Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 17:55:05 (6852)

1998-05-25 17:55:05# 122. lþ. 132.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[17:55]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að hv. þm. hefur engin önnur rök í málinu en að fresta. Það þarf sem sagt að leita að einhverjum frambærilegum rökum svo að hægt sé að segja að málið hafi ekki verið nægjanlega vel undirbúið.

Almannahagsmunir hafa fram að þessu verið tryggðir með því að kjósa í sveitarstjórnir og kjósa á þing. Sveitarstjórnir hafa séð um almannahagsmuni og hv. þm. hefur setið í sveitarstjórnum. Ég furða mig dálítið á þeim málflutningi sem kemur frá sveitarstjórnarmönnum hér, sumum hverjum, að vera sífellt að klifa á því að hagsmuna þjóðarinnar sé ekki gætt, almannahagsmunir verði ekki virtir og einungis sé verið að hugsa um einhverja sérhagsmuni. Það er einmitt ekki verið að því. Það er verið að tryggja að almannarétturinn verði virtur og að fulltrúar sem kjörnir eru af fólkinu verði gerðir ábyrgir fyrir því að þessi mál séu höfð þannig að allir geti vel við unað.

Ég vil svo einnig minna hv. þm. á það eina ferðina enn að skipulag almennt eins og um er talað í 12. gr. skipulags- og byggingarlaga, að sérstök breyting á því ákvæði hefur verið lögð fram í þinginu sem á að ræðast nánar í haust. Það ákvæði á að styrkja grunninn varðandi svæðaskipulagið þannig að það sé ekki aðeins heimild fyrir því, eða heimildarákvæði ráðherra, að skipa svæðisskipulagsnefnd heldur er það skylda.

Það er líka hægt að setja inn í þetta ákvæði hverjir sitji í þeirri nefnd sem skipuð verður af ráðherra nk. haust. Í mínum huga hefur það verið opið hverjir það væru. Það geta verið fleiri en um er talað í þeirri tillögu sem liggur frammi en það verður rætt nánar í haust. Ég sit í þeirri nefnd og vænti þess að við reynum að gæta þeirra almannahagsmuna sem skipta máli.