Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 15:57:22 (6843)

1998-05-25 15:57:22# 122. lþ. 132.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[15:57]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki alveg rétt hjá hv. þm. að þetta frv. fjalli um að skipta miðhálendinu milli sveitarfélaganna. Frv. fjallar um það að skipta landinu milli sveitarfélaga. Það er grunnforsenda þessa frv., þessa ákvæðis frv. sem mest hefur verið rætt hér, að landið allt eigi að skiptast á milli sveitarfélaga. Þess vegna verð ég að segja, virðulegi forseti, að mér finnst engin sérstök rök fyrir því að minni hlutinn í félmn. skuli leggja til að gera sérstaklega það sem menn hafa kallað miðhálendið að einni stjórnsýslulegri einingu eða einni stjórnsýslulegri heild.

Ef hv. þingmenn eru þessarar skoðunar ... (Gripið fram í.) Ég er að tala um 1. gr. frv. sem er auðvitað meginefni þessa frv. (Gripið fram í.) Fyrirgefðu hv. frammíkallari. Ég hef orðið hérna. Ég er að segja að ef hv. þm. vilja vera sjálfum sér samkvæmir og fylgja eftir sínum eigin rökum þá hljóta hv. þm. eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sem talað hefur af mikilli reynslu, að fylgja eftir sínum eigin málflutningi með því að leggja fram hugmyndir um að gera þau landsvæði, sem líkt er á komið og með miðhálendinu, líka að einni stjórnsýslulegri heild. Annars eru þessir þingmenn ekki sjálfum sér samkvæmir og þora ekki að fylgja eftir sinni eigin sannfæringu. Þess vegna kalla ég eftir því, virðulegi forseti, að hv. þm. útlisti nú á þessum tveimur mínútum þau helstu landsvæði sem hv. þm. vill að verði gerð að stjórnsýslulegri heild. Ég heyrði að hv. þm. nefndi sérstaklega Bláfjallasvæðið sem hv. þm. er þar með búinn að segja að eigi að gera að sérstakri stjórnsýslulegri heild. Ég spyr líka um það sem kallað hefur verið Reykjanesfólkvangurinn og ýmis önnur landsvæði sem ég held að nauðsynlegt sé að við höfum uppi á borðinu. Heyrum sjónarmið hv. þm. sem svo mjög hefur beitt sér í þessu máli.