Afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 13:56:59 (6827)

1998-05-25 13:56:59# 122. lþ. 132.94 fundur 406#B afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[13:56]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þetta er alveg grafalvarlegt mál, jafnvel þó það sé grátbroslegt hvernig formenn stjórnarflokkanna, ekki síst forsrh. sem er ekki frambjóðandi í Reykjavík, bregðast við. Það er satt best að segja farið að verða frekar vandræðalegt að hlusta á að allir sem eru á öndverðri skoðun séu með misvísandi upplýsingar eða misskilning.

Herra forseti, (Gripið fram í: Er þetta um fundarstjórn?) --- já, þetta er um fundarstjórn --- það er nefnilega þannig að frambjóðandi í 2. sæti hjá borgarstjórnarflokknum í Reykjavík er Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og hann er formaður Sambands ísl. sveitarfélaga. Samband ísl. sveitarfélaga hefur í raun og veru haft lykilhlutverk í afgreiðslu þessa máls. Þegar formaður Sambands ísl. sveitarfélaga hefur lýst því yfir, með þeim hætti sem hér hefur komið fram, að hann vilji beita sér af öllum mætti fyrir því að þessu máli verði frestað, þá hlýt ég að benda hæstv. forseta á að það er fremur óeðlilegt að taka til við afgreiðslu málsins, sem er fyrst á dagskrá, vegna þess að félmn. hefur hlustað á formann Sambands ísl. sveitarfélaga í þessu máli. Það að hann skuli hafa tekið þátt í þessari áskorun til forustu síns flokks er stórt mál og afdrifaríkt fyrir afgreiðslu málsins.

Herra forseti. Ég er aðeins búin að vera hér í níu ár en ég hélt að meiri hluti á Alþingi ætti sér bakland. Ég hélt að bakland meiri hlutans væru flokkarnir. Ég hef aldrei vitað að Sjálfstfl. væri ekki bakland meiri hluta Sjálfstfl. á Alþingi og þess vegna hefði það ekkert að segja hvað Sjálfstfl. sem slíkur ályktaði.

Ég vissi ekki að meiri hlutinn á Alþingi væri einhvers konar sérflokkur. En ég hef lýðræðið nokkuð á hreinu og geri mér grein fyrir því að það er lýðræðislegur réttur þingmanna að láta í ljós skoðun sína og flytja mál sitt á Alþingi. Síðan er það lýðræðislegur réttur meiri hlutans á Alþingi að beita atkvæðamætti sínum og afgreiða mál í fyllingu tímans.

Herra forseti. Ég hlýt að taka undir þau orð sem féllu í öðrum af tveimur leiðurum Morgunblaðsins, þótt það fari í taugarnar á hæstv. utanrrh., að það er misskilinn metnaður ráðherra og þingmanna að reyna fremur að knýja mál hratt í gegnum þingið, fremur en að hlusta á raddir allra þeirra sem eru áhyggjufullir og óska eftir því að þessum hluta sveitarstjórnarlaganna verði frestað til haustsins.