Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 19. maí 1998, kl. 16:47:26 (6811)

1998-05-19 16:47:26# 122. lþ. 131.7 fundur 578. mál: #A lax- og silungsveiði# (stjórnsýsluverkefni, Fiskræktarsjóður o.fl.) frv. 50/1998, ÖS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 122. lþ.

[16:47]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Í ræðu við 1. umr. gerði ég fjölmargar athugasemdir við þetta lagafrv. og mér sýnist að engin þeirra hafi verið tekin til greina. Ég vek sérstaklega athygli á því, herra forseti, að ég færði rök fyrir breytingu á b-lið 4. gr. þar sem segir að hægt sé að friða tiltekin svæði í sjó til verndunar villtra laxastofna. Ég greindi frá því að ég teldi mörg rök hníga að því að þessu ákvæði yrði breytt þannig að það tæki ekki einungis til verndunar villtra laxastofna heldur þyrfti að orða það með þannig að hér yrði rætt um villta stofna laxfiska því að undir það falla líka fiskar á borð við sjóbirting. Ég tel að nauðsynlegt sé að þessi grein nái líka til þeirra. Þess vegna ætla ég núna að greiða atkvæði með því að þetta mál fari til 3. umr., en ég áskil mér allan rétt, herra forseti, til þess að ræða þetta lítillega síðar við 3. umr. og leggja fram brtt. við þetta.