Afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 13:36:10 (6816)

1998-05-25 13:36:10# 122. lþ. 132.93 fundur 405#B afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[13:36]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég er ekki viss um að R-listinn hafi haft samráð við Gylfa Þ. Gíslason, fyrrv. ráðherra, um allar sínar helstu yfirlýsingar. Það væri a.m.k. fróðlegt að vita það en hann skipaði sama sæti og ég. Við vorum í 30. sæti hvor á sínum listanum, þannig að um yfirlýsingar frambjóðenda var yfirleitt ekki haft samráð við mig sérstaklega frekar en að vænta megi þess að R-listinn hafi fundað mikið með Gylfa Þ. Gíslasyni um sumar þær yfirlýsingar sem þaðan komu. Það væri a.m.k. fróðlegt að fá upplýst hvort svo hafi verið.

Á hinn bóginn hefur það legið fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar að ríkisstjórnin stefndi að því að afgreiða þessi mál. Sá vilji ríkisstjórnarinnar hefur ekki breyst. Það stendur til af hennar hálfu að afgreiða þessi mál.

Hitt er annað mál og það hefur komið fram í umræðum, m.a. í þessum sveitarstjórnarumræðum, að það eru misvísandi upplýsingar í gangi um hvað í þessum frv. öllum felst. Ég tel því afar þýðingarmikið að þegar þessi löggjöf, svo mikilvæg sem hún er, liggur fyrir, þá verði af hálfu ríkisstjórnarinnar gefnar út ítarlegar upplýsingar og upplýsingarit um það sem í öllum þessum frv. felst. Þannig mundu ruglandi upplýsingar sem fram hafa komið, m.a. úr þessum ræðustól, ekki fá að gera fólkið í landinu órólegt. Til þess eru engin tilefni að mínu áliti.