Afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 13:41:20 (6819)

1998-05-25 13:41:20# 122. lþ. 132.93 fundur 405#B afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[13:41]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. er einn af frambjóðendum Sjálfstfl. í Reykjavík. Frambjóðendur Sjálfstfl. í Reykjavík tóku þá ákvörðun að skora á ríkisstjórn hans og hann sjálfan um að fresta afgreiðslu málsins. Er hann að segja okkur að það hafi ekkert samráð verið haft við hann, forsrh., um þá samþykkt sem gerð er í hans nafni sem frambjóðanda? Mér fyndist það nú harla ólíklegt, ef frambjóðendur Reykjavíkurlistans hefðu tekið upp á því að senda frá sér einhverja áskorun sem varðaði fyrrv. hv. þm. Gylfa Þ. Gíslason og skorað væri á þann fyrrv. þm. að gera eitthvað, grípa til einhverra aðgerða, að þá hefði ekki verið leitað samráðs við hann um það. Ég tel ólíklegt að Reykjavíkurlistinn hefði ekki spurt doktor Gylfa Þ. Gíslason ef Reykjavíkurlistinn hefði gert samþykkt um að skora á hann að gera eitthvað. (RG: En ef hann hefði verið formaður flokksins?) Hvað þá heldur ef hann hefði verið formaður flokksins.

Ég spyr hæstv. forsrh. mjög einfaldlega: Var ekkert samráð haft við hann þegar ákveðið var að senda fjölmiðlum, í hans nafni sem frambjóðanda Sjálfstfl. í Reykjavík, áskorun á hann sjálfan um að grípa til tiltekinna aðgerða? Vissi hann ekkert af því? Hafði borgarstjórnarflokkur Sjálfstfl. ekkert samráð við hann um það? Kom honum það eitthvað á óvart, hæstv. forsrh. og frambjóðanda til borgarstjórnar í Reykjavík.? (SJS: Er þetta örugglega sami maðurinn?) Ja, ég held að þetta hljóti að vera sami maðurinn, a.m.k. eru þeir skráðir til heimilis á sama stað samkvæmt auglýsingu. Ég spyr því hæstv. forsrh.: Var honum ekkert gert viðvart um það hvaða áskorun var verið að beina til hans í nafni hans sjálfs?