Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 16:01:26 (6845)

1998-05-25 16:01:26# 122. lþ. 132.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[16:01]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Hér er komið til 3. umr. eins og fram hefur komið hið umdeilda frv. ríkisstjórnarinnar til sveitarstjórnarlaga þar sem m.a. á að skipta hálendinu á milli 40 sveitarfélaga, svokallað tertusneiðafrv. Um er að ræða um það bil 40% af Íslandi og í þeim sveitarfélögum sem eiga að fara með stjórn svæðisins búa í kringum 5% þjóðarinnar. Allir aðrir, þ.e. íbúar höfuðborgarsvæðisins og þeirra svæða sem liggja ekki að þessu svæði eiga að hafa hverfandi áhrif þar á en það er kannski ekki meginmálið heldur hitt að með þessu á að kljúfa miðhálendið upp í mismunandi stjórnsýslueiningar og mismunandi skipulagssvæði þannig að það verður enginn einn aðili sem mun hafa þar heildarstjórn.

Herra forseti. Við kvennalistakonur eigum ekki fulltrúa í félmn. en ég ræddi þetta frv. og þessi sérstöku ákvæði sérstaklega í allshn. í tengslum við þjóðlendufrv. og skyldleika þessara frv. eins og fram kom í 1. og 2. umr. um þetta mál í ræðum mínum. Þegar ég ræddi þetta mál óskaði ég eftir því að heyra álit sveitarstjórnarmanna af höfuðborgarsvæðinu á bráðabirgðaákvæði þessa frv. (KÁ: Hér er einn slíkur.) Hér er einn slíkur, já, hann er reyndar ekki í salnum, einn varaþm. en þá var upplýst að Samband ísl. sveitarfélaga gerði ekki athugasemdir við þetta frv. Rökin voru einhvers konar samningur sem væri í bígerð um skipulagslög samanber frv. sem var síðan dreift á Alþingi en fékkst ekki að ræða. Mér fannst þessi afstaða mjög sérkennileg af hálfu sveitarstjórnarmanna ekki síst af höfuðborgarsvæðinu þó að skiljanlegra væri að Samband ísl. sveitarfélaga væri hálfklofið í málinu þar sem hagsmunir hinna mismunandi sveitarfélaga fara ekki saman. Þess vegna gladdist ég mjög þegar fram kom nokkru fyrir kosningaryfirlýsing frá Sambandi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þar sem mælt var með því að málinu yrði frestað til hausts og skoðað betur vegna mikillar andstöðu við málið á meðal borgarbúa, þ.e. það var mælt með að fresta málinu til hausts, það þyrfti mun meiri kynningar við.

Mér kom því nokkuð á óvart að heyra yfirlýsingu frá borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna á kjördag. Þó að Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hefði mælt með því að þessu yrði frestað og ég sem þingmaður Reykvíkinga hefði vissulega fundið þann þunga tón og þær sterku skoðanir sem Reykvíkingar bera til þessa frv. þá kom yfirlýsing þessi á óvart um að nauðsynlegt sé að fresta þessu máli.

Á kjördag kemur svo yfirlýsing frá borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna og ég hugsa með mér: Loksins, loksins. Rök borgarstjórnarflokks Sjálfstfl. og Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu eru að mínu mati góð og gild samanber málflutning okkar kvennalistakvenna og jafnaðarmanna í þinginu en pólitískt er mjög umhugsunarvert hvað þarna var að gerast.

Ég lít svo á og ekki síst eftir þá umræðu sem átti sér stað í upphafi þingfundar í dag að þarna hafi verið í gangi ábyrgðarlaus blekkingartilraun við kjósendur, blekkingartilraun þar sem upplýst hefur verið að sá frambjóðandi sem valdið hefur til að fresta frv. kannast ekkert við að hafa staðið að yfirlýsingunni og ætlar ekki að verða við því að fresta málinu. Þeir sem biðja um traust hafa ekki einungis verið uppvísir að leðjuslag og persónuníði í kosningabaráttunni heldur hafa þeir komið á sjálfan kosningadaginn með yfirlýsingu sem engin innstæða er fyrir.

Hvers vegna var gripið til þessa ráðs af hálfu borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna? Jú, vegna þess að kjarni málsins er sá að þetta mál mætir þvílíkri andstöðu meðal borgarbúa að fólk getur ekki sætt sig við að það eigi að kljúfa miðhálendið upp í sneiðar og þá ætlaði þessi borgarstjórnarflokkur að nýta sér málið sér til framdráttar og lofa breytingu. En, nota bene, bara ef þeir vinna. Þetta tekur leiðarahöfundur Morgunblaðsins skýrt upp í blaðinu í gær. Nú hefur forsrh. upplýst að hann sem frambjóðandi hafi aldrei ætlað að verða við því að standa við þetta loforð hvort sem Sjálfstfl. hefði unnið eða ekki. Þjóðin átti sem sagt að sitja uppi með það að hugsanlega verði þessu frv. ekki frestað vegna þess að borgin vannst ekki af sjálfstæðismönnum. En forsrh. upplýsti áðan að það var alls ekki málið og hæstv. utanrrh. tók undir að það hefði aldrei komið til tals að fresta þessu máli.

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að fara nánar út í þennan leiðara Morgunblaðsins frá því 24. maí, frá því í gær, en það var gert ítarlega áðan af hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur. Þar er réttilega vitnað í góðan vísindamann um þessi mál þar sem talað er um hversu tilfinningabundin afstaða landsmanna er til hálendisins. Mörgum finnst frelsi þeirra verulega skert ef á að fara að bítast um það af 40 sveitarfélögum og Morgunblaðið tekur réttilega þá afstöðu að kjarni málsins sé sá að það verði að skoða þetta mál mun betur og þess vegna beri að fresta því til haustsins. Ég tek heils hugar undir þessa afstöðu Morgunblaðsins og vona að það verði fleiri sem vitkist og þar á ég að sjálfsögðu við stjórnarmeirihlutann á Alþingi.

Herra forseti. Ég hef sjaldan fundið fyrir jafnmiklum tilfinningahita hjá fólki út af nokkru máli. Það heftir frelsistilfinningu fólks að hugsa um að hálendinu verði skipt niður í 40 sneiðar og í fyrri ræðum mínum um þessi mál vitnaði ég bæði í málflutning Steinunnar Sigurðardóttur skáldkonu og Illuga Jökulssonar pistlahöfundar hjá Ríkisútvarpinu og ég ætla að leyfa mér aðeins að koma aftur inn á örfá orð sem Illugi Jökulsson sagði í einum sinna pistla og vitna beint í hann, með leyfi forseta:

,,Ef tekst að varðveita hálendi Íslands mun það verða okkar stærsta og mesta auðlind í framtíðinni og þá er ég sem sagt að tala um næstu þúsund ár og þegar ég segi auðlind á ég ekki við gróðalind. Ég á ekki við að við getum lifað eins og blómi í eggi hér niðri á láglendinu, á höfuðborgarsvæðinu, og grætt á tá og fingri á að selja einhverjum útlenskum bjánum aðgang að óbrúuðum ám og hrikalegum fjöllum þótt nú þegar séu innibyrgðir Evrópubúar og Ameríkumenn og Japanar tilbúnir að borga stórfé fyrir að sleppa stundarkorn úr stórborgum sínum og tilbúna umhverfi. Nei, ég er ekki að tala um gróðann sem við getum haft af hálendinu heldur er ég hreint og beint að tala um okkur sjálf, um geðheilbrigði íslensku þjóðarinnar sem mun velta á því eftir þúsund ár að við getum komist út undir bert loft, sloppið undan múrum okkar sjálfra og eygt undankomuleið þótt við höfum svo sem ekkert að flýja.

En skipulagsþrá mannsins er líka sterk, sú hvöt að rotta sig saman og byggja eitthvað til að fela sig inni í, sú þrá sem varð til þess að hinir fyrstu múrar voru reistir í Jeríkó og hefur allar götur síðan togast á við þörfina fyrir víðáttuna. Nú hefur skipulagsþrá mannsins teygt sig inn í hálendi Íslands og þar er stórkostleg hætta á ferðum ef skipulagt verður um of, ef reistar verða virkjanir, vegir, hús og brýr, háspennulínur og hótel, sem sé einir múrarnir enn. Eftir þúsund ár verða ósnortin eða lítt snortin svæði ansi fá eftir í veröldinni, og núna stendur okkur til boða að varðveita eitt slíkt svæði sem getur ekki einungis orðið börnunum okkar tekjulind í ferðamennsku heldur getur líka og miklu frekar orðið barnabarnabarnabarnabarnabörnum okkar undankomuleið í ofskipulögðum heimi.``

Síðar segir pistlahöfundur: ,,Mikið væri nú gaman ef það kæmi í ljós að víðernið á Íslandi gerði mönnum kleift að hugsa stórt og langt fram í tímann, þúsund ár eða jafnvel 10 þúsund ár og að menn gætu þá hugsað hlýlega til þeirra Íslendinga sem sáu út fyrir múrana og áttuðu sig á þörf sálarinnar fyrir ósnortinn sjóndeildarhring og víðernið í sjálfu sér.``

[16:15]

Ég ætla að láta þetta nægja, herra forseti, til að tjá þann ugg sem ég hef vegna þess frv. sem nú á að fara að samþykkja.

Við þingmenn höfum undanfarna daga fengið mörg skeyti frá almenningi, m.a. frá náttúruverndarsamtökum, sem hafa barist af miklum krafti gegn því að þetta frv. verði lögfest. Ég vil nefna eitt bréf sem er til ríkisstjórnarinnar og er áskorun um frestun á afgreiðslu frv. til sveitarstjórnarlaga en þar segir m.a.:

,,Við undirritaðir fulltrúar ýmissa félaga og félagasamtaka skorum því á ríkisstjórnina að fresta afgreiðslu þeirrar breytingar á sveitarstjórnarlögunum sem skiptir jöklum og öræfum milli 42 lítilla sveitarfélaga og sviptir yfir 90% þjóðarinnar þeim rétti til miðhálendisins sem hún hefur haft fram til þessa, samanber forn lög og dóma. Sumarið verði notað til að finna málamiðlun er þjóðin öll geti sætt sig við og hún kynnt rækilega. Við vörum eindregið við því að keyra málið í gegnum þingið nú á síðustu dögum þess í ljósi þeirrar gífurlegu andstöðu sem er að skapast í þjóðfélaginu en almenningur er fyrst nú að átta sig á því hvað er að gerast.``

Þetta er undirritað af fulltrúum frá Sambandi ísl. myndlistarmanna, Félagi leiðsögumanna, Skotveiðifélagi Íslands, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Landvarðafélagi Íslands, Félagi ísl. ferðaskrifstofa, Arkitektafélagi Íslands, Íslenska fjallahjólaklúbbnum, Skipulagsfræðingafélagi Íslands, Félagi nýlistasafnsins, Landssambandi ísl. vélsleðamanna og Ferðafélagi Íslands.

Hér eru mörg almannasamtök að fara fram á að hlustað verði á þau á sama hátt og borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna er að biðja um það en allt kemur fyrir ekki. Það á að keyra málið í gegn. Það er greinilega mikið kappsmál hjá ríkisstjórninni að koma þessu máli í gegn.

Annað bréf er hérna frá Ásgeiri Þ. Kristjánssyni sem óar við því að það eigi að skipta hálendinu upp á milli ýmissa yfirvalda í fleirtölu og segir m.a. í sínu bréfi:

,,Það er því nauðsynlegt að frumvarp það til breytinga á skipulagslögum sem boðað hefur verið með haustinu miði að því að tryggja heildstætt skipulag hálendisins og að einn málsaðili fari með aðalskipulagsvald fyrir það allt. Hálendið er perla og við megum ekki glata töfrum þess með vanhugsuðum aðgerðum.``

Herra forseti. Ég ætla ekki að vitna í fleiri bréf en það er alveg ljóst að ég bjóst við að nú væri kominn sá dagur að boðuð yrði frestun á þessu frv. Ég varð því fyrir miklum vonbrigðum í dag að heyra að svo er ekki. Reyndar liggur fyrir brtt. sem því miður er ekki frá meiri hlutanum heldur frá minni hlutanum, brtt. sem Rannveig Guðmundsdóttir og fleiri leggja fram og ég og við kvennalistakonur munum að sjálfsögðu styðja. Þar er lagt til að 1. mgr. 1. gr. laganna og ákvæði til bráðabirgða, þ.e. umdeildustu greinar þessa frv., verði felldar brott. Ég styð það heils hugar eða að þessu máli verði frestað.

Auðvitað væri affarasælast að fresta frv. ekki bara til haustsins heldur breyta því þannig að miðhálendið verði eitt skipulagssvæði eða stjórnsýslusvæði. Það virðist ekki eiga að vera reyndin hér. Ég tel mikilvægt að miðhálendið verði ein stjórnskipuleg heild, ekki síst vegna uppbyggingar í ferðaþjónustu, þannig að ekki verði ráðist í framkvæmdir án heildaryfirsýnar. Með slíku háttalagi er mjög mikil hætta á að hin ósnortnu víðerni hálendisins hverfi eða verði ekki ósnortin um aldur og ævi eins og annars væri hægt að tryggja.

Herra forseti. Eins og fram kom áðan sit ég ekki í félmn. og við kvennalistakonur eigum ekki fulltrúa þar nú. Mér fannst hins vegar mjög athyglisvert að fylgjast með umræðunni áðan, um 7. gr. frv. og þá umræðu sem hefur átt sér stað á milli 2. og 3. umr. um það mál. Mér finnst mjög athyglisvert að heyra frá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur að það sé ekki alveg ljóst hvort þessi grein standist ákvæði stjórnarskrárinnar. Ég hef því verið að skoða stjórnarskrána núna, áður en ég kom í ræðustól. Af því virðist mér ljóst að þarna sé um að ræða 77. eða 78. gr. stjórnarskrárinnar. Í 77. gr. segir:

,,Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.

Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.``

Í 78. gr. segir:

,,Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða.

Tekjustofnar sveitarfélaga skulu ákveðnir með lögum, svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir.``

Herra forseti. Mér virðist að hér sé hugsunin sú að koma lagastoð t.d. undir arðgreiðslur Reykjavíkurborgar vegna Landsvirkjunar en mér sýnist alls ekki ljóst af þessum stjórnarskrárgreinum hvort þetta form sem hér er lagt til gengur. Þó að málefnið sjálft sé vissulega umdeilanlegt, þ.e. hvort heimila eigi sveitarfélögum að ákveða sér eðlilegan afrakstur af því fjármagni sem bundið er í rekstri þeirra, þá tel ég hitt mun alvarlegra, ef hér á að fara að lögfesta ákvæði sem hugsanlega brýtur gegn 77. eða 78. gr. stjórnarskrárinnar.

Ég vil þó segja eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir að við kvennalistakonur munum væntanlega sitja hjá við langflestar greinar þessa frv. fyrir utan þær sem við erum alfarið á móti. Þessi ákvörðun mun því að sjálfsögðu verða alfarið á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. (KÁ: Þetta er 3. umr. um málið.) Já, já, 2. umr. er lokið, en lögfestingin er eftir. (Gripið fram í.) Já, já, lögfestingin er eftir og mér finnst það mjög alvarlegt ef við ætlum að lögfesta mál sem hugsanlega brýtur í bága við stjórnarskrána. Þótt 2. umr. sé búin og búið að samþykkja þessa grein, þá á eftir að lögfesta málið. Mér var ekki kunnugt um það að þessi álitamál væru uppi. Það er það sem ég er að segja, hv. þm. Mér finnst mjög alvarlegt ef hér á að fara að lögfesta þetta frv. eftir að fram hafa komið, á milli umræðna, efasemdir um að þetta standist stjórnarskrána.

Mér finnst fróðlegt að heyra að það sé búið að vinna töluvert í málinu á milli 2. og 3. umr., en samt orkar það enn tvímælis hvort þessi grein standist stjórnarskrána. Það er því alveg ljóst að þetta frv. á að fara í gegnum þingið óbreytt eða lítið breytt þrátt fyrir mótmæli okkar stjórnarandstæðinga og fjölmargra frjálsra félagasamtaka og einstaklinga sem mótmæla því af heilum hug. Það á ekki einu sinni að taka mark á borgarstjórnarflokki Sjálfstfl. í þessum efnum, jafnvel þó að hæstv. forsrh. sé samtímis í þeirra flokki og sjálfskipaður 1. flm. þessa ríkisstjórnarfrv.

Hæstv. forsrh. getur auðvitað orðið við þessari bón, þ.e. að fresta málinu til haustsins, en ætlar sér ekki að gera það. Á sama tíma biður hæstv. forsrh. um traust. Þessi málflutningur, herra forseti, er ekki trúverðugur, svo ég grípi ekki til stóryrða sem mér fyndist í raun viðeigandi í þessu máli.

Herra forseti. Við kvennalistakonur höfum reynt að koma því á framfæri í þessari umræðu að miðhálendi Íslands eigi að vera ein skipulagsleg og stjórnsýsluleg heild. Við munum beita okkur fyrir því á næsta þingi og fyrir næstu kosningar, að breyta þessum ákvæðum ef þau verða lögfest nú.