Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 14:16:02 (6835)

1998-05-25 14:16:02# 122. lþ. 132.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[14:16]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Magnúsar Stefánssonar, 3. þm. Vesturl. og talsmanns meiri hlutans við þessa umræðu, hittist hv. félmn. á milli umræðna og fór yfir nokkrar greinar þessa frv. Það var gert vegna þess að komið höfðu fram athugasemdir við 2. umr. og okkur höfðu borist bréf og athugasemdir sem snertu nokkrar greinar þannig að okkur fannst rétt að skoða þær nánar. Ég ætla að láta 1. gr. aðeins bíða sem er eitt stærsta deilumál þessa frv. en mig langar aðeins að ræða um aðrar þær greinar sem við ræddum.

Þar er fyrst að nefna 7. gr. en eins og þingmenn eflaust minnast var lögð fram brtt. varðandi hana. Sú brtt. kom til nefndarinnar þegar vinnsla málins var nokkuð langt komin og að mínum dómi hefði þurft að gefast góður tími til að skoða þetta mál sérstaklega vegna þess að það er alveg ljóst að um það eru skiptar skoðanir hversu ríkar heimildir sveitarfélögin hafa til þess að taka sér arð, hvernig eigi að reikna hann út og að hve miklu leyti það stenst stjórnarskrána að opinber fyrirtæki geti tekið arð af starfsemi sinni. Segja má að hér sé málið í raun og veru skilið eftir þannig að það verður tekið á skilgreiningum í einstökum lögum en því er ekki að neita að sú heimild er býsna víð sem er verið að veita eins og hún hljóðar í frv.

Ég vil láta það koma skýrt fram, hæstv. forseti, að ég hef miklar efasemdir um hvort það sé nægilega gott og hvort það sé rétt að skilja málið eftir jafnopið og það er. Þess vegna er sú skilgreining sem hv. þm. Magnús Stefánsson kom áðan með í máli sínu mjög mikilvæg. Hún byggist m.a. á því sem fram kom í máli borgarlögmanns í Reykjavík og einnig kom það fram í máli þeirra bæjarstjóra sem komu á fund nefndarinnar að skilningur þeirra var svipaður að heimild til þess að taka arð eða greiðslur og miða gjaldskrár við það að fyrirtækin skili einhverjum arði, þær hljóta að miðast við það að fyrirtækin standi undir rekstri sínum, standi undir skuldbindingum, standi undir nauðsynlegum fjárfestingum og öðrum þeim kostnaði sem kann að falla til. Þessar skilgreiningar þurfa að vera mjög skýrar. Þetta þarf að vera mjög skýrt. Þó að sveitarstjórnarmenn segi hátt og skýrt að þeir þurfi að hafa heimildir til þess að taka einhvern arð af fyrirtækjum sínum, menn séu að safna í sjóði til framtíðarinnar eða til væntanlegra breytinga, þá er alveg ljóst að stjórnarskráin takmarkar heimildir sveitarstjórna til þess að taka greiðslur sem eru umfram kostnað.

Þar liggja að baki þær athugasemdir sem umboðsmaður Alþingis hefur gert enda hefur hann fengið fjölmörg slík mál til sín. Við í félmn. fengum m.a. sendan nýjan dóm. Það var bæjarstjórinn í Garðabæ, Ingimundur Sigurpálsson, sem sendi okkur nýjasta dóminn sem varðar þessi mál og þar er Hæstiréttur að ítreka að í þessu tilviki, Skeggjastaðahreppi, var ekki heimilt að taka þau gjöld sem hann hafði tekið. Fyrirtæki sem fór í mál vann það fyrir Hæstarétti. Þetta er mál sem ég held að hljóti að koma mjög til kasta sveitarfélaganna á næstu árum, hvernig þau geta miðað tekjuöflun sína við þær þröngu heimildir sem þau hafa.

Því er ekki að leyna, hæstv. forseti, að þetta er stórmál fyrir Reykjavíkurborg þar sem t.d. fyrirtækið Hitaveita Reykjavíkur hefur verið mjög mikilvægt í tekjuöflun borgarinnar. Þess vegna þarf að finna ásættanlegan milliveg en það róaði mig töluvert þegar borgarlögmaður Reykjavíkur upplýsti að sá arður eða þær tekjur sem höfðu runnið í borgarsjóð frá Hitaveitu Reykjavíkur hefðu miðast við 5--6% vaxtagreiðslur eða miðað við eðlilega vexti af eignum og skuldum.

Ég hygg, hæstv. forseti, að þó að við skiljum við þetta svona hér og ég ítreka efasemdir mínar um hvort ekki hefði verið nauðsynlegt að skilgreina þetta betur og ítreka þann skilning minn að verið sé að setja sveitarfélögunum ákveðin takmörk, þá er ég viss um að þessi mál eiga eftir að koma upp aftur og menn munu lenda í því strax í haust. Ég vona að staðið verði við það að nauðsynlegar lagabreytingar eins og varðandi orkulög og fleira komi strax í haust þannig að þetta verði alveg skýrt og einstaklingar séu ekki að standa í kærumálum og fara jafnvel í mál við sveitarfélögin. Þetta þarf einfaldlega allt að vera mjög skýrt hvað sveitarfélögunum leyfist í þessu efni.

Þá vil ég nefna að það kom í ljós í umræðum nefndarinnar að ekki var vilji til þess að gera breytingar á 11. gr. frv. en hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur þegar lagt fram brtt. hvað það mál varðar og hann mun væntanlega gera grein fyrir henni annaðhvort í þessari umræðu eða þegar hún kemur til atkvæða en ég get tekið undir það með honum að orðalag hefði mátt vera skýrara og hefði mátt sleppa þessari upptalningu þó að ljóst sé að sveitarstjórnir geti valið að kjósa hvort þær kalla sig sveitarstjórn, hreppsnefnd eða hvað þær vilja.

Það var líka ljóst og við ræddum það reyndar afar lítið varðandi 12. gr. þar sem bent hefur verið á það við 2. umr. hvort sú takmörkun sem þar er að finna í a-lið þar sem talað er um að fjöldi sveitarstjórnarmanna skuli vera þrír til fimm, hvort það að leyfa að ekki séu nema þrír í sveitarstjórn sé ekki fulllág tala. Það var ákveðið að gera ekkert í þessu, láta þetta standa og sveitarstjórnirnar verða að ákveða það sjálfar við hvað þær miða en þriggja manna sveitarstjórn er afar lítil og hætt við að lítil umræða verði í slíkri stjórn.

Þá var töluvert rætt um endurskoðendur og nefndin velti því fyrir sér hvort rétt væri að gera breytingar varðandi þá grein í þá veru að það væri alveg ljóst að sveitarstjórnir verði að ráða sér óháða endurskoðendur, endurskoðendur sem væru ekki starfsmenn sveitarfélagsins. Því miður ákvað meiri hlutinn að gera ekki breytingar á þessari grein. Skoðun mín er sú að öll sveitarfélög eigi að ráða sér óháða endurskoðendur, sama hvort það er Reykjavíkurborg eða einhverjir aðrir og Reykjavíkurborg verður þá að breyta fyrirkomulagi sínu og fela endurskoðendum sínum fyrst og fremst það verk að annast innri endurskoðun fyrir borgina.

Það kom fram hjá borgarlögmanni, Hjörleifi Kvaran, að stigin hafi verið stór skref í þá veru að fjarlægja endurskoðanda borgarinnar stjórnsýslunni eins og hægt væri, flytja hann í annað hús og reyna að sjá til þess að hann væri ekki í daglegum samvistum við aðra starfsmenn. Að mínum dómi dugar ekki að treysta á það að endurskoðandi, ef hann er ráðinn af viðkomandi sveitarfélagi og er starfsmaður þess, teljist fullkomlega óháður. Það er einfaldast og hreinast að hafa þetta algerlega skýrt. Endurskoðendur eiga að vera algerlega óháðir. Í þessari umræðu hefur verið vísað til og staða endurskoðenda borgarinnar borin saman við Ríkisendurskoðun. Þetta er ekki á nokkurn hátt sambærilegt. Þegar Ríkisendurskoðun er að endurskoða stofnanir ríkisins úti í bæ verður að hafa það í huga að Ríkisendurskoðun heyrir undir Alþingi. Henni er stjórnað af Alþingi. Þetta er bara eitt af þeim málum sem er brýnt að hafa sem allra skýrast og ég held að menn munu verða að breyta þessu og það kom reyndar fram í bréfi sem hv. félmn. barst frá stjórn endurskoðenda. Þeir munu láta málið til sín taka og það gæti leitt til þess að starfsmenn Endurskoðunar Reykjavíkurborgar gætu hreinlega lent í vandræðum vegna þess að það er álit félagsins að það fyrirkomulag sem er hjá Reykjavíkurborg standist ekki lögin um endurskoðendur. Ég held að menn muni neyðast til að breyta þessu þó að það sé ekki vilji til þess nú.

Þá var því einnig beint til nefndarinnar að skoða ákvæði sem snýr að sameiningu sveitarfélaga. Við ræddum það afar lítið enda ljóst að ekki var vilji hjá meiri hlutanum til þess að gera breytingar en ég tek enn og aftur undir þau sjónarmið sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur sett fram um að eðlilegt sé að kjósendur í sveitarfélögum fái að kjósa aftur ef niðurstaðan verður einhver allt önnur en stefnt var að í upphaflegum kosningum. Í sjálfu sér er ekkert sem bannar þetta. Mér finnst þetta eðlileg lýðræðisleg krafa því að það sem kemur út úr fyrstu kosningum ef sameining er felld í einu sveitarfélagi þá gæti sameining hinna þriggja, ef um fjóra væri að ræða, orðið þannig að hún breytti það mikið myndinni að ekki væri lengur meiri hluti fyrir þeirri sameiningu. Ég held að það væri eðlilegt að þá væri kosið aftur eins og menn hafa gert hingað til.

Þetta voru þær greinar frv. sem við skoðuðum misjafnlega ítarlega. Það var fyrst og fremst 7. gr. og greinin um endurskoðendur sem voru ræddar ítarlega en eins og ljóst má vera þá leggur meiri hlutinn aðeins til eina breytingu við 3. umr. og það er fyrst og fremst leiðrétting á orðalagi.

Ég ætla þá aðeins að víkja að 1. gr. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta, hæstv. forseti. Eins og við heyrðum við upphaf þingfundar virðist alveg ljóst að það er enginn vilji til þess að setjast yfir málið að nýju og skoða það rækilega í ljósi allra þeirra mótmæla og þeirra funda sem hafa verið haldnir til þess að reyna að knýja á um frestun málsins. Hér er meiningin að afgreiða málið á þessu vori þrátt fyrir að mjög margir og ekki síst á höfuðborgarsvæðinu beri ugg í brjósti varðandi framtíðarskipan þessara mála og að það skuli eiga að skipta landinu upp á milli sveitarfélaganna eins og lagt er til í frv. Okkur þingmönnum hefur borist fjöldi bréfa og ályktana eftir að 2. umr. lauk og aðeins blönduðust þessi mál inn í kosningabaráttuna í Reykjavík eins og áðan kom fram.

[14:30]

Ég harma auðvitað, hæstv. forseti, að menn skuli ekki gefa sér tíma til þess að skoða þetta mál betur og reyna að komast að niðurstöðu sem fleiri geti sætt sig við. Ég ítreka það varðandi það frv. sem hér kom fram, varðandi breytingar á skipulags- og byggingarlögum, að mér finnst það koma nokkuð til móts við sjónarmið mín í þessu máli. Þó ég hefði kosið að þetta svæði væri ein stjórnsýslueining undir sameiginlegri stjórn landsmanna, þá tengdist stuðningur minn við að fara þá leið að gera breytingar á skipulags- og byggingarlögunum fyrst og fremst því að ég sá möguleika á að sætta sjónarmið sem mjög langt er á milli. Mér finnst að við verðum að halda því mjög til haga að frv. til breytingar á skipulags- og byggingarlögum verði lagt fram næsta haust og ég vona að það fái mjög skjóta meðferð þannig að það dagi ekki uppi.

Það er alveg ljóst, hæstv. forseti, að skoðanir fólks eru mjög skiptar um þetta mál. Á undanförnum vikum hefur maður varla hitt manneskju innan bæjar sem utan sem ekki hefur rætt þetta mál og haft miklar áhyggjur af því hvað verið væri að gera. Þetta tengist því að fólk hefur áhyggjur af því hvernig landið muni verða nýtt í framtíðinni, hvort hömlur kunni að verða settar á ferðir fólks um landið, hvort sveitarfélög fari að taka gjald fyrir umferð eða þjónustu á hinum ýmsu svæðum og hvernig þessum málum verði yfirleitt háttað. Að ekki sé talað um það hvort öll þessi fjölmörgu sveitarfélög sem þarna eiga hlut að máli eru þess megnug að skipuleggja og stjórna þessum svæðum, svo gott megi teljast. Það er mjög eðlilegt að fólk hafi miklar áhyggjur af þessu, fyrir utan þá sterku tilfinningu sem mjög margir hafa gagnvart hálendi Íslands, að það sé sameign þjóðarinnar eins og það hefur verið um aldir.

Hálendið hefur að mestu leyti verið almenningur sem fólk hefur farið um fyrr á öldum í ferðum milli Suðurlands og Norðurlands t.d. þegar menn riðu til Alþingis. Það hefur auðvitað verið nýtt til beitar og til einstakra hluta annarra, fyrir utan útilegumenn sem þar hafa búið tímabundið. Ég held að það sé afar sterk tilfinning hjá mjög mörgum að þetta svæði sé sameign þjóðarinnar og reyndar kemur þjóðlendufrv. nokkuð á móts við þá skoðun. Þjóðlendurnar verða skilgreindar sem eign þjóðarinnar í heild. Það er því mjög brýnt að fylgjast grannt með því hvernig farið verður með þær og hvernig þær muni tengjast skipulagsmálum að öðru leyti.

Ég fæ ekki séð, hæstv. forseti, að miklu verði breytt úr þessu með þá niðurstöðu sem hér liggur fyrir í frv. til sveitarstjórnarlaga eins og það liggur frammi eftir 2. umr. Mér sýnist ekki að miklu verði breytt. Það er ekki einu sinni hlustað á borgarstjórnarflokk Sjálfstfl. frekar en aðra sem fara þess á leit að þessum málum verði frestað og þau verði skoðuð betur. Þeim mun mikilvægara er, hæstv. forseti, að fylgjast vel með því hvernig þessum málum verður framfylgt, hvernig sveitarfélögin munu koma að skipulagsmálunum í framtíðinni, hvernig auðlindanýtingu verður háttað og hvernig hagsmunir almennings í landinu verða tryggðir, bæði í lögum og í nýtingu á þessu landi okkar sem er svo miklu meiri auðlind en menn vilja viðurkenna í dag.