Húsnæðismál

Þriðjudaginn 19. maí 1998, kl. 16:20:58 (6795)

1998-05-19 16:20:58# 122. lþ. 131.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 122. lþ.

[16:20]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það hefur enginn þingmaður haldið því fram hér að núverandi löggjöf væri gallalaus heldur að við viljum öll ná sátt um hana við verkalýðshreyfinguna, en ekki sparka í hana. Það á að leiðrétta á henni annmarka en ekki loka kerfinu eins og ráðherra er hér að gera.

Ég spurði ráðherrann um afstöðu hans til skattskyldu á húsaleigubótum og hvort hann mundi beita sér fyrir því að hún yrði afnumin. Ég óska eftir að hann svari því.

Ég spurði um afstöðu hans til tillögu okkar í minni hlutanum um að þessi framkvæmdaáætlun um leiguhúsnæði liggi fyrir 1. október 1998 þannig að fólk þyrfti ekki að bíða í óvissu, hundruðum saman, til ársloka 2000. Ég spyr um afstöðu til þess.

Ég spyr ráðherrann líka um það þegar hann segir að hægt sé að endurmeta framlög ríkisins til húsaleigubóta: Er hann að gera dauð og ómerk orð fjmrh. sem sagði hér fyrir áramót að það væru sjálfkrafa tillögur um aukin útgjöld til sveitarfélaganna ef tilefni gæfist til þess, vegna þess að ráðherrann er hér að opna á það? Og hvað með ósk fulltrúaráðsins um að samið verði um framlag ríkisins til afskrifta og niðurgreiðslna á eldri lánum áður en frv. verður afgreitt? Það hefur ekki verið gert. Ég spyr hvort það liggi fyrir, af því að þetta er lokaumræða um þetta mál, þ.e. hvort samið verði um það áður en gengið verði frá frv. eins og nú er stefnt að.

Mér finnst afstaða hæstv. ráðherra mjög óljós til starfsmannanna og til tillögu okkar sem liggur hér fyrir um það, einnig varðandi forkaupsréttarákvæðið og það að fólk þurfi ekki að bera mismuninn á markaðsverði íbúðar og áhvílandi lánum. Ráðherrann hefur sagt það og verður að standa við það ef síðar kemur í ljós að fólk þurfi að gera það.