Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 14:10:17 (6832)

1998-05-25 14:10:17# 122. lþ. 132.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[14:10]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Við fyrri umræður um þetta frv. gerði ég og reyndar fleiri þingmenn stríðar athugasemdir við síðustu mgr. 7. gr. þar sem fjallað er um arðgjafar- og arðgreiðslumarkmið í rekstri fyrirtækja í eigu sveitarfélaga. Ég gagnrýndi sérstaklega að enga leiðbeiningu var að finna í greinargerð eða í máli frsm. við 2. umr. um það hvernig bæri að túlka orðin ,,eðlilegur afrakstur``. Auðvitað má segja að hv. þm. og frsm. nefndarinnar, Magnús Stefánsson, hafi sett undir þennan leka. Það kemur fram í máli hv. þm. að nefndin telur að eðlilegur afrakstur sé sem svarar innlánsvöxtum.

Ég vík hins vegar að því, herra forseti, af því að hér hafa menn verið að vísa í ritstjórnargreinar Morgunblaðsins. Það hefur að vísu komið fram hjá stjórnarliðinu að lítið sé að marka þær. En ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það eigi að gaumgæfa vel það sem í þeim stendur. Ég vek sérstaka athygli á því að þar var einmitt vísað í orð Ingimundar Sigurpálssonar sem mun vera bæjarstjóri í einu stóru sveitarfélagi nálægt Reykjavík þar sem Ingimundur bæjarstjóri gerði athugasemdir við að það ætti að reikna sér arðinn af því fjármagni sem er bundið í rekstri fyrirtækjanna. Hann var þeirrar skoðunar, eins og ég er, að miklu heppilegra og vænlegra væri fyrir íbúa sveitarfélaganna að miðað yrði við það fjármagn sem viðkomandi sveitarfélag hefði beinlínis lagt til þessara fyrirtækja. Ég tel að það væri miklu æskilegra að hafa þetta líka vegna þess að í því er fólgin meiri vernd fyrir íbúa viðkomandi sveitarfélags. Ég veit vitaskuld að þetta leiðir til þess að pyngja sveitarsjóðsins verður digrari. En ef farið væri að ráðum mínum og Ingimundar Sigurpálssonar mundi það koma sér miklu betur fyrir pyngjur neytendanna.