Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 15:59:22 (6844)

1998-05-25 15:59:22# 122. lþ. 132.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, Frsm. minni hluta RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[15:59]

Frsm. minni hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil þingmanninn vel. Hann er orðinn mjög svekktur eins og aðrir sjálfstæðismenn. Ég ætla bara að segja um Bláfjallafólkvanginn að hann lýtur einni stjórn, stjórn Bláfjallafólkvangs. Það er ekki lengur þannig að Kópavogur eigi Drottningargilið og sé þar t.d. með aðstöðu sína. Það var unnið nýtt skipulag að þessu svæði. Það er algerlega á vegum þessarar stjórnar. Þetta lýtur sérstakri stjórn eins og við erum að gera tillögu um á miðhálendinu. Svæðin eru samtengd hvert öðru þannig að allar lyftur eru samreknar. (EKG: Skipt upp milli sveitarfélaganna.) Sveitarfélögin fengu bara úthlutaðan stað undir bústaði sína. Þetta er nákvæmlega eins og við erum að tala um með hálendið.

Ég bendi hv. þm. líka á frv. sem liggur fyrir um þjóðgarðinn á Þingvöllum. Það er verið að víkka mjög út það svæði sem stjórn Þingvallavæðisins á að sjá um sem er náttúrlega þjóðgarðurinn á Þingvöllum. Það á að víkka það mjög út. Þeir eiga líka að hafa afskipti af beitarmálum, hvað þá heldur öðru.

Við höfum talað einni röddu. Að sjálfsögðu mundum við vera til í að skoða önnur svæði. En það er miðhálendið sem hefur ekki verið undir sveitarfélögum sem á núna að skipta upp til jökla og þess vegna höfum við barist fyrir því að það gerist ekki. Ef það þarf að taka einhver önnur svæði frá sveitarfélögunum þá er ég tilbúin að skoða það með þingmanninum. En þar sem ekki tekst einu sinni að afstýra því að landi sem ekki tilheyrir sveitarfélagi verði skipt upp þá tel ég varla að auðsótt verði að taka svæði frá öðrum. En þau sem hann hefur nefnt eru öll undir einni stjórn eins og ég hef getið um, Bláfjallafólkvangurinn, Sléttuhreppurinn o.s.frv.