Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 17:57:30 (6853)

1998-05-25 17:57:30# 122. lþ. 132.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, SvG
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[17:57]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir það sem fram kom í dag hjá hv. 17. þm. Reykv. varðandi meginsjónarmið í þingflokki okkar í þessum málum. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta. Ég ætlaði þó að koma á framfæri sjónarmiðum sem mér finnst að þurfi kannski að vera í þingtíðindum áður en þessu máli lýkur af minni hálfu. Það er þá fyrst sá ótrúlegi loddaraleikur sem leikinn hefur verið af hálfu forustumanna Sjálfstfl. í Reykjavík á undanförnum dögum.

Í Morgunblaðinu á kjördag birtist eftirfarandi frétt, með leyfi forseta:

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins til borgarstjórnar í Reykjavík samþykktu á fundi sínum í gær að skora á ríkisstjórnina að ljúka ekki afgreiðslu frumvarpa um skipan mála á miðhálendinu þegar þing kemur saman að loknum sveitarstjórnarkosningum heldur fresta henni til haustsins. Frambjóðendurnir sendu svohljóðandi tilkynningu á ritstjórn Morgunblaðsins í gærkvöldi:

,,Á fundi sínum í dag samþykktu frambjóðendur Sjálfstfl. til borgarstjórnar Reykjavíkur eftirfarandi:

,,Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins til borgarstjórnar í Reykjavík skora á ríkisstjórnina að ljúka ekki afgreiðslu frumvarpa um skipan mála á miðhálendinu, þegar þing kemur saman að loknum sveitarstjórnarkosningum, heldur fresta henni til haustsins. Við teljum almenn viðbrögð sýna, að þörf er á auknu ráðrúmi og víðtækari umræðu utan þingsins um þetta mikla hagsmunamál. Við teljum mikilvægt að hagsmunir þeirra landsvæða, sem ekki liggja að hálendinu, þar á meðal Reykjavík, verði vel tryggðir. Við heitum því að beita okkur fyrir því af alefli --- náum við meiri hluta í borgarstjórn --- að þjóðarsátt verði um þetta mikla hagsmunamál allra landsmanna.````

Með öðrum orðum, herra forseti, sagði þessi hópur að hann mundi beita sér fyrir því, ef hann næði meiri hluta, að málinu yrði alveg örugglega frestað. Hann reyndi með öðrum orðum að beita fyrir þessa litlu hagsmunahópa sem hv. þm. Kristján Pálsson var að lýsa áðan fyrir kosningarnar með því að segja: Ef við náum meiri hluta getið þið treyst því að við stoppum málið.

Þetta er satt að segja ómerkilegasta samþykkt sem nokkru sinni hefur verið gerð því að það er svo augljóst að á bak við hana er hræsnin einber og ekkert annað eins og fram kom í skoðanaskiptum við hæstv. forsrh. í dag.

[18:00]

Herra forseti. Það var ekki nóg með það heldur var talin ástæða til þess, af ritstjórum Morgunblaðsins, að fagna sérstaklega þessari samþykkt. Í leiðara Morgunblaðsins í gær, sunnudaginn 24. maí, segir t.d., með leyfi forseta:

,,Þetta sjónarmið hins virta vísindamanns [þ.e. Svend-Aages Malmbergs hagfræðings] fékk stuðning úr óvæntri átt eins og sjá mátti hér í blaðinu í gær. Á fundi frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins til borgarstjórnar í fyrradag samþykktu þeir svohljóðandi yfirlýsingu, sem birt var í Morgunblaðinu í gær:``

Síðan er yfirlýsingin birt í heild í leiðaranum. Það er mjög sjaldgæft. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Ekki fer á milli mála, að þessi yfirlýsing er gefin vegna þess, að frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins hafa orðið þess varir í kosningabaráttunni, að mikill fjöldi fólks hefur þungar áhyggjur af því að þau frumvörp, sem nú liggja fyrir Alþingi, og þá sérstaklega frumvarp að sveitarstjórnarlögum, verði samþykkt. Það er mikil og djúpstæð andstaða við þær hugmyndir, að sveitarfélögin, sem land eiga að hálendinu, hafi skipulagsrétt yfir ákveðnum svæðum. Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins hafa bersýnilega fundið að það er varasamt, svo að ekki sé sterkar til orða tekið, að samþykkja þessi ákvæði óbreytt.

Þessi yfirlýsing verðandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er mikilvægt framlag til þeirrar baráttu, sem nú er háð um málefni miðhálendisins. Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins er ekki lítið afl innan flokksins,`` --- takið eftir því, herra forseti. Það er að vísu ekki með stórum staf, flokksins, en það liggur við --- ,,hvort sem hann er í meiri hluta eða minni hluta í borgarstjórn. Vonandi taka þingmenn Sjálfstæðisflokksins mið af því, sem flokksfélagar þeirra í borgarstjórn hafa um þetta að segja.

Kjarni málsins er þó sá að andstaðan við afgreiðslu hálendisfrumvarpanna er svo mikil að það er ekkert vit í því, fyrir stjórnarflokkana, að knýja á um að þau verði samþykkt að óbreyttu. Miðhálendið og varðveisla þess er mikið tilfinningamál fyrir þjóðina, eins og Svend-Aage Malmberg réttilega segir. Það er hyggilegt fyrir meiri hluta Alþingis að fara sér hægt í þessu máli, enda skiptir engu um framtíð þessa landsvæðis, þótt frekara svigrúm gefist til umræðna um málið á meðal þjóðarinnar.``

Í dag, herra forseti, spurði ég hæstv. forsrh. að því hvort hann hefði verið aðili að þessari áskorun og hvort hann mundi ekki verða við áskoruninni frá frambjóðendum Sjálfstfl. Hann vísaði því algerlega á bug. Hann sagði að hann væri álíka áhrifalítill í Sjálfstfl. og Gylfi Þ. Gíslason, með mikilli virðingu fyrir honum, á Reykjavíkurlistanum. Mér finnast það athyglisverðar upplýsingar um stöðu formanns Sjálfstfl. ef þetta væri rétt sem það er auðvitað ekki.

Daginn áður en þessi frétt birtist, um frambjóðendur Sjálfstfl., birtist gul heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu. Yfir henni stendur einhvers staðar: Traust. Þar er stór mynd af þeim ágæta manni Árna Sigfússyni og hverjir skyldu nú skrifa undir þessa tilkynningu? Það eru allir frambjóðendur Sjálfstfl., ,,frambjóðendur sem þú getur treyst`` stendur hér, herra forseti. Það eru Árni Sigfússon, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Inga Jóna Þórðardóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Jóna Gróa Sigurðardóttir, Ólafur F. Magnússon, Guðlaugur Þór Þórðarson, Kjartan Magnússon, Guðrún Pétursdóttir, Eyþór Arnalds, Kristján Guðmundsson, Bryndís Þórðardóttir, Snorri Hjaltason, Baltasar K. Baltasarsson, Helga Jóhannsdóttir, Ágústa Þ. Johnson, Pétur Friðriksson, Svanhildur Hólm Valsdóttir, Orri Vigfússon, Unnur Arngrímsdóttir, Jóhann Hjartarson, Margrét Theódórsdóttir, Magnús Óskarsson, fyrrv. borgarlögmaður og landskunnur húmoristi eins og þjóðin þekkir, Lárus Sigurðsson, Björg Einarsdóttir, og vöndur réttlætisins í seinni tíð líka, Páll Gíslason, Þuríður Pálsdóttir, Hilmar Guðlaugsson, Auður Auðuns og hver, herra forseti? Hver mundi það vera? Það er Davíð Oddsson. (Gripið fram í: Ha.) Davíð Oddsson, Davíð Oddsson, Lynghaga 33 eða hvað það nú var. (Gripið fram í: Lynghaga 5.) 5, en ekki Hrefnugötu 4. (Gripið fram í: Í Reykjavík?) Í Reykjavík.

Yfir þessu stendur svo: ,,Traust. Þú getur treyst því að sjálfstæðismenn í Reykjavík lækki skatta, efli grunnskólana, bjóði nýjar leiðir í fjölskyldumálum, stuðli að öflugri uppbyggingu og stundi ábyrga fjármálastjórn. Þú getur treyst því að sjálfstæðismenn standi við loforð sín og vinni fyrir alla Reykvíkinga.``

Fyrsta loforðið sem var gefið var þetta, að reyna að stöðva þetta frv. Þegar rætt var við hæstv. forsrh. í dag kemur í ljós að hann neitar þessu. Hann segir: Það er ekkert að marka þetta. Við höldum áfram okkar striki. Hæstv. ráðherra segir í raun og veru: Afstaða manna, m.a. borgarstjórnarflokks Sjálfstfl. í þessu máli er misskilningur. Þess vegna er engin ástæða til þess að hlusta á þennan hóp.

Staðreyndin er sú að örlögin höguðu því svo að borgarstjórnarflokkur Sjálfstfl. fær ekki tækifæri til þess að láta reyna á það hvort hann stendur við sín kosningaloforð á þessu kjörtímabili sem nú er nýhafið. Það er þó eitt fyrirheit sem hann gaf. Hann gaf eitt fyrirheit fyrir kjörtímabilið 1998--2002. Það var að reyna að fá hálendisfrv. stöðvað og þetta fyrsta loforð, og eina sem hann gat í raun og veru efnt, sveik hann. Satt að segja hef ég sjaldan séð stjórnmálaflokk leyfa sér eins ómerkileg vinnubrögð gagnvart kjósendum og í þetta skiptið. Ég er viss um það, af því að ég þekki til þess, að einn og einn maður lét blekkjast af þessum fyrirheitum. Einn og einn maður hugsaði sem svo, einn og einn maður sem tekur þetta hálendismál að hjarta sínu eins og margir gera hugsaði sem svo: Já, ég get kosið flokkinn minn einu sinni enn þrátt fyrir allt. Ég þekki dæmi um þetta sem ég get ekki nefnt úr þessum stól né annars staðar. En það er ljóst að það tókst að telja nokkrum kjósendum trú um að Flokkurinn, með stórum staf og greini, mundi standa við þetta fyrirheit. Það er ofboðslegt að sjá hræsni og ómerkilegheit af þessu tagi af þessum stóra og mikla stjórnmálaflokki. (SighB: Stóra, ekki mikla.) Stóra og mikla eftir því hvernig það er skoðað, jú, jú.

Því miður bætti hann heldur við sig í þessum kosningum eins og kunnugt er, þ.e. sums staðar úti um landið. En í heildina ekki mjög miklu og í Reykjavík varð hann minni sem betur fer.

Ég vil skýra frá því einnig, herra forseti, að mér barst núna á dögunum bréf frá manni sem hefur sýslað um stjórnsýslu á hálendinu um margra ára ef ekki áratuga skeið. Hann er sennilega sá lögfræðingur landsins sem þekkir þau mál einna best, með fullri virðingu fyrir öllum hinum. Hann skrifar þetta bréf sem kunningi minn og einstaklingur en ég nafngreini hann engu að síður. Hann heitir Gunnar Eydal og er hæstaréttarlögmaður. Hann setti saman nokkra minnispunkta um þetta hálendismál til skoðunar og mér finnst þeir það merkir að þeir eigi skilið að komast inn í þingtíðindin þó að lítið meira sé gert með þá úr því sem komið er. Minnispunktarnir hljóða svo, með leyfi forseta:

,,Sveitarfélögin í landinu hafa á undanförnum árum og áratugum fengið aukin viðfangsefni með flutningi verkefna frá ríkisvaldinu. Unnið er að enn frekari flutningi verkefna svo sem varðandi málefni fatlaðra. Þessi þróun er jákvæð [segir Gunnar]. Auðvelt er að leiða að því rök að þjónusta við íbúa verði betri og persónulegri í höndum sveitarfélaga vegna meiri nálægðar og tengsla við fólkið heima í héraði heldur en ef þjónustan væri í höndum ríkisvaldsins. Reyndar er hætt við að þjónustan verði dýrari með þessum hætti en það er önnur saga.

Hingað til hefur það viðhorf hins vegar verið ríkjandi að málefni, sem varða þjóðina í heild, eigi að vera í höndum ríkisvaldsins en ekki sveitarfélaga. Engum ætti að blandast hugur um að málefni miðhálendisins þar sem einskis manns réttur hefur að nokkru verið ríkjandi er mál sem varðar þjóðina í heild. Einstök sveitarfélög eiga ítök á svæðum sem liggja að miðhálendinu, á afréttum og upprekstrarlöndum.

Á undanförnum árum hafa fallið nokkrir dómar Hæstaréttar um einstök svæði þar sem ekki hefur verið fallist á kröfur viðkomandi sveitarfélaga um eignarrétt. Frv. til laga um stjórn skipulags- og byggingarmála var lagt fyrir Alþingi 1991--1992. Þar var gert ráð fyrir að fimm manna hálendisnefnd færi með þennan málaflokk, þar af tveir fulltrúar frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Minni hluti nefndarinnar sem samdi frv., þ.e. sá sem þetta skrifar, lagði til að Samband ísl. sveitarfélaga ætti þar meiri hluta en ekki náði það fram að ganga því miður.

Samkvæmt frv. að sveitarstjórnarlögum sem nú liggur fyrir Alþingi er sú breyting gerð á 1. gr. laganna að landinu öllu skal skipt í staðbundin sveitarfélög sem ráða málefnum sínum sjálf á eigin ábyrgð. Í gildandi lögum er byggðinni í landinu skipt í staðbundin sveitarfélög. Í frv. er þannig gert ráð fyrir að hálendinu, að jöklum meðtöldum, verði skipt í landskika þar sem hvert sveitarfélag fari með stjórnsýslu mála sem undir sveitarstjórnir heyra.

Í allri umræðunni um stjórnsýslu sveitarfélaga yfir hálendinu hefur kannski gleymst að skilgreina hvað í stjórnsýslunni felst. Í 6. gr. núgildandi sveitarstjórnarlaga eru talin upp í 13 liðum helstu verkefni sveitarfélaganna á sviði stjórnsýslunnar auk þess sem fleiri málaflokkar hafa bæst við, svo sem skólamál.

Strax má slá því föstu að eftirtaldir málaflokkar séu hálendinu hins vegar óviðkomandi:

1. Félagsmál, þar á meðal framfærslumál.

2. Atvinnumál og atvinnumiðlun.

3. Menntamál, bygging og rekstur skóla.

4. Húsnæðismál, verkamannabústaðir.

5. Heilsugæsla og rekstur heilsugæslustöðva.

6. Menningarmál, þ.e. rekstur bókasafna og annarra safna.

7. Bygging og viðhald mannvirkja, veitukerfa og hafna.

8. Ráðstafanir gegn atvinnuleysi.

9. Íþróttir og útivera, bygging íþróttavalla o.fl.

10. Skólamál, þ.e. rekstur grunnskóla.

Hvaða málaflokkar standa þá eftir sem geta fallið undir stjórnsýslu sveitarfélaganna á hálendinu? Tekið skal fram að löggæsla, vegagerð og fleira eru verkefni ríkisins.

a. Í fyrsta lagi er þar um að ræða skipulags- og byggingarmál, gerð aðal- og svæðisskipulags, gerð deiliskipulags og framkvæmd byggingarlaga og byggingareftirlit. Í þeim tillögum sem fyrir liggja er gert ráð fyrir að gert verði sameiginlegt svæðisskipulag. Réttarstaða þess mundi hins vegar mega sín lítils þar sem aðalskipulag og deiliskipulag yrði í höndum heimamanna þar sem hver fer með sína ræmu á hálendinu samkvæmt fyrirliggjandi tillögum.

Ekki er hér gert lítið úr frv. forsrh. um þjóðlendur sem auðvitað kemur nokkuð til móts við þau sjónarmið sem hér eru til umræðu. Enn eru ótaldir eftirtaldir þættir á sviði stjórnsýslu sveitarfélaga samkvæmt sveitarstjórnarlögum.

b. Almannavarnir og öryggismál. Þessi málaflokkur er háður samvinnu björgunarsveita að aðliggjandi sveitarfélagi og sveitarstjórna og eðli málsins samkvæmt í höndum Almannavarna ríkisins eftir því sem við á.

c. Hreinlætismál, sorpeyðing, heilbrigðiseftirlit. Eðlilegt er og ekkert er því til fyrirstöðu að sameiginleg hálendisnefnd mundi fela viðkomandi heilbrigðiseftirliti, því sem næst liggur, að fara með hreinlætismál á viðkomandi svæði.

d. Landbúnaðarmál, umsjón með forðagæslu, eyðingu refa og minka, fjallskilamál. Mál þessi hafa verið í höndum sveitarfélaganna og engin ástæða er til að þar verði breyting á þótt ein hálendisnefnd færi með stjórnsýsluna.

Þegar öllu er á botninn hvolft eru það fyrst og fremst skipulags- og byggingarmál sem yrðu í höndum aðliggjandi sveitarfélaga samkvæmt frv. Hálendið er hins vegar ein órjúfanleg heild og þess vegna gengur sú hugsun tæpast upp að ætla að skipta þessum málaflokki milli fjölmargra aðila. Þá kröfu verður að sjálfsögðu að gera að hálendisnefnd mundi vinna í nánu samráði við heimamenn þar sem því er að skipta.

Jafna má því fyrirkomulagi sem gert er ráð fyrir á hálendinu til þess að skipulagsmál í Reykjavík væru með þeim hætti að ein skipulagsnefnd væri fyrir Vesturbæinn, önnur fyrir Austurbæinn, þriðja fyrir Grafarvog o.s.frv. Verði frv. samþykkt eins og það liggur fyrir er hætt við að því muni fylgja umrót og óeining sem ekki sér fyrir endann á. Skipulag Svínvetninga á Hveravöllum er dæmi um viðhorf sveitarfélaga sem að hálendinu liggja.

Ljóst má vera að fimm manna skipulagsnefnd í aðliggjandi hreppi mundu bíða mikil verkefni hvað varðar gerð aðal- og deiliskipulags. Skipulagsmál hálendisins er viðkvæmt og vandasamt verk, ekki síst þegar skipt hefur verið upp í skipulagsreiti. Þetta er mjög kostnaðarsamt verk þar sem ljóst er að aðkeypt sérfræðiþjónusta skipulagsfræðinga, arkitekta, verkfræðinga og lögfræðinga gæti orðið býsna kostnaðarsöm fyrir lítið sveitarfélag. Sé hins vegar vilji til sátta í þessu máli mætti e.t.v. hugsa sér að hálendisnefnd fimm manna, skipuð af meiri hluta fulltrúum Sambands ísl. sveitarfélaga, færi með svæðis- og aðalskipulag innan tiltekinnar markalínu milli heimalanda og afrétta og upprekstrarlanda en aðliggjandi sveitarfélög færu með gerð deiliskipulags hvert á sínu svæði sem 1. mgr. 1. gr. frv. til sveitarstjórnarlaga gerir ráð fyrir.``

Undir þetta ritar Gunnar Eydal, hæstaréttarlögmaður.

Eins og ég gat um, herra forseti, þá hefur Gunnar Eydal um nokkurra ára skeið, 20 ára skeið eða svo, sinnt þessum málum fyrir Reykjavíkurborg og reyndar einnig fyrir Samband ísl. sveitarfélaga. Þess vegna er full ástæða til að leggja eyrun við því að hann telur fært að gera hálendið að einni skipulagseiningu. Hann telur að það sé praktískur möguleiki. Út af fyrir sig viðurkenni ég að það er býsna flókið að mörgu leyti að ganga þannig frá málum að sá veruleiki rekist ekki á við skipulag sveitarfélaganna. Mér finnst að sjónarmið Gunnars Eydals séu svo athyglisverð og orð hans svo þung að í rauninni þurfi býsna alvarleg rök til þess að hafna þeim sjónarmiðum sem hann gerir hér ráð fyrir.

Til viðbótar við þetta mál, herra forseti, er svo að lokum það að það er ekki bara hæstv. forsrh. sem skoraði á okkur, sem einn af frambjóðendum Sjálfstfl., að fresta málinu. Það gerði líka Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir benti á í dag, það gerði líka Vilhjálmur Þ. Vilhálmsson, formaður Sambands ísl. sveitarfélaga. Það vegur þungt. Við erum ekki, herra forseti, að tala fyrir því að þetta mál verði stöðvað. Það væri rangt að setja það þannig upp. Við erum að tala um að málinu verði frestað og tími gefist til að fara betur yfir það í sumar. Við erum að taka undir það með forsrh. að málið er flókið og þarf tíma, umræður og upplýsingar manna á meðal. Í okkar hópi eru skiptar skoðanir um þetta og sennilega meira og minna í öllum flokkunum. Þess vegna væri líka skynsamlegt, frá sjónarmiði stjórnmálaflokkanna, að málið fengi aðeins betri tíma. Ég ítreka því óskir okkar og vil lýsa því yfir, fyrir hönd okkar þingflokks, að við munum ekki taka þátt í því að gera þetta mál að lögum á þessu vori. Við teljum það óskynsamlegt og skynsamlegra að bíða haustsins, vanda sig betur og fara yfir málið í sumar.