Svar við fyrirspurn um málefni Landsbankans og Lindar hf.

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 10:36:33 (6866)

1998-05-26 10:36:33# 122. lþ. 133.92 fundur 409#B svar við fyrirspurn um málefni Landsbankans og Lindar hf.# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[10:36]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að hér sé á ferðinni mjög alvarlegt dæmi um það að hæstv. ráðherrar taka ekki eða hafa a.m.k. ekki á umliðnum árum tekið þá skyldu sína alvarlega að svara Alþingi eins ítarlega og eins rétt og þeir eiga kost á. Það vekur athygli að í þessu svari er engin tilraun gerð til þess af hálfu hæstv. ráðherra að svara sjálfur. Hæstv. ráðherra skrifar Landsbankanum, fær svör frá Landsbankanum og birtir þau orðrétt en gerir ekki minnstu tilraun til að leggja mat á þær upplýsingar sem þar koma fram, afla frekari gagna eða svara í eigin nafni á einn eða neinn hátt. Þetta er auðvitað engin frammistaða, herra forseti. Það er hæstv. ráðherra sem er spurður en ekki Landsbankinn. Það er hæstv. ráðherra sem ber ábyrgð á þeim upplýsingum sem hann leggur fyrir Alþingi en ekki Landsbankinn þannig að hæstv. ráðherrar verða að fara að skilja það hver ráðherraábyrgð þeirra er í þessu sambandi. Ég held að það þurfi að taka hæstv. ríkisstjórn á námskeið í þessum efnum og ekki síst hæstv. forsrh.

Það er ljóst að fyrri svör hæstv. ráðherra í þessu máli eru grafalvarleg. Hafi ráðherra ekki vísvitandi logið að Alþingi þá hefur hann a.m.k. að því er virðist leynt Alþingi upplýsingum. Hvort tveggja er í raun og veru jafnalvarlegt.

Herra forseti. Að lokum fæ ég ekki sömu tölur út úr tapi Landsbankans og hæstv. ráðherra því það segir í svarinu frá hæstv. ráðherra sjálfum að samtals hafi Landsbankinn tapað eða muni tapa fjárhæð sem nemur 707 millj. kr. vegna afskrifta og afskriftaframlaga bankans en til viðbótar liggur fyrir að kaupverðið var 53 millj. kr. og hlutafjáraukning samtals 140 millj. kr. Tap á sölu eigna var 16 millj. og ef svarið hér er rétt, að 707 millj. séu eingöngu vegna afskrifta og afskriftaframlaga, þá er heildartalan að nálgast milljarð. (Viðskrh.: Afskrift af hlutafé.) Þá er þetta, herra forseti, ekki sett fram með þeim hætti sem eðlilegt væri og ég held að þá sé enn frekari ástæða til að fá betri svör en hér hafa verið af hendi reidd.