Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 15:52:58 (6841)

1998-05-25 15:52:58# 122. lþ. 132.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[15:52]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrir hönd þingmanna þakka þennan mikla upplestur úr Morgunblaðinu.

Virðulegi forseti. Hv. þm. hefur verið að færa nokkur rök að því að það sé eðlilegt að miðhálendi Íslands verði sérstök stjórnsýsluleg heild. Ég hef fylgst með röksemdafærslu hv. þm. og annarra þeirra sem hafa talað fyrir þessu og þó ég sé ekki sammála þessu skil ég auðvitað að það er ákveðið rökrænt samhengi í þessum sjónarmiðum út af fyrir sig ef maður skoðar þetta út frá sjónarhóli hv. þm. Það sem hins vegar er athyglisvert er að hv. þm. talar eingöngu um að það sem kallað hefur verið miðhálendi Íslands eigi að vera sérstök stjórnsýsluleg heild.

En þá standa eftir ýmis önnur landsvæði. Við skulum taka t.d. hálendi á Austurlandi. Við skulum taka Glámuhálendið. Við skulum taka svæðið austan Eyjafjarðar. Við skulum taka ýmis önnur svæði, kannski í Reykjanesfólkvangi, Bláfjallasvæðið og ég vil spyrja hv. þm.: Hvers vegna talar hv. þm. fyrst og fremst fyrir þessu varðandi miðhálendið? Og ef maður les nefndarálit minni hluta félmn., af hverju er þá eingöngu talað um miðhálendið í þessu sambandi? Af hverju er ekki líka rætt um að gera þessi svæði sem ég hef nefnt að sams konar stjórnsýslulegri heild?

Mér finnst alveg augljóst mál að ef menn fylgja þeim rökum sem hv. þm. hefur flutt hér og fylgja þessum sjónarmiðum að þá leiðir það óhjákvæmilega til þess, ef maður vill vera sjálfum sér samkvæmur á annað borð, að krafan um að gera þetta svæði að sérstakri stjórnsýslulegri heild hljóti líka að eiga við um þessi landsvæði og kannski fleiri ef maður fær að rifja upp sína gömlu landafræði. Kannski á þetta við fleiri landsvæði. Ég vil spyrja hv. þm.: Hvers vegna er ekki talað um stærri landsvæði í þessu sambandi í nefndaráliti minni hlutans og mætti kannski búast við því að þessi hv. þm. vildi fylgja því eftir með því að flytja rök fyrir því sérstaklega síðar í umræðunni?