Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 14:40:58 (6838)

1998-05-25 14:40:58# 122. lþ. 132.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[14:40]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þær upplýsingar sem hún færði inn í þessa umræðu. Hún segir að á fund nefndarinnar hafi komið lögfræðingur í forsrn., trúnaðarmaður hæstv. forsrh., og hann hafi dregið það í efa að frv., eins og það liggur fyrir af hendi ríkisstjórnarinnar, þar á meðal yfirmanns þessa lögfræðings, hæstv. forsrh., standist stjórnarskrá. Getur það verið, herra forseti, að hér sé ríkisstjórnin virkilega að reyna að knýja í gegn mjög umdeilt ákvæði, sem kemur ekkert við þeim deilum sem hafa að öðru leyti staðið um þetta frv., sem brýtur í bága við stjórnarskrána?

Ég skal ekki taka svo djúpt í árinni að ég fullyrði það en það hefur komið fram að lögfræðingur forsrn. telur mögulegt að þetta brjóti stjórnarskrána. Til þess að reyna að sneiða fram hjá því á að útfæra þetta ákvæði eitthvað frekar í öðrum lögum.

Herra forseti. Þetta kalla ég vinnubrögð sem hægt er að kenna við handarbak. Hér er verið að leggja til lög sem standast bersýnilega ekki þær kröfur sem verður að gera til lagasetningar. Við hljótum að gera þá kröfu til vinnubragða hins háa Alþingis að ljóst sé að lögin sem við erum að setja standist stjórnarskrána. Það liggur ekki fyrir.

Það skiptir mig ekki hætishót máli þó að það eigi að fara einhverja fjallabaksleið í einhverjum öðrum lagasetningum. Ég vil að þetta liggi alveg skýrt fyrir og ég er ósammála því að það megi nota þessi fyrirtæki, eins og hitaveitur og vatnsveitur, til þess að skapa endalaust arð fyrir sveitarsjóðina. Ég tel að það eigi frekar að láta íbúa sveitarfélaganna njóta þessa í lægri gjaldskrá. Það má auðvitað finna þarna einhvern meðalveg eins og hv. þm. sagði en ég tel að við séum að fara þarna á ranga braut. Mestu máli skiptir þó að ekki er hægt að bjóða þinginu upp á að samþykkja frv. að lögum nema algerlega sé ljóst að það stangist ekki á við stjórnarskrána.