Húsnæðismál

Þriðjudaginn 19. maí 1998, kl. 16:09:45 (6791)

1998-05-19 16:09:45# 122. lþ. 131.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 122. lþ.

[16:09]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Mig langar til þess að segja örfá orð við lok þessarar löngu umræðu. Að vísu er næstum liðinn sá tími sem við höfum samið um að hún skyldi taka.

Ég bendi á það að ég held að það sé bara einn af þeim þingmönnum sem talað hafa strítt á móti þessu máli sem telur núverandi kerfi gallalaust. Allir hinir líta svo á að ýmislegt þurfi að laga í kerfinu. (Gripið fram í: Hver er það?) Ágreiningurinn er um það hvenær eigi að gera það og hvernig eigi að gera það.

Varðandi framtíð hins ágæta starfsfólks hjá Húsnæðisstofnun vil ég taka fram að ekkert þýðir að vitna í háeffun á bönkum eða síldarverksmiðjum því að hér er ekki um einkavæðingu að ræða. Ekki er verið að einkavæða þessa stofnun og það er alveg sama hvað umsagnaraðilar hafa látið í sér heyra um það að þeir telji ráðlegt að gera það, það ætlum við ekki að gera. Ég er ekki að einkavæða þessa stofnun og það verður ekki gert í minni tíð.

Það er verið að gera grundvallarbreytingu á húsnæðislöggjöfinni og ég tel að verið sé að taka upp skynsamlegra og ódýrara fyrirkomulag. Reglugerðarvaldið sem menn hafa verið að gagnrýna er eins og ég fór yfir áður mjög hliðstætt því sem er í gildandi lögum.

Menn hafa vitnað mikið í umsagnir. Sumpart eru þessar umsagnir úreltar að því leyti til að komið hefur verið til móts við athugasemdir sem hafa komið fram í þessum umsögnum og margar brtt. voru samþykktar í gær, og ég tel að menn eigi að ræða frv. eins og það er núna. Ég undirstrika enn og aftur að greiðslumatið verður ekki óbreytt, þ.e. miðað við 18% tekna. Ég leyfi mér að fullyrða það en það er alveg rétt að greiðslumatið er ekki tilbúið, enda ekki hægt að láta það fæðast af því að stjórn Íbúðalánasjóðs er ekki komin til starfa.

Komið hefur verið til móts við ábendingar eins og að valfrelsið væri skert með því að hægt væri að vísa á innlausnaríbúðir. Það var komið til móts við það, tíminn sem hægt er að vísa á innlausnaríbúðirnar takmarkaður við tvö ár og sett hefur verið í gang könnun út af leiguíbúðaþörfinni.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að húsnæðisnefndir verði alfarið kjörnar af sveitarstjórn. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að stjórnunarleg og fjárhagsleg ábyrgð fari ætíð saman og það er í samræmi við frv. sem hv. 5. þm. Reykn. flutti þegar hún var félmrh. Það er nokkuð athyglisvert að sjá mismuninn á umsögnum sveitarstjórnanna og húsnæðisnefndanna. Þær eru bara ekki á sömu línu, sveitarstjórn í viðkomandi sveitarfélagi og húsnæðisnefnd, í einhverjum tilfellum. Það hefur komið í ljós og ég vil láta það koma fram hér, jafnvel þó að ég sé ekki að taka gilda útreikninga hv. 13. þm. Reykv. og síður en svo að samsinna þeim, að þá trúi ég henni þó betur en framkvæmdastjóra húsnæðisnefndarinnar á Akureyri.

Varðandi félagslega þáttinn er alls ekki verið að hverfa frá félagslegri aðstoð í húsnæðismálum og það er bara rangfærsla. Félagsleg aðstoð er flutt frá niðurgreiddum vöxtum í fyrir fram greiddar skattfrjálsar vaxtabætur. Það er eðlilegra fyrirkomulag og hagkvæmara fyrir fátækt fólk. Sveitarfélögin hafa auðvitað ríkar skyldur í húsnæðismálum að sjá til þess að húsnæði sé fyrir hendi í sveitarfélaginu og sú kvöð verður styrkt í félagsþjónustulögum sem eru til endurskoðunar.

Núverandi íbúar félagslega kerfisins, og það er mjög mikilvægt að svara því afdráttarlaust, halda öllum sínum réttindum samkvæmt núgildandi lögum. Aðstaða þeirra breytist ekkert. Meðan kaupskylda sveitarfélaganna varir á íbúðunum samkvæmt gildandi lögum gildir hún fyrir viðkomandi einstaklinga og þeir geta skilað íbúðum sínum. Það er alls ekki hugmyndin að úthýsa fólki og eins og fram hefur komið þá getur einstæð móðir með atvinnuleysisbætur keypt litla íbúð ef hún á 10% af verðinu. (Gripið fram í.) Já. Rétt er að taka það fram að húsaleigubætur eru komnar á allt leiguhúsnæði í öllum sveitarfélögum og það er samkomulag við fjmrh. um að ekki verði dýrara að komast inn í nýja kerfið en er í gildandi kerfi.

[16:15]

Varðandi útgjöldin til húsaleigubóta sem hér var spurt um, þá var það staðfest í lögum að það skyldu vera 280 milljónir á ári með samningi sem gerður var í fyrravetur. Nú hafa kringumstæður breyst nokkuð. Ég tel eðlilegt að ef forsendur breytast þá verði skoðað hver þörf sveitarfélaganna kynni að verða fyrir viðbótarframlag vegna húsaleigubóta. Það kemur inn í önnur fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Á hverju hausti er gert samkomulag á milli ríkis og sveitarfélaga um fjármálaleg samskipti. Sem betur fer hefur það tekist í miklu bróðerni þann tíma sem ég hef verið í félmrn.

Spurt var hvort margir biðu eftir því að komast inn í nýtt kerfi. Það er rétt að ekki hefur farið fram nein könnun á því. Ég veit að margir bíða eftir því að komast inn í nýtt kerfi og það finnst mér vera viðurkenning á því að fólki geðjist að því. En talning á þeim hefur ekki farið fram.

Varðandi þá sem kaupa gamalt húsnæði eða húsnæði með lánum, þá þarf enginn að yfirtaka gömul lán með íbúð sinni ef hann ekki svo kýs. Hann getur fengið húsbréf og viðbótarlán fyrir allri upphæðinni og borgað gömlu lánin ef honum sýnist að greiðslubyrði verði lakari með því að halda í gömlu lánin. Fólk á rétt á endurbótalánum. Það er tvímælalaust að það á rétt á endurbótalánum ef það endurbyggir íbúð, enda sé náttúrlega veð fyrir framkvæmdinni. (JóhS: Þá fær það lán til endurbóta?) Þá fær það lán fyrir endurbótum.

Ég ætla að stytta mál mitt. Ekki hefur skort hrakspár um þetta nýja kerfi úr munni stjórnarandstæðinga. Ég vil fullyrða að það eru engir fantar í ríkisstjórninni, í stjórnarliðinu eða í sveitarstjórnum landsins og þeir hafa ekki neina löngun til að fara illa með fátækt fólk. Það er síður en svo. Það er okkar sannfæring að hér sé verið að létta undir og aðstoða tekjulitla einstaklinga við það að lifa farsælu lífi.

Nú kann að vera, og ég veit það að hér er ekki verið að byggja neitt þúsund ára ríki, að menn sjái einhverja ágalla á þessum lögum í ljósi reynslunnar. Það er ekkert við því að segja og þá er bara að vinda sér í að laga þá ef þeir koma fram alveg eins og þegar í ljós komu ágallar á lögum um atvinnuleysistryggingar sem samþykkt voru hér á síðasta vori. Ég bar fram frv. um breytingar sem sníða af þá annmarka sem á þeim lögum voru. Ég tel einboðið að í ljósi reynslunnar, ef eitthvað lukkast ekki í þessu kerfi, að þá sé auðvitað hægt að laga það síðar.