Húsnæðismál

Þriðjudaginn 19. maí 1998, kl. 15:20:52 (6789)

1998-05-19 15:20:52# 122. lþ. 131.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 122. lþ.

[15:20]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjalla um aðdraganda eða sögu þessa máls sem við erum að ræða, húsnæðismálin eða húsnæðiskerfið, ekki þær einkavæðingartilhneigingar sem í frv. eru og ekki heldur þá galla sem hér hafa verið reifaðir, m.a. þá óvissu sem ýmsir mega búa við ef það verður að lögum. Ég ætla fyrst og fremst í lok umræðunnar að fara yfir það sem hafa verið helstir vonarpeningar þeirra sem binda vonir við þetta frv., þá vonarpeninga sem sýndir hafa verið. Ég ætla rétt að fara yfir þær væntingar sem einstaklingar og sveitarfélög hafa bundið við frv., væntingar sem að mínu mati eru því miður byggðar á sandi. Mér finnst ekki hægt að ljúka umræðunni öðruvísi en farið sé yfir hvað það er sem menn eru að vonast eftir og benda á það að í þessu frv. er því miður harla fátt sem vísar til þess að þær væntingar verði að staðreynd þótt frv. verði að lögum. Mig langar fyrst, herra forseti, að fjalla um það sem á bls. 23 í frv. er kallað ,,Félagsleg aðstoð til einstaklinga``.

Margoft hefur verið farið yfir það að félagsleg aðstoð til einstaklinga muni gjörbreytast. Það sem við þekkjum sem félagslegt íbúðalánakerfi verður ekki lengur til en það hlýtur að vekja athygli þegar fjallað er um félagslega aðstoð við einstaklinga að hér stendur, með leyfi forseta:

,,Félagsleg aðstoð (jöfnun) verður annars vegar í formi húsbréfaláns, 65--70% láns, og hins vegar í formi 20--25% viðbótarláns.``

Hin félagslega aðstoð, eða jöfnun eins og það er kallað innan sviga, felst sem sagt í því að þetta fólk má fá húsbréfalán, þ.e. ef það stenst greiðslumat. Hin félagslega aðstoð felst í því að þessir einstaklingar verða að búa við sömu kjör og allir aðrir. Það er e.t.v. einhver nýr skilningur sem kemur hér fram á því hvað felst í félagslegri aðstoð en mér finnst rétt að draga þetta fram, herra forseti, vegna þess að hér er verið að fjalla um hluti sem skipta verulegu máli. En það er sem sagt annars vegar þetta 65--70% lán sem menn eiga rétt á, sem er það sem allir eiga rétt á, og síðan viðbótarlánið, 20--25%, þ.e. lán sem fólk getur fengið sem verður á markaðsvöxtum og vísitölutryggt. Hér liggur því fyrir, herra forseti, hin félagslega aðstoð.

Annað sem lýtur að frelsinu góða sem menn hafa horft nokkuð til sem ég vildi líka fara yfir en það stendur á sömu blaðsíðu í frv., með leyfi forseta:

,,Einstaklingar geta valið úr öllum íbúðum á markaði, en ekki fyrir fram ákveðnum fjölda íbúða.``

Herra forseti. Ekki er hægt að ljúka umfjöllun um þetta mál öðruvísi en að fara nokkrum orðum um það loforð sem hér er gefið, loforðið um það að einstaklingar geti valið úr öllum íbúðum á markaði því að ekkert er fjær sanni ef menn skoða síðan texta frv. Við skulum byrja við veitingu viðbótarlána: ,,Við veitingu viðbótarlána`` --- en viðbótalánið er þá forsenda þess að þeir einstaklingar sem lítið eiga geti farið út á markaðinn og keypt --- ,,skal höfð hliðsjón af fjölskyldustærð, eignum, tekjum, íbúðarstærð og gerð húsnæðis.`` Það er sem sagt ekki hægt að velja hvað sem er, það þarf að líta til ýmissa þátta og það er ekki eins og einstaklingurinn geti komið og tilkynnt að nú ætli hann að fara út á markaðinn og kaupa sér hvaða íbúð sem er og velja. Nei, hann þarf að fá samþykki sveitarfélags síns og síðan þarf hann að undirgangast rannsókn á því hver fjölskyldustærð hans er, hverjar eru eignir, tekjur og síðan verður litið til þess hvernig húsnæðið er. Það verður nefnilega ekki sama hvaða húsnæði það er sem viðkomandi ætlar að fara að kaupa. Ekki nóg með það, herra forseti, ekki er nú frelsið komið þegar viðkomandi er búinn að uppfylla þau skilyrði sem hér eru upp talin, því að á næstu tveimur árum eftir gildistöku þessara laga geta sveitarfélögin skilyrt viðbótarlánið, sem þessi einstaklingur þarf að fá, því að hann taki einhverja af þeim íbúðum sem áður höfðu verið inni í félagslega kerfinu en sveitarfélagið hefur leyst til sín.

Þetta er allt frelsið, herra forseti. Viðkomandi verður að lúta því að um sé að ræða tiltekna gerð húsnæðis ef hann á annað borð fær grænt ljós á viðbótarlán hjá sveitarfélagi sínu og hann gæti á næstu tveimur árum þurft að sæta því að velja íbúð sína eða taka íbúð úr hópi þeirra íbúða sem sveitarfélagið hefur leyst til sín. Mér hefur fundist það vera alveg ótrúleg blekking sem hefur verið viðhöfð gagnvart fólkinu í landinu þegar umfjöllun um þessi mál hefur verið höfð í frammi. Mig langar til að styðja mál mitt með tilvitnun í lögfræðiálit Gylfa Thorlacius, sem hann vann fyrir Reykjavíkurborg, en þar segir, herra forseti:

,,Það er rétt að benda á að á sumum íbúðum hvíla ekki einungis lán frá Byggingarsjóði verkamanna heldur einnig lán frá Byggingarsjóði ríkisins og því nauðsynlegt að bæta Byggingarsjóði ríkisins inn í greinina.`` --- Það er rétt að það komi fram, herra forseti, að þetta hefur þegar verið gert. Til þessa hefur verið tekið tillit. --- ,,Síðar, í 3. gr., er ákvæði um að sveitarfélagi sé heimilt að skilyrða veitingu tiltekins fjölda viðbótarlána við að lántakendur kaupi íbúðir sem sveitarfélagið hefur leyst til sín.`` --- Og Gylfi heldur áfram: --- ,,Ég vil leggja sérstaka áherslu á að nauðsynlegt er að hafa mjög skýrar reglur varðandi þetta.`` --- Nú talar hann fyrir hönd sveitarfélags en ekki fyrir hönd þeirra einstaklinga sem búið er að lofa hinu mikla og víðtæka frelsi en hann segir fyrir hönd sveitarfélagsins sem er Reykjavík: --- ,,Í sveitarfélagi eins og Reykjavík geta innleystar íbúðir orðið stór fjárhagslegur baggi á sveitarfélaginu ef ekki er fullkomlega tryggt að hægt sé að skilyrða lántöku úr Íbúðalánasjóði á þann hátt að áður en handhafar viðbótarlána fari á frjálsan markað losni sveitarfélagið við þær íbúðir sem innlausnarskyldan hvílir á.`` Með öðrum orðum, herra forseti, að fólkið þurfi fyrst að hreinsa upp þær íbúðir sem sveitarfélagið hefur leyst til sín áður en það hefur frelsi til að fara út á markaðinn, en áður en það getur farið út á markaðinn þarf það að undirgangast skoðun á fjölskyldustærð, eignum, tekjum og gerð húsnæðis. Svo mikið um frelsið, svo mikið um þann vonarpening sem hefur verið settur í loftið og einhverra hluta vegna hefur virst girnilegur fyrir ýmsa þá sem hafa verið inni í félagslega húsnæðiskerfinu og er allt eins víst að biðji um innlausn á íbúð sinni þegar frv. verður orðið að lögum til að geta nú nýtt frelsið sem felst í því að fara út á markaðinn með viðbótarlánin. Það er hætt við að ýmsum bregði þá í brún, herra forseti.

[15:30]

En þá er það hinn aðilinn sem er með væntingar. Ég veit, herra forseti, að ýmis sveitarfélög eru með væntingar og ég ætla að fjalla aðeins um það.

Menn hafa velt því dálítið fyrir sér hér af hverju svo mikill munur er annars vegar á umsögnum sveitarfélaganna og hins vegar húsnæðisnefndanna. Húsnæðisnefndirnar eru sá faglegi aðili sem fjallar um húsnæðismálin fyrir hönd sveitarfélaganna en það er líka annað í þessu. Fyrir örfáum árum fóru endurskoðendur að gera þá kröfu að í reikningum sveitarfélaganna væru birtar þær skuldbindingar sem eru annars vegar lífeyrissjóðsskuldbindingar og hins vegar þær skuldbindingar sem hvíla á sveitarfélögunum vegna félagslega húsnæðiskerfisins. Það verður að segjast eins og er að ýmsum brá í brún þegar þeir sáu þessar tölur og við höfum séð viðbrögð við hvoru tveggja. Viðbrögðin við lífeyrissjóðunum voru t.d. þau að Vestmannaeyjabær ákvað að stöðva aðild starfsmanna sinna að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og stofna annan lífeyrissjóð. Viðbrögð annarra sveitarfélaga í landinu, margra hverra, hafa verið þau að menn hafa verið að skoða möguleika á stofnun sérstaks lífeyrissjóðs fyrir sveitarfélögin. Með þeim hætti eru sveitarfélögin að reyna að uppfylla skyldur sínar ódýrarar en þau hafa gert hingað til, einfaldlega vegna þess að þeim brá í brún þegar þau sáu hve háar tölur þessar skuldbindingar sýndu í reikningunum. Sama á við um félagslega húsnæðiskerfið. Þegar menn sáu þær skuldbindingar sem sveitarfélögin höfðu undirgengist í reikningum sínum, og rétt er að taka fram, herra forseti, að þær skuldbindingar eða sú tala er auðvitað miðuð við að menn þurfi að innleysa allar íbúðirnar á einum og sama deginum sem gerist auðvitað ekki, hrukku menn í kút. Þegar menn fá svo tilboð um að ýmsum kröfum sem hafa fylgt félagslega húsnæðiskerfinu verði af þeim létt, sjá menn auðvitað fyrir sér eða láta sig dreyma um það að þessi tala muni snöggtum lækka í reikningunum og staða sveitarfélagsins verði öll önnur. Þetta held ég að sé skýringin á því af hverju sveitarfélögin hafa verið í besta falli hlutlaus eða dregið sig í hlé eða ekki haft sig mjög í frammi þegar húsnæðisfrv. er annars vegar. Þau hafa látið Samband sveitarfélaga tala fyrir sig og bíða síðan átekta en ég óttast, herra forseti, að staðreyndin verði ekki ósvipuð þeirri sem einstaklingarnir munu horfa framan í þegar kemur að raunveruleikanum.

Ef við lítum á frv. eins og það liggur fyrir er hlutverk sveitarfélaganna skilgreint í 5. og 6. gr. þar sem segir í fyrsta lagi:

,,Sveitarstjórn ber ábyrgð á og hefur frumkvæði að því að leysa húsnæðisþörf þess fólks í sveitarfélaginu sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun. Í því skyni skal sveitarstjórn fylgjast með þörf á húsnæði í sveitarfélaginu.``

Þetta er býsna víðtækt hlutverk, herra forseti, og má ugglaust beita með ýmsum hætti en þó er alveg ljóst að það er sveitarstjórnin sem ber héðan í frá ábyrgð á og ekki bara ábyrgð, heldur á að hafa frumkvæði að því að leysa húsnæðisþörf þess fólks sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun. Kvöðunum er því ekki alfarið aflétt, en segja má að þær séu óljósari að ýmsu leyti og ómótaðri en áður og af því skapast það óöryggi sem mikið hefur verið fjallað um.

Í öðru lagi, herra forseti, skulu sveitarstjórnir skipa húsnæðisnefndir til að fara með stjórn og samræmingu húsnæðismála á vegum sveitarfélaganna. Húsnæðisnefndirnar eiga síðan að hafa ýmis og fjölbreytileg hlutverk og að hluta til er hlutverk þeirra nokkuð opið. Þær hafa þó þann sess að kjósa á formann þeirra sérstaklega, sem er óvenjulegt, en hlutverk þeirra eða verkefni eru, sbr. 5. gr., að hafa milligöngu um og að þær geti átt, eins og greinin hljóðar núna, frumkvæði að því að aflað verði húsnæðis í því skyni að aðstoða einstaklinga við húsnæðisöflun. Mér er ekki ljóst, herra forseti, hvort því hefur verið svarað hvort í þessu felst heimild sveitarfélags eða húsnæðisnefndar til að kaupa eða byggja fasteignir en það er ljóst að ákvæðið er mjög opið.

Einnig eiga sveitarfélögin í gegnum húsnæðisnefndir sínar að leggja mat á þörf einstaklinga á viðbótarláni. Það þarf að leggja mat á þörf einstaklinga á viðbótarláni og slíkt mat þurfa húsnæðisnefndir og sveitarstjórnir greinilega að leggja áður en fjárhagsáætlun er gerð á hverju ári því að auðvitað þarf að áætla fyrir þeim fjármunum sem fara á hverju ári í að greiða í varasjóðinn þau 5% af þeim viðbótarlánum sem viðkomandi sveitarfélag reiknar með að þurfa að hafa milligöngu um.

Síðan er hlutverk húsnæðisnefndar í þriðja lagi að hafa milligöngu um töku lána hjá Íbúðalánasjóði til öflunar leiguhúsnæðis fyrir einstaklinga. Hér er stórmál á ferðinni sem ég mun fjalla betur um á eftir, þ.e. aðkomuna að möguleikum þess fyrir sveitarfélögin að viðhalda og eignast leiguhúsnæði, viðhalda því leiguhúsnæði sem þau hafa í dag og eignast frekara húsnæði. Síðan eru ákveðnir þættir sem eru nokkuð opnir eins og aðstoð við aldraða og fatlaða, almennar upplýsingar og fleira. Í lokin í síðustu málsgrein er síðan tekið fram að heimilt sé að taka gjald fyrir kostnað við þjónustu sem veitt er samkvæmt gjaldskrá sem sveitarstjórn staðfestir.

Þarna kemur sem sagt inn kostnaðarliður þar sem húsnæðisnefndin getur orðið sjálfbær eins og vinsælt er að tala um í dag, heyrist mér, þ.e. hún lætur þá sem þurfa á aðstoð hennar að halda, þá einstaklinga sem þurfa slíka aðstoð, leigjendur og þá sem þurfa að fá viðbótarlán, þá sem lakast eru staddir, greiða kostnað við störf nefndarinnar en athyglisvert er að komin er brtt., viðbót í þá veru að þessi gjöld megi þó ekki nema hærri upphæð en þeirri sem nemur kostnaði við þjónustuna. Þetta er athyglisvert, herra forseti, í ljósi þess að á milli umræðna breytti hv. félmn. ekki frv. til sveitarstjórnarlaga hvað varðaði hið nýja ákvæði, brtt. sem félmrh. kom með um að sveitarstjórnir mættu setja ákveðin hagnaðarmarkmið af stofnunum sínum og rekstri. En það er tekið sérstaklega fram, herra forseti, að sveitarstjórnirnar mega ekki reka húsnæðisnefndirnar með hagnað í huga. Þær mega ekki taka til þess bragðs að reyna að auka tekjur sínar með því að láta þetta fólk borga meira en nemur þeirri þjónustu sem fólk fær. Maður veltir því fyrir sér, ef fólk þarf að greiða fyrir þá þjónustu sem það fær frá húsnæðisnefndunum hvað sé eftir af hinu félagslega í þessu dæmi öllu. Það er harla erfitt að koma auga á það og það hefur ekki verið útskýrt fyrir mér þannig að ég átti mig á því.

En ég var að fjalla um hlutverk sveitarfélaganna sem menn eru ekki sammála um hvert muni verða. Í upphafi máls míns talaði ég um og gat þess að mörg þeirra binda vonir við að þetta frv., ef að lögum verður, verði til þess að létta af þeim bæði fjárhagsbyrði og ýmsum þeim skyldum sem sveitarfélögin hafa haft gagnvart félagslegu húsnæði, en ef horft er á það hvað hinir faglegu aðilar sveitarfélaganna, þ.e. húsnæðisnefndirnar hafa um það mál að segja, vil ég, herra forseti, fá að vitna í umsögn húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar um þetta mál, en sú húsnæðisnefnd segir, með leyfi forseta:

,,Kostnaður við þessa breytingu lendir hins vegar þungt á sveitarfélögunum og því þyngra sem viðkomandi sveitarfélag hefur tekið meiri þátt í uppbyggingu félagslegs húsnæðis.`` --- Hefur tekið meiri þátt, ég sé ástæðu til að endurtaka það. --- ,,Við innlausn íbúða samkvæmt eldri lögum er varasjóði ætlað að mæta tapi vegna sölu íbúðanna að því marki að greiða upp áhvílandi lán Byggingarsjóðs verkamanna, en 10% eignarhluti fyrri eiganda lendir alfarið á sveitarfélaginu, við söluhagnað hirðir varasjóðurinn mismuninn. Má leiða að því líkur að dýrari íbúðir muni fyrst og fremst koma til innlausnar, hinar ódýrari muni verða seldar á frjálsum markaði. Tap sveitarfélags með margar íbúðir byggðar á því tímabili þegar húsnæði var í hámarksverði mun verða tilfinnanlegast. Fyrir utan framangreint er sveitarfélögum ætlað að byggja upp, að hluta til, umræddan varasjóð með 5% framlagi af hverju viðbótarláni sem veitt er í sveitarfélaginu.``

Frá húsnæðisnefnd Reykjavíkur koma tilskrif varðandi þetta efni þar sem segir að húsnæðisnefndin vilji benda á að eins og frv. er úr garði gert í dag sé hætta á stórauknum útgjöldum sveitarfélaga í væntanlegan varasjóð og vegna fjölgunar leiguíbúða á vegum sveitarfélaganna.

Ég vil líka nefna það sem kemur fram í ágætri umsögn frá húsnæðisnefnd Akureyrar en þar segir að það verði að tryggja að vextir til leiguíbúða á vegum sveitarfélaga hækki ekki --- og ég mun koma að því nánar á eftir, herra forseti, af hverju þessi varnaðarorð eru sögð. Að sveitarfélögunum verði tryggt fjármagn til að fjölga leiguíbúðum --- og er nú ekki að undra þótt menn hafi áhyggjur af því að eiga að láta sér nægja 50 íbúðir á næstu tveimur árum miðað við þá þörf sem auðsjáanlega er fyrir hendi. Að tekin verði út ábyrgð sveitarfélaga á viðbótarláni og að lánveitingin verði áfram á ábyrgð ríkisins --- þetta er athyglisverður punktur og hefur nokkuð verið ræddur. Að tryggja að framlag ríkisins í varasjóð til afskrifta á íbúðum yfir markaðsverði dugi fyrir allri afskriftinni --- og er síðan bent á að í umsögn frá fjmrn. sé gert ráð fyrir að afskriftir eldri lána séu óverulegar, geti orðið allt að 10 millj. kr. á ári en telja að þetta sé stórlega vanmetið, og ég tek undir það.

Ástæða er til, herra forseti, að tíunda þetta vegna þess að eins og ég sagði, sveitarfélögin hafa verið látin standa í þeirri trú að hér væri um þá breytingu að ræða fyrir þau að fjárhagslegar skuldbindingar þeirra yrðu minni á eftir en á undan.

Í 40. gr. á bls. 10 í frv. er fjallað um ráðstöfun leiguhúsnæðis en þangað verður öllum þeim vísað sem geta ekki fengið viðbótarlán og sem ekki eiga 10% af kaupverðinu en eins og fram hefur komið þurfa menn að eiga 10% af kaupverði héðan í frá og skyldi engan undra að fólk þurfi að eiga 10% af kaupverði þegar vextirnir verða markaðsvextir. Það var þó sök sér að menn gætu fengið 100% lán á meðan vextirnir voru niðurgreiddir svo mjög sem verið hefur en nú er allt annað uppi á teningnum.

En í 40. gr. segir:

,,Um rétt til leiguhúsnæðis fer eftir félagslegum aðstæðum umsækjanda og því hvort tekjur hans og eignir hans séu innan tekju- og eignamarka, sem nánar skulu ákveðin í reglugerð er félagsmálaráðherra setur að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.``

Hér er um hliðstæð ákvæði að ræða og voru til þeirra sem fengu áður lán til að kaupa íbúðir í félagslega húsnæðiskerfinu. Nú eru þær settar gagnvart leiguíbúðunum og skyldi engan undra þótt leggja mætti það að jöfnu, vegna þess, herra forseti, að ótti minn er sá að þær íbúðir, margar hverjar, sem eru í sveitarfélögunum í dag sem félagslegar eignaríbúðir og eru í eigu fólks úti í bæ, muni einfaldlega skipta um eigendur en ekkert endilega um íbúa, þ.e. að þessar íbúðir muni koma til innlausnar og ef á þeim hvílir kaupskylda þá muni sveitarfélögin leysa þær til sín. Ef ekki, ef á þeim er eingöngu forkaupsréttarákvæði, þá muni því verða hafnað og íbúarnir ekki geta selt þær á frjálsum markaði vegna þess misgengis sem orðið hefur á markaðsverði og uppreiknuðu verði eða eignarhlut en ef um kaupskyldu er að ræða að þá muni sveitarfélagið leysa íbúðina til sín en síðan muni sá sem seldi einfaldlega sitja uppi með íbúðina, annaðhvort að kaupa hana aftur eða að leigja hana. Þetta, herra forseti, er auðvitað dæmi sem við eigum eftir að sjá og fólk mun eiga eftir að kvarta undan.

[15:45]

Vegna leiguíbúðanna langar mig að benda á, annars vegar það sem segir í áliti húsnæðisnefndar Kópavogs, en þeir segja að sú breyting, sem verður á greiðslumati og það hversu fáir í rauninni komast inn í kerfið eins og það er núna, muni valda sprengingu á leigumarkaðnum og afleiðingarnar séu ekki fyrirsjáanlegar því augljóst sé að sveitarfélögin hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til að standa undir þeirri gífurlegu aukningu leiguhúsnæðis sem þyrfti að verða. Í 5. gr. frv. er ákvæði um að sveitarstjórnir beri ábyrgð á og hafi frumkvæði að því að leysa húsnæðisþörf þess fólks sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun.

Í umsögn frá húsnæðisnefnd Akureyrar segir, herra forseti:

,,Ljóst er að hér er verið að þrengja verulega möguleika fjölskyldna og einstaklinga á að kaupa sína eigin íbúð og tryggja sér þannig öryggi í húsnæðismálum.``

Ef ætlunin með frv. er að draga úr því að fólk geti keypt sér íbúð þarf að koma til aukning í niðurgreiddum lánum til leiguíbúða. Í frv. er enga tryggingu að finna fyrir því.

Þá vil ég koma að því, herra forseti, sem lýtur að möguleikum sveitarfélaganna til að fjölga leiguíbúðum og fjölga þeim þannig að skaplegt geti talist. Það er talað um þessar 50 leiguíbúðir á næstu tveimur árum en miðað við þær áætlanir að bara Reykjavíkurborg þurfi 180, þá hrekkur þetta skammt. Hins vegar er það spá mín að íbúðirnar sem nú eru inni í félagslega kerfinu muni sumar hverjar skipta um eigendur þó þær skipti ekki um íbúa.

Það er ákvæði hér í frv. sem ég vil endilega vekja athygli á, ekki síst vegna þess að hv. þm. Kristján Pálsson kom hér upp áðan og talaði eins og það væri sjálfsagt mál að sveitarfélögin gætu byggt leiguíbúðir með 90% lánum til 50 ára á 1% vöxtum. Þess sér hvergi stað í frv. Hins vegar er ljóst að ýmis sveitarfélög hafa skuldbreytt lánum og hafa gert það í gegnum Byggingarsjóð verkamanna, á félagslegum íbúðum sem þau hafa innleyst. Þau hafa skuldbreytt þessum lánum og eru nú með lán sem einmitt eru eins og hv. þm. Kristján Pálsson lýsti, lán til 50 ára á 1% vöxtum. En í frv. stendur hins vegar --- og við eigum væntanlega að trúa því sem þar stendur --- í 2. tölulið bráðabirgðaákvæðis III, með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórn getur ákveðið að leigja íbúðina út.`` --- Nú er gert ráð fyrir því að um sé að ræða íbúð sem sveitarstjórnin hefur leyst til sín. --- ,, Áður skal sveitarstjórn greiða upp áhvílandi lán sem veitt hafa verið af Byggingarsjóði verkamanna. Við þær aðstæður skal sveitarfélagið eiga rétt á nýju láni úr Íbúðalánasjóði skv. VIII. kafla laga þessara.``

Sveitarfélagið skal eiga rétt nýju láni úr Íbúðalánasjóði. Hvernig lán eru það? Jú, það eru húsbréfalán. Hvernig eru vextirnir á þeim? Jú, þeir eru klárlega ekki 1%.

Herra forseti. Ég er ansi hrædd um að ýmis sveitarfélög sem bundu vonir við að þetta frv. létti þeim byrðarnar verði fyrir vonbrigðum. Ég tel að þau muni verða nokkur ramakveinin sem upp verða rekin. Það væri ákjósanlegt að hæstv. félmrh. tæki nú mark á því sem húsnæðisnefndirnar eru að segja. Ekki bara vegna einstaklinganna, þó að það út af fyrir sig nægi. Ekki bara vegna þeirra blekkinga sem bornar hafa verið fram gagnvart einstaklingunum, heldur og ekki síður vegna þess hvernig mörg þeirra sveitarfélaga, sem verst hafa farið með sig á núverandi kerfi þar sem hið félagslega verktakakerfi hefur á tímabili náð að grassera, hafa bundið vonir við að þessar breytingar á lögunum geti a.m.k. orðið að veruleika í einhverju tilliti. Eins og ég hef hér rakið, herra forseti, þá eru hins vegar litlar vonir til þess.

Staða sveitarfélaganna er þannig að þau mega breyta íbúðum sem þau leysa til sín í leiguíbúðir en þá verða vextirnir hærri. Þau þurfa að fjölga leiguíbúðunum og þess vegna þurfa þau að setja umtalsverða fjármuni til þessara hluta. Þau þurfa að annast viðbótarlán eða milligöngu um viðbótarlán og þá þurfa þau að greiða í varasjóðinn. Þau mega selja íbúðirnar sem þau leysa til sín, en þá þurfa þau að gera upp áhvílandi lán. Hver á að taka á sig það sem í milli ber? Það hefur hingað til verið akkilesarhællinn. Ég sé ekki, herra forseti, að þetta frv. leysi það með neinum þeim hætti sem um munar. Þau mega breyta félagslegum eignaríbúðum í leiguíbúðir en ég er búin að fara yfir vankantana sem á því eru, a.m.k. verður það dýrara en það kerfi sem er í dag.

Herra forseti. Ekki hefur verið hlustað á verkalýðshreyfinguna í þessu máli. Ekki hefur verið hlustað á húsnæðisnefndirnar. Það virðist ekki eiga að hlusta á stjórnarandstöðuna. Það hefur verið hlustað á sveitarfélögin. Ég hef verið að reyna hér, herra forseti, að útskýra af hverju staða þeirra hefur verið svo hlédræg sem hún hefur verið. Ég óttast, herra forseti, að ég hafi rétt fyrir mér. Ég vona að ég hafi það ekki en við skulum sjá. Ég vona að hæstv. ríkisstjórn skynji hversu stórt þetta mál er og taki það til frekari skoðunar áður en það verður að lögum.