Afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 13:53:36 (6825)

1998-05-25 13:53:36# 122. lþ. 132.93 fundur 405#B afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[13:53]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. ,,Einstakir þingmenn hafa reynt að auka ruglandann í málinu``, sagði hæstv. forsrh. Ég tel nú að við þingmenn stjórnarandstöðunnar í félagi við hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson höfum náð miklum árangri í þessum málflutningi okkar. Ég átti hins vegar ekki von á því að við næðum þeim árangri að frambjóðendur Sjálfstfl. í Reykjavík gengju í lið með okkur en það hefur tekist.

Við ætlum ekki að vinna gegn því samkomulagi sem við gerðum en þau tíðindi hafa orðið, frá því að samkomulagið var gert, að frambjóðendur Sjálfstfl. í Reykjavík hafa gengið í lið með stjórnarandstöðunni og skorað á ríkisstjórnina að fresta málinu. Það er mjög eðlilegt að við spyrjum, ekki síst þegar einn af þessum frambjóðendum er jafnframt forsrh. Íslands, hvort þessi afstaða hafi ekki nein áhrif.

Hæstv. utanrrh. sagði að menn væru með þessu móti að vinna gegn lýðræðinu. Er það þá hans álit að afstaða sjálfstæðismanna í Reykjavík, frambjóðenda Sjálfstfl. í Reykjavík, í málinu sé til þess fallin að vinna gegn lýðræðinu? Afstaða Morgunblaðsins sé til þess fallin að vinna gegn lýðræðinu? Þetta er auðvitað alveg fráleitt.

Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, aðeins færa hæstv. utanrrh. og flokksbræðrum hans hamingjuóskir, með okkur hinum, fyrir hinn glæsilega sigur sem við unnum saman í Reykjavík.