Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 17:35:13 (6848)

1998-05-25 17:35:13# 122. lþ. 132.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, KPál
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[17:35]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Stjórnarandstaðan heldur áfram að ræða um skipulagsmál miðhálendisins í sama misskilningi og verið hefur frá því að þetta frv. kom til afgreiðslu í þinginu. Það er reyndar þannig, herra forseti, að upphaflega voru stjórnarandstæðingar ekki svo mjög á móti þessu frv. Stjórnarandstæðingar áttuðu sig hins vegar á því, þegar aðeins fór að líða á umræðuna, að það voru ýmis sérhagsmunafélög á höfuðborgarsvæðinu sem höfðu horn í síðu þess og höfðu áhuga á því að koma sínum sérstöku sjónarmiðum að. Því var talið nauðsynlegt að stoppa þetta frv. ellegar koma því til einhverrar sérstakrar skoðunar sem taka mundi ótilgreindan tíma.

Þessu hafa hv. þm. klifað á eins og hv. þm. jafnaðarmanna, Svanfríður Jónasdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir. Þær hafa talað um að forða slysi, eins og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir sagði áðan, og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði að stjórnarmeirihlutinn væri uppteknari af valdinu heldur en traustinu.

Það virðist aldrei vera of oft rifjað upp að þegar stjórnarmeirihlutinn er að tala um skipulag á miðhálendinu, þá eru þeir að tala um að ákveðið stjórnskipulegt kerfi sem er við lýði og er þrautreynt hjá sveitarfélögum, í sýslum og á heilbrigðissvæðum, sem í sjálfu sér gefur enga ástæðu til þess að efast um að geti virkað á miðhálendinu eins og í þéttbýlinu eða í byggð, þar sem völd þeirra eru í dag. Ég sé því ekki nokkra ástæðu til þess að vantreysta þessum aðilum til þess að sjá um miðhálendið frekar en sjá um það land sem þeir sjá um í dag. Þess vegna spyr ég hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur hvort hún vantreysti eða telji að Skagfirðingar, sem telja 3.000 manns og eiga land að miðhálendinu, gætu orðið valdir að slysi. (SvanJ: Í andsvari?) Ég spyr hana einnig að því, og hún gæti hugsanlega svarað því síðar, ef hún kærir sig um í andsvari, en ég bara spyr hv. þm. jafnaðarmanna yfirleitt að því hvort þeir telji að Skagfirðingum, Hornfirðingum, Egilsstaðabúum, Borgarbyggðar- eða Húnavatnssýslufólkinu sé ekki treystandi til þess að sjá um skipulag miðhálendisins.

Þetta eru nokkuð alvarlegar ásakanir sem stjórnarandstaðan hefur uppi á þessi sveitarfélög. Auðvitað eru til sveitarfélög sem eru fámenn en flest sveitarfélögin, sem eiga langstærsta landið að þessu miðhálendi, eru með íbúafjölda sem telja hundruð og jafnvel þúsundir eins og Skagafjörður með 3.000 íbúa. Hornafjörður er með 2.500, Egilsstaðir 2.000 og svo mætti lengi áfram telja.

Stjórnsýslukraðakið sem sífellt hefur verið klifað á hér, yrði ekki til þess að koma í veg fyrir eðlilega nýtingu hálendisins eða eðlilegt eftirlit. Það byggir á því að heilbrigðissvæðin eru 5 en sveitarfélögin eru 35. Löggæslusvæðin eru 9 og byggingarfulltrúar eru mun færri en sveitarfélögin. Svokallað stjórnsýslukraðak, sem hefur verið haldið hátt á lofti af hv. stjórnarandstöðu, er byggt á mjög léttvægum rökum og í raun til þess eins notuð að slá ryki í augun á almenningi á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og ég hef áður sagt í umræðunni hefur tekist býsna vel að telja fólki trú um að hér sé verið að taka völdin af fólkinu, taka landið af fólkinu á höfuðborgarsvæðinu og ræna því einhverjum rétti en allt þetta eru bein rangindi og það mun síðar koma í ljós, þegar ríkisstjórnin fer að kynna þetta mál, sem ég vænti að verði gert með þeim hætti að hægt sé að sjá þetta auðveldlega og að erfitt verði að snúa út úr því með þeim falsrökum sem hér hafa verið viðhöfð af hv. stjórnarandstöðu. Þá mun hið sanna koma í ljós, herra forseti.

Ég ætla ekki að tefja meira við þetta sérstaka atriði, þ.e. skipulag miðhálendisins og hina ótrúlegu umræðu stjórnarandstöðunnar, heldur vil ég með örfáum orðum minnast á fáein atriði sem komu til sérstakrar umræðu í félmn. Annars vegar eru það arðgreiðslur, sbr. 7. gr., og endurskoðun á 68. gr. sveitarstjórnarfrv.

Það var tekið sérstaklega til umfjöllunar í nefndinni, hvaða skilning menn legðu í orðalagið ,,eðlilegar arðgreiðslur``. Eins og komið hefur fram var haft samband við yfirmenn Reykjavíkurborgar og þeir fengnir á fund til að ræða þetta og átta sig á þeirra skilningi á þessu hugtaki. Eftir því sem fram kom hjá þeim eru eðlilegar arðgreiðslur af þeirra hálfu taldar vera um það bil 6% eins og skilgreint er eða samkvæmt þeim skilgreiningum sem koma fram í vatnalögum, nr. 15/1923. Í 62. gr. þeirra laga, 3. tölul., stendur svo, með leyfi forseta:

,,Ef árstekjur af orkuveitu verða meiri en árskostnaður af henni, að meðtalinni hæfilegri fyrningu, er heimilt að láta afganginn renna í sjóð héraðsins.``

Hinn hlutinn af því máli, herra forseti, sem við erum að ræða um er tekjuafgangur:

,,Nú nemur tekjuafgangur sá, sem þannig er ráðstafað, meira en 10% af tekjuupphæð þeirri allri, sem komið hefir inn samkvæmt gjaldskrá fyrir notkun orkuveitunnar yfir árið, og eiga notendur utanhéraðs þá rétt til endurgreiðslu á því, sem umfram verður, að sínum hluta.``

Arðurinn er talinn eðlilegur á bilinu 6--7% og hefur aldrei verið hærri en rúmlega 6%. Ég persónulega og meiri hluti nefndarinnar, telur eðlilegt að fyrirtæki sveitarfélaga geti greitt arð inn í sveitarsjóðina nákvæmlega eins og fyrirtæki greiða arð til félagsmanna sinna og þess vegna sé ekkert óeðlilegt við það að þetta ákvæði sé þarna inni. Spurningin er aftur hvernig skilgreina eigi ákvæðið og hvort það sé nægjanlega sterkt til þess að ekki sé hægt að rengja það eða telja að brotinn sé réttur í stjórnarskrá.

Til þess að styrkja ákvæðin enn er meiningin að orkulög og lög um vatnsveitu verði styrkt þannig að enginn vafi sé á því að það fullnægi ákvæðum stjórnarskrár. Ég minni á að arður hefur verið greiddur úr fyrirtækjum borgarinnar og sveitarfélaga áratugum saman án þess að nokkrar efasemdir hafi verið um réttmæti þess fyrr en á allra síðustu árum.

Varðandi þetta atriði vil ég segja að það upplýstist í hv. félmn. að Reykjavíkurborg eða Hitaveita Reykjavíkur og rafmagnsveitur eru í sérstökum samningaviðræðum við Hafnfirðinga um hlut þeirra í arði þessara stofnana, í samræmi við söluna til Hafnfirðinga, og þeirra hlut í þeim arði sem hingað til hefur runnið óskiptur til Reykjavíkurborgar. Hér er u.þ.b. 10 millj. kr. á ári eftir því sem upplýst hefur verið. Einnig er það hugmynd Reykjavíkurborgar að semja við Garðbæinga um sambærilegan hlut í arðgreiðslum hitaveitna og rafmagnsveitna til Reykjavíkurborgar. Að að þessu leyti yrði farið eftir 62. gr. vatnalaga og er það í mjög eðlilegum farvegi.

Kópavogur hefur ekki verið inni í þessari umræðu. Kópavogsbúar áttu eignarhlut í hitaveitunni en seldu hann. Ég lít svo á að það hafi ekki áhrif á rétt þeirra til þess að fá hlut af þessum arðgreiðslum. Hinir bæirnir eiga í sjálfu sér ekki hlut í hitaveitunni. Þeir eru einungis viðskiptavinir og samkvæmt 62. gr. eiga þeir rétt á hlut af arðgreiðslum og Kópavogsbúar ættu að eiga það einnig, þó að þeir hafi selt eignarhlut sinn í hitaveitunni fyrir nokkrum árum síðan. Ég vildi því að það kæmi skýrt fram, herra forseti, að Kópavogsbúar fái sama rétt í arðgreiðslum sem önnur sveitarfélög í viðskiptum við hitaveituna.

Það sem ég vildi svo að lokum nefna, herra forseti, er endurskoðunin samkvæmt 68. gr. Sérstaklega var skoðað hvort hægt væri eða eðlilegt að banna endurskoðun sem væri á ábyrgð sveitarfélagsins sjálfs. Það eru tvö sveitarfélög, stærstu sveitarfélögin, Reykjavíkurborg og Hafnarfjörður, sem reka sínar eigin endurskoðunarskrifstofur og endurskoða ársreikninga sveitarfélaganna. Það hefur verið gagnrýnt en hafa ber í huga að endurskoðunardeildir þessara stærstu bæja landsins heyra samkvæmt skipuriti beint undir annars vegar borgarstjórn, en ekki borgarráð eða borgarstjóra, og í Hafnarfirði heyrir þetta beint undir bæjarstjórn Hafnarfjarðar en ekki bæjarráð eða bæjarstjóra. Þetta er því slitið alveg frá embættismannakerfinu þó það heyri undir bæjarstjórnina í heild sinni.

Út af fyrir sig má því segja að þarna hafi náðst að einangra þetta nokkuð vel, enda hafa ekki, eftir því sem upplýst hefur verið, verið neinar efasemdir um að endurskoðun þessara bæja hafi verið heiðarleg. Auðvitað er þetta veikt, að bæjarfélögin reki sína eigin endurskoðendur og endurskoði sína reikninga. Eigi að síður getum við séð að þetta hefur gengið þokkalega. Athugasemdirnar, herra forseti, þóttu fullseint fram komnar til að hægt væri að breyta þessu því að þessar endurskoðunardeildir eru stórar í rekstri sveitarfélaganna, hafa verið að byggjast meira og meira upp og það þarf langan tíma til að aðlaga þá starfsemi breyttum aðstæðum svo vel fari. Menn voru því ekki tilbúnir til þess að breyta þessu með svo skömmum fyrirvara.

Ég vil að lokum segja það um þetta mál, herra forseti, að auðvitað væri eðlilegast í framtíðinni að þessi endurskoðun yrði hjá óháðum aðila úti í bæ eins og gengur og tíðkast hjá öllum öðrum sveitarfélögum landsins.