Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 14:36:42 (6836)

1998-05-25 14:36:42# 122. lþ. 132.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[14:36]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki alveg fallist á það sem hv. þm. sagði um afstöðu manna til ákvæða, þess frv. sem hér liggur fyrir, um miðhálendið. Hv. þm. sagði að skoðanir væru mjög skiptar. Ég er ekki viss um að þær séu mjög skiptar nema innan þessara veggja. Þegar þetta mál var að byrja í umræðu var gerð skoðanakönnun í DV. Þar kom fram að 73% þjóðarinnar voru alfarið á móti þeim ákvæðum. Það er þó ekki það sem ég ætlaði að ræða um heldur afstaða hv. þm. til 5. mgr. 7. gr., þ.e. arðgjafarákvæðisins.

Mér finnst það vera viðurhlutamikið þegar formaður félmn. kemur hingað og lætur eiginlega að því liggja að ákvæðið, eins og það liggi fyrir, sé brot á stjórnarskránni. Mér var ekki kunnugt um það. Ég sit ekki í þessari nefnd en ég er áhugamaður um þetta ákvæði. Ég er á móti því og ég tel að það sé jákvætt að það komi fram hjá formanni nefndarinnar að hún telji að þetta sé ekki nægilega skýrt nú þegar, það þurfi að slá þetta frekar í gadda. Ég er þeirrar skoðunar.

Ég er hins vegar alfarið þeirrar skoðunar og vil að það komi fram, herra forseti, að ég er á móti framsetningu þessa ákvæðis. Ég tel að þegar sveitarfélög eru búin að greiða niður stofnkostnað við fyrirtæki sem þau eiga, með gjaldtöku fyrir þjónustu sem þau selja, þá eigi auðvitað gjaldskráin að lækka. Það á ekki að nota þetta endalaust til þess að taka skatt af íbúum sveitarfélaganna.

Með ákvæðinu eins og það liggur fyrir núna og þeirri leiðbeiningu sem kemur frá meiri hluta nefndinnar liggur fyrir að hægt er að taka sem svarar innlánsvöxtum af fjármagni sem er bundið í rekstrinum. Ég er á móti því. Þegar búið er að greiða niður kostnaðinn af þessum þjónustufyrirtækjum, þá á gjaldskráin að taka mið af því og lækka. Það á ekki að nota þetta til þess að taka fjármagn sem eins konar skatt og nota til annars konar uppbyggingar. Ég er alfarið á móti því.