Húsnæðismál

Þriðjudaginn 19. maí 1998, kl. 15:53:42 (6790)

1998-05-19 15:53:42# 122. lþ. 131.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, SJS
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 122. lþ.

[15:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta verða aðeins nokkur orð af minni hálfu hér undir lok þessarar umræðu, enda nánast komið að þeim tímamörkum sem mér skilst að samið hafi verið um fyrir fundahaldið í dag. Ég vil að sjálfsögðu virða það samkomulag. Ég fagna því að það hafi tekist og ekki síst að það skyldi takast þrátt fyrir tilraunir hæstv. forsrh. til að spilla því endanlega að eðlilegt ástand gæti ríkt hér milli stjórnar og stjórnarandstöðu um fundahald, með frammistöðu sinni með miklum endemum á laugardaginn var.

Það er þrennt, herra forseti, sem stendur upp úr við lokaafgreiðslu þessa máls. Það fyrsta er að með þessu frv. og framgöngu hæstv. ríkisstjórnar er slitið áratuga samstarfi verkalýðshreyfingarinnar, félagasamtaka, heildarsamtaka ýmissa og stjórnvalda um húsnæðismál. Hér verður einhliða rofið það samstarf sem um þessi mál og þennan málaflokk hafa verið um áratuga skeið. Mörgum stærstu grettistökunum í húsnæðismálum á undanförnum árum og áratugum hefur einmitt verið lyft með slíku samstarfi. Þessu samstarfi hafnar nú hæstv. ríkisstjórn og hæstv. félmrh. gengur fram fyrir skjöldu í þeim efnum, bæði með því að undirbúa þetta mál án samstarfs við verkalýðshreyfinguna og önnur slík heildarsamtök og með því að gera ekkert með tilmæli heildarsamtaka launafólks og félagasamtaka, eins og Öryrkjabandalagsins, Leigjendasamtakanna og fleiri slíkra, um að fresta afgreiðslu frv.

Í öðru lagi, herra forseti, stendur það upp úr að með frv. er verið að leggja niður félagslega húsnæðiskerfið í landinu. Í þriðja lagi stendur það upp úr, herra forseti, að með þessu frv., eins og það er úr garði gert, sýnir hæstv. félmrh. opinberum starfsmönnum hjá opinberri stofnun sem hér á undir einstaka fyrirlitningu þannig að leitun er á öðru eins.

Varðandi það að hér sé verið að leggja niður félagslega húsnæðiskerfið, herra forseti, þá held ég að ástæða sé til að nefna nokkur lykilatriði í því sambandi. Hæstv. félmrh. og fleiri talsmenn stjórnarflokkanna hafa með ótrúlegri leikfimi í röksemdafærslu reynt að halda hinu gagnstæða fram. Það er að mínu mati eins kristalstært og nokkuð getur verið að hér er verið að jarðsyngja félagslega húsnæðiskerfið í landinu. Það er verið að því.

Það er verið að því í fyrsta lagi, herra forseti, með því að leggja niður Byggingarsjóð verkamanna, leggja niður aðgreindan sjóð sem fjármagnar húsnæðiskerfi lágtekjufólks. Í öðru lagi, herra forseti, er það gert með því að ákveða og beinlínis banna að fjárframlög komi til frá ríkinu til að mæta hagstæðari lánakjörum í slíkum aðgreindum sjóði. Í þriðja lagi stuðlar að þessu ákvæði um að sjóðurinn skuli standa undir sér.

Ég vil helst ekki, herra forseti, nota það orðskrípi sem menn hafa í þessu samhengi notað, að sjóðurinn eigi að vera sjálfbær. Ég held að það sé misskilningur á því hugtaki, sem tengist umhverfismálunum og er grundað í þeirri hugsun sem tengist sjálfbærri nýtingu og varðveislu auðlinda, að fara að færa það yfir á fyrirbæri eins og lánasjóð.

Sjóðurinn á að standa undir sér eins og það heitir á íslensku. Með öðrum orðum: Hann á ekki að fá stuðning af einum eða neinum toga til þess að gera honum kleift að bjóða upp á hagstæðari lánskjör en markaðsvexti.

Í fjórða lagi er síðan yfirlýsing um að félagslegt húsnæðiskerfi sé liðið undir lok, að öll lánskjör skuli vera markaðskjör.

Í fimmta lagi, herra forseti, er verið að jarðsyngja félagslegt húsnæðislánakerfi í gegnum það að tækið sem menn hafa haft til þess að veita lágtekjufólki, einstæðum forseldrum, námsmönnum, öldruðum eða öðrum slíkum forgang, er lagt niður og markaðurinn einn verður eftir. Markaðurinn, herra forseti, gerir ekki greinarmun á einstæðum foreldrum og öðrum foreldrum. Hann er blindur, grimmur og miskunnarlaus. Það er alveg sama hvernig hæstv. félmrh. reynir að halda öðru fram, þetta er grundvallarbreyting sem menn komast ekki fram hjá. Tækið er þar með er úr höndum stjórnvalda, til velja úr þá hópa sem mesta þörf hafa fyrir stuðning og búa um þeirra mál samkvæmt sérstökum reglum í sérstökum aðgreindum sjóðum.

Í sjötta lagi og ekki síst, herra forseti, er hið félagslega húsnæðiskerfi jarðsungið með því að afnema 10% lán, til viðbótar handa þeim sem ekki ráða við útborgun eins og það hefur verið í félagslega húsnæðiskerfinu. Með því er verið að ákveða að hámarksfyrirgreiðsla úr hinu opinbera húsnæðislánakerfi geti mest orðið 90%. Með öðrum orðum verða menn að eiga fyrir tíu prósentunum vegna þess að það er augljóst að það fólk sem þegar á í erfiðleikum með að uppfylla hinar ströngu greiðslumatskröfur fyrir 90% lánveitingunum, almenna láninu og plús viðbótarláninu, hefur ekki möguleika til þess að taka þar á ofan að láni 10% sem á vantar. Enda sagði hæstv. félmrh. hér sjálfur að dæmið væri þannig að til þess að einstæð móðir gæti keypt sér íbúð þá þyrfti hún að eiga 500 þúsund á bók. ,,Og þá er allt í lagi``, sagði hæstv. ráðherra, eins og að hér gangi um þjóðfélagið þúsundum saman einstæðar mæður með 500 þúsund krónur á bankabók og bíði eftir því að kaupa sína fyrstu íbúð. Þannig er það og síðan 600 þúsund ef það er 6 milljóna íbúð o.s.frv.

[16:00]

Herra forseti. Þetta er eins skýrt og nokkuð getur verið að þarna er verið að leggja niður það fyrirkomulag sem hefur sérstaklega verið sniðið að raunverulegum aðstæðum lágtekjufólksins sem á almennt ekki 500 þúsund kr. í handraðanum til þess að kaupa fyrstu íbúð sína. Það er þvert á móti þannig, því miður, herra forseti, sem hæstv. félmrh. ætti að vita manna best, að þúsundum saman eru þessar fjölskyldur að berjast við að ná endum saman og þær skulda matarúttektirnar sínar og Visa-reikningana og velta jafnvel neyslunni mánuðum saman þannig á undan sér. Það er þar af leiðandi út í hafsauga, því miður, hjá mörgum þessum fjölskyldum að komast nokkurn tíma í þær aðstæður að eiga 500 þús. kr. í peningum til að leggja inn í dæmi af þessum toga enda er reynslan sú að einhver mikilvægasta hjálpin við lágtekjufjölskyldurnar er sá möguleiki sem hefur verið fyrir hendi í félagslega kerfinu.

Í sjöunda og síðasta lagi en ekki síst, herra forseti, er það auðvitað skýr yfirlýsing um það að félagslegt húsnæðiskerfi er lagt niður á Íslandi að þetta fyrirkomulag gengur ekki út á að tryggja að framboð sé fyrir hendi af húsnæði sem þetta fólk ræður við að komast inn í. Það gerir það ekki og ég vísa þar til umræðunnar um það að menn eru að fleipra með að 50 leiguíbúðir eða eitthvað því um líkt komi í staðinn fyrir félagslega kerfið sem var að bæta hér við á markaðinn frá 300 og upp í 500--600 íbúðum á hverju ári þegar best lét í því kerfi.

Þetta framboð á húsnæði, sem var sérstaklega frátekið fyrir það fólk sem hafði lægstu tekjurnar, gjörbreytti stöðunni á húsnæðismarkaðnum hvað þetta varðar. Ekki verður um neitt slíkt að ræða í hinu nýja kerfi vegna þess að engin aðgreining verður á því húsnæði sem kann að bætast við á markaðskjörum fyrir hverja það er ætlað sérstaklega.

Herra forseti. Þeir sjö liðir sem ég hef hér talið upp eru allir, hver og einn og til samans, mjög skýr yfirlýsing um það að með þessu frv. er hinni félagslegu hugsun útrýmt úr kerfinu. Það er þannig.

Herra forseti. Eins og ég sagði í þriðja lagi stendur það upp úr við þetta mál, þessi dæmalausa framkoma hæstv. félmrh. við starfsfólk Húsnæðisstofnunar. Það er með hreinum ólíkindum að það skuli vera hæstv. félmrh. sem foraktar þannig atvinnuöryggi og tilfinningar þessa starfsfólks sem undir hann heyrir, að hann skuli ganga lengra og miklu lengra hvað varðar fólsku í þessum efnum en samráðherrar hans í þessari ríkisstjórn og ráðherrar í fyrri ríkisstjórn gerðu. En í heilli kippu af einkavæðingarfrumvörpum sem hafa litið dagsins ljós á undanförnum árum, hvort sem það voru síldarbræðslurnar eða bankarnir eða fjárfestingarsjóðirnir eða aðrir slíkir hlutir, voru þar inni ákvæði um að tryggja skyldi starfsfólki hinna opinberu stofnana eða sjóða eftir því sem kostur væri og möguleikar væru, sambærileg störf í hinum nýju fyrirtækjum. Í sumum tilvikum var beinlínis kveðið á um að fólkið skyldi njóta sambærilegra kjara og ganga inn í sömu störf. Í sumum tilvikum var meira að segja gert alveg skýrt að það tæki til allra, þar með talið yfirmannanna, og ég bendi t.d. á þegar fjárfestingarlánasjóðurinn var stofnaður, þegar Fjárfestingarbankinn var stofnaður við sameiningu sjóða sem voru opinberir og hálfopinberir, og í tengslum við hann var settur á fót svonefndur Nýsköpunarsjóður. Þá var þannig frá því gengið að það fólk sem fékk ekki vinnu við Fjárfestingarbankann átti forgang að vinnu hjá Nýsköpunarsjóðnum. Það var því reynt að koma fólkinu fyrir samkvæmt öllum úrræðum sem fólust í málinu. Það er alveg yfirgengilegt að hæstv. félmrh. og vinnumarkaðsmálaráðherra skuli merkja sig með þessum hætti og þessari framgöngu.

Herra forseti. Ég tel að áhrif þessara breytinga verði víðtæk. Þær munu lýsa sér í öryggisleysi lágtekjufjölskyldna á komandi árum hvað varðar það að eiga aðgang að húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Ég óttast mjög að þær muni leiða til minna framboðs á nýju húsnæði sem er viðráðanlegt fyrir þetta fólk. Það mun gerast.

Þetta mun í öðru lagi þýða hækkandi leiguverð. Það er eiginlega algjörlega borðleggjandi að leiguverðið á markaðnum mun hækka. Ekki er það nein blessun fyrir lágtekjufólkið. Þetta mun í þriðja lagi væntanlega leiða til hækkandi fasteignaverðs vegna þess að hugsunin er sú að það þurfi í raun og veru ekki að beita neinum sérstökum úrræðum til að tryggja að húsnæði bætist við og sé ávallt til reiðu sem mæti þörfum þessa fólks. Hver var grunnhugsunin í kerfinu sem nú er verið að taka af lífi? Hún var sú að framkvæma mat á húsnæðisþörfinni í sveitarfélögunum og síðan tryggja á grundvelli þess mats, eftir því sem kostur var og fjármagn leyfði á hverjum tíma, að þeirri þörf væri mætt með nýju húsnæði.

Þar af leiðandi, herra forseti, verða áhrifin að mínu mati einnig þau að tekjulægsta fólkið, það fólk sem hefur erfiðastar aðstæðurnar í þessum efnum, eignalaust fólk, verður dæmt á leigumarkaðinn og/eða í kjallaraholurnar. Það verður þannig. (Gripið fram í: Það verður engar leiguíbúðir að fá.) Að svo miklu leyti sem þær verða fyrir hendi. Menn munu sjá stéttaskiptingu fara í gang í húsnæðislegu tilliti sem við höfum að verulegu leyti verið blessunarlega laus við á Íslandi á undanförnum áratugum, menn munu sjá það, þar sem þetta fólk dæmist í lélegasta og ódýrasta húsnæðið, í kjallaraholurnar. Mér kæmi ekki á óvart þótt farið yrði í að innrétta ýmislegt sem hingað til hefur ekki þótt boðlegt upp á síðkastið og það yrði einhver mestur gróðavegur á Íslandi á komandi missirum, undir sérstökum verndarvæng félmrh., að kaupa sér kjallaraholur og leigja þær fátæku fólki á okurverði. Það eru þá tímar sem við viljum snúa aftur til eða hitt þó heldur.

Herra forseti. Það er alveg ljóst hvað er í fyrirrúmi hjá hæstv. ríkisstjórn, það er ekki fólk. Það er a.m.k. ekki lágtekjufólk, það er ekki almenningur í landinu. Það kann að vera að þeir menn sem hæstv. ríkisstjórn telji vera Fólkið með stórum staf og eigi að hafa í fyrirrúmi séu þeir sem eiga húsnæði og ætla sér að græða á því að leigja það og það sé kerfið og það séu fasteignasalar. Þannig að það sé fjármagnið og kerfið sem sé í fyrirrúmi en ekki fólkið hjá Framsfl. um þessar mundir. Skyldi það nú ekki geta verið svo?

Ég tel, herra forseti, að útkoma hæstv. félmrh., útreið hans í þessu máli sé hraksmánarleg. Ég lýsi því þannig að hæstv. félmrh. sé með allt á hælunum. Ég velti því fyrir mér hér í gær ... (Gripið fram í.) einmitt, þegar atkvæðagreiðsla var um þetta mál, hvort ég ætti að hlaupa út í nærliggjandi búð og kaupa axlabönd og fara með þau í ræðustólinn, halda þeim á lofti og færa síðan hæstv. félmrh. þau að gjöf. Hann er að vísu með einhver slitur á sér, hæstv. ráðherrann, sé ég, en svo komst ég að þeirri niðurstöðu, og hún er endanleg af minni hálfu, að það er ekki hlutverk mitt að halda buxunum uppi um hæstv. félmrh. Þær mega vera á hælum hans mín vegna.