Húsnæðismál

Þriðjudaginn 19. maí 1998, kl. 13:32:23 (6787)

1998-05-19 13:32:23# 122. lþ. 131.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 122. lþ.

[13:32]

Jóhanna Sigurðardóttir (frh.):

Herra forseti. Fyrir matarhlé fór ég í gegnum þær brtt. sem við í minni hlutanum flytjum við 3. umr. um húsnæðismál. Ég flyt þær tillögur ásamt hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, Ögmundi Jónassyni og Rannveigu Guðmundsdóttur. Brtt. fela í sér í fyrsta lagi að fela starfsfólki Húsnæðisstofnunar forgang um sambærileg störf hjá Íbúðalánasjóði.

Í staðinn fyrir að fólk muni, eftir að þetta frv. verður að lögum, búa við mikið óöryggi í húsnæðismálum allt fram til ársloka 2000, þá áformar ríkisstjórnin að liggi fyrir áætlun milli ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaganna um hvernig háttað verði uppbyggingu á félagslegum íbúðum og hvernig þær verði fjármagnaðar, þá höfum við lagt til að slík áætlun liggi fyrir 1. október 1998 svo taka megi tillit til þeirrar framkvæmdaráætlunar við gerð næstu fjárlaga. Einnig er mjög mikilvægt að framlög ríkisins taki mið af þeirri áætlun sem á ráðast í og lánskjör til leiguíbúða verði með sama hætti og er í gildandi lögum, þ.e. að vextir verði 1%. Sú hætta vofir hins vegar yfir yfir og allt bendir til þess að vextir á leiguíbúðum hækki líka upp í 5%. Nóg er nú að gert hjá þessari ríkisstjórn, eins og ég fór yfir áðan hækkar hún vexti á félagslegum íbúðum úr 2,4% í 5%, ekki bara að því er varðar húsbréfahlutann heldur einnig á viðbótarlánunum. Ég hef sýnt fram á að vaxtabótakerfið muni ekki koma til móts við fólk til þess að það verði jafnsett eftir sem áður, þ.e. að það þurfi ekki að bera meiri greiðslubyrði en er í núverandi kerfi. Þvert á móti munu það einkum vera einstæðir foreldrar og einstaklingar sem munu þurfa að taka á sig þyngri greiðslubyrði vegna þessarar vaxtahækkunar.

Ég var komin þar í sögunni að ég var að ræða annan aukinn kostnað sem fólk verður fyrir við þessa breytingu, þ.e. stimpilgjöldin. Auðvitað er þar ýmis annar nýr kostnaður sem á að taka upp samkvæmt þessu frv. og eitthvað hefur verið farið yfir í 2. umræðu. Stimpilgjöldin eru kapítuli út af fyrir sig af því þau vega þyngst í þessum aukna kostnaði. Áform ríkisstjórnarinnar er að fella niður stimpilgjöld af viðbótarlánum en ekki af húsbréfalánum. Það er nýtt, þ.e. stimpilgjöld af húsbréfalánum, sem fólk í félagslega kerfinu þarf að bera.

Eins er það athyglisvert að nú þurfa greiðsluerfiðleikalánin að bera stimpilgjöld ásamt sérlánum til dagvistarstofnana og fatlaðra, sem hafa verið við lýði í Byggingarsjóði ríkisins.

Ekki er nóg með það, herra forseti, heldur er ljóst að þessi sérlán sem verið hafa til staðar hjá Byggingarsjóði ríkisins eru í óvissu. Einungis verður heimilt að veita slík lán ef Íbúðalánasjóður svo kýs þannig að ekkert er fast í hendi um að þessi lán sem ýmis félagasamtök, eins og Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp, sem hafa nýtt sér þennan möguleika varðandi sérlán til fatlaðra, eigi kost á slíku áfram. Þannig er eitt með öðru í þessu frv. og óvissan virðist vera víða þegar þessi lög hafa verið samþykkt.

Eitt tel ég brýnt að koma inn á nú við 3. umr. Ég hygg að fljótlega eftir að þessi lög hafa tekið gildi um næstu áramót muni það renna upp fyrir mönnum. Nú veit ég ekki hvort ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hafi augun opin varðandi það hvað komið geti fyrir þá sem eru í félagslegum íbúðum. Þá er ég að tala um staði þar sem markaðsverð er lágt en áhvílandi lán kannski mjög há. Átta stjórnarflokkarnir sig á því hvaða áhrif þetta frv. getur haft að því er varðar stöðu þessara hópa? Ég hef orðið vör við það, meðan þetta mál hefur verið til umfjöllunar hjá þinginu, að þeir sem búa við þær aðstæður að hafa farið inn í félagslega kerfið hafi keypt sér þar íbúðir með þá tryggingu í huga, að sveitarfélögin kaupi þá af þeim íbúðirnar og innleysi þær síðan þannig að viðkomandi fjölskyldur og einstaklingar þurfi ekki að bera mismuninn á markaðsverði og áhvílandi lánum. Þá var það auðvitað með þeirri kvöð sem fólkið keypti íbúðirnar, að sveitarfélögin mundu leysa þessar íbúðir til sín.

Ég fór nokkuð í gegnum það við 2. umr., að lítið hefur verið byggt á almennum markaði úti á landsbyggðinni af því að fólk hefur hreinlega ekki treyst sér til þess að byggja þar á almennum markaði. Markaðsverð er lágt og byggingarkostnaðurinn er kannski sambærilegur um land allt. Þó þar geti munað einhverju þá gerir fólk sér grein fyrir því að það situr kannski í ákveðnum átthagafjötrum ef það er að kaupa á almenna markaðnum en ekki í félagslega kerfinu. Þess vegna hefur öll uppbygging úti á landsbyggðinni á undanförnum 10--15 árum verið í gegnum félagslega íbúðakerfið.

Hverju er raunverulega verið að breyta núna? Það er ekki verið að breyta kaupskyldunni, hún helst, þannig að fólk sem er í þessum íbúðum og kaupskyldan hvílir enn á, getur verið öruggt svo lengi sem kaupskyldan hvílir á íbúðinni. Þar er ekkert breytt. En þegar komið er fram yfir þessa kaupskyldu og forgangsréttarákvæðin taka við, í staðinn fyrir kaupskyldu, þá er það fólk í nokkurri óvissu. Það er það fólk sem hefur haft samband við okkur.

Í þessu frv. er verið að gera sveitarfélögunum auðveldara en áður, varðandi forgangsréttarákvæðin, að stytta þann tíma sem er til 30 ára að mig minnir. Það hefur verið ákveðinn hemill í núgildandi löggjöf sem hefur komið í veg fyrir að sveitarfélög hafi hafnað forkaupsrétti hingað til. Ég man ekki eftir því að sveitarfélög hafi hafnað forkaupsrétti þannig að íbúar í sveitarfélögum, þar sem markaðsverð er lágt, hafi síðan staðið uppi með miklu hærri áhvílandi lán.

Þessi ventill, öryggisventill fyrir fólk sem hefur verið inni í núgildandi kerfi, hverfur. Hann hefur verið þannig, herra forseti, að sveitarfélög sem hafna forkaupsrétti í núgildandi kerfi fá ekki lán úr Byggingarsjóði verkamanna næstu þrjú árin. Það hefur verið hvati og reyndar nægjanlegt, herra forseti, til þess að sveitarfélögin hafni ekki forkaupsréttinum.

Ef þau fara nú í miklum mæli að hafna forkaupsréttinum, sem líklegt er að þau geri --- þau hafa raunverulega engan ávinning af því að halda í þessi forkaupsréttarákvæði, það er búið að loka kerfinu --- þá getum við staðið uppi með það að fólk með íbúðir, komið fram yfir kaupskyldu, standi frammi fyrir því að sveitarfélögin hafni forkaupsréttinum. Þá stendur það frammi fyrir því að geta selt íbúðina á kannski á helmingi lægra verði en áhvílandi lán eru. Þetta, herra forseti, óttast ég að við munum fara að sjá strax á næsta ári. Þá hygg ég að það fari að renna tvær grímur á landsbyggðarþingmenn sem standa fyrir þessum breytingum hér, ef einhver hópur fólks stendur frammi fyrir þessu. Ég hef orðið mjög vör við að fólk hefur þessar áhyggjur.

Ég hef verið að spyrja hæstv. félmrh. hvort ekki sé ástæða til þess að hafa áhyggjur af þessu. Svör ráðherrans, herra forseti, hafa vægast sagt verið mjög sérkennileg. Hann segir um þetta ákvæði að ef svo sé komið að markaðsverð sé lægra en áhvílandi lán þá hafi íbúðin bara verið yfirveðsett. Þetta ber hæstv. ráðherra á borð fyrir okkur hér. Það segir mér að annaðhvort viti ráðherrann ekki betur --- sem ég held að ég verði nú frekar að trúa, þ.e. að hann viti ekki betur --- eða þá að hann hafi ekki skilning á þessu. Þetta getur orðið stórt vandamál.

Ég vildi a.m.k. hafa varað menn við í þessu máli. Ég hygg að við verðum að skoða það, áður en þessi lög taka gildi um nk. áramót og gera það þá á næsta þingi, hvort stjórn og stjórnarandstaða gætu ekki sameinast um að búa svo um hnútana að íbúðirnar sem eru í núverandi kerfi og íbúar þess hafi áfram sömu tryggingu og þeir hafa haft varðandi sölu á íbúðum sínum og að þessi eignaupptaka geti ekki átt sér stað hjá fjölda fólks úti á landsbyggðinni. Ég tel mjög brýnt að halda þessu til haga, herra forseti.

Í ræðu minni við 2. umr. málsins fór ég lítið yfir mjög vandað álit minni hlutans, nánast ekkert, herra forseti. Vafalaust hefur verið farið í gegnum það af fulltrúum minni hlutans þannig að ég staldra nú ekki lengi við það.

Ég hlýt þó að vekja athygli á því hvernig þessi lög snúa að námsmönnum. Fyrir því er mjög skilmerkilega gert grein fyrir í tiltölulega stuttum kafla í áliti minni hlutans, hvaða áhrif frv. muni hafa á húsnæðismál námsmanna. Þeir sjálfir, námsmenn og forustumenn þeirra, hafa vissulega gert Alþingi og félmn. grein fyrir því í ítarlegu áliti sínum og umsögnum um frv. Það er vissulega svartur lestur, herra forseti, og fór ég nokkuð yfir það við 2. umr. málsins.

Það er svolítið hlálegt í þessu öllu saman að þeir sem standa þannig að árás á húsnæðisaðstöðu námsmanna, þeir sem þar eru í fararbroddi, skuli vera framsóknarmenn. Framsóknarmenn alltaf talið sig reisa flaggið nokkuð hátt til varnar námsmönnum. Því velti ég t.d. fyrir mér hvort mikill baráttumaður fyrir miðhálendinu, Ólafur Örn Haraldsson, 11. þm. Reykv. sem ég man ekki betur en að hafi í kosningunum sýnt málefnum námsmanna skilning, hafi farið yfir umsagnir námsmanna um það hvernig fara á með þá möguleika sem námsmenn hafa haft í núgildandi löggjöf.

Í svona stóru máli, þar sem við erum að fjalla um fjöregg þúsunda fjölskyldna, þá hljóta menn sem greiða þessu atkvæði að hafa haft fyrir því að fara yfir áhrif frv. á einstaka hópa. Það verður hins vegar að draga í efa að svo hafi verið gert.

[13:45]

Hér er sagt í áliti minni hlutans:

,,Aukinn kostnaður felst í því að sveitarfélögin munu þurfa að fjármagna byggingu eða kaup á leiguhúsnæði að hluta til á markaðsvöxtum eða á þeim vöxtum sem verða á húsbréfum hverju sinni ... Þá verður sveitarfélögunum gert að greiða 5% af hverju viðbótarláni í sérstakan varasjóð sem einnig getur numið verulegum fjárhæðum. Þá hefur aukinn fjöldi leigjenda í för með sér aukin útgjöld sveitarfélaganna vegna húsaleigubóta. Ekkert mat liggur fyrir á þessum aukna kostnaði sveitarfélaganna.``

Auðvitað þarf að liggja mjög markvisst fyrir að sveitarfélögin hafi verið vöruð við þessu við umræðuna og að þau hafi haft tækifæri til þess að bregðast við í þessu máli sem þau hafa ekki gert nema húsnæðisnefndirnar sem hafa staðið virkilega í stöðu sinni og bent á hvaða áhrif þetta hefur haft fyrir sveitarfélögin þannig að, herra forseti, ég hygg að ekki sé við húsnæðisnefndirnar að sakast sem hafa sinnt mjög vel skyldum sínum í þessu máli eins og fram kemur í vönduðum umsögnum þeirra.

Þó að ég sé nú búin að tala í þessari umræðu í einn eða einn og hálfan tíma --- forsrh. hefur örugglega tölu á því uppi í Stjórnarráði --- hef ég ekki verið að þreyta hæstv. félmrh. með því að kalla á viðveru hans við umræðuna vegna þess að einhver er búinn að taka það saman að hæstv. ráðherra hefur þurft að sitja við umræður um þetta frv. og miðhálendismálið í einhverja tugi klukkustunda. Það er það sem menn gera, að reikna það bara út, en ekki að ræða innihaldið í þessu máli. Ég hefði gjarnan viljað leggja fyrir hann eina spurningu sem snýr að sveitarfélögunum og get ég út af fyrir sig beðið með það ef hæstv. ráðherra er vant við látinn þó æskilegt hefði verið að hann væri í kallfæri þegar við þurfum að ónáða hæstv. ráðherra með fyrirspurn. Það væri a.m.k. æskilegt að vita, herra forseti, hvort ráðherrann sé í húsinu.

(Forseti (GÁ): Forseti getur upplýst að hæstv. ráðherra er í húsinu.)

Það væri kannski gott að vita að hann vissi það að ég hefði áhuga á að ræða aðeins við hann.

(Forseti (GÁ): Forseti gerir ráðstafanir til þess að hann fái þá beiðni.)

[14:00]

Samband íslenskra sveitarfélaga, þótt það hafi almennt verið jákvætt fyrir þessum breytingum sem félmrh. er að leggja til af ástæðum sem ég skil hreinlega ekki, hefur þó gert ákveðnar athugasemdir. Mig langar að beina til hæstv. félmrh. sem er mættur í salinn því sem þeir segja í erindi sínu 24. apríl, í ályktun um húsnæðismál, með leyfi forseta:

,,Fulltrúaráðið leggur ríka áherslu á að framlög ríkisins til afskrifta og niðurgreiðslna eldri lána Byggingarsjóðs verkamanna mæti þörfum þeirra sveitarfélaga sem þurft hafa að innleysa íbúðir á verði sem er langt yfir markaðsverði í samræmi við bráðabirgðaákvæði frv. um varasjóð. Um framlag ríkisins verði samið áður en frv. verður afgreitt.``

Hafi það farið fram hjá mér þá biðst ég velvirðingar á því en mér nægir að hæstv. ráðherra segi já eða nei úr sæti sínu, hefur verið samið? (Félmrh.: Ekki enn.) Það hefur ekki enn verið samið við Samband sveitarfélaga um framlag ríkisins til afskrifta og niðurgreiðslna eldri lána Byggingarsjóðs verkamanna. Þeir leggja áherslu á að samið verði um framlag ríkisins áður en frv. verður samþykkt. Það má vera að hæstv. ráðherra sé svo heppinn að allir sveitarstjórnarmenn séu á bólakafi í sveitarstjórnarkosningum og það hafi farið fram hjá þeim að það sé verið að afgreiða þetta frv. við 3. umr., að þeir átti sig ekki á því að ganga til þeirra verka og krefjast þess að samið verði við ríkisvaldið um framlag til þessara afskrifta og niðurgreiðslna.

Þá liggur það fyrir, herra forseti, og á því er vakin athygli af þeirri sem hér stendur í ræðustól, að þessi ósk sveitarfélaga hefur ekki gengið eftir, að samið sé við þau um þetta framlag áður en frv. verður afgreitt. Nú spyr ég hæstv. ráðherra, þar sem ekki á nú að ganga til atkvæða um þetta mál í dag, heldur eftir helgi. Má vænta þess að búið verði að semja um þetta áður en þetta mál verður tekið til atkvæða? Það er ekki bara þetta sem er óljóst gagnvart sveitarfélögunum heldur er það líka skilið eftir hvernig fara eigi með uppbyggingu á leiguíbúðum og hvernig sveitarfélögin og ríkið eigi að koma því máli. Ég hefði talið ástæðu, m.a. út af þessu máli, að taka málið aftur inn í nefnd milli 2. og 3. umr. Það verður ekki gert úr þessu, herra forseti.

Ég vakti athygli á því í upphafi máls míns um hádegið að ég tel það ekki hafa verið skynsamleg vinnubrögð að taka þetta mál svo fljótt til 3. umr. Það er m.a. að koma í ljós út af þessu að það vantar þann samning sem kallað var eftir. Eins hefði ég viljað fá skýringu á því sem ég nefndi við 2. umr. og held að hæstv. ráðherra hafi ekki komið inn á og vil þá halda því til haga ef hæstv. ráðherra tekur þátt í lokaumræðunni um þessi mál. Það eru útgjöldin til húsaleigubóta. Er þetta framlag sem samið var um fyrir jólin til sveitarfélaganna vegna húsaleigubóta endanlegt? Hæstv. ráðherra hélt því fram fyrir jólin að það hefði endanlega verið gengið frá samskiptum milli ríkis og sveitarfélaga að því er varðar húsaleigubætur og öll aukning sem kemur fram út af húsaleigubótum væri þá útjöld sveitarfélaganna einna. Sé það rétt, þá hefur til að mynda Karl Björnsson, sem fyrir hönd Sambands sveitarfélaga kynnti sveitarstjórnarmönnum þann þátt málsins á fulltrúaráðsfundi á Egilsstöðum fyrr á árinu, ekki sagt satt og rétt frá þegar hann heldur því fram að hægt sé að fara með það til ríkisins ef útgjöld sveitarfélaganna vegna húsaleigubóta aukast.

Síðan spyr ég ráðherrann að því hvort hann hafi beitt sér fyrir því sem sveitarfélögin leggja mikla áherslu á, þ.e. hvort við megum eiga von á því á næsta þingi að ráðherrann fái Sjálfstfl. til liðs við sig í því að skattlagningu húsaleigubóta verði hætt. Hefur hæstv. ráðherra gefist upp við að ná því fram að skattlagningu húsaleigubóta verði hætt? Hafi hæstv. ráðherra reynt það veit ég að fyrrv. fjmrh. Friðrik Sophusson var mjög erfiður í því máli. Ég reyndi það sjálf, í lok tíma míns í ráðuneytinu þegar verið var að koma húsaleigubótum á, að fá sjálfstæðismenn til að falla frá því að skattleggja húsaleigubætur. Nú er nýr fjmrh. kominn til sögunnar og því spyr ég: Mun hæstv. félmrh. reyna til þrautar á næsta þingi að fá samstarfsflokkinn til liðs um það að hætta skattlagningu húsaleigubóta? Er ráðherrann kannski bara sammála því að húsaleigubætur eigi að skattleggja? Það er auðvitað mjög sérstætt ef svo er og þyrfti þá að koma fram því auðvitað er argasta óréttlæti í því fólgið, herra forseti, ef vaxtabæturnar eru skattfrjálsar en þeir sem verst hafa það í þjóðfélaginu, sem minnst hafa milli handanna, fá húsaleigubætur og hafa ekki annan kost en vera á leigumarkaði, þurfa að fullu að greiða skatta af húsaleigubótunum.

Nú minnist ég þess, af því ég er að vísa á nýjan fjmrh. og höfða til hans og skilnings hans á kjörum þeirra lægst launuðu, að sá hv. þm. hafði mikinn skilning á t.d. 100% láninu sem er nú verið að leggja af, þ.e. þessi 10% sem vantar upp á 100% lánin, og fylgdi því nokkuð fast eftir man ég hér á þingi fyrir örfáum árum og hæstv. núv. fjmrh. sagði svo: ,,Undirritaður hefur staðið í þeirri meiningu að félagslega íbúðakerfinu væri einmitt ætlað að hjálpa því fólki sem lakast er sett til að koma þaki yfir höfuðið. Það er undarleg félagshyggja hjá ábyrgðarmönnum þessa frv. og ríkisstjórninni að vilja draga úr aðstoð við þetta fólk og vísa því á leigumarkaðinn.`` Hæstv. fjmrh., þá þingmaður, hélt því mjög á lofti að þessi 100% lán yrðu að vera til staðar. Vera má, herra forseti, að hæstv. núv. fjmrh. hafi þá meiri skilning á því því að þetta er argasta óréttlæti. Ég hygg að jafnaðarmenn hljóti að skoða það, komist þeir til valda, að hafa jafnræði þarna á milli að því er varðar skattlagninguna á húsaleigubótum og vaxtabótum.

Síðan vil ég spyrja, af því ég er að tala um vaxtabæturnar og samtímagreiðslur á vaxtabótunum sem á að taka upp frá næstu áramótum. Mér finnst það mjög gott og ég fagna því en vil þó rifja upp að samtímagreiðslurnar verða bara til þeirra, ef ég skil málið rétt, sem taka húsbréfalán eftir áramótin. Hefur hæstv. ráðherra látið skoða hvaða áhrif það hefur á húsbréfin og afföllin þegar fólk, sem ætlar að gera ráðstafanir á þessu ári að því er varðar húsnæðiskaup, hefur fengið spurnir af því að ef það bíður með sín fasteignakaup fram í janúar á næsta ári fái það samtímavaxtabætur en geri það sín íbúðakaup fyrir áramót fái það ekki vaxtabætur fyrr en einu og hálfu ári seinna? Hvað þýðir það, herra forseti, fyrir húsnæðismarkaðinn og afföllin ef fólk fer, tugum og hundruðum saman að bíða eftir því að geta fengið samtímavaxtabætur og frestar þá húsnæðiskaupum sínum? Það er skynsamlegra að gera þau ekki í október, nóvember og desember heldur bíða með þau fram í janúar, út frá þeim sjónarhóli sem vaxtabæturnar eru, að fá þá samtímavaxtabætur fremur en að gera kaupin fyrir áramót og fá þá ekki vaxtabæturnar fyrr en einu og hálfu ári síðar. Hefur ráðherra látið kanna það hvaða áhrif þetta hefur á afföll í húsbréfakerfinu? Hefur hann látið Seðlabankann skoða þann þátt og hvað það þýðir að hleypa nýjum hópi inn í húsbréfakerfið, naglasúpuna sem hæstv. ráðherra kallaði svo fyrir nokkrum árum? Hvaða áhrif hefur þetta á markaðinn?

Um þetta átti ég erindi við hæstv. félmrh. í augnablikinu og vil spyrja hann líka, meðan ég hef hann, um afstöðu hans til þeirra tveggja tillagna sem minni hlutinn flytur. Í fyrsta lagi er það um starfsmennina og forgang þeirra til starfa sem við flytjum hér. Í öðru lagi um að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að þessi framkvæmdaáætlun um leigumarkaðinn geti legið fyrir 1. okt. þannig að hægt sé að taka tillit til framlaga ríkisins til leiguíbúða samkvæmt þeirri framkvæmdaáætlun við næstu fjárlagagerð.

Þetta eru spurningarnar sem ég hef til ráðherrans og hvort ráðherrann telji það forsvaranlegt að láta láglaunafólk bíða eftir þessari framkvæmdaáætlun og nauðsynlegu fjármagni til að hrinda henni í framkvæmd, til ársins 2000. Þótt ég reyni, herra forseti, þá næ ég ekki að átta mig á því af hverju það tekur yfir tvö ár að gera þessa framkvæmdaáætlun. Ég man að ég lét gera áætlun um íbúðaþörf til einhverra ára, mig minnir að það hafi verið til fjögurra ára, þegar kaupleigukerfinu var komið á og ég man ekki eftir að það hafi tekið nema tiltölulega stuttan tíma, herra forseti. A.m.k. tók það ekki þau tvö ár sem hæstv. ráðherra ætlar nú þessu láglaunafólki að bíða eftir að fá úrlausn mála sinna.

Þetta finnst mér að þurfi að draga saman núna við lokayfirferð þessa máls, herra forseti, og hæstv. ráðherra ætti þá að gera okkur grein fyrir. Ég hef alveg gefist upp við það, herra forseti, og ætla ekkert að gera frekari tilraun til þess, þó við séum komin að þessari lokaumræðu, að fara í gegnum það sem máli skiptir. Hér vantar nægjanlegt framboð af leiguíbúðum og hægt væri að fjalla um greiðslumatið. Ég rek mig alltaf á vegg, herra forseti, þegar ég er að reyna að spyrja hæstv. ráðherra um greiðslumatið og hvernig því verði breytt. Hæstv. ráðherra vísar í tvennt. Hann vísar í það að lánin sem þessu fólki standi til boða séu til 40 ára og það hafi áhrif á greiðslumatið. Hann vísar til þess að verið sé að undirbúa, sem mér skilst að Íbúðalánasjóðurinn eigi að gera ef ég skil málið rétt, neyslustaðal sem taki mið af framfærsluþörf, eignum og tekjum fólks og væntanlega fjölskyldustærð. Við höfum bara mismunandi mat á því. Ég segi að það breyti litlu þótt það séu 40 ára lán og það hafi lítil áhrif á greiðslumatið. Við erum að tala um einhverjar 1.000 kr. á mánuði að því er varðar 3 millj. kr. lán. Ég segi að ef þessi nýi greiðslustaðall á að sýna framfærslukostnað hjá fólki, þá muni það frekar þrengja greiðslumatið og verða til þess að færri fái fyrirgreiðslu í hinum nýja Íbúðalánasjóði.

Úr þessu, herra forseti, verður bara reynslan og framtíðin að skera, þegar þetta liggur fyrir. Það er mjög slæmt að það skuli ekki geta legið fyrir núna, því það hefur veruleg áhrif á mat okkar á þessu frv. Síðan finnst mér það líka mjög sérstakt, af því að hæstv. ráðherra talar mjög mikið um 40 ára lánin, að það eru mjög fáir sem hafa talið sér hagstætt að nýta þau eins og við höfum farið yfir. Ég skal ekki endurtaka það. Þá spyr maður: Hvers vegna í ósköpunum ættu þá þeir sem eru verst settir, lægst launaða fólkið, fremur að geta nýtt sér það en þeir sem betur eru settir? Það er erfitt að fá það til að koma heim og saman, herra forseti.

[14:15]

Síðan hefur hæstv. ráðherra algerlega láðst, þegar hann er að fullyrða, m.a. í frv. sjálfu, að greiðslubyrðin sé miklu lægri fyrstu árin í þessu nýja kerfi, að taka með útreikninga þar sem um það er að ræða að fólk kaupir gamlar íbúðir með gömlum lánum sem greitt hefur verið af um einhvern tíma. Hann tekur ekki með hvaða áhrif það hefur á greiðslubyrðina. Það hafa fulltrúar BSRB sett hér fram og tekið dæmi um yfirtekin lán eftir 20 ár, þ.e. 4,6 millj. kr. lán, þar sem greiðslubyrðin fer hátt í það að vera helmingi meiri og rúmlega það fyrstu árin ef gömul lán eru yfirtekin. Það getur alltaf gerst og gerist örugglega oftar en ekki þegar keyptar eru gamlar og notaðar íbúðir með gömlum lánum sem eitthvað hefur verið greitt af, frekar en ef nýjar íbúðir eru keyptar.

Síðan finnst mér, af því ég er svo heppin að hafa ráðherrann hér inni, að ég hafi aldrei fengið fullkomin svör við því hjá hæstv. ráðherra hvort þetta nýja lánakerfi bjóði upp á að kaupa gamlar íbúðir sem þurfa mikilla endurbóta við. Við skulum segja að kaupverðið sé tiltölulega lágt af því að fara þarf í miklar endurbætur á íbúðinni. Endurbæturnar gætu kostað --- við getum nefnt tölu --- 1 eða 2 millj. Gæti þetta fólk þá fengið lán í þessum nýja Íbúðalánasjóði fyrir endurbótunum um leið og það fær lán fyrir 90% kaupverðs af íbúðinni sjálfri? Ég man að ég spurði eftir þessu á fundi sem ég sat í félmn. og mér sýndist að ráðgjafar ráðherrans sem þar voru til svara hefðu þá ekkert áttað sig á svörunum við því þannig að það hefur greinilega ekki verið skoðað fremur en ýmislegt annað sem hér hefur verið dregið fram, eins og áhrifin á einstaka hópa, á verðbréfamarkaðinn og fasteignamarkaðinn.

Herra forseti. Þegar ég hélt ræðu mína við 2. umr. málsins fór ég aðallega yfir umsögn ASÍ og BSRB en minna yfir það sem húsnæðisnefndirnar höfðu fram að færa. Það er þó með því athyglisverðasta sem kemur fram í umsögnum sem eru upp á, ætli það séu ekki 100--200 bls. Þar hafa húsnæðisnefndirnar gert sér far um að skoða það sem hæstv. ráðherra hefur ekki gert, þ.e. áhrif breytinganna fyrir kaupendur og seljendur. Ég vil því, herra forseti, aðeins fara yfir það. Hér kemur fram um áhrif breytinganna á kaupendur og seljendur, með leyfi forseta:

,,Ekki má líta fram hjá því að þeir sem kaupa félagslegar íbúðir eru eignalitlir og tekjulágir og hafa ekki efni á að axla þá áhættu sem fylgir sveiflum í markaðsverði á íbúðum. Þegar lánshlutfall er orðið 90% þá þarf ekki mikið út af að bera til þess að leigan og oft margra ára sparnaður sé horfinn og jafnvel að höfuðstóllinn sé orðinn negatífur.``

Á þetta er bent og síðan sagt, með leyfi forseta:

,,Ef allt verður sett á frjálsan markað er líklegt að verð á ódýrari íbúðunum hækki vegna aukinnar eftirspurnar.``

Þetta er einmitt það sem við höfum bent á. En af því hæstv. ráðherra var ekki í salnum þegar ég fór yfir það sem svo margir hafa áhyggjur af, vil ég meðan það kemur upp í hugann ... (Félmrh.: Ég hlustaði á það.) Hæstv. ráðherra getur bara orðið lesið hugsanir mínar. Það er nú mjög gott. (Félmrh.: Þetta er í sjónvarpsútsendingu.)

Ég hef náttúrlega farið inn á mörg atriði, en hæstv. ráðherra þykist þá vita hvað ég ætlaði að taka fyrir en það var um það ef sveitarfélögin hafna forkaupsrétti hjá einstaklingum. Ég var að nefna það atriði þannig að hæstv. ráðherra sé alveg klár á því. Það eru margir sem hafa áhyggjur af þessu að því er varðar markaðsverðið og áhvílandi lán og að sveitarfélögin hafni forkaupsrétti af því þessi hvati er ekki lengur inni sem áður var, um það að þau fái ekki lán í þrjú ár ef þau hafna forkaupsréttinum. Af því hér er einmitt, hjá fulltrúaráði Sambands sveitarfélaganna, lögð áhersla á að sveitarfélögin séu dekkuð fyrir þessu gegnum þennan sjóð og framlög ríkisins, þá spyr ég fyrir hönd þessa fólks: Er þessi hætta fyrir hendi? Mér finnst að ráðherrann skuldi þessu fólki, sem óttast þetta nokkuð, svar við því hvort það komi til með að standa frammi fyrir slíkri eignaupptöku. Því er þá komið til skila, herra forseti, og þá vænti ég að ráðherra svari þeim sem hafa áhyggjur af þessu.

Hér hafa verið könnuð áhrifin af þessari breytingu og það verið sett fram að þetta geti haft áhrif á það að verð á ódýrari íbúðum hækki. Þetta kemur fram hjá húsnæðisnefndinni á Akureyri. Það er mjög merkilegt þegar hún fer inn á það sem við höfum verið að nefna hér stundum, sem er eignarmyndunin, og dregur upp alveg sömu mynd, með sama hætti og húsnæðisnefnd Reykjavíkur nefnir, að það verði minni eignarmyndun í þessu nýja kerfi vegna þess að vextirnir komi til með að hækka. Þá er sett hér upp línurit um eignarmyndun þar sem vextir eru 2,4% og hins vegar 5,1% og notuð 1% fyrning í báðum tilvikum.

Mér finnst nokkuð athyglisvert, af því það er einmitt það sem menn hafa svolítið haft út á þetta kerfi að setja, varðandi eignarmyndunina, hve hún sé hæg í félagslega kerfinu. Svo virðist vera að í nýja kerfinu verði hún enn hægari og er sett upp ákveðið línurit sem sýnir það.

Síðan segir í minnispunktum um frv. til laga um húsnæðismál frá húsnæðisnefnd Akureyrar, með leyfi forseta:

,,Ef vextir verða hækkaðir í 5,1% og vaxtabætur verða óbreyttar kallar það í flestum tilvikum á lægra greiðslumat og meiri greiðslubyrði hjá einstaklingum og fjölskyldum. Það sem gerist er að vaxtagreiðslur tvöfaldast og að kaupendur þurfa að borga alla vexti umfram hámarkið á vaxtabótum.``

Þetta er akkúrat það sem við höfum verið að segja og svo virðst sem hæstv. ráðherra hafi ekki haft erindi sem erfiði, ef hann á annað borð hefur gengið eftir því, við að hækka þakið á vaxtabótum.

Af því ráðherrann hélt því fram um daginn í sinni svarræðu að fólk fengi lántöku- og stimpilkostnað bætt í vaxtabótunum og ég hélt því fram að svo væri alls ekki í öllum tilvikum, þá kemur það fram hjá húsnæðisnefnd Akureyrar ef hæstv. ráðherra trúir mér ekki. Hér stendur, með leyfi forseta:

,,Ljóst er að lántöku- og stimpilkostnaður fæst sjaldan endurgreiddur í vaxtabótum þar sem hámarksendurgreiðslu er náð.``

Það er aðallega hjá einstæðum foreldrum og einstaklingum eins og við höfum farið hér í gegnum. Þannig er niðurstaðan, eins og hér segir, með leyfi forseta:

,,Þannig má vera ljóst að í flestum tilvikum er kostnaður hjá kaupendum mun meiri á fyrsta ári.`` --- Herra forseti. Það sem hér segir er þvert á það sem ráðherrann heldur fram: --- ,,Hér gæti verið um að ræða 150 til 300 þús. kr.``

Þetta er nú miklu hærri tala en ég hef dirfst að nefna úr þessum ræðustól. Hér er því haldið fram, hjá húsnæðisnefndinni á Akureyri, að kostnaðurinn geti beinlínis orðið 150 til 300 þús. kr. meiri. Það er nú ekkert smátt. Við erum að tala um að láglaunahóparnir eigi að taka það á sig.

Ég hef ekki farið ofan í þá útreikninga sem húsnæðisnefnd Akureyrar setur fram, um 5 millj. kr. íbúð og laun 70 þús. á mánuði. Þar er sýnd staðan fyrir og eftir breytingu, bæði hjá einstæðum foreldrum og einstaklingum. Ég hef haldið því fram að greiðslubyrðin væri miklu hærri og þessir hópar yrðu ekki jafnsettir í vaxtabótakerfinu og með niðurgreiðslunum. Ég hef nefnt tölur. Ég hef sagt að þar geti munað 63 þús. kr. Hér er farið miklu hærra í mismun, hvað greiðslubyrðin er meiri í þessu nýja kerfi. Hér er tekið einstætt foreldri og sagt að á fyrsta ári séu vextir að frádregnum vaxtabótum í núverandi kerfi 57.600 en verði 190.981 fyrir einstætt foreldri í nýja kerfinu. Ég hef ekki stúderað þessa útreikninga. Þeir eru þó alltént settir á blað af ekki ómerkari aðila en húsnæðisnefnd Akureyrar. Algengt er að nefndur sé 50 til 100 þús. kr. mismunur. Það er því ekki skrýtið þótt við stöldrum við þetta. Síðan fer húsnæðisnefndin yfir það hvaða áhrif þetta hefur á sveitarfélögin. Í stuttu máli, án þess ég fari að lesa það upp, herra forseti, er tekið hér undir það sem við höfum sagt um áhrifin á sveitarfélögin.

Hér er nefnt t.d. hve mikið þurfi að fjölga leiguíbúðum. Án þess að fara yfir það sem sagt er á undan, ætla ég þó að lesa það sem hér er sagt:

,,Ljóst er að stór hluti þeirra sem kaupir sér félagslega íbúð í dag uppfyllir ekki skilyrði um greiðslumat eftir breytingu. Einhvers staðar verða þeir að búa. Mikil ásókn er í leiguíbúðir á vegum Akureyrarbæjar í dag. Mun sú eftirspurn aukast verulega ef frv. nær fram að ganga í óbreyttri mynd. Brýnar skyldur eru lagðar á sveitarfélög um að útvega íbúum sveitarfélagsins, sem eru í neyð, leiguíbúð á vegum sveitarfélagsins. Ætla má að stór hluti þeirra sem keypt hafa eignaríbúðir hjá húsnæðisnefnd þurfi á leiguhúsnæði að halda. Um 100 fjölskyldur og einstaklingar kaupa íbúð á ári í félagslega kerfinu hér á Akureyri. Um þriðjungur á eitthvað upp í útborgun, eða að meðaltali um 450 þús. kr. Ef við gerum ráð fyrir að þeir sem ekkert eiga upp í útborgun þyrftu á leiguíbúð að halda eftir breytinguna þá þyrfti Akureyrarbær að fjölga íbúðum um 60 á ári. Næstu árin kostar það um 42 millj. kr. í útborgun (10% af verði) og um 9 millj. kr. í lántökukostnað miðað við að íbúðarverð sé að meðaltali 7 millj. kr. Síðan þarf að greiða leigutap. Ætla má að leigutap geti numið 5% til 10% af leigutekjum.``

Því næst fara þeir í það hvað húsaleigubætur aukast mikið miðað við fjölgun leiguíbúða á vegum sveitarfélaga ef meðaltal útgreiddra húsaleigubóta er um 120 þús. kr. á ári og bótaþegum fjölgar um 300. Þá eru það um 36 millj. kr. og hluti af því fer í skattgreiðslur til ríkisins. Við erum því að tala um hátt í 100 millj. kr. í útgjöld fyrir bæjarsjóðinn á Akureyri, eingöngu vegna þessara breytinga og það á ári, herra forseti.

Ég ætla ekki að fara neitt ítarlegar yfir þessar umsagnir þó mér finnist það freistandi. Ég hef gert það að litlu leyti. Ég hef alls ekki farið yfir öll þau gagnrýnisatriði sem húsnæðisnefndirnar hafa sett fram. Mér finnast þau svo alvarleg að ég hygg að í mörgum tilvikum, ef ekki væri um að ræða þessa stífni hæstv. ráðherra sem virðist mjög mikil, að undir eðlilegum kringumstæðum hefði verið tekið tillit til jafnalvarlegra athugasemda og hér koma fram.

Eins og ég nefndi við 2. umr. nefnir Kópavogur að breytingin sem þetta mun fela í sér, þ.e. að vísa fólkinu svona hundruðum saman á leigumarkaðinn, þýði sprengingu á leigumarkaðnum og afleiðingarnar séu ekki fyrirsjáanlegar því augljóst sé að sveitarfélögin hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til að standa undir þeirri gífurlegu aukningu á leiguhúsnæði sem þyrfti að verða. Þeir nefna líka verulega aukningu á kostnaði bæjarsjóðs Kópavogs og nefna þann kostnað, 80 millj. kr. Það er kostnaður sem mun leggjast aukalega á bæjarsjóð Kópavogs. Það er því ekki skrýtið þótt það veki mann til umhugsunar að umsagnir sveitarfélaganna skuli vera allt öðruvísi en húsnæðisnefndunum. Þeir telja líka til þennan kostnað sem ég hef verið að nefna og fólk þarf að greiða meira en er í dag. Mér sýnist að tölurnar séu þar nálægt því sem ég hef verið að halda fram.

Húsnæðisnefnd Reykjavíkur telur að fjölga þurfi leigu\-íbúðum um 180. Ég nefndi að þegar væru 400 á biðlista. Þá er bara verið að tala um aukningu á ári, herra forseti, og ekki búið að telja til sögunnar þá aukningu á útgjöldum sem verður vegna húsaleigubótanna. Þau útgjöld sem frv. kallar á virðast því vera mjög alvarleg fyrir sveitarfélögin og hefur þó ekki verið farið yfir allt, herra forseti, að því er þetta varðar.

[14:30]

Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fara miklu ítarlegar yfir þetta mál en ég hef gert. En ég taldi þó ástæðu til þess við 3. umr. að vekja athygli aftur og enn og draga saman helstu áhrifin fyrir sveitarfélögin og einstaklingana sem hafa fengið félagslega aðstoð í þessu kerfi. Ég held mjög brýnt sé að halda því til haga. Þó hefði verið full ástæða til að fara miklu ítarlegar yfir þetta og raunverulega enginn, ekki húsnæðisnefndir sveitarfélaga, ekki verkalýðshreyfingin, ekki félagasamtök --- þetta eru þó þeir sem mest hafa haft með þetta félagslega kerfi að gera --- fellst á eða samþykkir þær breytingar sem ráðherrann leggur til. Þvert á móti er því haldið fram og vakin athygli á því að félagslega húsnæðiskerfið hafi reynst vel en á því hafi komið fram nokkrir gallar sem þurfi að sníða af. Ég fór yfir þá í máli mínu við 2. umr. og skal ekki endurtaka það, herra forseti, þar sem ég hrakti lið fyrir lið þau rök sem hæstv. ráðherra teflir fram fyrir nauðsyn þess að loka húsnæðiskerfinu, þ.e. auðu íbúðirnar, framlögin í Byggingarsjóð verkamanna sem hann hefur skorið grimmt niður, vanskilin í félagslega kerfinu hjá Byggingarsjóði verkamanna sem eru innan við 1%, miklu minni en í bankakerfinu. Það er hneisa og þetta kerfi á betra skilið en svona handónýtum rökum sé teflt fram fyrir því að loka þessu kerfi.

Niðurstaða minni hlutans í félmn. var sú að leggja til að frv. verði endurskoðað með þátttöku þeirra aðila sem málið snertir, svo sem samtaka launafólks, sveitarfélaganna, námsmannasamtaka, Búseta og fleiri. Minni hlutinn nefnir það sem enn og aftur skal haldið til haga að þetta kallar á stóraukinn kostnað fyrir sveitarfélögin og verið er að vísa fjölda fjölskyldna út á leigumarkað sem er ekki til. Áhrifin á verðbréfamarkaðinn og húsnæðismarkaðinn eru óljós. Búast má við að íbúðaverð hækki, í það minnsta fyrst um sinn vegna aukinnar eftirspurnar á almennum markaði. Þarna er þetta dregið saman að því er varðar fjölskyldurnar og sveitarfélögin og auðvitað má hafa um það miklu stærri orð og fleiri en hér hefur verið gert.

Ég vil, herra forseti, í lok míns máls mótmæla því sem hæstv. ráðherra heldur hér aftur og aftur fram, að hann sé bara að taka upp tillögur ASÍ og BSRB í húsnæðismálum, aðallega ASÍ. Þeir hafa mótmælt því mjög harkalega hvernig hæstv. ráðherra fer með sannleikann í því efni og auðvitað væri ástæða til að fara yfir tillögur ASÍ í þessu máli. Ég sé hvergi, þótt ráðherrann telji sig sjá það, að verið sé að leggja til hjá ASÍ að félagslega húsnæðiskerfinu verði lokað. Ég sé það hvergi í tillögum ASÍ að hækka eigi vexti úr 2,4% í 5%. Það er hvergi í tillögum ASÍ. ASÍ leggur mikla áherslu á að gert verði raunverulegt átak í því og fjármagn í það sett að byggja upp leigumarkaðinn. Það sést hvergi í tillögum ráðherrans. Að halda því fram, herra forseti, að hér sé verið að fara eftir tillögum verkalýðshreyfingarinnar og ASÍ er því auðvitað fjarstæða. Þvert á móti er hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin að slíta friðinn við verkalýðshreyfinguna í landinu.

Ég óttast að hér sé ekki bara verið að vísa hundruðum fjölskyldna á leigumarkað sem ekki er til og setja þær í algera óvissu. Það sem er þyngst í framfærslu heimilanna er húsnæðiskostnaðurinn. Fólk veit ekkert hvar það stendur eftir að þetta hefur verið sett í lög. Ég spái því, herra forseti, eins og ég sagði í upphafi míns máls að þetta verði eitt af þeim stóru málum sem verkalýðshreyfingin þurfi að taka upp í næstu kjarasamningum, það muni verða eitt af þeim stóru málum sem hún þarf að taka upp til að endurheimta félagslega aðstoð við fátækt fólk sem hefur verið við lýði í marga áratugi, miklu lengur en ráðherrann núv. hefur lifað sem ber þetta á borð fyrir láglaunafólkið í landinu. Ég spái því, herra forseti, að breytingarnar gætu orðið til þess að láglaunafólk þurfi að kosta þær að einhverju leyti með kjarabótum í næstu samningum. A.m.k. er ljóst að þegar áhrifin af þessu koma í ljós og menn fara að átta sig betur á þessu, þá mun mörgum bregða við og þá verður krafan mjög hörð úti í þjóðfélaginu, herra forseti, um að breyta þeirri löggjöf sem hér er verið að setja og sem gengur gegn hagsmunum þúsunda láglaunafólks og fátæks fólks hér á landi. Það er fyrst og fremst verið að ráðast að námsmönnum, einstæðum foreldrum, fátæku barnafólki, fötluðum og félagasamtökum sem hafa byggt um 1.100 íbúðir á nokkurra ára tímabili frá 1988 gegnum þetta kerfi. Þessi félagasamtök sjá ekkert ljós í frv. ráðherrans sem hér á að fara að samþykkja.

Ég held, herra forseti, að frv. sem hér er verið að leiða í lög muni gera fátækar fjölskyldur fátækari en þær eru. Ég spyr: Er það boðlegt fyrir Framsfl. að bjóða fólki upp á þetta, fólki sem er með 60--80 þús. kr. í laun, að svipta það öllu öryggi í húsnæðismálum?

Ég held, herra forseti, að þessi löggjöf, þótt fleira mætti tína til, verði ævarandi minnisvarði um skömm Framsfl. og hvernig hann fer með fátækt fólk á Íslandi, hvernig þessi flokkur hefur misst allt frá sér sem heitir félagsleg hugsun. Þegar flokkar hafa aðstöðu til þess þá þarf að hugsa ekki síst um þá verst settu í þjóðfélaginu. Eitt er víst, herra forseti, að ég lýsi hér dautt og ómerkt slagorð framsóknarmanna um fólk í fyrirrúmi. Í þessari löggjöf er fólk ekki haft í fyrirrúmi, herra forseti, svo langt í frá. Ég held því, herra forseti, að þetta frv. muni verða Framsfl. til ævarandi skammar. Það mun verða honum til ævarandi skammar að hafa staðið að því og fyrsta verk okkar jafnaðarmanna þegar við komumst til valda, vonandi ekki síðar en á næsta ári, verður að breyta þessu ósvífna frv., þessari blautu tusku sem hér er verið að setja framan í láglaunafólk á Íslandi. Það verður höfuðviðfangsefni okkar jafnaðarmanna þegar framsóknarmenn sem vegna ósvífni og atlögu að fátæku fólki á Íslandi verða komnir á stjórnarandstöðubekkinn.