögin taka gildi sé hægt að hefja uppbyggingu á þessum leiguíbúðum með nýjum fjárlögum sem við afgreiðum á haustþingi þannig að ríkisstjórnin hafi tækifæri til þess að sýna á fjárlögum hvað hún vill gera fyrir þessa láglaunahópa. Því er nauðsynlegt að þessi framkvæmdaáætlun liggi fyrir við næstu fjárlagaafgreiðslu í haust.

Við höfum einnig gagnrýnt mjög mörg önnur atriði sem snerta viðbótarlánin, kostnað sem fólk verður fyrir þegar það fer inn í kerfið, kostnað sem fólk verður fyrir þegar það fer út úr kerfinu, vaxtabæturnar, forkaupsréttarákvæði o.s.frv., og ég mun stikla á stóru í máli mínu hér á eftir. Þau geta hugsanlega beðið þangað til við komum til næsta þings. Ég hygg að stjórnarandstaðan muni þá hugleiða hvort ekki sé ástæða til þess að fara yfir það ítarlega með verkalýðshreyfingunni að reyna að betrumbæta þessa löggjöf.

Út af fyrir sig, miðað við þá reynslu sem við höfum af þessum stjórnarflokkum, ætla þeir sér með góðu og illu að ná þessu máli svo til óbreyttu í gegn og hlusta ekki á ítarlegan rökstuðning um breytingar á þessu frv. Þess vegna erum við að gera þessa tilraun með einungis tvær brtt. núna sem liggur á að lögfesta þannig að hægt sé að vinna í því máli, aflétta því óöryggi sem starfsfólk Húsnæðisstofnunar býr við og fara að vinna í þeirri framkvæmdaáætlun sem á að liggja fyrir í haust, og munum þá skoða síðan aðrar breytingar þegar þing kemur saman hugsanlega að hausti. Þetta held ég að sé mikilvægt að komi fram.

Í gær fórum við yfir brtt. í atkvæðagreiðslu og þær brtt. voru nokkuð margar. Mig minnir að þær hafi skipt einhverjum tugum frá stjórnarliðum. Þær voru ekki ýkja merkilegar. Þetta voru mest ýmiss konar orðalagsbreytingar og örfáar efnisbreytingar, m.a. til þess að forða því að félmrh. þyrfti að fara að greiða fólki skaðabætur vegna þess að það átti að svipta fólk, með ákvæðum frv., ákveðnum rétti sem það hafði þegar áunnið sér, t.d. varðandi kaupleiguíbúðir. Þeir sem gert höfðu samninga og greitt inn á samninga en ekki verið afhentar íbúðir sem tæki mið af núverandi kerfi. Þessu átti bara að svipta fólki, herra forseti. Meiri hlutinn bjargaði ráðherranum fyrir horn í því máli og er það út af fyrir sig vel. Að öðru leyti voru breytingarnar ekki merkilegar.

Ég verð t.d. vör við það varðandi breytingu við 40. gr. að þeir sem var farið að líða illa að þurfa að samþykkja þetta frv., töldu sig geta hangið í því haldreipi að meiri hlutinn fékk félmrh. greinilega til þess að fallast á að setja inn ákvæði sem var samþykkt við 2. umr., og hljóðar svo, herra forseti:

,,Aðilum, sem byggja eða kaupa leiguíbúðir, er heimilt að selja leigutaka, sem uppfyllir skilyrði 1. mgr., eignarhlut í íbúð með þeim kvöðum að eignarhluti kaupanda standi óhreyfður í íbúðinni á meðan hann hefur afnot af henni en greiðist síðan með fullum verðbótum samkvæmt vísitölu neysluverðs, án vaxta. Nánari reglur um eignarhlut leigutaka skulu settar í reglugerð.``

Þetta fundu þeir upp, herra forseti, af sinni alkunnu snilld, stjórnarliðar og ráðgjafar félmrh., til þess að róa nokkra stjórnarliða sem voru orðnir órólegir út af því sem þeir væru að taka þátt í með því að loka félagslegu íbúðakerfi. Stjórnarliðar hafa mjög bent á að þetta sé nú hið besta ákvæði og þetta muni sveitarstjórnirnar nýta sér, að heimila aðilum sem byggja eða kaupa leiguíbúðir að selja leigutaka eignarhlut í íbúðinni.

Þetta var engin ný uppfinning, herra forseti, þetta var engin ný uppfinning. Minnir mig að hv. þm. Kristján Pálsson hafi stundum bent á þetta ákvæði sem var verið að taka upp hjá nefndinni að þetta væri hið besta mál og þarna væri búið að leysa allan vanda. Það var varla hægt að skilja annað. En þetta var bara alls ekki ný uppfinning, herra forseti, vegna þess að ráðgjafar ráðherrans fundu að það væri bara mjög sniðugt að taka upp gamalt ákvæði úr húsnæðislöggjöfinni frá 1983--1984 sem er næstum orðrétt það sama og nú er tekið inn í löggjöfina 1998. Þannig hljóðar það í löggjöfinni 1983:

,,Heimilt er aðilum er byggja leiguíbúðir, samkvæmt c-lið 33. gr., að selja eignarhlut í íbúð með þeim kvöðum að eignarhluti kaupanda standi óhreyfður í íbúðinni á meðan hann hefur afnot af henni, en greiði síðan með fullum verðbótum samkvæmt lánskjaravísitölu auk vaxta.``

Ég held að eina breytingin sé sú að hér stendur ,,lánskjaravísitölu`` en í þessum nýja texta sem var samþykktur í gær er talað um vísitölu neysluverðs. Síðan segir:

,,Nánari reglur um eignarhluta leigutaka skulu settar í reglugerð.``

Ég reyndi að athuga hverjum þetta hefði gagnast á sínum tíma, 1983--84 af því þetta er megindúsan, herra forseti, sem verið er að stinga upp í þá stjórnarliða sem hafa einhvern snefil af samviskubiti yfir því að fara svona með láglaunafólk. Samkvæmt því sem ég kemst næst hafði ekki eitt einasta sveitarfélag nýtt sér þetta ákvæði sem var inni í lögunum 1983--84 og þá allar götur sennilega þangað til kaupleigukerfið tók við 1988, eða í fjögur ár. Enginn sá ástæðu til þess að nýta sér þetta, herra forseti. Ég hef ekki haft tíma til að skoða það nákvæmlega hve mikið félagasamtök hafa nýtt sér þetta, svo mikið liggur á að keyra frv. í gegn. Eitthvað var það, en alls ekki mjög mikið, er mér tjáð. Búseti, sem hafði enga möguleika á þeim tíma, það var ekki komin nein lagastoð undir búseturéttaríbúðir, gat nýtt þetta ákvæði og byggt á grundvelli þess örfáar íbúðir.

[12:45]

Nú spyr maður: Er einhver ástæða til þess að ætla, þegar þessi opnun verður, að sveitarfélögin fari nú að nota þetta ákvæði mikið og selji leigutökum eignarhlut í íbúðum með þeim kvöðum að eignarhlutur kaupenda standi óhreyfður á meðan hann hefur afnot af íbúðinni?

Ég hef bent á það, herra forseti, reyndar við umræðuna í gær, að ég teldi að þetta ákvæði yrði haldlítið. Ég tel, eftir þann stutta tíma sem ég hef haft til að skoða það milli 2. og 3. umr., að það muni ekki skila miklu. Ég held því að þetta ákvæði muni gagnast ákaflega fáum og vil í því sambandi benda á að húsnæðisnefnd Reykjavíkur, undir forustu Páls Magnússonar að því er ég best veit, lagði til ákveðna leið að því er þetta ákvæði varðar. Hefði sú leið verið farin og sú tillaga verið samþykkt, þá er ég sannfærð um að hún hefði skilað miklu meira fyrir láglaunafólk en ætla má að raunin verði varðandi þetta ákvæði.

Húsnæðisnefnd Reykjavíkur lagði til að ákvæðið yrði útfært þannig að samhliða leigusamningi yrði gerður samningur um greiðslu 10% útborgunar sem dreifa mætti á tiltekinn árafjölda. Mig minnir að þar hafi verið nefnd fimm ár. Ég held reyndar að það þyrfti að dreifa honum á lengri árafjölda eða á 5--10 ár, en ekki það að fólk sé að borga leigugreiðslur og þurfi síðan að greiða tiltekinn hluta í kaupverðinu á sama tíma.

Þeir lögðu til að þegar 10% útborgun væri greidd, sem leigan gengur upp í, þá gæti kaupandi nýtt sér kauprétt sinn og fengið húsbréfalán auk viðbótarláns ásamt afsali fyrir íbúðinni. Ég held að ef sú leið væri valin mundi þetta gagnast betur.

Nú á að vísu eftir að setja reglugerð um útfærslu á þessum eignarhluta. En miðað við hvernig þessi ríkisstjórn er innstillt gagnvart láglaunafólki, sem hún virðist engar áhyggjur hafa af, geri mér litlar vonir um, herra forseti, að það verði gerður samningur við láglaunafólk um að það geti greitt 10% útborgun á tilteknum árafjölda, eins og húsnæðisnefnd Reykjavíkur lagði til, eða á 5--10 árum. Þá fyrst mundi það gagnast.

En við skulum sjá til. Ég á ekki von á að svo verði og bendi á að þetta ákvæði var í gildi árin 1983 og 1984. Það var í gildi í fjögur ár og fáir nýttu sér það. Eftir því sem ég best veit --- annað verður þá að koma í ljós --- þá nýtti ekkert sveitarfélag á þessum árum þetta ákvæði.

Ég sagði, herra forseti, að það sem ég þyrfti raunverulega að gera væri að fara í mjög grófum dráttum yfir helstu atriðin sem hvað verst koma niður á sveitarfélögunum og láglaunafólki. Mér gafst lítill tími til þess þó að ég hafi flutt langa ræðu sem hæstv. forsrh. sat yfir á skrifstofu sinni og tímamældi. Það er ekki mikið að gera hjá hæstv. forsrh. að sitja yfir tíu klukkustunda ræðu minni uppi í Stjórnarráði með klukku og samlagningarvél, til þess að athuga hvað hún væri löng og hvað hún kostaði. Ég hafði ekki einu sinni tíma til þess, þó að ég hefði verið sögð lesandi upp úr skýrslum og afmælisritum, að fara ítarlega yfir meginatriðin í þessum fjórum umsögnum, sem eru hvað gagnrýnastar á þetta frv., þ.e. húsnæðisnefndanna fjögurra sem ég nefndi. Ég að vísu stiklaði á þeim, ég fór ítarlega yfir umsögn ASÍ.

Það sem liggur fyrir, eins og hefur komið fram, er markaðsvæðing á þessu kerfi og lokun á félagslega íbúðakerfinu. Það sem raunverulega er að gerast er að þegar þetta frv. tekur gildi, þá hækka hér vextir á láglaunafólki, úr 2,4% í 5%. Húsbréfalánin bera núna 5% vexti, þá mun láglaunafólk þurfa að taka á sig. Þær vonir sem við gerðum okkur um það að viðbótarlánin mundu ekki bera meira en 2,4% vexti brugðust við 2. umr. þessa máls.

Meiri hlutinn fékk ábendingu, hvort sem það var frá Seðlabankanum eða fjmrn. eða báðum, um að það samræmdist ekki því að þessi sjóður ætti að standa undir sér með vöxtum og tekjum, að hafa þessi viðbótarlán ekki á markaðsvöxtum. Þannig mun 90% lán sem þetta fólk fær ekki verða með 2,4% vöxtum, eins og það hefur í dag, heldur með 5% vöxtum. Hér erum við því að ganga í gegnum það, þegar menn eru að tala um jafnvægi á markaðnum o.s.frv., að vextir á einn hóp í landinu verða hækkaðir úr 2,4% í 5%. Mér finnst hafa farið ansi hljótt um það þó að menn hafi talað mikið í þessu máli. Það er verið að hækka vexti á láglaunafólki um 2,6%.

Hæstv. samgrh. Halldór Blöndal hefði nú þurft að hafa einhver orð um það, þegar hann var hér í stjórnarandstöðunni, ef ég hefði þá beitt mér fyrir því að hækka vexti á láglaunafólk. Svo mjög þurfti hæstv. ráðherra að ræða um þau mál á sínum tíma að hann hefði örugglega, herra forseti, þurft að hafa um það mörg orð. Forsrh. hefði örugglega þurft að grípa til reikningsvélarinnar og tímamælingarinnar á þann mann, herra forseti, ef vaxtahækkunin á láglaunafólk hefði orðið það mikil á þeim tíma. Þetta er eini hópurinn í landinu sem er verið að hækka vexti á þessa dagana að því ég best veit.

Þá segja menn: En vaxtabætur, við erum að flytja niðurgreiðsluna yfir í vaxtabætur. Það höfum við náttúrlega farið í gegnum, herra forseti, og lítil ástæða til þess að nefna það. Ég skal ekki gera það nema bara í örfáum setningum af því að við eigum eftir að ræða hér frv. um vaxtabætur.

Það liggur fyrir að 60% af því fólki sem notið hefur aðstoðar í félagslega kerfinu, þ.e. einstæðir foreldrar og einstaklingar, munu verða verr settir þegar niðurgreiðslan verður tekin í gegnum vaxtabótakerfið en ekki með niðurgreiðslu á vöxtunum. Það höfum við reiknað út, og lagði ég fram þann útreikning, að hér gæti munað allt að 63 þús. kr., eða sem samsvarar nálægt einum mánaðarlaunum á ári, eða sem nemur einum mánaðarlaunum t.d. einstæðrar móður. Þetta á þessi einstæða móðir að taka upp úr vasa sínum án þess að fá bætt. Það hefði hún þó fengið í gegnum félagslega kerfið. Hún á sjálf að leggja þessa upphæð á borðið og greiða með þessu láni.

Nú vil ég bara halda því til haga, af því að við eigum eftir að ræða hér vaxtabætur og skal ég því ekki eyða mörgum orðum í það, að minni hluti efh.- og viðskn. hefur sent útreikninga mína, sem ég hér nefni og er hér að vitna í, til fjmrn. og fengið það staðfest af fjmrn. að þeir útreikningar séu réttir. Ef einhver skyldi ekki trúa því að ég hefði sett fram rétta útreikninga þá hafa þeir verið staðfestir af fjmrn. Það liggur því fyrir að ef einstæðir foreldrar fara í sambærilegar íbúðir, eins og þeir hafa getað gert í félagslega kerfinu, íbúðir sem kosta kannski 6 milljónir kr. og einstætt foreldri þarf oft á því að halda, við skulum segja að viðkomandi sé með tvö börn, ég tali nú ekki um þrjú, þá er niðurgreiðslan með þeim hætti að þessir einstæðu foreldrar þurfa að leggja meira úr vasa sínum með þessu láni.

Ekki nóg með það heldur höfum við líka farið yfir kostnaðinn við að komast inn í kerfið og þar er ljóst að nýjar gjaldtökur hafa bæst við sem fólk í félagslega kerfinu hefur ekki þekkt áður.

Þá ætla ég aðeins að fara yfir stimpilgjöldin, herra forseti. Við í minni hlutanum bundum lengi vonir við það, og töldum að það yrði reyndar ofan á hjá meiri hlutanum einnig, að stimpilgjöldin yrðu felld niður, ekki bara af viðbótarláninu heldur af húsbréfunum einnig. Niðurstaðan, eftir að hafa fengið fyrirmæli úr fjmrn., sem hæstv. félmrh. hlýðir mjög gjarnan, var að einungis mátti fella niður stimpilgjöldin af viðbótarláninu, þessum 20--25%.

Eftir stendur, varðandi stimpilgjöldin, að fólk þarf að greiða þau af húsbréfalánunum. Ekki nóg með það heldur er opnað fyrir að félagasamtök geti fengið húsbréfalán, sem er gott og gilt út af fyrir sig. Félagasamtök sem hafa ekki áður þurft að greiða stimpilgjöld þurfa nú allt í einu að fara að greiða stimpilgjöld af húsbréfaláni. Þ.e. félagasamtök, Búsetahreyfingin o.s.frv.

Það sem er enn nýtt í þessu, og ég skal rétt ljúka máli mínu með þann þáttinn, er að þeir sem fá greiðsluerfiðleikalán þurfa nú að greiða stimpilgjöld af greiðsluerfiðleikalánum.

(Forseti (GÁS): Nú vill forseti ekki grípa inn í ræðu hv. þm., en hann hafði áformað að gera matarhlé í 30 mínútur og spyr því hvort hv. þm. sé nokkuð að ljúka ræðu sinni eða hvort að hún vilji gera hlé á henni.)

Nei, ég á nokkuð eftir og vildi gjarnan gera hlé.

(Forseti (GÁS): Þá verður forseti við því og gerir nú hlé í 30 mínútur.)